"Það getur allt gerst í beinni útsendingu."

Ofnagreind orð voru höfð með réttu eða röngu eftir Agnesi Bragadóttur eftir nokkur mögnuð viðtöl, sem voru tekin í þættinum "Á líðandi stundu" 1986. Þátturinn var alger nýjung í íslenskum fjölmiðlum varðandi efni og efnistök og því viðbúið að rennt væri að sumu leyti blint í sjóinn.

Lífið gerist í beinni útsendingu, ef svo má að orði komast, og það gerðist í bæði fyrirséðum og ófyrirséðum uppákomum í þættinum og viðbrögðum þáttagesta eða sjónvarpsáhorfenda.

Ætlunin með þættinum var að þannig yrði hann, sem hann og varð.

Sem dæmi má nefna óvæntar uppákomur með gestunum Davíð Oddssyni, Guðmund Jaka, Buba Morthens, Halldóri Ásgrímssyni, Bryndísi Schram, Ingimari Eydal, Sigga Gúmm og Steingrími Hermannssyni þar sem gerðust ófyrirséð og óvænt atvik og ummæli féllu, sem urðu á allra vörum um hríð en hurfu síðan smám saman inn í móðu tímans eins og gengur.

Sumu var þó haldið lifandi eins og til dæmis í höndum Sigmunds teiknara Morgunblaðsins, sem teiknaði Jón Baldvin Hannibalsson ævinlega eftir þetta með drullusokk í höndum eða hafði þetta áhald einhverns staðar í myndinni.

Að beiðni Hrafns Gunnlaugssonar gerði ég einn sérstakan sjónvarpsþátt með stuttum glefsum úr þáttunum og blaðafyrirsögnum og ummælum eftir þá, sem ef til vill yrði fróðlegt að endursýna einhvern tíma til að rifja upp þessa tíma í þjóðlífinu.

Sem betur fer er þetta eðli beinna útsendinga í sjónvarpi og ég kannast vel við þá tilfinningu, sem Gísli Marteinn hefur eftir þáttinn með forsætisráðherra, sem stendur upp úr hjá honum, hvað þetta varðar.

Af ferli mínum standa uppúr ummælin "það gengur betur næst" í viðtali við sótugan slökkviliðsmann eftir stórbruna, en þau vöktu mikil viðbrögð sem komu mér í fyrstu á óvart og í opna skjöldu en ég hef síðan lært mikið og raunar gert þau að einum af kjörorðum mínum.

Einhvern tímann gefst vonandi tækifæri til að fara nánar í gegnum málið, sem var á dagskrá í þessari beinu útsendingu, því að eftir á er það eitt af þeim erfiðu málum, sem í ljós kom að full ástæða var til að hjóla í af alvöru og festu þótt með því yrði tekin áhætta á því að lenda í ólgusjó um sinn.

Því að þegar rykið settist bar þessi umfjöllun þó þann árangur að gerðar voru ráðstafanir í slökkviliðsmálum sem brýn nauðsyn hafði verið á að gera lengi.

Viðtalið við SDG, sem er Gísla Marteini svo minnisstætt, gerði visst gagn þrátt fyrir allt, því að eftir á sést að það markaði ákveðið hámark í karpi og útúrsnúningum, og hafði þess vegna jákvæð áhrif hvað það varðaði að forsætisráðherra og hans menn fóru að minnka við sig þá stífni og þrjósku í viðtölum, sem voru þeim ekki til almenns framdráttar.    


mbl.is Aldrei fengið jafnmikil viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í stóran er nú safnað sarp,
Sigmundar gullkornin,
þar er allt hans kíf og karp,
og kolóð Agnes nornin.

Þorsteinn Briem, 19.4.2014 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband