Síðan hvenær varð þetta líka leyndarmál ?

Frá upphafi stóriðju á Íslandi hefur orkuverðið til hennar verið leyndarmál, sem ekki mátti segja þjóðinni, eigendum Landsvirkjunar, frá. 

En ævinlega hefur það verið tilgreint að orkuverðið hafi verið tengt við markaðsverð á áli hjá álverunum.

Nú bregður svo við að ekki fást svör við því hvort í samningum við kísilver verði tenging við heimsmarkaðsverð á kísil eða annarri hrávöru.

Í loðnu svari er þess getið að hugsanlega muni þurfa kísilverðtengingu til þess að "fá fyrirtækin til landsins."

Sama var sagt um tenginguna við álverðið á sínum tíma, sem núverandi forstjóri gagnrýndi.

Þetta hringir gömlu bjöllum um að ekki sé allt sem sýnist. Af hverju er ekki svarað af eða á?  


mbl.is Tjá sig ekki um kísilverðstengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ríkissjóður er eigandi Landsvirkjunar en ekki þjóðin. Þjóðin getur ekki átt eitthvað. Þjóðin eins og ástin er ekki skilgreint og afmarkað fyrirbæri. Og merkingarlaust hugtak þar sem það er að finna í lagatextum sem smíðaðir hafa verið uppá "lúkkið" frekar en gildið.

Og frá upphafi stóriðju á Íslandi hefur þurft að semja við hvert stóriðjufyrirtæki fyrir sig vegna þess að verð í öðrum samningum eru ekki gefin upp. Það er almennt talið viturlegt að sýna ekki spilin og setja sig í lakari samningsstöðu, sérstaklega ekki ef það þjónar engum tilgangi öðrum en að svala forvitni almennings.

Hábeinn (IP-tala skráð) 22.7.2014 kl. 16:27

2 identicon

Er það ekki samningsstaða stórfyrirtækjanna frekar en Landsvirkjunar sem batnar við þessa vöntun á gagnsæi?

Þetta vita þeir, stóriðjan, og gera því kröfur um orkuverð sem Landsvirkjun gæti aldrei fallist á, fengi þjóðin upplýsingar um baukið.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.7.2014 kl. 16:58

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenska þjóðin er allir íslenskir ríkisborgarar og þeir búa bæði hér á Íslandi og í öðrum ríkjum.

Og hér búa bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar.

Erlendir ríkisborgarar eru hins vegar ekki hluti af íslensku þjóðinni, enda þótt þeir búi í íslenska ríkinu.

Erlendir ríkisborgarar sem starfa hér á Íslandi geta hins vegar þurft að greiða tekjuskatt til íslenska ríkisins, enda nota þeir ýmsar eignir íslensku þjóðarinnar á meðan þeir búa hér, til að mynda þjóðvegi.

Enda þótt ég hafi búið í Svíþjóð hef ég aldrei verið Svíi, þar sem ég hef ekki verið sænskur ríkisborgari og erlendir ríkisborgarar sem hér búa eru ekki Íslendingar.

Íslenskir ríkisborgarar geta hins vegar orðið sænskir ríkisborgarar, rétt eins og þeir geta orðið íslenskir ríkisborgarar.

"Þjóð - Borgarar ríkis."

"Ríki - Mannlegt samfélag er hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landsvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn er sækir vald sitt til samfélagsins sjálfs en eigi til annarra ríkja, enda fari sú stjórn með æðsta vald í landinu, óháð valdhöfum annarra ríkja að öðru leyti en því er leiðir af reglum þjóðaréttar."

"Ríkisborgararéttur - Lögformlegur þegnréttur í einhverju ríki. Ríkisborgararéttur segir til um hverjir eru borgarar tiltekins ríkis. Ákveðin réttindi eru bundin við ríkisborgararétt."

"Ríkissjóður - Fjármunir ríkisins sem fjármálaráðherra ábyrgist í umboði Alþingis [og Alþingi er kosið af íslensku þjóðinni]."

(Lögfræðiorðabók með skýringum - Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.)

Þorsteinn Briem, 22.7.2014 kl. 17:05

4 identicon

Ólíklegt að "við" fáum að vita verðið á rafmagninu gegum sæstrenginn til ESB sem forstjóri Landsvirkjunar/stjórnarmaður Veritas vinnur að öllum stundum

Grímur (IP-tala skráð) 22.7.2014 kl. 18:33

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt skilingi Hábeins á ríkissjóður sig sjálfur. Orðin "í almanna eigu" eru marklaus samkvæmt þessum skilingi.

Enginn á ríkissjóð nema hann sjálfur.

Okkur varðar ekkert um ríkissjóð af því að hann tengist okkur ekki á neinn hátt.

"Peningarnir urðu til í bankanum" sagði Seðlabankastjóri hér um árið þegar einhverjir vildu gera athugasemdir við kaup bankans á listaverkum.

Peningarnir "urðu til" og áttu sig sjálfir. Þjóðina varðaði ekkert um þetta.

Nú er búið að færa þetta yfir á allt ríkisfé. Dásamlegt að sjá þetta.

Ómar Ragnarsson, 23.7.2014 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband