Rétt ákvörðun.

Það er þekkt fyrirbrigði að ýmsir dauðir hlutir og mannvirki geta skapað tilfinningaþrungin viðbrögð fólks, sem ekki eru alltaf rökræn.

Dæmi um þetta er viðkvæmni sem blossað hefur upp í Þýskalandi gagnvart tveimu rússneskum skriðdrekum frá seinni heimsstyrjöldinni sem eru hluti af minnismerki um fallna sovéska hermenn í orrustunnni um borgina í apríl 1945.

Þykja þeir vera óþægilegt tákn um yfirgang Rússa gagnvart Úkraínumönnum.

Þessi tilfinningasemi er skiljanleg en ekki rökrétt.

Í fyrsta lagi er löngu hætt að framleiða T-34 skriðdrekana og allt önnur stríðstól eru notuð núna af Rússum og hafa verið lengst af síðan 1945.

Í öðru lagi sagði Eisenhower, þáverandi yfirhershöfðingi Vesturveldanna, að T-34 væri eitt af fjórum hernaðartækjum bandamanna, sem hefðu átt stærstan þátt í því að bandamönnum tókst að ráða niðurlögum mestu villimennskuógn sem steðjað hefði að mannkyninu.

Að því leyti til er þetta sérstaka hernaðartæki sveipað ákveðnum ljóma.  

 T-34 var að vísu beitt gegn Þjóðverjum í stríðinu en allar götur síðan hefur það verið opinber stefna Þjóðverja að fordæma nasisma og fasisma og leggja sig fram í einu og öllu við það að koma í veg fyrir að hliðstætt geti endurtekið.

T-34 var aðeins notaður allra fyrstu árin eftir styrjöldina, og þá sem hluti af herafla, sem notaður var til að kúga Austur-Þjóðverja og aðrar Austur-Evrópuþjóðir, en það tilefni minnismerkisins í Berlín ekkert við.

Menn lenda fljótt í ógöngum ef þeir ætla að amast við öllu því sem tengist þeim, sem þeir telja vera að fremja rangt eða hafa gert það.

Þannig er ég þeirrar skoðunar að ekki eigi að fjarlægja merki danska kóngsins af Alþingishúsinu, þótt Danir hafi umgengist okkkur eins og nýlenduþjóð á þeim tíma sem húsið var reist.

Merkið var einfaldlega hluti af húsinu eins og var, þegar það var reist.

Bolsévikar hrófluðu ekki við Kreml við byltinguna og Rússar hafa aftur nefnt Pétursborg sínu gamla nafni, þótt Pétur mikli hafi verið einvaldskeisari.  

Stundum er eins og amast hafi verið við stríðsminjum hér á landi á þeim forsendum að vopn og stríð hafi verið og séu af hinu illa. Voru og eru þessar minjar þó notuð í stríði gegn ógn nasismans.  

Ef útrýma á því sem tengist stríði og stríðstólum, myndum við auðvitað hafa brotið niður Skansinn í Vestmannaeyjum af því að það var vondur danskur einvaldskonungur sem stóð fyrir gerð þessa hernaðarmannvirkis.

Eitt sinn kom sú hugmynd upp á Austurlandi og var rædd hjá nokkrum mönnum eystra í alvöru, að útrýma öllum Toyotabílum á Austurlandi, af því að "óvinur Austurlands númer eitt" væri á Toyota !   

Þegar Þorskastríðin stóðu sem hæst komu fram raddir um að hætta að kaupa breskar vörur og forsmá allt sem breskt væri. Eftir þessu var þó ekki farið, sem betur fór, og enska knattspyrnan, Bitlarnir og breskir bílar voru jafn vinsæl fyrirbæri og áður.

Ég hef áður sagt frá tilfinningaþrungnum viðbrögðum Pólverja nokkurs, sem ég átti reglubundin samskipti við í nokkur ár, þegar ég sýndi gamlan frambyggðan Rússajeppa sem ég á.

Pólverjinn brást ókvæða við og bað mig um að láta sig aldrei aftur sjá þennan fjandans bíl sem minnti hann óþyrmilega á kúgun Rússa á Pólverjum.

Viðbrögð hans voru afar skiljanleg, en ég held nú samt upp á frambyggða Rússann.     


mbl.is Skriðdrekarnir fara hvergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Reist verður minnismerki um fallna framsóknarmanninn.

Þorsteinn Briem, 17.4.2014 kl. 02:24

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Thakka thennan ágöta pistil hjá thér Ómar.  Ég hefi fengid allt adra sýn á töki og tól til hernadar eftir lestur greinar thinnar.  Ég hefi fordömt allt sem ad hernadi lýtur og funndist thad af hinu illa,  sem thad reyndar er,  thad er og verdur áfram mín skodun. 

Þorkell Sigurjónsson, 17.4.2014 kl. 09:32

3 identicon

Þó ég sé bæði sammála þér og ákvörðun Merkel þá langaði mig bara benda á það að Sovétmenn hættu ekki að nota T-34 skriðdrekann fyrr en 1968, hann var líka notaður eitthvað í Júgóslavíustríðinu og hann er ennþá notaður í dag, þó held ég nær eingöngu af Norður Kóreu og nokkrum ríkjum í Afríku.

Magnús Eggertsson (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 12:05

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Arftakar T-34, T-44, T-54 og T-55 voru hannaðir í stríðslok og ruddu sér smám saman til rúms þannig að jafnmikið var framleitt af þeim og T-34. Framleiðslu T-34 var hætt árið 1958 og síðan eru liðin 56 ár.

Ómar Ragnarsson, 17.4.2014 kl. 18:31

5 identicon

Já það er held ég alveg rétt hjá þér, hann er líka einfaldur og þolinn og framleitt var svo mikið af honum að nóg er til af varahlutum. Hann hentar fínt í mörgum svæðum í Afríku þar sem getur verið langt á milli góðra  verkstæða og lítið er til af nútíma hátækniskriðdrekum til þess að mæta honum.

Magnús Eggertsson (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband