Myndin, sem blasir við öllum af Alþingi.

Margir eru hissa á því að traust almeninnings á Alþingi Íslendinga skuli rétt slefa yfir tveggja stafa prósenttölu og jafnvel stefna niður eins stafs pilsner- eða bjórtölur.

En þegar kveikt er á sjónvarpinu og fylgst með þingstörfum blasir við mynd, sem er sú eina sem sjónvarpsáhorfendur fá að sjá; nær tómur þingsalur með einn karl af öðrum í ræðustóli að halda uppi svonefndu málþófi klukkustundum og jafnvel dögum saman, sem viðgengst viku eftir viku og mánuð eftir mánuð á hverju þinginu af öðru ef svo ber undir.

Og versnar jafnvel eftir því sem nær dregur þinglokum og þörfin á að afgreiða mál vex.

Sífellt er talað um tímaskort og að hitt og þetta málið sé að falla á tíma en samt er jafnvel daglega eytt dýrmætum tíma í að ræða og rífast um fundarstjórn.

Kannski horfðu fleiri á útsendingu frá atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina en venjulega og þá var boðið upp á drjúglanga umræða um vantraustið þar sem fjölmargir þurftu að láta í sér heyra og langflestir fluttu svipaðar ræður og fjöldi annarra og næsta fyrirsjáanlegt var hvað hver myndi segja.

Síðan hringdu loks bjöllur til merkis um að atkvæðagreiðslan væri að hefjast og mátti þá búast við að enn fleiri horfðu á útsendinguna.

En viti menn: Hófust þá ekki aftur ræðuhöld um vantraustið, en í þetta sinn dulbúin sem umræða um atkvæðagreiðsluna!

Margir hinir sömu og áður höfðu talað um vantraustið, komu nú aftur í pontu og fluttu aftur sömu töluna eða mjög svipaða og áður og engan veginn var að heyra að umræðuefnið né ræðurnar hefðu breyst hætishót.

Þegar síðan atkvæðagreiðslan hófst komu margir þessara ræðumanna í þriðja sinn í pontu til að flytja ræðu sína í þriðja sinn undir yfirskriftinni "þingmaður gerir grein fyrir atkvæði sínu."

Er furða þótt fólk, sem horfir upp þetta og svipað, sem sést í útsendingum frá "hinu háa Alþingi", fái lítið álit á þinginu og Alþingismönnum?


mbl.is Karlarnir halda uppi málþófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á þingi tuðar Bjarni Ben.,
bjöllusauður er sá karl,
hann er eins og Kaninn Ken,
kostulegan herðir jarl.

Þorsteinn Briem, 18.3.2013 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband