Ádrepa Ólafs B. Schram ætti að vera skyldulesning.

"Það er verið að gera tvö ræsi á Dómadalsleið." Þessi eina setning í viðtali við Ólaf B. Schram hringir bjöllum. Hver er að gera ræsi á þessari leið?  Varla Vegagerðin sem á ekki einu sinni pening til að viðhalda stofnvegum í byggð ? 

Dómadalsleið hefur verið dásamleg "safari" leið og fengið að vera í friði fyrir mannvirkjaáráttunni fram að þessu.

Lá eitthvert mat á umhverfisáhrifum að baki því fara að hrófla við leiðinni?  Var haft samráð við þá sem hafa viljað þessa leið óbreytta og leitað eftir áliti þeirra á því að fara að raska henni?

Er ætlunin að halda áfram í þessum dúr bæði á þessari leið og öðrum, sem eru líkar henni?

Eitt sinn bauð Kjalvegur upp á stanslaust ævintýri frá Gullfossi niður í utanverðan Blöndudal. Það þurfti að þræða vegarslóða og aka yfir ár og læki. 

Nú þarf ekki að fara yfir svo mikið sem sprænu á leiðinni. Mestöllum nyrðri hluta leiðarinnar hefur verið breytt í virkjanasvæði með upphækkuðum vegi og sama hefur verið gert við syðri hluta leiðarinnar alveg norður undir Hvítárvatn.

Gott og vel, það er búið og gert. En það virðist hvergi nærri vera nóg fyrir mannvirkjafíklana.  Þarf endilega að taka aðrar fyrrum hliðstæðar leiðir og fara eins með þær?  

Viðtalið við Ólaf B. Schram ætti að vera skyldulesning fyrir alla þá sem þurfa að dýpka og víkka skilning sinn á því hvernig við umgöngumst náttúru Íslands, því að hitt sjónarmiðið, að skapa alls staðar "fullkomið aðgengi" sem þýðir að lokum upphækkaða malbiksvegi með 90 kílómetra hámarkshraða fyrir alla bíla um óbyggðir landsins og virkjanamannvirki hvar sem litið verður, mun fella sérstöðu landsins eins og Ólafur orðar það.  

Skjaldarmerki Utah ríkis í Bandaríkjunum er steinboginn "Delicate arch" eða "Viðkvæmi bogi" í Arches þjóðgarðinum.

Ef Íslendingar væru ráðamenn í Utah væri fyrir löngu búið að leggja malbikaða hraðbraut beinustu leið að boganum.

En í staðinn hefur þess verið gætt að stórt svæði umhverfis hann sé ósnortið land.

Síðustu kílómetrana er aðeins hægt að komast gangandi eftir slóð sem fætur ferðamanna hafa búið til og liggur í byrjun fram hjá kofa, sem veiðimaður bjó í fyrrum, og sýnir hvernig fyrstu landnemarnir þarna lifðu, en síðar er gengið um klappir og óslétt land um auðnir þangað til komið er að þessu skjaldarmerki Utah. 

Hvers vegna eru jarðýturnar og stórvirku tækin ekki fyrir löngu búnar að búa til "fullkomið aðgengi"?

Af því að ferðamaðurinn á að fá að upplifa það sama og hinir fyrstu, sem komu að þessum steinboga og féllu í stafi yfir honum, svo að hann var gerður að skjaldarmerki ríkisins. 

Þetta er krafan um upplifun og ævintýri en ekki þægilega og hraða rútuferð.

Þetta virðast menn ekki skilja í hinu íslenska stjórnleysi og umgengni við náttúruna sem byggist á fyrirbærinu "áunnin fáfræði."  

Í morgun heyrði ég talað í útvarpi um skógrækt þvert yfir hálendið um Sprengisand. Það á líka að gera háspennulínu af stærstu gerð og tvær virkjanir á þeirri leið með tilheyrandi virkjanavegum.

Bara lítið dæmi um það sem er að gerast og er umræðuefni Ólafs B. Schram.  

 

 


mbl.is Ísland er að verða útjaskað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


"Hann var það
, Steini, þegar ég kom þangað 2008."

Ómar Ragnarsson
, 20.3.2013
kl. 21:12

Þorsteinn Briem, 14.7.2014 kl. 23:44

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.10.2013:

"Útflutningur vöru og þó einkum þjónustu hefur dregið vagninn frá hruni.

Mestu munar þar um hlut ferðaþjónustunnar
, sem hefur vaxið langt umfram væntingar og hvert metið verið slegið á fætur öðru í komu erlendra ferðamanna.

Álverð hefur
hins vegar lækkað skarpt frá því vorið 2011.

Verðið á tonni af áli var 1.820 dollarar í ágúst síðastliðnum en 2.600 dollarar í apríl 2011 [sem er verðlækkun um 30%].

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:01

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

26.2.2014:

"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna [andvirði Kárahnjúkavirkjunar].

Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."

Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:03

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

16.12.2013:

"Landsvirkjun getur ekki annast orkuöflun fyrir álver í Helguvík nema að litlu leyti, að sögn forstjórans.

Álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent
til að hægt yrði að ljúka samningum."

Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:05

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

6.9.2013:

"Útflutningur fyrstu sex mánuði ársins 2013 jókst um 1,1% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2012.

Þar af jókst þjónustuútflutningur
um 4,7% en á móti dróst vöruútflutningur saman um 0,8%.

Landsframleiðslan jókst um 2,2% að raungildi fyrstu sex mánuðina 2013 miðað við sama tímabil 2012

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:08

8 identicon

Hann er að tala um mannfjölda og biðraðir. Átroðning. Það eru biðraðir á Everest. Hefur ekkert með upphækkaða vegi að gera. Hvað þá virkjanir eða mannvirkjafíkla.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 15.7.2014 kl. 00:14

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í fyrra, 2013, varð ferðaþjónustan stærsti útflutningsatvinnuvegurinn hér á Íslandi.

30.12.2013:

Níu þúsund starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi allt árið og þeim fjölgar um nokkur þúsund á næstu árum


Árið 2012 voru útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja samtals 238 milljarðar króna.

Þessi íslensku fyrirtæki greiða alls kyns skatta til íslenska ríkisins og þeir níu þúsund Íslendingar sem hjá þeim starfa greiða að sjálfsögðu einnig skatta til íslenska ríkisins, tekjuskatt og næst hæsta virðisaukaskatt í heimi af vörum og þjónustu sem þeir kaupa hér á Íslandi.

Svo og útsvar til íslenskra sveitarfélaga.

Erlendir ferðamenn greiða í raun alla þessa skatta með útgjöldum sínum til íslenskra fyrirtækja, 238 milljörðum króna árið 2012.

Og ekki þarf nema örlítið brot af öllum þessum sköttum til íslenska ríkisins til að stækka hér bílastæði við ferðamannastaði, bæta þar salernisaðstöðu, leggja fleiri göngustíga og viðhalda þeim gömlu.

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:21

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið hingað til Íslands.

Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.

En íslenskum ríkisborgurum er ekki hægt að banna að koma hingað til Íslands.

Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 00:28

11 identicon

Þetta er með öllu óskiljanlegt því vöð eru viðhaldsfrí að mestu á meðan það rennur yfirleitt úr ræsunum í vatnavöxtum.

Kristinn Magnusson (IP-tala skráð) 15.7.2014 kl. 00:30

12 identicon

"Núna áttu á hættu að það sé Yar­is að reyna að kom­ast fram úr þér." Yaris virðist vera lykilorðið í þessum pistli. Jón og Gunna á Yaris eru ógnin og skelfingin. Og fúlt að geta ekki ekið yfir ár og læki lengur.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 15.7.2014 kl. 08:42

13 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Ómar ég er gersamlega ósammála því að ekki megi leggja vel hannaða og góða vegi inná hálendið til að auðvelda ÖLLUM ferðamönnum að njóta íslenskrar náttúru. Við stöðvum ekki ásóknina og henni mun fylgja aukin umferð og þar með niðurbrot moldarvega. Malbikaðir vegir og huggulegar brýr skemma ekki heldur koma í veg fyrir skemmdir.

Að ætla eftir alla eyðileggingu einokunar hyggju Framsóknar að fara að setja  kvótastýringar á ferðamennskuna er ekkert nema brjálæði heimskunnar. Bjóðum allt það fólk velkomið sem hefur áhuga á hreinni náttúru og leggur á sig ferð til okkar velkomið meðan það varir það er auðveldara að eyðileggja ferðamennskuna en viðhalda henni með eigingirni Íslendina sem vilja halda í gamla tíma sem aldrei koma aftur.

Yaris er fallegur og góður bíll og á líka rétt á að ferðast um hálendið þótt lítill sé. Margur er knár þó hann sé smár.

Gleymum ekki að rútur fullar af ferðamönnum eru á við hjólbörur fullar af gjaldeyri sem okkur sár vantar.

Ólafur Örn Jónsson, 15.7.2014 kl. 09:06

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var hægt að aka yfir lækina og smáárnar á Yaris á Dómadalsleið. Þurfti bara smá aðgæslu og skynsemi við að gera það, þótt ekki væri nema að hinkra eftir næsta bil til að láta hann fylgjast með.

Í Yellowstone og víða annars staðar þar í friðlöndum og þjóðgörðum  erlendis, þar sem fólk úr þéttbýlinu þráir frið og kyrrð eru "biðraðir" inn á samtals 1600 kílómetra langar gönguleiðir, þar sem er ítala í gildi.

Engum þar vestra hefur flogið í hug að malbika hraðvegi um þessar leiðir til þess að "rútur, fullar af ferðamönnum sem eru  á við hjólbörur af gjaldeyri."

Takk fyrir þessa lýsingu á viðhorfinu til ferðamanna. Þeir eru bara eins og hjólböruhlass, varningur, sem gefur það sem Íslendingar þrá, hámarks magn, sem gefur af sér sem minnst verð á einingu söluvörunnar, svo sem við sölu á orku til álvera.  

Þeir, sem ganga á gönguleiðunum borga nefnilega miklu meiri peninga hver  

Í Kerlingarfjöllum má sjá rútur með ferðamönnum, sem hristast holóttan Kjalveg en gera hádegisstans í Kerlingarfjöllum og hristast síðan áfram alla leið.

Rétt fyrir ofan skálana í Kerlingafjöllum er frábært hverasvæði á við þau bestu á Íslandi og í óvenjulega giljalandslagi, en enginn fær að sjá það, né ýmislegt annað sem leiðin um Kjalveg býður upp á.

Þetta elskar Ólafur Örn Jónsson,  að moka sem hraðast og mestu af hlössum af fólki.

Við Djúpalónssand mátti sjá margar rútur þar sem "hjólböruhlössin" komu, sturtuðu gjaldeyrinum út í smá stund, þar sem farþegarnir átu eigið nesti og héldu síðan áfram.

Örfáir veittu sér þann munað að ganga niður á Djúpalónssand og til baka aftur, hvað þá að nokkur færi yfir í hina mögnuðu Dritvík með sínum gersemum.

"Hlass af gjaldeyri í hjólbörum". Dásamlegt.       

Ómar Ragnarsson, 15.7.2014 kl. 14:08

15 identicon

Á að auðvelda öllum leið inn á hálendið?  Til hvers? Til að njóta kyrrðarinnar og einverunnar sem þá verður horfin?

Fyrir nokkrum árum gerðist það , að ásókn í Grand-Canyon þjóðgarðinn var orðin of mikil og það vantaði fleiri bílastæði fyrir alla gestina, en lítið um landsvæði í nágrenninu sem hentað gætu undir slíkt.

En lausnin  var nærtæk og fengin frá náunga með sama hugarfarið og sést hjá bloggaranum Ólafi Erni Jónssyni:  Við fyllum bara upp í Miklagljúfu, og þá fæst fullt af landnæði undir ný bílastæði !!

Íðilsnjallt, þótt ekkert verði eftir til að skoða þegar nýju bílastæðin verða komin.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 15.7.2014 kl. 14:22

16 identicon

Rétt hjá Ólafi Erni Jónssyni. Ásóknin verður ekki stöðvuð. Söluvaran er Ísland - eins og Ólafur B. Schram bendir réttilega á. Leiðsögumenn - sem hafa sturtað mörgum hlössum af ferðamönnum vítt og breitt um landið - sjá loksins afleiðingarnar. Það er fagnaðarefni. Það er vonandi að mannvirkjafíklarnir geti bjargað því sem bjargað verður.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 15.7.2014 kl. 18:30

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 235. sæti.

Miðað við að hver erlendur ferðamaður dveljist hér á Íslandi í eina viku voru hér á Íslandi að meðaltali um tíu þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu árið 2009.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands árið 2009 og gistu þá að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali voru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum árið 2009.

Að meðaltali voru því fleiri Íslendingar á ferðalögum hérlendis en erlendir ferðamenn á degi hverjum árið 2009.

Þorsteinn Briem, 15.7.2014 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband