"...að leggja til atlögu, eh, afsakið, leggja fram tillögur..."

Á aðeins fyrsta hálftíma opins kynningarfundar Landsnets um stöðu og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku, sem nú stendur yfir, er búið að leggja (háspennu)línuna um stóriðju- og virkjanaæðið sem talið er nauðsynlegt til að þenja upp til þess að "auka verðmætasköpun" og "vinna að atvinnuuppbyggingu." Sprengisandslína

Á meðfylgjandi mynd sést hvað til stendur varðandi "mannvirkjabelti" um hálendi landsins, svonefnda Sprengisandslínu ásamt nýjum "ferðamannavegi" og ljóst er að það eru Landsnet og nýjar virkjanir á þessari leið sem varða veginn.

Iðnaðarráðherra varð á fótaskortur á tungunni með "Freudian slip", sem vitnað er í fyrirsögn þessa bloggpistils þegar hún sagði að nú værið verið að "leggja til atlögu...", þagnaði síðan augnablik, leiðrétti sig og sagði "..eh, leggja fram tillögur."

Innan um ýmislegt orðskrúð um opna og vandaða umræðu og "sátt við samfélagið"  kom fram í ræðum stjórnarformanns Landnets og forstjóra fyrirtækisins, að þegar í stað þyrfti að keyra í gegn lagabreytingar til að afstýra því að sveitarfélög væru að flækjast fyrir framkvæmdum svo að hægt væri að þeysa af stað í nýjum virkjunum.

Og einnig er búið að slá því föstu í ræðunum, að "Íslendingar geti ekki haldið samkeppnisstöðu sinni á orkumarkaðinum" nema að risalínurnar nýju verði helst allar ofanjarðar.

Og á sama tíma sit er ég að byrja að skoða þær 28 nýju virkjanir, sem hafa bæst við frá í fyrra, sem Orkustofnun hefur nú sett fram við verkefnisstjórn rammaáætlunar í viðbót þær 66 sem fyrir voru, og þar með erum við með í höndunum alls 124 stórar virkjanir á Íslandi sem hafa verið reistar eða á að reisa.   

P. S. Í ræðu stjórnarformanns á ellefta tímanum kom fram að þetta væri eina færa leiðin til "atvinnusköpunar" á Íslandi, því að sjávarútvegurinn væri kominn að endimörkum síns vaxtar og ferðaþjónustan væri svo lélegur atvinnuvegur.

Greinilegt var af tölu aðstoðarforstjórans, að Sprengisandsleið er sett fram sem tilboð sem ekki sé hægt að hafna, því að þessu tilboði er stillt upp sem skárri kostinum af tveimur, en hinn er að þjösnast með risalínur um Vesturland og Norðvesturland og um Suðausturland, og af fyrri ummælum í morgun mátti heyra að sveitarfélögin væru að flækjast fyrir.

Sem þýðir aðeins eitt: Nú þarf að safna liði til varnar víðernum Íslands !

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stjórnarformaður Landsnets hreytir ónotum í ferðaþjónustuna.

Það vakti athygli á kynningarfundi Landsnets í morgun að Geir A Gunnlaugsson stjórnarformaður fyrirtækisins tók sér góðan tíma til að rakka niður Íslenska ferðaþjónustu. Hér er það helsta úr upphafsræðu og umræðum Geirs um ferðaþjónustuna:

"Vöxtur í ferðaþjóunstu á umliðnum árum hefur vissulega verið góð búbót....en við megum ekki gleyma því að störf í ferðamannaiðnaði eru almennt láglaunastörf.. og arðsemi almennt lítil.

Ferðamennska verður því vart sá grundvöllur sem við getum byggt góð lífskjör á.

...Varðandi ferðaþjónustuna, þá verður ekkert horft fram hjá því að störf í ferðaþjónustu eru almennt láglaunastörf.... flugmennirnir sem fljúga fólkinu hingað, -þeir hafa góð laun. En ef að við ætlum að skapa hér störf fyrir menntað fólk.. –þá er ekki störfin fyrir það fólk í ferðaþjónustu. Við erum ekki að segja að ferðaþjónustan sé ekki góður þáttakandi í þessu þjóðfélagi en við skulum bara hafa það í huga að þetta eru láglaunastörf....og mikil ferðamennska skapar líka umhverfisvandamál".

Upptöku af fundinum má sjá hér:

http://landsnet.is/landsnet/upplysingatorg/fundir/horft-til-framtidar/

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 20.3.2014 kl. 17:01

2 identicon

Geir lét ofangreind orð falla á samkomu þar sem Landsnet kynnti áform um loftlínu af stæstu gerð um Sprengisand. Honum fanst greinilega til trafala að þurfa að taka tillit til undirmálsatvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu. Hinsvegar koma fram að jarðstrengur alla leið frá Búðarhálsvirkjun til Kröfluvirkjunar mun einungis hækka raforkuverð almennra raforkunotenda um rúmt 1%. Hækkunin yrði þó mun meiri hjá stóriðjunni og þar slær hjarta stjórnarformannsins. -Enda notar ferðaþjónustan innan við 1% raforkuframleiðslunnar.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 20.3.2014 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband