"Doðinn" sem Andri Snær spáði.

Í ræðu, sem Andri Snær Magnason rithöfundur flutti á Austurvelli á einum af fyrstu fundum Búsáhaldabyltingarinnar reyndi hann að spá í þá atburðarás, sem fram undan kynni að vera. Á þessum fundi voru búsáhöldin ekki komin til sögunnar í mótmælunum, einungis haldið á spjöldum.

Andri Snær spáði því að mikil reiði myndi stigmagnast á næstu mánuðum þegar í ljós kæmi hvað hefði gerst í aðdraganda Hrunsins og Hruninu sjálfu.

Þessi hiti yrði sennilega nógu mikill og langdreginn til þess að líklegt væri að eftir að suðan lyfti loki ketilsins, yrði ákveðin aftöppun, hjöðnun, og doði tæki við.

Ég man að sjálfsögðu ekki nákvæmlega hvernig Andri Snær orðaði þessa hugsun sína en orðið "doði" er mér minnisstætt, þetta fyrirbæri sem getur orðið til þegar sársaukinn er orðinn svo mikill að viðbrögð líkamans verða þau að slá á hann og framkalla sérkennilegt tilfinningaleysi.

Eftir fjögurra ára nær stanslausan fréttaflutning af endalausum gerningum, "viðskiptafléttum", "skítafléttum", "skítamixi" eins og það er orðað, upp á tugi, hundruð og þúsundir milljarða verður fólk dofið, "doðinn" tekur við.

Fyrir venjulegt fólk, sem er að fást við upphæðir sem eru taldar í þúsundum króna frá degi til dags og kannski nokkrum milljónum yfir árið, verða upphæðir, sem eru þúsund sinnum og allt upp í milljón sinnum stærri, að óskiljanlegri stærð handan við mannlegan skilning, svona eins og stjörnuþokur himingeimsins.

Við horfum, hlustum, og lesum, og þetta rennur orðið framhjá okkur án þess að það veki lengur neinar sérstakar tilfinningar.

Sams konar doði var í raun orðinn ráðandi hér í aðdraganda Hrunsins og forsenda þess, þegar 33 þúsund tonna álver, sem þótti risaframkvæmd, sannkölluð stóriðja, fyrir hálfri öld, var orðin að smáræði miðað við 700 þúsund tonna álver, sem rætt var um 1997 og varð síðan að 346 tonna álveri.

Þegar á borðið voru komin sex risaálver 2007 með allt að 3ja milljón tonna afkastagetu á ári, eða hundrað sinnum stærra en sjálf stóriðjan 1965, fannst fólki það bara ekkert sérstakt, heldur ræddi um að Ísland gæti orðið "Bahrain norðursins" sem gæti stjórnað orkuverði í Evrópu! Hrökk þó öll virkjanleg orka Íslands fyrir langt fyrir innan einu prósenti af orkuþörf Evrópu!

Og gervöll náttúruverðmæti Íslands, sem þurfti til að viðhalda "atvinnuuppbyggingu" eins og það var og er alltaf orðað, voru orðin að einskisverðu smáræði. Var þó ljóst að aðeins 2% af vinnuafli landsmanna myndi vinna í öllum þessum risaálverum.

Doðinn gagnvart fréttum í september 2008 um að bankakerfið væri orðið fimm sinnum stærra en hagkerfið olli því að þessar upplýsingar vöktu enga athygli. Kom að vísu fram í fréttaskýringaþættinum Speglinum en rataði ekki einu sinni í fréttir.

Nú er komið í ljós að þetta var þó aðeins helmingur raunveruleikans. Nú er rætt um tífaldan mun.

Tilfinningalegur doði, afsprengi takmarkalausrar græðgi, var forsenda Hrunsins og þess vegna er doðinn nú svo ískyggilegur. 

Það er eins og það sé ekkert athugavert við það að einstaklingar hafi tekið ákvarðanir um "skítamix" og "skítafléttur" upp á tugmilljarða upphæðir á einni dagstund og að þeir muni ekkert eftir því, ekki frekar en þeir muni eftir því hve mörg blöð klósettpappírinn var, sem þeir skeindu sig á þennan dag, svo að maður haldi sig við orðbragðið, sem þeir notuðu sjálfir á sínum tíma.

Tilfinningar eru ekki hátt skrifaðar þegar rætt er um verðmæti lands og náttúru, hvorki nú né fyrir Hrun. Unaðsstundin er ekki metin til einnar krónu, aðeins kílóvattstundin. Í nótt heyrði ég þingmann í málþófi setja spurningarmerki við það að setja einhverjar krónur í að byrja að afmá þá smán sem felst í því fyrir þjóð lands með einstæða náttúru á heimsvísu að hafa ekkert náttúruminjasafn.  

Þegar doðinn hefur náð völdum er allt hægt, - öllum verður sama um allt og allir vilja dansa með í kringum tilbúinn gullkálf. 2002 hófst dansinn mikli sem byggðist á notkun huglægra fíkni- og deyfiefna græðginnar og nú heyrast aftur svipaðar setningar úr orðasmiðju skómigustefnunnar.

Því miður virðist spádómur Andra Snæs hafa ræst. Doðinn er það versta við hugsunarháttinn á bak við Hrunið, sem birtist okkur í mynd tilfinningaleysisins sem breiðist út um þjóðarlíkamann.    

Æðruleysi er að vísu nauðsynlegur eiginleiki til þess að geta brugðist við aðstæðum á þann skásta og yfirvegaðasta hátt sem finnst. En hugsunarhátturinn "mér er skítsama um allt og gef dauðann og djöfulinn í allt" er það versta sem getur komið fyrir okkur


mbl.is Þokukenndur dagur í febrúar 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir ljúga allir, vita nákvæmlega hvað gerðist.

En það er verið að redda formanni FLokksins, halló, það á að koma í veg fyrir að Bjarni Ben verði læstur inni eins og vinur hanns Baldur Innherji.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 12:30

2 identicon

Til hvers.

Öldungurinn segir mig sjálhverfann.

Til hvers.

Eftir að hafa menntað mig, hugsað um náungann, gefið til samfélagsins.

Til hvers.

Benedikt (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 14:45

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Örnólfur Árnason: "Ég helt að erlendir bankar hefðu tapað 7-8 þúsund milljörðum á íslenska bankahruninu."

Þorvaldur Gylfason
: "Rétt hjá Örnólfi. Útlendingar töpuðu fimmfaldri landsframleiðslu og Íslendingar töpuðu tvöfaldri landsframleiðslu.

Skellurinn í heild var sem sagt sjöföld landsframleiðsla, sem er heimsmet.
"

Þorsteinn Briem, 4.12.2012 kl. 15:10

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. En spáði hann því að meirihluti innbyggjara yrði orðin viðþolslaus eftir nokkur misseri að koma Sjöllum til valda og fá sitt Gróðæri með tilheyrandi sjóðtæmingum og rústalagningu? Nei. Hann spáði því ekki.

Mikilvægt atriði er, sem eg hef svoleiðis margbent á við lítinn fögnuð, að vandamálið liggur ekki síst innra með þjóðinni.

það að tæplega helmingur innbyggjara sé viðþolslaus í að koma Sjöllunum sínum til einvalda við fyrsta tækifæri - það er ekkert eðlilegt. Flokki sem bara tæmdi alla sjóði og rústaði landinu síðast í gær!

Jú jú, þetta má ekkert segja og sona - en málið er að umtalsverður hluti innbyggjara hérna er gjörsamlega tómur í hausnum og kexruglaður af kjánaþjóðrembingi. því fer sem fer.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.12.2012 kl. 16:36

5 Smámynd: K.H.S.

Sjala lalla la. 

K.H.S., 4.12.2012 kl. 16:45

6 identicon

Spámaðurinn Andri Snær er ágætur fyrir sinn hatt - en ekki óskeikull frekar en aðrir dauðlegir menn.

Þú "gleymir" hins vegar að geta þess að Raddir fólksins voru að glíma við aukinn meirihluta skítamix Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á þingi í Hruninu.

Ég man ekki betur en að ég haf hlýtt á þig hefja upp raust á tröppum Ráðherrabústaðarins haustið 2008 þegar Samfylkingin (a la Kolfinna/Kolfinnupabbi) reyndi að yfirtaka mótmælin á Austurvelli.

Það var íslenska þjóðin sem andæfði og bylti vanhæfri stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks veturinn 2008 - 2009.

Reglur valdaklíkunnar í landinu komu hins vegar í veg fyrir að hægt væri að sturta þessu vanhæfa liði í einu lagi á öskuhauga sögunnar.

Því miður varð þjóðin að kyngja því að fá vonlausa stjórn Jóhönnu og Steingrims yfir sig. Þau lofuðu öllu fögru og sviku síðan allt að sönnum fjórFLokkssið.

Doðinn í dag, sem þú talar svo fjálglega um, er allsráðandi hjá fjórFLokknum. Allar tölur yfir þátttöku í prófkjörum/forvali fjórFLokksins sýnir greinilega að almenningur hefur enga trú á fyrirbærinu.

Um helmingur kjósenda hefur (réttilega) snúið baki við fjórFLokknum og Íslendingar hafa ekkert álit á Alþingi.

En þetta skilur þú eðlilega ekki Ómar, enda seldur inn í samspillinguna, þar sem kosningabaráttan um formennsku í flokknum hans Össurar snýst um Árna Pál (manninn sem sveik íslenskan almenning í hendurnar á erlendum vogunarsjóðum) og Gutta litla (manninn sem er ábyrgur fyrir ótímabærum dauðsföllum á bangsaspítala Íslands).

Verði þér að góðu!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 21:40

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta ,,fjórflokkstal" er í raun ekki sniðugt. þaðer varasamt og villandi. En fyrir utan það, þá er það ekki rétt að kjósendur hafi ,,snúið baki við" svonefndum fjórflokki. Fólk getur bara skoðað nýjasta þjóðarpúls Gallúp.

Sjallar - 36%.

SF - 22%.

Framarar - 13%

VG - 11%.

= 82%.

Síðan er BF með 8%. Dögun um 4% HG 3% og Samstöðu 2% _ 17-18%

þarna tekur maður strax eftir að um 18% sirka ætla að kjósa aðra en hinn voðalega fjórflokk. það er ekkert óvenjulegt í gögulegu ljósi. Varla hægt að minnast á það.þar af er aðein einn sem nær einhverju fylgi um 8%.

Og nei, þau rök að svo margir séu óákveðnir eða gefi ekki upp afstöðu - það gengur ekki því 73% svara í könnuninni. 12% ætla að skila auðu eða ekki kjósa og 14% vill ekki svara. það er ekkert óvenjulegt við síðastnefndu tölurnar. þeir sem vilja leggja 12% og 14% saman í púkk gegn svonefndum fjórflokki - þeir eru á villigötum tölfræðilega séð. Og kannanir eru bara tölfræði. Ekki tilfinning.

þessvegna er etta rangt sem sönglað hefur verið um í nokkur misseri að fjórflokkur standi eitthvað höllum fæti. Alrangt. það versta við það er að sönglið ruglar umræðuna og fletur útog nenir augum frá aðalatriðinu. Namely, að tæpur helmingur kjósenda íslands getur varla beðið eftir því að koma Sjöllunum sínum til valda hérna. Flokki sem bara rústaði landinu í gær! Aðeins. Innbyggjar ætlað að bera nefndan flokk á Gullstóli til valda! Á gullstóli.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.12.2012 kl. 22:01

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fór á alla mótmælaútifundina, sem haldnir voru fyrir Búsáhaldabyltinguna, nema einn, sem ég komst ekki á. Þeirra á meðal er fundurinn við við Ráherrabústaðinn, en ég er hér að ofan hrakyrtur fyrir að hafa verið á honum, en ekki fyrir að hafa verið á öllum hinum.

Á þessum fundi við Ráðherrabústaðinn frumflutti ég lagið "Styðjum hvort annað" sem síðar kom út á diski í flutningi á annars tugs listamanna, og þetta er í fyrsta skiptið sem ég heyri því haldið fram að það hafi verið svona flokkspólitískt.

Já, það er stundum vandlifað.  

Ómar Ragnarsson, 4.12.2012 kl. 22:13

9 identicon

Já Ómar minn, fólk getur bara skoðað nýjasta þjóðarpúls Gallúps:

Skila auðu/kjósa ekki: 12%

Ekki afstaða/neita að svara: 14,9%

Björt framtíð: 8,1%

Dögun: 3,8%

Hægri grænir: 3,3%

Samstaða 1,9%

Annað: 1,7

Samtals:  45,7% +/- 0.4 - 1,5%

En þetta er auðvitað nokkuð sem mikill tölfræðisnillingur eins og þú, Ómar minn, hlýtur að skilja.

FjórFLokkurinn er á síðustu metrunum í íslenskum stjórnmálum, sem betur fer.

Já það er stundum vandlifað fyrir stofnanda Íslandshreyfingarinnar að enda á því að syngja "Styðjum hvorn annan" með Jóni (hikk) Baldvini.

(Íslandshreyfingin – lifandi land var íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður vorið 2007, sem lagði höfuðáherslu á umhverfisvernd en kenndi sig einnig við frjálslyndisstefnu. Formaður (til bráðabirgða) var Ómar Ragnarsson og varaformaður Margrét Sverrisdóttir. Að flokknum kom einnig Jakob Frímann Magnússon og Ósk Vilhjálmsdóttir. Flokkurinn fékk 5.953 atkvæði, 3,3% fylgi, í Alþingiskosningum 2007 og engan mann kjörinn. Flokkurinn var á fyrri hluta árs 2009 sameinaður Samfylkingunni þar sem flokkurinn taldi að erfitt yrði að ná yfir 5% múrinn sem flokkar verða að ná í kosningum til að fá jöfnunarmann. Íslandshreyfingin gekk inn í Samfylkinguna í mars 2009, nokkrum dögum eftir að tilkynnt hafði verið um framboð hreyfingarinnar í öllum kjördæmum. Íslandshreyfingin varð þar með fimmti flokkurinn sem hefur gengið í Samfylkinuna.)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.12.2012 kl. 23:04

10 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ekki er ég nú orðinn alveg svona bölsýnn Ómar. Að minnsta kosti er verið að skoða í mín spor!

Guðni Karl Harðarson, 5.12.2012 kl. 15:46

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var því miður ekki stemning meðal fólks á félagaskrá Íslandshreyfingarinnar fyrir framboði 2009. Umhverfismálin féllu alveg í skuggann fyrir Búsáhaldabyltingunni.

Á landsfundi Samfylkingarinnar 2009 tóku fulltrúar frá Íslandshreyfingunni höndum saman við græna fulltrúa, sem þar voru fyrir, og tókst með örfárra atkvæða mun að koma í veg fyrir þá skömm, að tillaga um það að á Íslandi skyldu reist eins mörgu álver og tæknilega væri unnt, yrði samþykkt. Okkar atbeini réði úrslitum og sem betur fer fórum við ekki erindisleysu.

Hefði þessi einstæða og hraksmánarlega tillaga verið samþykkt hefði það gerbreytt málatilbúnaði í komandi stjórnarmyndunarviðræðum þegar erfiðara hefði verið fyrir fulltrúa VG í þeim að halda sjónarmiðum sínum í umhverfismálum, sem væru í andstöðu við nýsamþykkta tillögu á landsfundi Sf við þær aðstæður.

Ómar Ragnarsson, 5.12.2012 kl. 23:52

12 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góður ég er hér og gefst aldrei upp gegn þessu kerfi sem er að drepa okkur!

Sigurður Haraldsson, 9.12.2012 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband