Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í borginni.

Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn er síðan 2010 með aðeins helming þess fylgis sem hann hafði í meira en 80 ár samfleytt þar á undan?

Ástæðurnar geta verið fleiri en ein. Nú er svo mikill hiti í mörgum vegna ESB-málsins að þeir segja að það sé eina ástæðan fyrir litlu fylgi D-listans að oddviti listans sé "ESB-sinni." 

Það má furðu gegna ef þetta álitamál grípur inni í borgarmálin, enda hefur flokkurinn áður verið klofinn í fylkingar í landsmálum án þess að það hafi komið niður á fylginu í byggðakosningum.

Má nefna hatrammar deilur innan flokksins vegna forsetakosninganna 1952 sem komu ekki í veg fyrir það að flokksmenn sneru bökum saman og studdu Gunnar Thoroddsen sem borgarstjóra, þótt hann hefði gert uppreisn gegn flokksforystunni í þessu máli.

Enda kom það mál borgarmálefnum ekkert við.

Síðar skiptust flokksmenn í Gunnarsmenn og Geirsmenn, en aldrei kom það niður á samstöðunni í borginni eins og til dæmis 1982 á tíma mið-vinstristjórnar Gunnars Thoroddsens, þegar flokkurinn var klofinn í herðar niður en vann samt góðan sigur og meirihlutann til baka í Reykjavík.

Lítið gengi flokksins í borginni nú hlýtur að eiga rætur í borgarmálefnunum sjálfum og þar blasir tvennt við:

1.´Sjallarnir áttu stóran þátt í ringulreiðinni í borginni árin 2007 og 2008. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur tókst að vísu vel upp í borgarstjóratíð sinni í lok kjörtímbilsins við að ná góðri samstöðu allra borgarfulltrúa til að koma borgarmálefnum á ónvenju lygnan sjó, en skaðinn var skeður, og 2010 refsuðu kjósendur stjórnmálamönnum almennt fyrir Hrunið og óstjórnina 2007-2008 með því að skapa stórsigur Besta flokksins og ósigur hinna flokkanna. Sjálfstæðismenn hafa ekki komist út úr þessu.

2. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins er klofnir í afstöðu sinni til flugvallarmálsins og það er stórt borgarmálefni, raunar stærsta borgarmálefnið núna.

Á sínum tíma tókst Ólafi F. Magnússyni að koma fylgi Frjálslynda flokksins upp og komast í borgarstjórn með því að nota flugvallarmálið, en þá stóðu aðrir frambjóðendur á listanum einhuga að því að styðja þessa stefnu.

En það gera frambjóðendur D-listans ekki nú.  

Nú er rekin sú stefna hjá meirihluta borgarstjórnar að þrengja sem mest að flugvellinum og skerða svo mjög notagildi hans og öryggi að í raun mun það leiða til þess að hann verði lagður niður.

Sú aðgerð að setja á fót nefnd til að finna flugvellinum annan stað á höfuðborgarsvæðinu kastar ryki í augu fólks og drepur málinu á dreif, því að við blasir, að engir peningar verða til slíks á þessum áratug, vegna þess að við Íslendingar stöndum árið 2016 frammi fyrir því í annað sinn að eiga hættu á þjóðargjaldþroti eða öðru Hruni vegna stórra afborgana af skuldum okkar sem minnst 100 milljarða eða meira vantar upp á að hægt verði að greiða.

Auk þess er ekkert skárra flugvallarstæði eða raunhæft til. Hólmsheiði er glötuð að öllu leyti og flugvöllur á Lönguskerjum eða á Álftanesi mun aldrei fást í gegn á svæði, sem snertir hagsmuni fjögurra sveitarfélaga og friðun Skerjafjarðar og Bessastaðaness.   

Sjálfstæðismenn eru hins vegar sem lamaðir í þessu stóra máli vegna sundurþykkju frambjóðendanna og hafa látið leiða sig í gildru, sem frambjóðendurnir í Reykjavík komast ekki út úr.

Skömmu fyrir kosningarnar 1994 sagði Markús Örn Antonsson sig frá forystu á listanum og Árni Sigfússon tók við, en of seint.

Nú er orðið ennþá seinna að hreyfa við einu eða neinu á D-listanum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fylgi Sjálfstæðisflokksins er það sama í Reykjavík og á landsvísu.

Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 23:48

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá 20.10.2013 hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkað í Reykjavík um 7%, niður í 24%.

Og fylgi Sjálfstæðisflokksins er nú einnig það sama á landsvísu, um 24%.

Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 23:51

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Harla ólíklegt að flugvallarmálið hafi haft nokkur áhrif á fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar í Reykjavík.

26.3.2014:

"Samfylkingin mælist með 28% atkvæða og fengi fimm borgarfulltrúa ef kosið yrði nú.

Björt Framtíð
fengi tæp 25% og Sjálfstæðisflokkurinn 24,4%.

Báðir þessir flokkar fengju fjóra borgarfulltrúa en Píratar og Vinstri grænir einn hvor."

Samfylkingin stærst í borginni - Sjálfstæðisflokkurinn þriðji stærstur

Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 23:56

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.3.2014:

"Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í vikunni var að nýju lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.

Var hún samþykkt með 6 atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Páls Hjaltasonar, Elsu Hrafnhildar Yeoman og Karls Sigurðssonar; fulltrúa Samfylkingarinnar, Hjálmars Sveinssonar og Kristínar Soffíu Jónsdóttur; sem og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs, Sóleyjar Tómasdóttur."

Þorsteinn Briem, 15.4.2014 kl. 23:59

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.4.2013:

"Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í framboðsræðu til formanns á landsfundi flokksins árið 2011 að Sjálfstæðisflokkurinn væri pikkfastur í 36% fylgi og það væri eitthvað sem hún gæti ekki sætt sig við.

Þessi ummæli Hönnu Birnu hafa verið rifjuð upp í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7% í kosningunum á laugardaginn, sem er næstminnsta fylgi flokksins í sögunni."

Hanna Birna sagði árið 2011 Sjálfstæðisflokkinn pikkfastan í 36% fylgi - Vildi setja markið miklu hærra

Þorsteinn Briem, 16.4.2014 kl. 00:05

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er sízt til fremdar Sjálfstæðisflokknum, ef hann vill rísa undir nafni, að hafa ESB-innlimunarsinna sem oddvita borgarstjórnarframboðsins.

Málin eru verri en þau virtust vera skv. hinni afhjúpandi greins Jóns Bjarnasonar, fv. ráðherra, í Fréttablaðinu 9. þ.m.: Að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ekki einasta fá íslenzkir boðsgestir Evrópusambandsins í Brussel fríar flugferðir, fría hótelgisting með mat og dagpeninga, heldur frá sumir þeirra einnig brúnt peningaumslag, sem þeir þurfa ekki að kvitta fyrir, um 400–500 evrur almennt, en mismikið þó í umslögunum, mun meira (var mér sagt í dag af náinni heimild) til þeirra sem stýra Sambandi íslenskra sveitarfélaga og leiðandi manna í nokkrum kaupstöðum, m.a. Kópavogi. Fylgdi sögunni, að mörgum þyki það annarlegt, að af þessum aukatekjum borgi sjálfir sveitarstjórnarmennirnir ekkert útsvar, en uni því mætavel.

Ég tek undir fyrirsögnina hjá Jóni Bjarnasyni og grein hans alla, sem virðist þó aðeins snerta toppinn á ísjakanum.

Jón Valur Jensson, 16.4.2014 kl. 00:05

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn fékk 2,7% atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum, 2010, og fylgi flokksins er nú svipað í borginni, um 3%.

3.4.2014:

"Framsóknarflokkurinn hefur mælst með um 3% fylgi í Reykjavík og nær samkvæmt því ekki inn manni í borginni í sveitarstjórnarkosningunum í næsta mánuði."

Og Frjálslyndi flokkurinn fékk 0,5% atkvæða í borginni í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Þorsteinn Briem, 16.4.2014 kl. 00:25

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá árinu 1929 fyrst og fremst verið kosningabandalag frjálslyndra og íhaldsmanna.

Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn aðhyllist einstaklingshyggju, frjálslyndi, frjálshyggju eða íhaldsstefnu.

Meira kraðak er nú varla til í einum stjórnmálaflokki og samstaðan oft lítil, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn margsinnis klofnað og brot úr flokknum myndað ríkisstjórn með öðrum stjórnmálaflokkum.

Þorsteinn Briem, 16.4.2014 kl. 00:28

9 identicon

Fylgi Sjálfstæðisflokksins ín Reykjavík hefur minnkað jafnt og þétt síðan í lok 9. áratugar. Fylgishrunið ágerðist eftir 1994 vegna þess að þá gat flokkurinn ekki lengur keypt atkvæði með útdeilingu "lífsgæða". Fylgishrun eða -aukning hjá Sjálfstæðisflokki hefur ekkert með flugvöllinn að gera. Ólafur fékk flugvallaratkvæði af því að menn héldu að hann skipti máli, sem hann gerði svo ekki. Það hefur margsýnt sig í kosningum að atkvæði "flugvallarmanna" eru mjög lítil prósenta heildaratkvæða í Reykjavík, Hanna Birna naut mikils trausts í Sjálfstæðisflokki og fór aldrei dult með afstöðu sína varðandi Vatnsmýrina og flugvöllinn. Pólitískur meirihluti er = innihald kjörkassa. Það er ekki pólitískur meirihluti fyrir flugvelli í mýrinni. Það hefur marg sýnt sig.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 16.4.2014 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband