Vélmenni á bílastæðunum myndu borga sig.

Ég á stundum erindi í Landsbankann í Hamraborg í Kópavogi. Ef þar væri settur niður lögregluþjónn einn dag hefði hann nóg að gera allan daginn við að sekta fólk fyrir það hvernig það leggur. IMG_4933

Sjáið þið á efstu tveimur myndunum hvernig menn leggja bílum sínum þannig að þeir fara inn á næsta stæði og eyðileggja fyrir öðrum sem vilja leggja.IMG_4935

Af því að bílarnir eur á enda stæðisins geta þessir bílstjórar ekki notað vinsælustu afsökunina þess efnis að áður hafi verið aðrir bílar þarna sem þvinguðu þá til að leggja svona.

En af því að löggan er í mannahraki myndi kannski vera hægt að nota vélmenni til að taka myndir af hinu mikla tillitsleysi, sem birtist í hegðun bílstjóra þarna.

Í húsinu er heilsugæslustöð og því þörf á tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, ekki aðeins fyrir þá, heldur líka fyrir sjúkrabíl.

Ég ákvað að sjá hve lengi ófatlað fólk gæti komist upp með það samfellt að leggja bílum í stæðin fyrir hreyfihamlaða.

Á meðan tók ég nýja og nýja afgreiðslumiða, sem ég varð jafnóðum að gefast upp við, af því að í heilar 40 mínútur samfleytt komu nýir og nýir bílar með ófötluðu fólki inn í stæðin.

Hér birti ég myndir af tveimur þeirra af handahófi sem dæmi um ástandið þarna. 

Ég átti þess kost að ræða við nær alla þessa bílstjóra og aðeins einn þeirra viðurkenndi með semingi að hafa farið rangt að.

Allir hinir höfðu réttlætingar og afsakanir á reiðum höndum. Birti nokkur dæmi um þær og andsvör mín og rétt að taka fram, að neðangreind samtöl eiga ekki endilega við ökumenn þessara bíla:IMG_5119

................. 

"Ég sá ekki að þetta væru stæði fyrir fatlaða."

"En þau eru ljósleit og öðruvísi en öll hin stæðin sem eru dökkgrá. Þar að auki er merki við þau."

"Ég hélt að merkið ætti bara við annað stæðið en ekki hitt." 

"Af hverju heldurðu þá að bæði stæðin séu höfð öðruvísi á litinn en öll önnur stæði?" IMG_5116

.................

"Ég sat í bílnum á meðan vinur minn skrapp inn og ég get fært bílinn strax ef á þarf að halda."

"En fatlaður maður, sem kemur akandi að þér, sér ekki að þú sért ófatlaður og þú sérð ekki hvort hann er fatlaður."

"En ég stoppa mjög stutt."

"Hvernig á sá fatlaði að vita það."

"Það þarf ekki tvö bílastæði fyrir fatlaða."

"Það er heilsugæslustöð hér fyrir innan og þess vegna eru stæðin tvö, bæði fyrir fatlaða og fyrir sjúkrabíl."

"Ég gat ekki vitað að það væri heilsugæslustöð fyrir innan."

"Sem sagt: Þú leggur alls staðar í stæði fatlaðra þangað til þér er sagt hvort það sé heilsugæslustöð fyrir innan."

"Þér kemur þetta ekkert við."

"Jú, ég á fatlaðan son og marga fatlaða vini, sem gætu verið hér á ferð."   IMG_5123

........................

"Konan mín er hreyfihömluð og ég er að sinna erindum fyrir hana. Sérðu ekki merkið í glugganum?"

"Jú en merkið á við raunverulegan bílstjóra hverju sinni, ekki einhver fjarstaddan. Þú ert fyllilega heilbrigður. Notarðu merki konunnar þinnar alltaf til að fara í stæði fyrir hreyfihamlaða?"

"Að sjálfsögðu. Merkið er í glugganum eins og þú sérð."

.......................

"Bæði stæðin voru laus þegar ég kom, og þess vegna gat hreyfihamlaður lagt í hitt stæðið þótt ég tæki annað þeirra."

"En hvað ef annar hreyfihamlaður kemur".

"Það koma ekki tveir í einu."

"Hvernig veist þú það?"

"Það er ekki það mikil umferð fatlaðra hérna."

"Jú, það er heilsugæslustöð fyrir innan."

"Ég gat ekki vitað um það."

........................

"Ég er 75% öryrki og þess vegna legg ég alltaf í stæði fatlaðra."

"En þú ert ekki með spjald í glugganum."

"Nei, ég fékk það ekki."

"Auðvitað ekki. Þú ert ekki hreyfihamlaður og það er skilyrði fyrir spjaldinu."

"Já, en ég er kominn yfir sjötugt."

"Ég er líka kominn yfir sjötugt og var fótbrotinn í gifsi í fimm vikur í hitteðfyrra án þess að nota stæði fatlaðra og var þó ófærð og snjór. Ég vildi ekki láta það sjást að bíll án merkis stæði í svona stæði."

"Jæja, ég játa að þetta var ekki rétt hjá mér og ætla ekki að gera þetta aftur."

........................IMG_5121

Þess má geta að hvíti bíllinn sem sést til hliðar á sumum myndanna, var í eigu hreyfihamlaðs manns og því tók hinn ófatlaði upp eina stæðið sem var laust á meðan þannig stóð á.


mbl.is Vélmenni í stað myndatökumanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Svona á að gera þetta, mynda ósómann og sýna hann.

Sigurður I B Guðmundsson, 27.8.2012 kl. 20:31

2 identicon

Sæll Ómar.

Góður pistill og þarfar ábendingar hér.

En stundum þurfum við að líta okkur sjálfum nær.

Vona að þú takir því vel sem ég segi.

Starfs míns vegna á ég oft leið í Ofanleiti 1. Jú, það er sama hús og hið ágæta Stjórnlagaráð þar sem þú varst fulltrúi starfaði sl. vetur. Oft á tíðum furðaði ég mig á ýmsum bílskrjóðum sem þar var lagt var á stéttinni við innganginn. Á því svæði sem aðeins er ætlað gangandi eru nokkur sérmerkt stæði fyrir fatlaða. Þessum bílum var nú aldrei lagt þar. Þetta voru bílar eins og Fiat 126, Zuzuki jeppi sem um tíma var framrúðulaus og á nagladekkjum um hásumar og einhverjir fleiri ef ég man rétt. Þú þekkir kannski þessar ágætu bíla? ;o) Þessum bílum var lagt þarna mjög frjálslega af fullfrískum manni ef ég held rétt. Ég veit líka til þess að flestir sem starfa í húsinu hafi ekki talið eftir sér að finna bílastæði aðeins fjær og ganga þessu fáu metra að dyrunum.

Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 21:43

3 identicon

Vandamálið þarna er að stæðin eru frekar þröng og akreinin á milli frekar mjó og því allt annað en auðvelt að leggja vel í þessi stæði. Og fyrir eldra fólk sem e.t.v. hefur ekki alveg rýmistilfinninguna getur verið ómöglegt að leggja almennilega. Ef því er svo bætt við að eldra fólk (og aðrir gestir heilsugæslunnar) þurfa e.t.v. að geta opnað bílhurðina alveg til að komast út úr bílnum, get ég alveg skilið að margir þeirra leggi ekki alveg til fyrirmyndar.

kv.

ls.

ls (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 22:15

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Ég sá  í Bandaríkjunum sumar að sekt við því að leggja í stæði fatlaðra er 200$.(25.000 kr) Ég held að sektin hér sé 5.000 kr.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.8.2012 kl. 22:35

5 identicon

Það er bakkgír á flestum bílum (ætla rétt að vona það) þannig að það er minnsta mál að rétta þá af þó þeir fari ekki rétt inn í stæðið í fyrstu tilraun.

Gestur (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 22:41

6 identicon

Ómar, þó margt sé rétt í þessum reiðilestri þínum, er eitt sem þú virðist ekki athuga: Það sést oft ekki í fljótu bragði á fólki sem með fullum rétti er með merkið í bílunum sínum, að það sé alvarlega veikt. Fólk með td hjartasjúkdóma, gigt, einhverskonar krabbamein - fær svona merki.

Þó það geti óstutt farið út úr og inn í bíla sína fyrir utan verslanir og stofnanir, þýðir ekki að það sé "alheilbrigt" og/eða "stálhresst", og þoli miklar göngur á troðnum bílastæðum, sérstaklega í vondum vetrarveðrum og færð.

Eysteinn Kristjánsson (IP-tala skráð) 27.8.2012 kl. 22:53

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenskir ökumenn:

Hjartveikir 10%,

heilabilaðir 15%,

heilalausir 20%,

krabbameinssjúklingar 10%,

gigtveikir 10%,

hafa aldrei fengið ökuskírteini 5%,

hafa misst ökuskírteinið 10%,

eru á Viagra í umferðinni 5%,

ölvaðir undir stýri 5%,

dópaðir undir stýri 5%,

í þokkalega góðu ástandi 5%.

Þorsteinn Briem, 28.8.2012 kl. 04:33

8 Smámynd: Jón Óskarsson

Virkilega góð grein og þörf áminning Ómar.   Ég sé hreinlega rautt þegar ég sé ófatlaða einstaklinga leggja í stæði merkt fötluðum.    Sömuleiðis þegar menn raða bílum sínum upp á gangstéttir utan við dyr að þjónustufyrirtækjum og hefta þannig för gangandi fólks, að ég tali nú ekki um hreyfihamlaðra.     Nánast á hverjum degi verður maður þar að auki var við að fólk leggur þannig að það nær að eyðileggja tvö og jafnvel 3 bílastæði.   Þannig lagði einn eigandi að glansandi BMW bifreið af lengri gerðinni þversum á stæði við Smárann og náði að skemma 3 stæði, rétt fyrir jólin fyrir 2 árum og ég lagði í stæði við hlið hans og var með athugasemdir við hann þegar ég kom úr bílnum mínum um hvernig hann hefði lagt.  Ég ætla ekki að hafa eftir þær formælingar sem hann viðhafði í mín eyru.  Að mínu mati eru engar afsakanir til fyrir því að sýna ekki öðrum tillitssemi þegar lagt er í merkt stæði.   Flottar myndbirtingar.

Jón Óskarsson, 28.8.2012 kl. 10:12

9 identicon

Ég hefði nú svarað því til að ég hefði talið að þetta væri stæði fyrir þá sem þyrftu að pissa og kúka... Muhahaha

Annars keyri ég mömmu gömlu oft eitthvað, hún er mikið fötluð.. en ég er ekki með merki í mínum bíl.. og legg í stæði fyrir fatlaða, fylgi henni inn og fer svo og færi bílinn... Ég hefði hugsanlega getað lent í leiðum manni í bílastæðaleik.. og þá hefði ég bara sagt það sem ég sagi í upphafi athugasemdar..

DoctorE (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 12:58

10 identicon

Það er skömm af þessu að fullheilbrigt skuli leggja í stæði fyrir fatlaða!

....eða kannski er þetta fólk ekki heilbrigt af því að það leggur í stæði fyrir fatlaða....

... eða kannski er þetta fólk að æfa sig áður en að það verður sjálft fatlað?

Ö. Jónass. (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 15:34

11 identicon

Minn kæri Ómar

Þörf ádrepa hjá þér. Framkoma sumra er hreinlega óþolandi. Það er jafnvel spurning hvort að það sé verjandi að þeir sem eru ekki þroskaðri en þetta, eigi eða megi aka bíl.

Bestu kveðjur

Haukur

Haukur Holm (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 15:39

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Bílarnir, sem minnst er á við Ofanleiti 1, voru svo litlir, að þeir gátu verið á stað þar sem enginn venjulegur bíll gat verið og þeir voru aldrei í vegi fyrir gangandi eða hjólandi fólki og aldrei í stæði fatlaðra.

Í þau skipti, sem þeir stóðu þarna, losnaði aukastæði fyrir venjulega bíla uppi á bílastæðunum.

Ómar Ragnarsson, 28.8.2012 kl. 15:40

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er að geta þess að enginn þeirra bíla, sem ég ræði um í pistlinum að hafi verið ólöglega lagt í stæði fatlaðra, var með merki í bílnum, og sá bílstjóri, sem sagðist vera 75% öryrki, gat ekki fengið slíkt merki, af því að hann var ekkert hreyfihamlaður þótt öryrki væri.

Ómar Ragnarsson, 28.8.2012 kl. 15:48

14 identicon

kem þarna mjög oft og hef tekið eftir þessu algjörlega óþolandi háttalag

Þorsteinn Hermannsson (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 15:50

15 identicon

Mikil og þörf ábending hjá þér Ómar. Þetta er vægast sagt óþolandi hegðun hjá "heilbrigðu" fólki.

Varðandi þetta við Ofanleiti 1. Bíll er bíll, hvort sem hann er lítill eða stór. Það á að leggja í stæði, það verður þá bara að hafa það að næsti maður sem kemur á stærri bíl þurfi þá að leggja aðeins lengra frá þar sem það var lítill bíll í stæðinu sem hann ætlaði í.

Stærðin á bílnum er engin afsökun fyrir því að leggja ekki í stæði, þá geta þeir sem eru á stórum bílum sagt að þeir hafi orðið að leggja í eitt og hálft stæði af því bíllinn er svo stór.

Hjalti (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 16:29

16 identicon

Sæll Ómar

Mikið er þetta þörf ábending hjá þér og get ég sagt þér sögu af því hvernig þetta er hér á Akureyri. Þannig er að ég er hreyfihamlaður og því með spjald í glugganum á bílnum mínum. Ég kom á bílastæðið við Glerártorg og lagði þar í blámálað og merkt stæði fyrir fatlaða svo sem ég hef rétt til. Ég er svo að staulast út úr bílnum og næ í hækjurnar mínar þá sé ég bíl standa skammt fyrir framan mig og hann fylgist vel með mér, svo ekur hann áfram og stöðvar við hliðina á mér, þá sé ég að bíllin er merktur Akureyrarbær Bæjarsjóður og ökumaðurinn skrúfar niður rúðuna og segir: "Ég sé að þú ert með merkið í bílnum og gengur við hækjur. Ég er að fylgjast með því að ófatlaðir leggi ekki í stæðin fyrir ykkur. Ég sekta þá miskunnarlaust ef þeir gera það, sektin var 6.000 kr. nú er búið að hækka hana upp í 9.000 kr. Fyrir skömmu síðan sektaði ég 2 konur sem höfðu lagt í stæði ætlað fötluðum og það fyndna við það að báðar konurnar eru að vinna með konunni minn !! ! "

Mér finnst þetta frábært framtak hjá Akureyrarbæ ekki aðeins að þarna liðka þeir til fyrir okkur fatlaða heldur fá þeir líke pening í kassann.

Svavar Páll Laxdal (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 18:31

17 identicon

mér finnst þú alger snillingur Ómar! það þarf virkilega að taka á þessu vandamáli, ég var stöðumælavörður fyrir nokkrum árum og tók þá vel eftir því hvað fólk getur verið mikið fífl! ekki bara það að leggja í stæðin heldur þræta svo og rífast í manni að það bara megi það alveg afþví einmitt að það "er bara að stoppa stutt" eða þessi klassíska "ég færi mig bara ef eitthver kemur" finnst að allir ættu að horfa svolítið í kringum sig þegar það er að leggja og ef það sér fullfrískt fólk gera þetta þá benda þeim á það.. gera þetta að meiri skömm en það er fyrir :)

Halldóra Sigrún (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 19:25

18 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Glæsilegt hjá þér Ómar, svona á að taka hlutina fyrir.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.8.2012 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband