Skrýtin örlög að vera í "Game over"-klúbbi.

Það var skrýtið haustið 2008, eftir að hafa árum saman reynt að dreifa upplýsingum sem vörðuðu aðdragandann og hugsunarháttinn, sem skópu Hrunið og varpa ljósi á óheillaþróun græðgi og skammsýni, að lenda síðan í kjölfar Hrunsins í hópi þeirra, sem sátu uppi með "Game over", þ. e. Range Rover og vera félagi í Íslandsrover félaginu. IMG_3185

En svona gerðist þetta. Eina huggunin fyrir mig var og er sú að minn Range Rover kostaði aðeins um 1-2% af verði flestra þeirra"Game Over" jeppa, sem Hruninu tengdust, eða 220 þúsund krónur, þegar ég keypti hann fyrir níu árum. IMG_3192

Og hann er orðinn fertugur, árgerð 1973 og honum er ekki ekið, nema þegar litli gamli Foxinn er of lítill fyrir jökla- eða vegleysuferðina og / eða mannskapur með í ferðinni sem krefst rýmis.

Range Rover er að mínum dómi einn af merkilegustu bíltegundunum á fyrstu bílaöldinni á Íslandi enda tímamótabíll hvað varðaði þægindi, mýkt, rými og torfærueiginleika. Að þessu leyti er hrein nautn að aka þessum gamla og þreytta Range með kraftlítilli og jafngamalli Nissan Laurel dísilvélinni um grófustu og ósléttustu slóðir landsins og þefa þannig aðeins af því sem Range Rover eigendur sækjast eftir.

Og njóta þess að það er ekki ennþá komið "game-over" á gamla Range Roverinn minn.

  

  


mbl.is Bíltúr: Á Land Rover til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Nissan Laurel diesel vél? Mylur grjót og endist að eilífu. Einhverntíma heyrði ég að hún hefði verið hönnuð af Rolls Royce, en seld til Nissan því það passaði ekki að vera með diesel í lúxusvagninum. Veit ekki hvað er til í því.

Villi Asgeirsson, 17.2.2013 kl. 08:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Upprunalegu V-8 léttmálmsvélarnar, sem voru í Range Rover, voru hannaðar fyrir miklu léttari bandaríska bíla 1961, Buick Special og Oldsmobile F-85. Þær voru skemmtilegar en entust ekki lengi.

Nissan Laurel vélin hefur sennilega komið nokkurð snemma í þennan bíl, en það er með naumindum hægt að troða henni niður í vélarhúsið. Á sínum tíma voru til vélar af þessari gerð sem entust hátt í milljón kílómetra.

Þótt þær séu aðeins 2,8 lítrar, eða talsvert minni að rúmtaki en V-8 vélin, eru þær tiltölulega þungar, enda ekkert verið að fikta við neinn léttmálm. Upp úr 1980 var þeim breytt og þær gerðar léttari með því að nota léttmálm í toppstykkið og þá misstu þær þennan fágæta eiginleika að vera nánast ódrepandi "mulningsvélar".

Vélin er með túrbínu en er þó of kraftlítil fyrir bílinn, - myndi batna mikið við að fá á sig millikæli.

Eins og sést á myndinni þar sem bíllinn stendur við skiltið, hallar hann geigvænlega af því að hann stendur utan í aflíðandi brekku.

Það er vegna þess að það eru sem betur fer engar jafnvægisstengur á Range Rover, en það tryggir að í ósléttu landi fjaðra hinir mjúku og löngu gormar til fulls og þungi og grip haldast á öllum hjólum sem er afar mikill kostur fyrir aldrifsbíl, sem ekki er með driflæsingar.

Range-inn þarf ekki læsingar af þessum sökum, enda væri þá hætta á því að frekar veikir driföxlarnir gætu brotnað í átökum.

Þá misstu þær hina heimsfrægu endingu.  

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 21:44

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég held að þetta sé þjóðsaga með að dísilvélin hefði upphaflega átt að vera í Range Rover.

En þær voru settar í nokkra Range Rover bíla vegna þess að það var talsvert til af þeim, af því að þær entust miklu lengur en Nissan bílarnir, sem þær voru í, og það var hægt að troða þeim niður í Range Roverinn.

Frá 1986 var buðu verksmiðjurnar upp á 2,4 lítra dísilvél með forþjöppu og millikæli.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 21:51

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ekki Range Rover. Mér var sagt að ROLLS ROYCE hefði hannað þær. Það hafi svo ekki passað við ímyndina að nota dísel vél í eðalvagnana.

Mig minnir að álheddið hafi komið 1987 og þá hafi endingunni hrakað.

Villi Asgeirsson, 17.2.2013 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband