Hvað um blettinn Trausta og páskahretið?

Þegar unga fólkið talar um spennandi helgi framundan er oftast um að ræða möguleika í skemmtanalífinu.

En það er líka spennandi helgi framundan hvað snertir veðrið og miklar góðveðursspár í gangi, allt upp í það að slegin verði hitamet víða um land.

En þetta minnir mig á það þegar Jónas heitinn Jakobsson spáði Mallorcaveðri um allt land laugardag einn um verslunarmannahelgina á áttunda áratugnum. Hafði viðlík spá ekki birst áður í upphafi verslunarmannahelgar.

En daginn eftir kom í ljós að lítil og illyrmisleg lægð hafði myndast suðvestur af landinu þar sem gat var í veðurstöðvanetinu og þessi örlitla verslunarmannalægð gerbreytti veðrinu úr Mallorcaveðri í skíta-sudda-veður, sem umturnaði flugáætlunum mínum milli skemmtistaða fyrir norðan og sunnan.

Man ég vel að Jónas var næstum því snöktandi þegar ég talaði við hann í síma á laugardagmorgninum til að fá upplýsingar um það hver andskotinn væri eiginlega að gerast.

Nú mun illyrmisblettur vera á ferð við Bretlandseyjar sem gæti sett strik í veðurmetareikninginn hjá okkur á laugardag að því er Trausti Jónsson upplýsir á bloggsíðu sinni og orðar það svo að "lítill og ljótur blettur við Bretlandseyjar geti stórslasað hlýindakortið."

Ég bíð óvenju spenntur eftir laugardeginum, því að í gær öðlaðist TF-FRÚ loks lofthæfisskírteini eftir að hafa verið kyrrsett á Selfossflugvelli í ellefu mánuði og gríðarleg tilhlökkun í gangi hjá mér og FRÚnni að njóta methlýinda og einmuna flugveðurs ásamt öðrum flugvinum á Selfossi, sem hafa orðið að þreyja óvenju snjóaþungan vetur.

Og síðan má ekki gleyma þeirri næstum því hefð að það komi páskahret.


mbl.is Björt og hlý helgi framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tékka hjá mér blettinn á morgun. Jörð er frostlaus, og líkast til fært ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.3.2012 kl. 22:17

2 identicon

Talandi um páskahret; norska tölvuspáin yr.no gerir ráð fyrir að páskahretið skelli á Íslandi í lok næstu viku. Annars er sú spá yfirleitt ekkert sérstaklega áreiðanleg.

Quinteiras (IP-tala skráð) 23.3.2012 kl. 08:55

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tékkaðu fyrir mig hvort ég geti bundið í krókana góðu, sem þú settir niður. Ég þarf að meta stöðuna á morgun varðandi staðsetningu vélarinnar næstu vikur.

Ómar Ragnarsson, 23.3.2012 kl. 22:16

4 identicon

Ómar:

Ankerin eru á sínum stað, þú þarft bara að hafa með 2 góða spotta til bindingar. En í neyð er ég nú reyndar fundvís á bönd ;)

Brautin er ágæt, - búinn að keyra hana þvers og kruss. Það er, - línubrautin góða, en ég reikna með að hinar séu sviðaðar. "Nonnabrautin" er t.d. góð nú þegar.

Núna, næstum kl 2 á eftirmiðdegi laugardags er nokkur byr úr austri. ca ASA. Vindpokinn er ekki kominn aftur eftir vetrarpásu.

Ég hengi upp eitthvað ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.3.2012 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband