Virkaði sem sönn tjáning.

Það sem réði úrslitum í Evróvision 2012 var frammistaða söngkonunnar og að því leyti var þetta kannski meiri söngvarakeppni en söngvakeppni. 

En hún vann á svípaðan hátt og hinn norski Rybek hér um árið með hrífandi en jafnframt dulúðurgri útgeislun og tjáningu, sem virkaði svo einlæg og sannfærandi, því að ekki var hægt að sjá á einni einustu hreyfingu hennar að hún væri fyrirfram þaulæfð af "kóregraf" heldur trúði maður einlægni hennar og því að þetta væru óþvingaðar og sjálfsprottnar hreyfingar. 

Til samanburðar má geta þess, að þegar þau Greta og Jónsi teygðu fram hendur og lófa sína í átt að myndatökuvélunum á þaulæfðan hátt á greinilega fyrirsjáanlegum og fyrirfram ákveðnum stöðum í íslenska laginu hafði maður séð sams konar hreyfingar í tugum skipta í lagaflutningi og fór að hugsa til "kóreograf" leiðbeinanda og þjálfara þeirra í stað þess að kaupa þessar hreyfingar sem ósjálfráðar og sjálfsprottnar.

Þessar hreyfingar handa og handleggja eru orðnar svo margnotaðar að þær skemma fyrir eðlislægri og óþvingaðri tjáningu og virka í staðinn eins og hreyfingar róbóta, sem eru prógrammeraðir og forritaðir fyrirfram.

Þegar manni er gefið tækifæri til að fara að hugsa um svona tæknileg atriði á sama tíma og maður vill njóta sannrar túlkunar er sú nautn trufluð.

Greta og Jónsi stóðu sig að vísu afburða vel; öryggið uppmálað og allt hnökralaust, en þegar hugsað er til þess að þau hreyfðu sig nákvæmlega eins í öll skiptin sem þau fluttu lagið leitar hugurinn til flytjenda eins og til dæmis Páls Óskars Hjálmtýssonar, sem ég sá einu sinni flytja sama lagið þrisvar sinnum sama daginn, fyrst á æfingu og síðan á tvennum tónleikum og gerði það aldrei eins, en "tók þó salinn" og hreif hann jafn mikið í hvert skipti.

Ég sá að vísu flytjanda sænska lagsins aðeins tvisvar, en einhvern veginn virkaði flutningurinn í bæði skiptin eins og algerlega framkvæmdur "af fingrum fram" (ad libitum).

Þessi mjög svo eðlilega og sanna tjáning var áreiðanlega það sem réði mestu um hið mikla gengi og stórsigur þessa lags.

Greta Salome er gimsteinn og ég bíð eftir því að það verði ekki aðeins þegar hún spilar á fiðluna og fær að ráða túlkun sinni fullkomlega þar sem hún nýtur snilli sinnar og enginn forritari getur skipað fyrir um hreyfingar, heldur að hún fái að gera svipað og flytjandi sænska lagsins, að "spila frjálst" og óheft í söng og hreyfingum ekki síður en þegar hún handleikur fiðluna.  

  


mbl.is Svíar unnu Evróvisjón 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Já, meira að segja Garðar Hólm hefði getað verið fullsæmdur að þessu..

hilmar jónsson, 27.5.2012 kl. 00:06

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta er tómt prump Ómar..... Þetta júróvisjóndæmi er alveg gjörsamlega ....tja ég veit ekki hvað. Okkar fólk fannst mér bara fínt, en Evrópa er ekki á sömu skoðun og sýnir okkur einn ganginn enn, að inn í þann klúbb eigum við akkúrat ekkert erindi.

Halldór Egill Guðnason, 27.5.2012 kl. 03:26

3 identicon

Halldór, í guðanna bænum ekki þessa þjóðarrembu. 

Þórður (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 09:02

4 Smámynd: Adda Laufey

samála þér ómar

Adda Laufey , 27.5.2012 kl. 10:36

5 identicon

Nei, auðvitað eigum við, stórasta land í heimi, sko ekkert erindi í “þann klúbb” Evrópu. Nema til að slá lán og stela sparifé barna og gamalmenna. Heimóttarskapur og frekja innbyggjara virðist ekki fara minnkandi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 10:58

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er bara þannig með söng á sviði að upplifunin verður alltaf ekki aðeins bundin við lagið sem slíkt - heldur heildar performansinn.

Performansinn hjá þeirri sænsku var kúl og inn.

Performansinn hjá þeim íslensku var það eigi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.5.2012 kl. 11:24

7 identicon

Ómerkileg graðhesta músík. Hér fyrir neðan er tengill í rödd og tóna, dýrleg tónlist.

Og engin þörf fyrir choreograpy og ljósatækni.

http://www.youtube.com/watch?v=5kpjjq4-jd4&feature=related

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 12:57

8 identicon

Megingallinn á þessari keppni í gegnum árin er að þarna koma fram þjóðir með afar ólíkan smekk á tónlist.  Við sendum „besta lagið" í hvert sinn, og virðumst ekkert skilja í því að óáheyrileg músík frá Balkanlöndunum er tekin fram yfir okkur.

Þetta er trúlega rétt greining hjá Ómari.  Fátt er t.d. ömurlegra en að sjá gospelkóra flytja trúartónlist, hálf froðufellandi af trúarsannfæringu,  - þaulæfðri!

Hörður

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 13:06

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er oft erfitt fyrir utanaðkomandi að átta sig á því hvað er "þaulæft" og hvað ekki.

Kannski var hver hreyfing sænsku söngkonunnar þaulæfð en það leit einfaldlega ekki þannig út, heldur virtist allt svo óþvingað og byggt á því að skila tjáningunni og stemningu hennar sem eðlilegast frá henni.

Ég get tekið dæmi af sjálfum mér. Ég prófaði nokkrum sinnum að hlaupa spretthlaup um tvítugt.

1958 hljóp ég 17 ára lítt og óskipulega æfður eftir eigin höfði, varð þrefaldur drengjameistari og fékk þau blaðaummæli að vera "eitt mesta hlauparaefni sem komið hefði fram hin síðari ár."

Skömmu síðar meiddist ég illa á ökkla og reyndi ekki aftur fyrr en í nokkrar vikur 1960. Þá fékk Simony Gabor, ungverskur þjálfari, mig til að breyta hlaupastílnum gagngert eftir austurevrópskri staðalformúlu. Hann sagði að ég hlypi á rangan hátt, skrokkurinn væri of uppréttur, ég teygði fæturna of hátt fram með of háum hnélyftum, sóaði kröftunum í of stórar handleggjasveiflur, og þetta drægi úr hraðanum og úthaldinu.

Hann kenndi mér algerlega nýjan hlaupastíl, sem virtist vera fullkomlega rökréttur. Ég ætti að halla mér áfram og láta mig detta áreynslulítið fram á fæturna til skiptis. Ef ég hlypi svona gæti ég gert mér vonir um stórbættan árangur og þess vegna sett takmarkið á OL í Tokyo 1964.

Brá þá svo við að árangurinn hrundi og fældi mig frá íþróttum í fjögur ár.

Fyrir tilviljun byrjaði ég aftur 1964 og hljóp í fjórar vikur undir stjórn Jóhannesar Sæmundssonr, sem hafði lært í Bandaríkjunum.

Hann bað mig um að sýna sér hvernig ég hefði hlaupið þegar ég var strákur, algerlega frjálst á fullum krafti og vera alveg ófeiminn við það, hann myndi ekki hlæja þótt ég hlypi öðruvísi en aðrir.

Þegar ég hafði gert þetta sagði hann: "Nú höfum við grunn til að byggja á" því að hlaup er hverjum manni eðlislægt og upprunnið frá fyrstu árum ævi hans."

Ég sagði honum frá kenningu Ungverjans og líka því að Haukur Clausen hefði náð sínum stórkostlega árangri þótt hann hlypi fattur líkt og hann sæti í stól. Hlaupastíll Hauks hefði verið gagnrýndur síðar meir og þótt sérkennilegur.

"Árangurinn og skeiðklukkan lugu samt ekki" svaraði Jóhannes.

Þessar fjórar vikur 1964 og sex vikur 1965 sönnuðu orð Jóhannesar þótt um stuttan tíma væri að ræða í hvort sinn.

Þrjátíu árum síðar hljóp síðan Michael Johnson, einn mesti spretthlaupari allra tíma, fattur eins og sitjandi í stól.

Ómar Ragnarsson, 27.5.2012 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband