Veginn og léttvægur fundinn og allir hinir líka.

Ég hef fylgst eftir megni með íslenskum virkjunum og náttúruverðmætum af ástríðu í meira en 60 ár, lengst af sem fjölmiðlamaður, sem hefur gert þetta að meginviðfangsefni sínu  og helsta ævistarfi.  

Vísindalegar skýrslur um þetta efni sem liggja að baki vinnu minni nema mörgum þúsundum blaðsíðna og margra áratuga vettvangskönnunum. 

Síðustu fjögur ár hef ég unnið sérstaklega að heimildamynd í fullri lengd um virkjanaáform og virkjanakosti í Mývatnssveit og með sérstökum myndatökuferðum og ferðum allt frá Öxarfirði í norðri til Reykjanestáar í suðvestri.

Ég fór í eins yfirgripsmikla vinnu og mér var unnt 2011 til þess að skila inn sérstökum umsögnum um Gjástykki, Kröfluvirkjun, Hrafnabjargavirkjun, Eldvarpavirkjun, Trölladyngjuvirkjun og virkjanir í Hólmsá og Skaftá fyrir hönd Framtíðarlandsins.´

Ég leitaði til sérfróðra manna við gerð þessara athugasemda og byggði þær á fjölmörgum skýrslum vísindamanna og sendi inn myndir, sem ég hef tekið á þessum virkjanasvæðum og náttúruverðmætum, - í mörgum tilfellum einu myndunum, sem til eru af þeim, enda látið í veðri vaka um sum þeirra að þau séu ekki til.  

En af hverju er ég að tiltaka þetta núna?  

Af því að ég neyðist til að grípa til varna fyrir mína hönd og annarra, sem eyddu mikilli vinnu í að senda inn umsagnir vegna rammaáætlunar. 

Nú heyri ég nefnilega að forsætisráðherra lætur í veðri vaka að hann hafi farið yfir þær ca 200 umsagnir, sem bárust haustið 2011 til iðnaðarráðuneytsins, en segir samt að þær séu 400 og allar sama athugasemdin og því ekki marktækar. 

Tekur þá sennilega með athugasemdir sem bárust þingmönnum og þingnefndum. Eða las hann hinar rúmlega 200 umsagnir sem iðnaðarráðuneytið fékk formlega?  

Ef svo er, passar það ekki við það sem ég fékk út úr því að kynna mér þær eftir föngum og gat ég ekki séð af hverju væri hægt að segja þær væru nær allar sama athugasemdin.

En alhæfing hans stendur.  

Þá veit maður það. Hæstráðandi til sjós og land hefur kveðið upp úrskurð sinn: Það er ekkert að marka þessar ahugasemdir mínar né aðrar, sem unnar voru af kostgæfni af fjölmörgu hæfu kunnáttufólki haustið 2011.

Nei, allt sama bullið.

Ég ,vinna mín og ævistarf mitt ásamt margra annarra er vegið og léttvægt fundið. Sömuleiðis niðurstöður skoðanakannana um stóriðju og heilan stóran þjóðgarð á miðhálendinu.  Fólk er fífl og ég þá sennilega mesta fíflið. 

Ég veit ekki til hvers maður hefur verið að þessu.  

 


mbl.is Stefna á breyttan ramma í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Ómar ! Þú ert ekki fífl. Við skulum spyrja að leikslokum um hverjir eru mestu fíflin. Þúsundir Íslendinga þakka fyrir vinnu þína í þágu náttúru landsins að ógleymdu öllu öðru sem þú hefur afrekað.

Ragna Birgisdóttir, 25.5.2013 kl. 19:10

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Þú hefur unnið gott starf og ég bíð eftir heimildarvinnunni og hlakka mjög til :)

Sleggjan og Hvellurinn, 25.5.2013 kl. 19:29

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Sem betur fer held ég að engum detti í hug að þú sért fífl Ómar, nema þér sjálfum.Og það er jafnljóst að þeim sem dettur í hug að hann sé fífl, hann er það ekki.Vitanlega er þitt ævistarf í að sýna íslenska nátturu mikils virði.En að allt sé rétt sem þú segir um nýtingu hennar, það er annað mál.

Sigurgeir Jónsson, 25.5.2013 kl. 20:04

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferlega þar Framsókn blauð,
fann í skarni Sigmund sauð,
blaðsíðan í Bjarna auð,
í báðum heilinn eintómt frauð.

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 20:09

5 identicon

Ómar Ragnarsson er vissulega meiri maður en Kögunarstrákurinn sem er orðinn forsætisráðherra mörlandans.

En þið kjánarnir kusuð þessa dilettanta yfir ykkur.

"Now enjoy it!"

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 20:14

6 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

All er nú skárra en seinasta stjórn Haukur

Sleggjan og Hvellurinn, 25.5.2013 kl. 20:21

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Starfandi Íslendingum hefur fjölgað um 7.500 á einu ári.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar nú í september [2012] var atvinnuleysi komið niður í 5% (en mældist 6% í september 2011) og skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun nú í september var 4,9% (en var 6,6% í september 2011).

Og samkvæmt könnun Hagstofunnar fyrir september síðastliðinn hefur starfandi fólki fjölgað um 7.500 frá september 2011."

Hér á Íslandi var einnig um 5% atvinnuleysi árið 1995 og á árunum 2002-2004 var hér rúmlega 3% atvinnuleysi.

Og Davíð Oddsson var þá forsætisráðherra.

Atvinnuleysi hér á Íslandi á árunum 1957-2004, sjá bls. 58


Og árið 2006, í miðju "góðærinu", var hér um 3% atvinnuleysi.

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 20:31

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vann með Sigmundi Davíð á fréttastofu Sjónvarpsins um hríð og hann er klár, bráðgáfaður, skemmmtilegur og hæfileikaríkur.

Með okkur tókust góð kynni og ég kann vel við hann.

Hann sýndi vel hugkvæmni sína og opinn hug þegar

hann kom til Íslands og vann feiknarleg vel úr því hvernig hann hafði kynnt sér ný viðhorf varðandi húsakost í borgum, - átti stóran og lofsverðan þátt í því að breyta viðhorf í þeim efnum.

Rökin voru mjög góð og afar vel fram sett, sem hann beitti gegn ofurveldi verkfræðinga og verktaka sem elska að gera borgir að vettvangi þarfar fyrir stórkarlalegar gler-steinsteypu-hallir, sem steindrepa borgir, meðal annars með skuggavarpi sínu á norðlægum slóðum.

Þessi rök voru afar lík þeim rökum, sem notuð eru gegn hrikalegum stóriðjuframkvæmdum sem verkfræðingar og verktakar elska.

Hugmyndir Sigmundar Davíðs, sem ég hef lengi aðhyllst, um manneskjulegt, vinalegt og menningarlegt borgarumhverfi byggjast á því að meta unaðs- og ánægjustundir upplifunar sameiginlegrar arfleifðar kynslóðanna.

En svo skiljast leiðir. Sigmundur Davíð hefur góðu heilli innleitt í stjórnarsáttmálann áherslu á vernd húsamenningar kynslóðanna, en hann virðist ekki sjá samsvarandi rök fyrir verndun náttúruverðmæta. Hafi hann þökk og heiður fyrir það.

En þótt borgarumhverfið, sem við aðhyllumst, sé lokkandi fyrir ferðamenn, er það einstæð, ósnortin og heimsfræg náttúra Íslands, sem meira en 80% ferðamanna segjast fyrst og fremst vera komnir til Íslands til að njóta, - ekki friðuð borgarsamfélög, þótt góð séu.

Sigmundur Davíð nefndi tölur sem sýndu, að varðveisla gamalla borgarhluta gaf meiri fjárhagslegan ávinning en að rífa allt og byggja steypu-glerhallir.

Á sama hátt gefur einstæð íslensk náttúra mun meira af sér bæði fjárhagslega og ekki síður í formi þjóðarheiðurs og viðskiptavildar en stóriðnaðarmannvirki, sem tortíma náttúruverðmætum og hafa líka fólgnar í sér rányrkju að stórum hluta.

Sigmundur Davíð fékk nýja sýn á borgarsamfélög með því að kynna sér það sem best mátti nýta í þeim erlendis.

Ég fékk nýja sýn á íslenska náttúru með því að kynna mér þau lönd og erlend svæði, sem helst eru þar til samanburðar.

Ég er þess fullviss, að ef Sigmundur Davíð kynnti sér rækilega 28 þjóðgarða og friðuð svæði og 18 virkjanri í 8 löndum myndi hann koma heim með sams konar nýja sýn og hann fékk á borgarsamfélög með því að skoða erlendar borgir.

En því miður er lítil von til þess, - að minnsta kosti ekki næsta kjörtímabil.

Ómar Ragnarsson, 25.5.2013 kl. 20:35

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Úps! Varð á í messunnni og verð að leiðrétta. "Hafi hann þökk og heiður fyrir það" í lok kafla í miðjum pistlinum átti af minni hálfu við framlag hans í húsfriðunarmálum, - ekki við stefnu hans í stóriðju- og virkjanamálum !

Ómar Ragnarsson, 25.5.2013 kl. 20:38

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.8.2012:

"Skattlagning á hagnað fyrirtækja er með minnsta móti á Íslandi af 34 OECD-ríkjum, þó ríkisstjórnin hafi hækkað hana úr 15% árið 2008 í 20% nú.

Einungis fimm lönd voru með lægri skattlagningu fyrirtækja en Ísland árið 2011, Slóvakía, Pólland, Ungverjaland og Tékkland með 19% og svo Írland með 13%.

Fjögur lönd eru með svipaða skattbyrði fyrirtækja og Ísland, Grikkland, Chile, Slóvenía og Tyrkland. En Japan og Bandaríkin eru með tvisvar sinnum meiri skattlagningu fyrirtækja en Ísland, eða 39-40%.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja allar meiri skatta á fyrirtæki en Ísland.
Samt gengur flest mjög vel í þeim löndum.

Ef við skoðum hverju tekjuskattur á fyrirtæki skilar í ríkissjóð, sem prósentu af vergri landsframleiðslu, var Ísland í fjórða neðsta sæti árið 2010.

Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi, betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð.

Það eru því staðlausir stafir hjá talsmönnum atvinnulífsins og hægri róttæklingum þegar þeir fullyrða að fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki eru með einna minnstu skattlagninguna
sem þekkist í hagsælli ríkjunum.

Spurningin er þá hvort atvinnurekendur telji að þeir eigi ekki að bera kostnað af hruninu?
Eiga þeir að vera stikkfrí eftir að hafa grætt óhóflega á árunum fyrir hrun og átt sjálfir stóran hluta í orsökum hrunsins?

Margir af forystumönnum atvinnulífsins þá og nú voru framarlega í útrás og braski bulláranna."

Skattpíning fyrirtækja á Íslandi? - Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 20:40

11 Smámynd: Sigurður Antonsson

Nú vilja allir lofa Sigmund Davíð. "...klár, bráðgáfaður, skemmtilegur og hæfileikaríkur." Eins og hann á kyn til og kjósendur komu auga á. Nú þegar hann ætlar að leiðrétta skerðingar hjá fötluðum og öryrkjum. Bæta ástand Landsspítalans og virkja .... aukast vindsældir hans?

Samfylkingin sendi sinn stærsta mannauð og hugmyndfræðinga í útlegð til Kína, Malaví og Grænhöfðaeyja. Hún ber þess merkis nú.

Þjóðin nýtur þess að eiga baráttumann eins og Ómar Ragnarsson til að vakta íslenska náttúru. Fæstir hafa séð fegurð hálendisins eða útbyggðir eins og Vestfirði. Frá lofti, landi og sjó eins og fréttamaður okkar Ómar. Samvinna við Sigmund Davíð er líka áríðandi þegar náttúrugersemar eru annars vegar.

Sigurður Antonsson, 25.5.2013 kl. 22:04

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verðbólga hér á Íslandi í janúar 2009: 18,6%.

Verðbólga hér á Íslandi í apríl 2013: 3,3%.

Hagvöxtur
hér á Íslandi árið 2009: Mínus 6,7%.

Hagvöxtur hér á Íslandi árið 2012: Plús 1,6%.

Halli á ríkissjóði
Íslands árið 2008: 216 milljarðar króna.

Halli á ríkissjóði Íslands árið 2012: 40,5 milljarðar króna.

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 23:45

13 identicon

Síðasta orðið hefur varla verið sagt í þessu máli, sem er alvarlegt. Og við erum mörg sem getum tekið undir með Ómari núna.

Björg Eva Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 23:58

14 identicon

Ég minni á að í grænu göngunni 1.maí var ótrúlegur fjöldi fólks, alveg ótrúlegur sérstaklega miðað við að það var beinlínis rekinn andáróður fyrir henni af alþýðusambandinu.

Nú og síðan það að klárlega er það þannig að helmingur þjóðarinnar er á móti virkjana áformum þessara manna. Kannski rúmlega helmingur, þannig að baráttan er ekki dauð úr öllum æðum og starf þitt ekki til einskis nema síður sé. Þó ég skilji að þér fallist stundum hendur.

helga Völundardóttir (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 01:15

15 identicon

Takk fyrir óeigngjarnt starf í þágu lands og þjóðar Ómar minn.... vona að það eigi eftir að nýtast okkur til farsældar og virðingar fyrir því landi sem við berum ábyrgð á.

Margrét Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 01:21

16 identicon

"...ofurveldi verkfræðinga .... sem elska að gera borgir að vettvangi þarfar fyrir stórkarlalegar gler-steinsteypu-hallir, sem steindrepa borgir, meðal annars með skuggavarpi sínu á norðlægum slóðum."

"hrikalegum stóriðjuframkvæmdum sem verkfræðingar ...elska."

Þeta eru ótrúlegar alhæfinar sem sýna fordóma og vanþekkingu á fjörbreyttum og víðtækum störfum og verkum verkfræðinga.

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 01:32

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verkfræðingsins beinu brautir,
í bólin kvenna liggja,
hundrað leysir hann þar þrautir,
hann vill þær upp byggja.

Verkfræðingar halda mest fram hjá

Þorsteinn Briem, 26.5.2013 kl. 02:29

18 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ef Ómar gefst upp, er þetta búið. Hann og Lára Hanna eru þeir íslendingar sem ég dáist mest af. Það er óskiljanlegt að þjóðin hafi kosið yfir sig hrunflokkana. Jafn óskiljanlegt af hverju fyrri stjórn lét tölurnar ekki tala, en lét skjóta sig í kaf með óefnanlegum loforðum og skýjaborgum.

En þetta er ekki búið. Ef meirihluti þjóðarinnar er andvígur meiri stóriðju, er enn von.

Villi Asgeirsson, 26.5.2013 kl. 07:03

19 identicon

virkja meira :) fékk að sjá kringilsárrana (held að þetta sé rétt skrifað)  og fossinn áður en hann fór undir vatn og drullu og krafturinn var rosalegur í vatninu og svo var ég í því að leggja veg meðfram hálslóninu og við fórum niður að á til að ná okkur í efni og er enn minnisstætt hvað stuðlabergið var flott en vildi virkjun engu að síður en mitt mat er að þessar umhverfis þættir í okkar þjóðfélagi eru allt og mikið öfgaþættir og vona ég að Sigmundur eigi eftir að endurskoða nýju náttúruvendarlögin og leyfa hagsmunasamtökum að vera með í skoðun,því ef það verður ekki gert þá verður hinum almenna íslending bannað að ferðast á hálendi íslands

Heiðar Steinn Broddason (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 09:38

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki að blása til andróðurs gegn íslenskum verkfræðingum og verktökum eða vanmati á færni þeirra. Ég dáist að ótal frábærum verkum þeirra eins og Perlunni, brúm og vegum, virkjunum og vel hönnuðum mannvirkjum og byggingum.

Ég leyfi mér hins vegar að andmæla því offorsi sem byggist í gagnrýnislausri sókn eftir eins stórum, mörgum og yfirþyrmandi mannvirkjum og unnt er að ímynda sér, - að þeir séu leiddir inn í stalíniskan hugarheim þerra sem standa fyrir hernaðinum gegn einstæðri náttúru landsins og stefna ótrauðir að því að hvert einasta jarðhitasvæði og allar ár landsins verði virkjaðar til þess eins að skaffa 2% vinnuaflsins vinnu í álverum og framleiða 10-15 sinnum meira rafmagn en við þurfum til okkar eigin nota.

Það vantaði ekki að verkfræðisnilldin væri mikil á bak við Gljúfurversvirkjun 1970 þegar færustu verkfræðingar þess tíma hönnuðu þá dæmalausu framkvæmd og lögðu sig auðvitað fram, úr því að þáverandi stjórnvöld töldu þessa skelfilegu framkvæmd vera þá réttustu og bestu.

Þá voru verkfræðingar leiddir inn í björg trölla og ég ber meiri virðingu fyrir verkfræðingum en svo, að ég óski þeim hliðstæðs hlutverks nú og þá.

Ómar Ragnarsson, 26.5.2013 kl. 10:55

21 identicon

Ég sé nú ekki hvernig hann á að kalla þetta marklausar athugasemdir. Hann segir einfaldlega að þetta sé sama athugasemdin endurtekin. Hann er m.a.s. spurður nánar út í þetta og segir þetta skýrum stöfum. Er þetta ekki nokkur útúrsnúningingur hjá þér, Ómar?

Tek það fram að ég styð þig heilshugar í þínum náttúruverndarstörfum, Ómar minn, og hvet þig áfram til góðra verka.

palli (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 12:31

22 identicon

...og tek það líka fram að ég veit ekkert um þessar athugasemdir og hvort þær séu mismunandi eða sú sama. Ég er bara að vitna í það sem Sigmundur sagði.

palli (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 12:33

23 identicon

Heiðar Steinn, þegar nýju náttúruverndarlögin voru samþykkt var haft mikið samráð við hagsmunasamtök og frjáls félagasamtök. Því miður er það ekki svo að samráð þýði að allar kröfur allra samráðsaðila verði samþykktar, enda væri það jú ómögulegt þar sem hagsmunir stangast á.

Staðhæfingar um að almenningi verði bannað að ferðast um hálendið undir nýju náttúruverndarlögunum eru auk þess algerlega fáránlegar. Þú leggur það varla að jöfnu að loka ákveðnum vegum fyrir bílaumferð svo fótgangandi hafi forgang og að hreinlega girða af hálendið og skella í lás? Svona ýkjur gera nákvæmlega ekkert fyrir ykkar málstað. Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir að hvergi í löndunum sem við viljum bera okkur saman við er aðgengi almennings að náttúrunni jafnauðvelt og almennt og hér, og það breytist ekki með tilkomu nýju laganna.

Herdís H. Schopka (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband