Tíminn vann með okkur.

Þegar litið er á efnahagsástandið hjá okkur og í Icesave málinu í upphafi haustið 2008 og nú, sést hvað tíminn hefur unnið vel með okkur í ljósi lykta málsins.

Í upphafi var staða okkar ömurleg. Efnahagur og orðstír og traust Íslands í rúst og ríkisstjórnin Sjálfstæðisflokks og Sf sá sig tilneydda til að ganga til samninga og gefa fyrirheit sem fyrirsjáanlega yrði ómögulegt að standa við. Erfitt var að sjá hvort eignir Landsbankans dygðu að einhverju eða mestöllu leyti fyrir kröfunum, Norðurlöndin gerðu hörð skilyrði fyrir stuðningi við endurreisn Íslands og AGS einnig. 

Fyrsta samninganefndin vegna málsins bjó við afleita samningsstöðu, einkum vegna þess að oftar en einu sinni varð að ganga á bak fyrri orða sem féllu vegna þrýstings og hótana. 

Þegar niðurstaða Alþingis lá fyrir var spurningin sú hvort lagabókstafir og reglur ættu að gilda eða sanngirnissjónarmið. 

Mín niðurstaða var sú, að enda þótt sanngirni ríki sjaldan í lagaþrætum og deilumálum þjóða væri ekki sanngjarnt að skattgreiðendur þeirra þriggja þjóða, sem málið snerti, ættu að skipta ábyrgðinni þannig með sér að hver íslenskur skattgreiðandi greiddi 25 sinnum meira en hver skattgreiðandi í hinum löndunum. 

Á þessum tímapunkti var í raun augljóst, að eina vonin til þess að úr rættist, var að hægt yrði að draga málið á langinn. 

Þá kom 26. grein stjórnarskrárinnar sér vel og ég var í hópi þeirra sem skrifaði undir áskorun til forseta Íslands um að skjóta málinu til þjóðarinnar. 

Það gerði ég ekki til þess að álasa þeim, sem ekki höfðu getað náð meira fram í samningum um málið í afleitri samningsaðstöðu, heldur til þess að koma sanngirnissjónarmiðum á framfæri við viðsemjendur okkar og á alþjóða vettvangi, og tefja þannig málið að tíminn gæti unnið með okkur og að hægt væri að halda áfram að byggja upp eftir Hrunið án þess að AGS hrykki frá.

Í framhaldi af málskoti forsetans beindist athygli erlendra fjölmiðla að honum og málstað okkar, sem hann útskýrði mjög vel á erlendum vettvangi og vann málinu með því mikið gagn. 

Þegar seinni Icesave samningarnir voru gerðir voru þeir miklu betri en hinir fyrri og þá var um það að ræða að taka áhættu af því að tapa málinu fyrir dómstólum eða að ljúka því án þess að taka sjensinn. 

Aftur náðum við að láta tímann vinna með okkur með því að fara í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu, meira hefur fengist fyrir eignir Landsbankans gamla erlendis,  og nú er fullur sigur unninn og við getum fagnað því innilega. 

Þjóðin ákvað sjálf að taka áhættu og vann. Ef hún hefði tapað hefði ábyrgðin af því verið hjá henni sjálfri og ég tel, að eins oft og hægt eigi þjóðin sjálf að fá að taka ákvarðanir í sínum málum og bera ábyrgð af þeim, taka afleiðingunum af þeim og læra af þeim eins oft og hægt er. Þess vegna eru ákvæðin í nýrri stjórnarskrá um aukið beint lýðræði svo mikilvæg að mínum dómi. 

Samt skulum við ekki gleyma því að það geta ekki allir fagnað, að minnsta kosti ekki þeir innistæðueigendur erlendis sem töpuð miklu, jafnvel nær öllu sínu, á Icasave, sem hér heima var talið hafa hafa þann mikla kost að peningarnir kæmu strax hingað heim inn í hagkerfi okkar. 

Og ég tel heldur ekki ástæðu til að fagna því að þetta fólk borgaði 40% af Hörpunni og öðru því sem Landsbankinn styrkti þessi ár.

En Guði sé lof fyrir að þetta mál er nú að baki og hægt að fara að snúa sér að öðrum verkefnum, svo sem nýrri stjórnarskrá og uppbyggingu þjóðlífsins eftir Hrunið.  

 

 


mbl.is Ísland vann Icesave-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varðandi næstu verkefni:

Brýnasta verkefni Íslendinga tel ég vera að brúa þá gjá sem myndast hefur á milli landsbyggðar og Reykvíkinga.

Það er orðið alltof algengt að Reykvíkingar séu svo nærsýnir að í huga þeirra er líkt og Ísland sé aðeins höfuðborgarsvæðið og öll önnur sveitarfélög séu bara í 30 mínútna akstursfjarlægð.

Við þurfum að öðlast skilning á því að við erum fámenn fjölskylda sem búum í gríðarlega stóru húsi, og erum auðugri en nokkurt okkar órar fyrir.

Peningar eru ekki auður, heldur aðeins manngerð táknmynd auðs,hvað þú gerir við peninga, sem verkfæri, ákvarðar raunvirði.

Haraldur Ægir (IP-tala skráð) 28.1.2013 kl. 20:16

2 Smámynd: Richard Þorlákur Úlfarsson

Það er og hefur aldrei verið sanngjarnt, einsog Samfylkingin hefur haldið fram, að skattgreiðendur ættu að greiða skuldir óreiðumanna. 

Richard Þorlákur Úlfarsson, 28.1.2013 kl. 20:32

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

11. október 2008:

"Sama dag var birt svohljóðandi yfirlýsing íslenskra og hollenskra stjórnvalda:

"
Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans.

Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta. Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu.


Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr.

Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.


Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur.


Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna."

Fjármálaráðuneytið: Annáll efnahagsmála 2008

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 20:49

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

5.9.2010:

"Þrotabú Landsbankans gæti átt yfir 300 milljarða króna í reiðufé um áramótin verði endurheimtur eins góðar og útlit er fyrir.

Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Gangi spár um endurheimtur eftir gæti þrotabúið greitt allar fyrirliggjandi forgangskröfur
, að því er kom fram í fréttum Sjónvarpsins.

Þær kröfur eru 1.161 milljarður vegna Icesave og 158 milljarðar vegna innlána."

Ríflega 300 milljarða króna eignir þrotabús Landsbankans í reiðufé

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 21:03

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.6.2011:

"Samkvæmt OECD er beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna bankahrunsins 2008 sá mesti sem nokkurt ríki tók á sig í bankahruninu, að írska ríkinu undanskildu.

Stofnunin segir að þyngsta höggið hafi átt sér stað nokkuð fyrir hrun þegar Seðlabanki Íslands lánaði gömlu bönkunum gegn veði af vafasömum gæðum, ástarbréfin svokölluðu, sem aðallega voru kröfur á aðra íslenska banka."

Ástarbréf Seðlabanka Íslands voru þyngsta höggið í hruninu

Þorsteinn Briem, 28.1.2013 kl. 21:14

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Algjörlega ósammála þér í því Ómar að "tíminn hafi unnið með okkur" í þessu máli. Þetta er léleg eftir-á-skýring manna sem aldrei lásu þau lög og reglur sem giltu um innistæðutryggingar á EES svæðinu þegar þetta mál var til umræðu á sínum tíma.

Lögin um innistæðutryggingar og tíminn hafa ekkert með hvort annað að gera í þessu máli.

Í mínum huga, eftir að hafa lesið lögin, þá gat niðurstaðan ekki orðið á annan veg.

En ég er nú bara verkfræðingur og þegar ég sé teikningar af kirkju og er með í höndunum verklýsingu þar sem lýst er byggingu á kirkju á byggi ég ekki sundlaug eins og fjölmörgum íslenskum lögfræðingum væri trúandi til að gera.

Í dag sigraði skynsemin yfir bullinu og ruglinu og rangtúlkununum eins og þeim að "tíminn og vatnið" hafa eitthvað með þessa niðurstöðu dómstólsins að gera.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.1.2013 kl. 22:23

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ómar málflutningurinn er eins og þriðja flokks helgislepja. Vonandi notar þú ekki svona röksemdir í nátturuvernd í framtíðinni. Auðvitað eru það fáir sem treysta sér að verja Jóhönnu og Steingrím. Það réttlærir ekki langlokuna.

Sigurður Þorsteinsson, 28.1.2013 kl. 23:36

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tel það enga "helgislepju" þótt ég bendi á hve tafirnar, sem málið varð fyrir í báðum þjóðaratkvæðagreiðslunum, unnu með okkur. Í bæði skiptin gafst tækifæri til að koma málstað okkar á framfæri í helstu fjölmiðlum erlendis og fá með því stuðning úr ýmsum áttum, oft óvæntan.

Ég tel það enga "helgislepju" þótt ég gefi forseta okkar prik fyrir að nýta sér þessi tækifæri.

Ómar Ragnarsson, 28.1.2013 kl. 23:54

9 identicon

Augljóst er Ómar að þú trúir Steingrími J 100%. Mikil er einfeldni þín. Mesti svikahrappur Íslands gengur ennþá laus. Hann, sem krafist þess í 647 skipti að við samþykktum Icesave 1,2,og 3, verður dæmdur af Landsdómi (með sinni Jóhönnu) til a.m.k. 10 ára fangelsisvistar, það er augljóst. Menn sem eru ráðherrar ljúga ekki 647 sinnum að þjóð sinni, gegn betri vitund, án þess að fá Landsdóm yfir sig. (manstu hvað þau voru sammála að aldrei aftur skyldi Landsdómur kallaður saman aftur eftir að þau sendu Geir Haarde þangað?) Þorir þú að kæra þau, ég skal styðja þig með fjárframlögum. Heyri vonandi frá þér.

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 29.1.2013 kl. 00:15

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.5.2001:

"Lög um Seðlabanka Íslands og heimild til að selja hlut ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka voru samþykkt á Alþingi í gærkvöldi."

"35 þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu en fimm þingmenn Vinstri grænna voru á móti. Nítján greiddu ekki atkvæði.

Þrír þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að Samfylkingin hefði lagt fram breytingartillögur við frumvarpið sem miðað hefðu að því að standa með eðlilegri hætti að sölu á ríkisbönkunum miðað við markaðsaðstæður, m.a. í því skyni að þjóðin fái hámarksverð fyrir eign sína og koma í veg fyrir einokun og markaðsráðandi stöðu í bankakerfinu og tryggja starfsöryggi starfsmanna.

Þessar tillögur hefðu allar verið felldar
og því treystu þingmenn Samfylkingarinnar sér ekki til að styðja málið í óbreyttum búningi og sitji því hjá við lokaafgreiðslu málsins."

Samþykkt að selja hlut ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka

Þorsteinn Briem, 29.1.2013 kl. 07:28

11 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eg hefi leyft mér að líta á beitingu 26. gr. stj.skr. tvívegis vegna Icesave hafi verið mikil afglöp á sínum tíma.

Fleiri en eg hafa efasemdir um inngrip forseta þessa inn í söguna:

Ice save: Tafirnar hafa kostað þjóðarbúið mikið

Slóðin er:

http://gudmundsson.blog.is/blog/bjorgvin_gudmundsson/entry/1279839/

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 29.1.2013 kl. 23:23

12 identicon

Ósnotur maður
þykist allt vita,
ef hann á sér í vá veru.
Hitt-ki hann veit
hvað hann skal við kveða,
ef hans freista firar.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 04:26

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Við gátum rétt úr kútnum fljótlega eftir staðfestingu Icesave samninganna. Traustið hefði byggst aftur. Lánshæfismatð haft þau áhrif að viðskiptakjör og þar með vextir yrðu okkur hagstæðari. Hagvöxtur og jafnvel erlend fjárfesting í landinu verið meir.

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur telur 3ja ára töf á Icesave hafi kostað 60-100 milljarða.

Sennilega eru 60-100 milljarðar jafnvel of varfærnisleg tala. Hagur okkar hefði verið betri.

Þeir sem stóðu gegn þessari þróun voru fyrst og fremst áróðursmeistarar með Sigmund Davíð sem einn meginforystumann og Ólafur Ragnar.

Það voru braskaranir sem græddu mest á töfinni á kostnað þjóðarinnar!

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 30.1.2013 kl. 06:49

14 Smámynd: Elle_

Algerlega satt hjá Friðriki og Erni. 

Endilega haltu áfram rangfærslunum, Sigþór.  Matsfyrirtækin og tíminn höfðu nákvæmlega ekkert með málið að gera.  Lögin voru alltaf okkar megin. 

Þetta ólánslið í stjórnarflokkunum verður vonandi dregið fyrir dóm.

Elle_, 30.1.2013 kl. 22:11

15 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Má eg spyrja þig Elle: ertu framsóknaraðdáandi? Veistu að Bessastaðabóndinn er gamall framsóknarmaður sem flæktist í Alþýðubandalagið um tím en hefur aftur gengið í lið með framsóknarmönnum?

Hvaða lög áttu við til að „draga þetta lið fyrir dóm“? Mér er ekki kunnug nein lög sem kunna að eiga við nema ef vera skyldu einhver gamaldags framsóknarlög?

Guðjón Sigþór Jensson, 30.1.2013 kl. 23:23

16 Smámynd: Elle_

Ef þú ætlar að nota gæsalappir um það sem þú lætur eins og ég hafi sagt, ættirðu að hafa það orðrétt.  En ég sagði orðrétt að ofan:

Þetta ólánslið í stjórnarflokkunum verður vonandi dregið fyrir dóm.

Hvar ég stend í pólitík, skiptir engu máli fyrir þig.

Elle_, 31.1.2013 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband