Torfbærinn hefur aðdráttarafl, en skortur er á torfbæjum alþýðunnar.

Hvarvetna um lönd eru erlendir ferðamenn forvitnir um það hvernig þjóðir landanna fóru að því að lifa fyrr á öldum við óblíð kjör. Forvitni um "survival" og tengda menningu hefur mikið aðdráttarafl.

Hér á landi eru nokkrir myndarlegir torfbæir en því miður eru nær allir þessir bæir á höfuðbólum og gefa því alls ekki rétta mynd af kjörum og lífsbaráttu alþýðunnar í 1000 ár.

Ég tel brýnt að endurbyggja nokkra slíka alþýðutorfbæi á nokkrum stöðum á landinu, vegna þess að ég held að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, muni verða snortnari af því að kynnast lífsbaráttu genginna kynslóða þar sem hún var hörðust og erfiðust heldur en með því að skoða höfuðbólin þar sem lítill hluti þjóðarinnar bjó.

Einn slíkur torfbær var lengi að Skarðsá í Sæmundarhlíð og til er sjónvarpsþáttur um einbúann Pálínu sem þar bjó fram á níunda tug síðustu aldar.

Rafn Jónsson flugstjóri var þar í sveit á sumrum og það hlýtur að vera hægt að endurbyggja svona bæ með því að nota sjónvarpsþáttinn og minningar Rafns.

Eitt sinn stóð lítill torbær á Grímsstaðaholtinu, sem Eðvarð Jónsson verkalýðsleiðtogi og alþingismaður hafði búið í, og ég tel að fengur væri í því að finna endurbyggingu hans stað þar í grenndinni.

Að Hvammi í Langadal þar sem ég var í sveit, stóð torfbær fram undir miðjan sjötta áratuginn og í honum bjuggu merkilegar konur, auk þess sem tveir merkir rithöfundar ólust þar upp.

Í Fjörðum myndi það auka aðdráttaraflið ef reistur yrði torfbær, sem yki á kyngimagn áhrifamikillar bókar um þá harðbýlu byggð sem þar þreifst við ótrúlega erfiðar aðstæður og kröpp kjör.


mbl.is Íslendingar í torfbæjum í 1000 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er mikill misskilningur að hér á Íslandi hafi verið til fátækt fólk sem reisti ódýra torfbæi.

"Forsvarsmenn framkvæmdarinnar áætla að kostnaðurinn við umrædda endurbyggingu ["Þorláksbúðar"] verði um 38 milljónir króna."

Er "Þorláksbúð" sögufölsun?


"Þorláksbúð" - Mynd

Þorsteinn Briem, 28.6.2013 kl. 01:15

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ansi fínt er Árna hús,
af álfum reist úr torfi,
drottning þar í dyngju fús,
dvergur slær með orfi.

Þorsteinn Briem, 28.6.2013 kl. 02:09

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Selbærinn í Skaftafelli (hjá Hæðum) var endurbyggður á vegum Þjóðminjasafnsins, þegar ég var þar í sveit forðum. Þar er hógvært dæmi um torfbæ. Ég veit ekkert um aðgengi að þeim stað núna.

„Selið er lítill torfbær af sunnlenskri gerð, reistur af Þorsteini Guðmundssyni bónda árið 1912 og er ágætt sýnishorn af bæjum eins og þeir gerðust í Öræfasveit fram á þriðja áratug tuttugustu aldar.“

Sjá:

http://www.thjodminjasafn.is/minjar-og-rannsoknir/husasafn/husin-kort/nr/342

Ívar Pálsson, 28.6.2013 kl. 09:13

4 identicon

Nú get ég gefið mörgum langt nef, þar sem ég á það til að reisa torfhús.  (svona aukavinna)
Byggingarlagið er frekar einfalt, og ekkert rökréttara til forna en að nota það efni sem gafst.
Ef vel er gert, þá kemur maður upp húsi sem bæði er hlýtt og hljóðlátt. Það þarf ekki að vera svo dýrt varðandi efnivið, en kostar hins vegar mikla handavinnu.
Mörg voru þó torfhúsin af vanefnum byggð í gegnum aldirnar, enda erfitt með aðföng, - timbur aðallega. Þetta sést vel og vandlega á Keldum, þar sem að gamli skálinn er óþiljaður. Það er vegna þess að klæðningin var nýtt í timburleysi til einhverja hluta.
Síðan ég fór að bauka við að "kasta upp" svona torfhúsum, - fyrst undir hænsni og geymslur, og sem leiksvæði fyrir börn, þá vill svo skemmtilega til, að fjölmargir ferðamenn hafa spurt út í gistimöguleika í slíkum húsum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 11:19

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Á dögunum var mjög gott viðtal við Hjörleif Stefánsson arkitekt í RÚV um torfbæjarmenninguna í tilefni útkomu bókar hans um torfbæinn:

http://www.ruv.is/menning/torfhusin-i-menningarlandslaginu

Kveðjur

Guðjón Sigþór Jensson, 28.6.2013 kl. 12:42

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þúsundir Íslendinga sem bjuggu í torfbæjum eru enn á lífi.

Þorsteinn Briem, 28.6.2013 kl. 14:24

7 identicon

Kærar þakkir til Guðjóns Sigurþórs fyrir hlekkinn á viðtalið við Hjörleif Stefánsson.

Agla (IP-tala skráð) 28.6.2013 kl. 16:30

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Torfbær og tofbær. Það náttúrulega er alveg hægt að byggja þokkalegan bæ úr torfi og grjóti og spýtum - ef sæmileg efni og fyrirhyggja er til staðar við bygginguna.

Fyrr á öldum, fyrir 19.öld - þá var það alls ekki til staðar. Þessi torfhús hafa sennilegast litið út eins sjá má hjá frumstæðum þjóðum í Afríku núna. Svona strýtur einhvernvegin. En á Íslandi hafa menn sennilegast leitast við að grafa sig sem mest inní hóla eða ofaní jörðina. Líkt og refir.

Td. burstabærinn svokallaði og oft hafa menn hann i huga þegar talað er um torfbæ - hann verður ekkert algengur fyrr en um 1800 og verður svo mjög ríkjandi og tíska á 19.öldinni.

Nú, að öðru leiti og amennt séð - þá hefur auðvitað verið alveg hryllingur að búa í þessu. Sambland af raka, vætu, reykjarkófi, mat og dýrum. Alltaf koldimmt.

þessir kofar hafa yfirleitt verið óþiljaðir og bara mold á gólfinu sem. Sem svo blotnaði allt og óðst upp í drullu og for.

Þetta hefur náttúrulega verið ávísun á allskyns sjúkdóma og fár enda höfðu innbyggjar engan skilning eða velvild gagnvart hreinlæti. Þeir fóru aldrei í bað. Þvóðu sér aldrei. En einstaka sinnum fóru þeir í keytubað í lækningaskini.

Þeir þvoðu sér stundum uppúr keytu í lækningaskini.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.6.2013 kl. 16:50

9 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Það var líka kotbær við Blikadals á sem hét ÁRTÚN og þar var ég í sveit hjá Guðlaugi bónda, líklega 54 eða 55.  

En Guðlaugur er ein með bestu mönnum sem ég hef kynnst.  Húsfreyjan var lögst í kör en dóttir þeirra hjóna hugsaði vel um hanna.  En andi húsfreyju var ekki lagstur í kör, því hún hafði skap og sagði það sem hún meinti.

Baðstofa þessa bæjar stóð uppi 1992, því þá fór ég þar inn með Þóreyju dóttir mína til að gefa henni sýn á aðstæður í svona bæ.  Þá voru fallin öll hús önnur en það voru göngin sem og hjúahúsið og fjósið að sunnan og skemman að norðan.  Það verður okkur öllum og sérstaklega þeim sem um þessi má þykjast vera um að sýsla, til ævarandi skammar að hafa látið þennan einstakleg vel varðveita kotbæ í göngufæri frá Reykjavík fara forgörðum. 

Torfbæir eru lifandi og sá sem að þeim hlúir er sál þeirra og Guðlaugur bóndi að Ártúni víð Blikadalsá gaf þessum bæ alla sína sál, hvern einasta dag nema um há sláttinn, þá var hann lagfæra og endurbyggja. Enda stóð bærinn lengur en hann.       

Hrólfur Þ Hraundal, 28.6.2013 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband