Er sérkennilegur hlaupastíll Anítu "réttur"? Já!

Aldeilis frábær er árangur Anítu Hinriksdóttur þegar hún verður fyrst Íslendinga heimsmeistari í grein frjálsra íþrótta. Þótt þetta sé í unglingaflokki en ekki í flokki fullorðinna gefur hún okkur fordæmi, fordæmi um það að hjá örþjóð eins og okkur sé hægt ná á hæsta tind íþótta á heimsvísu.

Heyra má rætt um persónulegan hlaupastíl Antíu og það hvort að hann sé "réttur" og hamli henni kannski.

Þetta er gömul óg úrelt umræða, sem ég þekki frá því fyrir 50 árum þegar ég gutlaði í frjálsum.

Þá kom þjálfari til landsins ,Ungverjinn Simony Gabor, með þann lærdóm frá Austur-Evrópu, að einn staðlaður hlaupastíll væri "réttur" og fælist í því eðlisfræðilögmáli að hlauparar ættu að halla sér það mikið áfram að þeir nánast dyttu áfram, skref fram af skrefi, og að handleggirnir ættu einungis að sveiflast afslappaðir og átakalaust með til þess að orkan væri vel nýtt svo að hún færi sem mest í hreyfingar fótanna og skrokksins. 

Hann taldi mig hafa "rangan" hlaupastíl, "sitja" alltof aftarlega þegar ég hlypi og taka of mikið á með handleggjunum, og kenndi mér að hlaupa upp á nýtt eftir hinum "kórrétta", átakalitla, sparneytna og staðlaða stíl úr kommúnistaríkjunum.

Brá svo við að árangri mínum hrakaði og ég snerti ekki við frjálsum í fjögur ár á eftir.

Þá hitti ég Jóhannes Sæmundsson, nýkominn frá Bandaríkjunum, sem hvatti mig til að reyna aftur, og nú á þeim forsendum að grafa upp gamla hlaupastílinn minn, sem ég hafði notað þegar mér gekk best á drengjameistaramóti Íslands 1958 og enginn var farinn að fikta við hann.

"Reyndu að muna hvernig þú hljópst þegar þú varst 10-12 ára patti" skipaði Jóhannes.  

Brá nú svo við að árangurinn batnaði aftur, en ég mátti ekkert vera að því að fylgja þessu eftir, - var þó mun sáttari en fyrr.

Haukur Clausen tel ég vera næstbesta spretthlaupara sem Íslendingar hafa átt, en hann hljóp alltaf frekar afturhallandi og notaði kraftmiklar handahreyfingar og sumir töldu þennan stíl "rangan" og standa honum fyrir þrifum.

Haukur kærði sig kollóttan.

Raunar höfðu ekki allir austantjaldhlaupararnir hlaupið alveg "eftir bókinni". Þannig náði Emil Zatopek bestum árangri þegar hann hljóp áfram að því er virtist með miklum átökum, gretti sig, sveiflaði höfðinu og blés og fnæsti.

Haukur Clausen fékk síðan uppreisn þegar Michael Johnson setti frábær heimsmet í 200 og 400 metra hlaupum meira en 40 árum síðar,  með hlaupastíl sem hefði fengið Gabor heitinn til að fórna höndum.

Meira að segja í 400 metra hlaupinu þar sem hlauparinn þarf á beinu brautinni í miðju hlaupinu að nota svonefnt "coasting", það er að viðhalda sem áreynsluminnst hámarkshraða, eftir að hafa hlaupið fyrstu 100 metrana á útopnu, "sat" Johnson fattur og þrýsti sér þannig áfram alla leið í mark.

George Foreman dreymdi og reyndi í upphafi ferils síns að líkja eftir Ali í hreyfingum og tækni. Það var vonlaust. Eðlilegur og meðfæddur stíll Foremans var einfaldlega allt annar og með honum náði hann sínum mikla árangri áður en yfir lauk.

Hönnuður Citroen DS sagði, að mesta fegurð sem hann þekkti væri fólgin í lagi skiptilykils, vegna þess að hver einasta lína í honum þjónaði tilgangi og hagkvæmni. Skiptilyklar hafa verið óbreyttir í útliti svo lengi sem ég man, kannski út af þessu.

Mig grunar, án þess að hafa spurt að því, að Aníta Hinriksdóttur hafi ekki verið kennt að hlaupa eins sérkennilega og hún gerir, heldur sé þetta hennar náttúrulegi, meðfæddi og eðlilegi hlaupastíll, sem þjálfari hennar hafi í mesta lagið lagfært smávægilega en alls ekki umbylt.

Þess vegna líður mér vel við að horfa á hana hlaupa, hrífst af henni og finnst hún hlaupa fallega.  


mbl.is Aníta varð heimsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vildi benda á að við höfum átt amk 3 heimsmeistara áður í frjálsum íþróttum, allir sem ég veit um hafa unnið sinn heimsmeistaratitil í flokki öldunga.
Jóhann Jónsson í þrístökki í 1989 (70-74 ára) afi minn :D
Stefán Hallgrímsson í tugþraut 2009 (60-64 ára)
Sigurður Haraldsson í lóðkasti 2009 (80-84 ára)

Jón Bergmann Heimisson (IP-tala skráð) 14.7.2013 kl. 22:09

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aníta Hinriksdóttir verður að öllum líkindum einnig heims- og Ólympíumeistari í flokki fullorðinna en það verður nú ekki mörlenskum sófakartöflum að þakka.

Líkamsbyggingin og að byggja snemma upp þolið skiptir mestu máli í hlaupum en að sjálfsögðu skipta tæknileg atriði einnig máli í keppnum.

Kristján Jóhannsson
, frændi minn, sem einnig bjó í Hlíð i Skíðadal, fékk svo góða þjálfun af því að hlaupa þar uppi sauðfé að hann setti eina Íslandsmetið á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952 en þar keppti einnig Emil Zátopek.

Þegar ég var 14 ára kepptum við nokkrir drengir frá Dalvík og nágrenni á Íslandsmeistaramóti á Akureyri og ákváðum með skömmum fyrirvara að taka þar þátt í 4X100 metra boðhlaupi án þess að hafa keppt í því áður.

Okkur var kennt hvernig við ættum að skila keflinu og taka við því og urðum Íslandsmeistarar.

Aníta Hinriksdóttir hleypur hins vegar ekki mikið á eftir sauðfé í Vesturbæ Reykjavíkur en hlauparinn Martha Ernstsdóttir, móðursystir Anítu, þýtur sem vindurinn um Vesturbæinn.

Þorsteinn Briem, 15.7.2013 kl. 00:06

3 identicon

Var ekki gamla hetjan Jesse Owens líka með þennan hlaupastíl?

Matthías (IP-tala skráð) 15.7.2013 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband