"Leifsstöðvarmúrinn" og "Ártúnsbrekkumúrinn."

Það eru alþekktar staðreyndir varðandi fíkniefni, (áfengi er eitt af þeim), að umhverfi, aðgengi og neysla í krikngum fíkla, hafa mikil áhrif á þá og geta valdið því að þeir "falli".

Eftir meðferð hjá SÁÁ fær fíkillinn "sponsor" eða stuðnngs- og eftirlitsmann, sem hann hefur samþykkt að láta hafa vald til að banna að fíkilinn komi í aðstæður sem hvetja til neyslu. 

Þær aðstæður eru bæði staðfræðilegar og félagslegar, til dæmis það að margir séu í neyslu í viðkomandi samkvæmi sem fíklinum  er boðið í en "sponsorinn" bannar honum að fara í. 

Hér í gamla daga var rætt um "Ártúnsbrekkumúrinn" sem þeir blautu kæmust ekki í gegnum, það er, að það eitt að aka út úr bænum var nóg til þess að þeir dyttu í það við fyrsta tækifæri, jafnvel í rútunni. 

Nú hefur "Leifsstöðvarmúrinn" líklega tekið við. Menn, sem hafa verið edrú hér heima, detta í það við það eitt að fara í gegnum Leifsstöð og verða til vandræða strax um borð í flugvélinni og eru jafnvel orðnir rallhálfir áður en þeir komast í gegnum flugstöðina. 

Þetta getur líka lýst sér í því að þeir komist ekki "gegnum múrinn" á heimleiðinni. 

Fyrir nokkrum árum lenti ég í því að einn flugfarþeganna á leiðinni heim var fullur alla leiðina og hagaði sér eins og argasti dóni. 

Þetta var sex klukkustunda ferð um nótt en hann linnti ekki látum alla leiðina heim og lagði alveg sérstaka fæð á mig. 

Hékk yfir mér og röflaði og var alveg sérstaklega á varðbergi gagnvart því að ég slyppi við að hlusta á rausið í honum. Án þess að ég gæfi nokkurt tilefni til þess byrjaði hann að úthúða mér fyrir það hvað ég væri merkilegur með mig og hvað ég þættist eiginlega vera að vilja ekki tala við hann af sama ákafa og hávaða og hann. 

Hann færðist sífellt í aukana, og svo fór að ég gerði mér erindi á klósettið og þegar ég kom til baka settist ég í auða sætaröð framar í vélinni, því að þeir, sem höfðu setið við hliðina á mér, voru rændir öllum friði. 

Þetta varð til þess að hann kom askvaðandi fram eftir vélinni, hlammaði sér í auða sætið við hliðina á mér, æstari en nokkru sinni fyrr og hélt áfram að úthúða mér. 

Á þessu gekk alla leiðina heim og þegar setið er um borð í flugvél yfir miðju úthafi er svona svoli í raun með flugvélina í gíslingu, því að það er ekki hægt að vísa honum á dyr. 

Ég vissi að ekkert þýddi fyrir mig að reyna að fá áhöfnina til þess að láta manninn fara frá mér, hann myndi aðeins fara að áreita einhverja aðra, sem voru sofnaðir eða koma jafnharðan til mín aftur. 

Flugfreyjur komu að vísu og báðu manninn um að hafa ekki svona hátt, og þá lækkaði hann róminn aðeins en bætti í svívirðingarnar í minn garð og hélt því fram að ég hlyti að hafa fengið flugfreyjurnar til þess að ráðast á sig. 

"Helvítis merkikertið þitt sem heldur að þú sért svo merkilegur að þú eigir að fá einhverja sérmeðferð" hvæsti hann og enda þótt hann hækkaði ekki róminn upp í fyrri styrk jós hann yfir mig skömmunum í návígi sem aldrei fyrr. 

Ég lét mig hafa þetta alla leiðina heim, því að ég vissi að með því myndu aðrir farþegar frekar sleppa við ónæðið af honum.

"Þið þekktuð þennan mann" söng Gylfi Ægisson á sínum tíma, og við þekkjum þessar drukknu týpur sem röfla, rífast og eru hávaðasamir á ferðalögum, óánægðir með allt og alla og engu líkara en að þeirra ferðanautn felist í því að vekja sem mesta óánægju með samferðafólki sínu. 

Aðrir eru kannski ekki svona neikvæðir en valda svipuðu ónæði með gassafengnum drykkjulátum og háreysti. 

 

 


mbl.is Sló farþega og hrækti ítrekað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dólgur hér og dóni margur,
drekkur mikið brennivín,
og í flugi er hann vargur,
aldrei kann að skammast sín.

Þorsteinn Briem, 4.1.2013 kl. 22:24

2 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Það sorglega við margar svona uppákomur er, að ekkert er hægt að gera nema láta allt yfir sig ganga. Í tilvikinu sem fréttin fjallaði um, tókst þó að koma á mannin böndum.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 5.1.2013 kl. 01:27

3 identicon

Ég gerði ekki neitt alla vega.

Óli litli (IP-tala skráð) 7.1.2013 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband