"Hlýnunin sem hvarf." "Loftlagsbreytingar eru blekking."

Í hvert skipti sem það kemur fram í fréttum að hver mánuðurinn af öðrum sé hlýrri en í meðalári, að hiti sjávar fyrir norðan land sé með því hæsta sem sést hefur, að íslenskir jöklar minnki jafnt og þétt, að Kínverjar og Rússar séu að seilast hér til áhrifa og valda vegna minnkandi íss og þar með aukinna umsvifa á heimsskautssvæðinu, og að hlýrra veðurfar hafi stórfelld áhrif á gróður á landinu og lífríki sjávarins, rekur hópur manna upp ramakvein og afneitar þessu öllu. 

Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn". Þeir trúa því að síðustu 14 ár hafi ekki verið hlý heldur köld. "Hlýnunin sem hvarf" er yfirskrift pistils eins þeirra. Og annar skrifar: "Loftslagsbreytingar eru blekking."

Þessir menn virðast trúa því statt og stöðugt að breytingar á hafís og jökulís á Grænlandi séu lygar einar. Að makríllinn hafi sótt hingað norður Íslands fyrir misskilning.

Þeir virðast trúa því að gróður landsins þjóti nú upp í skjóli blekkingar, - gróður, fiskistofnar og íslenskir jöklar láti vonda vísindamenn plata sig, því að í gangi séu hagsmunapot og gróðasjónarmið þeirra, sem hafa með rannsóknum sýnt fram á hlýnunina og afleiðingar hennar og lifi á þessu starfi og því að halda fyrirlestra um niðurstöðurnar.

Í fyrra sögðu þeir að það ár hefði verið kuldaár hér á landi því að ef hlýindin í janúar og febrúar hefðu verið dregin frá í útreikningi meðaltalsins, hefði árið ekki orðið hlýrra en í meðalári. Sem sagt: Kalt ár. 

Samkvæmt þessu stöndum við frammi fyrir því að draga að minnsta kosti allan fyrri hluta ársins í ár frá í útreikningunum til þess að eiga von um að árið 2014 verði kuldaár.

Tengdadóttir mín segir frá því í afmælisboðum að undanfarnar vikur hafi verið eindæma hlýindi í Nuuk, þar sem hún hefur dvalið. 20 stig dag eftir dag. Ekki orð að marka hana né það að hitinn hefur verið um 30 stig í gervallri Skandinavíu að undanförnu. 

Þegar dregin er heil lína í gegnum meðalhitatölur hér á landi síðan um 1850 koma fram sveiflur, sem sumar hafa staðið í allt að aldarfjórðung, en heila línan í gegnum meðaltalssveiflurnar hefur samt hækkað allan tímann, botnanir á niðursveiflunum orðið sífellt hærri og sömuleiðis topparnir á uppsveiflunum.

Aumingja Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur glapist til að birta þessar tölur og línur unnar úr þeim og verður fyrir bragðið að teljast ómarktækur, vegna þess að hann hefur atvinnu af því að vinna úr veðurfarstölum og gögnum á Veðurstofunni.

Ekkert fær haggað kuldatrúnni og trúnni á dýrð þess að breyta helst engu í bruðlinu með olíu, gas og kol, stórfelldustu rányrkju í sögu mannkynsins. Enda gríðarlegir hagsmunir bruðlaranna og stórfyrirtækjanna í húfi.  

 


mbl.is Byggir verk á loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Hárrétt hjá þér Ómar. Kemur mér alltaf á óvart hversu sömu vitleysunni er haldið á lofti aftur og aftur.

Vísindamenn hafa allir fallist á að jörðin fer hlýnandi, enda er ekkert hægt að efast um það. Menn deila um hvort hlýnunin sé af manna völdum (um 97% vísindamanna eru á því) eða ekki.

Svo koma einhverjir og segja "kennarinn minn sagði í grunnskóla" eða "janúar er kaldari en júní" og halda að það séu haldbær rök gegn starfi tugþúsunda vísindamanna í meira en hálfa öld.

Það er vel staðfest (og hvergi mótmælt af vísindamönnum) að sjávarstaða fer jafnt hækkandi, mælist rúmir 3 mm á ári. Enginn kuldatrúarmaður hefur getað útskýrt hvernig það getur gerst án viðvarandi hnattrænnar hlýnunar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.7.2014 kl. 12:27

2 identicon

Þá er það afgreitt. Tengdadóttir Ómars man ekki önnur eins hlýindi í Nuuk og mælst hefur hitnun í Breiðholtinu. Hnattræn hlýnun af mannavöldum telst því sönnuð og óþarfi að ræða það frekar.

Gústi (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 12:55

3 identicon

Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn", skrifar Ómar.

Þessir menn, þessir ignorantar, hafa þegar passandi nafn: Íslenska teboðið.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 13:05

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Alls ekkert hefur nú hlýnað síðan í september 1996, samkvæmt áreiðanlegustu tölum, sem meira að segja áhangendur IPCC geta ekki rengt, sbr. hér: http://www.climatedepot.com/2014/07/03/global-temperature-standstill-lengthens-no-global-warming-for-17-years-10-months-since-sept-1996-214-months/

Um allt þetta mál skrifaði ég annars ítarlega fyrir nokkru hér: http://vey.blog.is/blog/vey/entry/1349037/#comments

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.7.2014 kl. 13:14

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Vilhjálmur, önnur vefsíða efasemdarmanna er climate4you (http://www.climate4you.com/GlobalTemperatures.htm), þar er mikið úrval línurita. Um miðja síðuna eru 20 og 15 ára leitni, sem samsvarar nokkurn veginn línuritinu sem þú hlekkir á. Ekki stenst samanburðurinn nú alveg. Og ekki veit ég af hverju þú vilt kalla þetta "áreiðanlegustu tölur" sem þú vitnar í.

RSS tölurnar sem notaðar eru í greininni sem þú vitnar til mælir neðri hluta veðrahvolfs, en ekki yfirborð (eins og línuritin sem ég hlekki í hér að ofan). RSS er mælt með gömlum gervihnetti sem fer dalandi, og tölurnar eru leiðréttar út frá spáforriti. Annar, nýlegri, gervihnöttur UAH sýnir hlýnun þó ekki sé hún jafn hröð og yfirborðshlýnun. (http://bobtisdale.wordpress.com/2014/04/27/on-the-differences-and-similarities-between-global-surface-temperature-and-lower-troposphere-temperature-anomaly-datasets/)

En Vilhjálmur, hvernig vilt þú þá skýra hækkun yfirborðs sjávar á þessu 17 tímabili, um c.a. 5 cm, ef engin er hlýnunin?

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.7.2014 kl. 13:32

6 identicon

Það er vel staðfest (og hvergi mótmælt af vísindamönnum) að sjávarstaða fer hækkandi, mælist um 120 metrar síðustu 15.000 árin. Enginn kuldatrúarmaður hefur getað útskýrt hvernig það hefur gerst án viðvarandi hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum.

Gústi (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 13:32

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Gústi, dæmið er ósköp einfalt: Varmi er orka. Meiri orka frá sólinni, eða meiri einangrun andrúmslofts, leiðir til hlýnunar.

Hlýnun leiðir af sér hærri sjávarstöðu, einmitt það sem gerðist í lok síðasta jökulskeiðs fyrir c.a. 15.000 árum, eins og þú ert svo vinsamlegur að benda á.

Í dag hlýnar, eins og sjávarstöðuhækkun sannar svo ekki verður um villst. Orka frá sólu hefur minnkað síðustu áratugi (og í stærra samhengi, jafnt og þétt síðustu 10.000 árin eftir mikla aukningu fyrir milli 10.000 og 20.000 árum síðan). Einangrun andrúmslofts eykst og skýrir hlýnunina.

Eftir stendur að sjávarstaða fer hratt hækkandi, nokkuð sem getur eingöngu gerst við hlýnun jarðar. Ergó jörðin fer hlýnandi og heldur áfram að hlýna jafnt og þétt, einnig síðustu 17 árin.

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.7.2014 kl. 13:44

8 identicon

Orka frá sólu hefur minnkað jafnt og þétt síðustu 10.000 árin. Einangrun andrúmslofts eykst og skýrir hlýnunina og sjávarstaða heldur áfram að hækka, nokkuð sem getur eingöngu gerst við augljósa hlýnun jarðar af mannavöldum síðustu 10.000 árin.

Gústi (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 13:54

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Augljós kólnun jarðar vegna minnkandi koltvísýrings í andrúmslofti jarðar, legu meginlanda og sveiflum á sporbaugi og halla jarðar, leiðir óhjákvæmilega til sílækkandi sjávarstöðu og kólnandi veðurfars, þar sem jöklar liggja kílómetra þykkir langt suður í álfur, eins og síðustu þrjár milljónir árin sýna svo ekki verður um villst.

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.7.2014 kl. 14:07

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hefur það ekki lengur neina vigt hjá loftslagsvísindamönnum heimsins þegar Vilhjálmur Eyþórsson skrifar ítarlega?
Hvurslags blinda er þetta eiginlega....
Má ég minna á það að umræddur Vilhjálmur hefur ekki bara einu sinni, heldur margsinnis "skrifað ítarlega" um þessa hlýnunarblekkingu sem meira að segja makríllinn hefur glapist til að trúa.
Að ekki sé nú minnst á fjárfestagreyin sem ætla að fara í að steypa lengsta viðlegukant í heimi við Finnafjörðinn til að umskipa gámum vegna flutninga um íslausa siglingaleið. 
Má ég vinsamlega fara fram á að kommúnistar fylgist með og hugsi sinn gang þegar Vilhjálmur skrifar ítarlega. 

Árni Gunnarsson, 28.7.2014 kl. 14:55

11 Smámynd: Sævar Helgason

Við sem fylgjumst með náttúrufarinu hérna þ.e á láði sem legi þurfum ekki að líta á einhver exelskjöl til að upplifa stöðuna. Trjágróður bæði í byggð sem utan byggðar hækkar um í metrum talið bæði á hæð og umfangi -árlega. Lúpínan okkar innflutta verður mörgum sm hærri með hverju árinu en á þeim fyrri. Gróðurþekja almennt er í mikilli sókn.allstaðar. Fiskurinn sem hér hefur verið í árahundruð kynslóða- er að flytja sig til og nýjar að koma sunnan ú hafi- í stórum stíl.

Sjófuglar eru að færa sig norðar eða hreinlega að þynnast út. Jöklar styttast um 150-200 metra árlega auk þynningar.

Við sem förum stundum út úr húsi upplifum þessar breytingar - frá ári til árs.

Sævar Helgason, 28.7.2014 kl. 15:16

12 identicon

Þá er bara að hætta að keyra, dilla svo sporbaug aðeins og halla jörðinni frá sólu. Hókus pókus bingó allir glaðir höfin þorna upp og flottir umhverfisvænir jöklar svo langt sem augað eygir. Ég elska lopapeysur og get ekki beðið eftir að þurfa að nota þær allt árið. Og hvað er flottara en mannbroddar marserandi í takt á 17. Júní?

Gústi (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 15:26

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjallinn hér úr Valhöll valt,
viðbjóð meiri losið!,
töluvert á tánum kalt,
og typpið það er frosið.

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 15:56

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hjólreiðamenn í Reykjavík voru árið 2012 þrefalt fleiri en árið 2009.

Og farþegar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu voru 30% fleiri árið 2012 en 2009.

Í umferðinni í Reykjavík voru gangandi og hjólandi 21% árið 2011 en 9% árið 2002.

Aðgerðir í loftslagsmálum  - Maí 2013

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:03

15 identicon

Við sem þekkjum sögu náttúrufars hérna þ.e á láði sem legi þurfum ekki að standa úti í rigningunni til að upplifa stöðuna. Horfin er Eik, Kastaníutré, Magnolía, Lárviður og Hickory sem hér uxu. Vatnajökull sem áður var í tveim litlum hlutum er vaxinn saman og myndast hafa nýir jöklar þar sem áður voru blómlegir skógar. Og bleikir kornakrar forfeðranna hafa kaldir mátt hvíla sig í 1000 ár. Halda mætti að veður gæti tekið miklum breytingum án afskipta okkar, en það er náttúrulega guðlast að halda þvílíkri firru fram. Mæling sem ég gerði í morgun og önnur nú eftir hádegi benda til þess að hitinn verði farinn að nálgast 40 gráður um miðnætti, sennilega er þar sunnudagsrúntinum um að kenna.

Gústi (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 16:04

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sinni heimabyggð en utan hennar
, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.

Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.

Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:10

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vísindavefurinn:

"Regnskógareyðing er í öðru sæti, á eftir notkun jarðefnaeldsneytis, yfir það sem veldur mestri koltvíildismengun á jörðinni.

Skógareyðing á einum degi
losar meira koltvíildi út í andrúmsloftið en tugþúsundir flugvéla sem fljúga a milli Bandaríkjanna og Evrópu."

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:11

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útstreymi árið 2007 (CO2-ígildi):

Samgöngur:


"Útstreymi frá samgöngum árið 2007 skiptist í útstreymi vegna innanlandsflugs (2%), strandsiglinga (6%) og vegasamgangna (92%).

Nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á Íslandi, sjá bls. 30-36

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:11

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar í Reykjavík (BSÍ) telst vera hagkvæm einkaframkvæmd sem ekki kallar á bein opinber framlög og þar er stuðst við bæði innlendar og erlendar reynslutölur.

Reiknað er með að ferðatíminn verði 15-19 mínútur og meðalfargjald 2.600 krónur en fargjald með flugrútunni frá Keflavíkurflugvelli að BSÍ er um tvö þúsund krónur og rútan er 45 mínútur á leiðinni.

Búist er við að helmingur flugfarþega frá og til landsins noti hraðlestina, tekjur af flugfarþegum verði 87% heildartekna og seldar ferðir um fjórar milljónir fyrir um 10,5 milljarða króna árið 2023, fyrsta rekstrarárið.

Flest hótel og gistiheimili í Reykjavík eru vestan Kringlumýrarbrautar.

Lestarleiðin er 47 kílómetrar og þar af 12 kílómetrar í jarðgöngum frá Straumsvík að BSÍ en Héðinsfjarðargöng eru 11 kílómetrar.

Gert er ráð fyrir fjórum lestareiningum í rekstri, hverri með fimm vögnum, og varaeiningu á viðhaldssvæði.

Kostnaður við gerð jarðganga er miðaður við íslensk jarðgangaverkefni og kostnaður við lestirnar sjálfar reiknaður út frá upplýsingum frá Flytoget í Osló, sem nýlega hefur fest kaup á átta nýjum lestum gerðum fyrir 250 km/klst hámarkshraða.

Stofnkostnaður í milljörðum íslenskra króna:


Jarðgöng 15,2

Mannvirki og jarðvinna ofanjarðar 34

Járnbrautarstöðvar (Keflavík - Millistöð við Hafnarfjörð - BSÍ) 3,5

Aðstaða fyrir geymslu og viðhald 4,5

Járnbrautarteinar 18

Merkja- og stjórnbúnaður 4,3

Raflagnir 6,5

Járnbrautarlestir 16

Samtals 102 milljarðar króna.


Heildarkostnaður er því um 2,2 milljarðar króna á hvern kílómetra að járnbrautarlestum meðtöldum.

Gert er ráð fyrir að verkhönnun hefjist í ársbyrjun 2017 og verklegar framkvæmdir með gerð jarðganga í árslok það ár.

Á árinu 2020 og fram á mitt ár 2022 verður unnið við raflagnir og járnbrautarteina, merki, stjórnbúnað og öryggiskerfi.

Og eftir prófanir er gert ráð fyrir að hraðlestin verði tilbúin til notkunar í ársbyrjun 2023.

Rekstrarkostnaður lesta vegna starfsmanna, viðhalds og orku er mjög áþekkur í fimm Evrópulöndum, að meðaltali 11 sterlingspund á hvern kílómetra, eða 2.158 krónur.

Reiknað er með fjórum ferðum á klukkustund í hvora átt í tíu klukkustundir á sólarhring en tveimur ferðum á klukkustund þegar flugumferð á Keflavíkurflugvelli er minni og lestirnar verði ekki í notkun frá klukkan 1 til 5 á næturnar þegar þær verðar þrifnar og þeim viðhaldið.

Þar af leiðandi er áætlað að fjöldi ekinna kílómetra verði 1,9 milljónir á ári og meðalraforkunotkun á hvern kílómetra verði 15 kílóvattstundir, alls 31,9 milljónir á ári, og greiddar verði 8,30 krónur fyrir kílóvattstundina.

Og gert er ráð fyrir að heildarrekstrarkostnaður verði 5,8 milljarðar króna á ári, þar af 4,1 milljarðar vegna lesta og 1,7 milljarðar vegna kerfis.

Hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ), júlí 2014

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:14

20 identicon

Burt séð frá hlýnun andrúmsloftsins þá er það staðreynd, sem auðvelt er að sanna með mælingum, að heimshöfin eru að súrna. Það eitt og sér er verulegt áhyggjuefni.

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 16:41

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um ein milljón erlendra ferðamanna dvelst hér á Íslandi nú í ár, 2014, um 55% fleiri en 2012.

Erlendir gestir um Leifsstöð 2013 og 2014 - Ferðamálastofa

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 16:53

22 identicon

Skelli hérna inn tveimur slóðum af loftslag.is:

Sönnunargögnin: http://www.loftslag.is/?page_id=4872

Mýturnar: http://www.loftslag.is/?page_id=295

Og hér eru áhugaverðar slóðir þar finna má ýmis gögn:

http://www.climate.gov/

http://climate.nasa.gov/

http://www.nrdc.org/globalwarming/

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 17:01

24 identicon

Hnattræn hlýnun er orðin „issue“ hjá hinu fáfróða teboðsliði. Eins og ekki væri nóg komið með glórulausi bulli þeirra um „intelligent design“, sem átti að vera afneitun þeirra á þróunarkenningu Darwin‘s. Kenningin sem enginn menntaður maður afneitar í dag.

 

Kemur nú ekki sjalladúddinn og fyrrverandi stjórnmálamaður Jón Magnússon, með pungapróf í lögfræði, og ætlar að hafa vit fyrir fólki í vísindum sem hann skilur ekki og hefur núll menntun til að skilja.

Af hverju hafa þessir ignorantar ekki  vit á því að þegja í stað þess að opinbera fáfræði og heimsku?

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 19:15

25 identicon

Það má segja það sama um þína skoðun á þessu máli.  Kuklara skoðun, því þú hefur ekki einu sinni lesið Íslendingasögurnar.  Hefðir þú lesið þær, hefðir þú lesið að fyrir 1000 árum síðan var svo hlítt á Íslandi að hægt væri að rækta þar hveiti.

Ef þú ert í hópi þeirra, sem afneitar að eitthvað sé varið í Íslendingasögurnar, og það sé bara bull og vitleysa.  Þrátt fyrir að á botni kattegatt, hafi fundist efni sem styður þær og að Xianjang í Kína sýnir án efa, að Skandinavíu menn bjuggu þar fyrir 4000 árum síðan.  Þá væri hægt að benda þér á að Grændlandsjökull styður Íslendingasögurnar, með að það var gífurlegt hlíindaskeið á því tímabili, sem varaði í 180 ár.

Og ef þú ert í þeim hópi manna, sem bara velur að skoða niðurstöðu koltvísýrings í Íslögum, síðustu 100 árin.  Þá er hægt að benda þér á staðreyndir, yfir síðustu 400 þúsund ár, og síðustu miljón ár í þessum Íslögum.  Sem segir, svo að ekki sé um vilst að þá var hnattræn hlýnun margfalt á við það sem er í dag.  Ef við styðjum okkur við 350 ppmv í dag, þá var koltvísýringurinn meir en 2000 ppmv á tímum risaeðlanna.  Þannig að tölur þínar að þessa sé einungis af mannavöldum, er því miður ... bara kukl og pólitík, en ekki byggt á staðreyndum.

Og þó svo að maður byggði skoðanir sínar ekki einu sinni á tölum, bara á náttúru kunnáttu.  Þá, ættir þú sem Íslendingur að vita að í Svíþjóð voru regnskógar fyrir um 4-5000 árum síðan.  Og einhvern tímann fyrir langa löngu, var norður Svíþjóð hafsbotn.  Og úr þeirri staðreynd, ásamt þeirri staðreynd að Eystrasalt er innhaf (sötvatten), má lesa ýmislegt annað skemtilegt sem bendir til að margar nútíma vísindi, eru nú ekki eins miklar staðreyndir og þú heldur.

Pólitík og peningar hafa alltaf verið stór þáttur í skólageiranum, og það er ekki bara Verzlunarskólinn sem hefur gefið einkanir eftir stærð buddu foreldranna.  Það hefur verið gert í öðrum skólum, og alls staðar um allan heim.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 19:46

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Niðurstaða:

Mengum eins mikið og við mögulega getum.

Með kuldakveðju,

Sjálfstæðisflokkurinn
og hinar risaeðlurnar

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 19:58

27 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk, Ómar fyrir góða færslu, að vanda. 

Úr færslu númer 10 "Hefur það ekki lengur neina vigt hjá loftslagsvísindamönnum heimsins þegar Vilhjálmur Eyþórsson skrifar ítarlega?"

Af hverju ætti það sem einhver hobbíisti skrifar að hafa einhverja vigt? Hann getur pikkað á sína tölvu daginn út og inn, en það þýðir ekki að hann hafi nokkuð markvert fram að færa.

Hörður Þórðarson, 28.7.2014 kl. 20:01

28 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Þann 29.mars árið 2001 hélt Dick Cheeney ásamt Colin Powell og Condoleezu Rice fund um loftslagsbreytingar. Þessi fundur var með vitneskju og samþykki Bandaríkjaforseta sem þá var George Bush Jr. James Hansen yfirmaður NASA Goddard Space center var kallaður á fundinn og lýsir honum í bók sinni The Storms of my grandchildren.

Fundur þessi var haldinn ekki til þess að ræða hvort loftslagsbreytingar væru að gerast, hvort þær séu af mannavöldum - heldur til þess að ræða hvernig Washington og bandaríski herinn ættu að bregðast við loftslagsbreytingum.

Bandaríkjamenn eru nefnilega löngu búnir að ákveða að bjarga sjálfum sér og aðlagast breytingunum með markvissum aðgerðum.

En þeir vilja ekki hræða almenning og þess vegna var fundurinn sem var 29. mars árið 2001 aldrei auglýstur í fjölmiðlum.

Það er málið...

Stjórnmálamenn veraldarinnar vita nákvæmlega hver staðan er í loftslagsmálum. Þeir vilja hins vegar ekki skapa kvíða hjá almennum borgurum. Þetta mál er pólitískt erfitt.

Á Íslandi ríkir afneitun gegn loftslagsbreytingum, a.m.k. opinberlega, hvað sem menn segja prívat bak við lokaðar dyr.

Þannig er það bara.

Góðar stundir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 28.7.2014 kl. 20:11

29 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

"...Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn". Þeir trúa því að síðustu 14 ár hafi ekki verið hlý heldur köld...."

Þetta er aðferð sem tíðkast í pólitískri baráttu, gera mönnum upp skoðanir og berjast síðan af hörku á móti þeim. Flestir "efasemdarmenn" eins og ég kýs að kalla þá, efast ekki um hlýnun og ekki heldur að að síðustu 14 ár hafi verið hlý. Þar halda því hins vegar að meðalhitinn þessi 14 ára hafi haldist óbreyttur og efast þar að auki sérstaklega um hlýnun af mannavöldum.

Viðskiptablaðið spurði fyrir nokkrum árum þá Trausta Jónsson og Þór Jakobsson veðurfræðinga um það hversu mikið af hlýnun mætti telja af mannavöldum. Trausti vildi ekkert fullyrða um það en Þór giskaði á 10-15%. Eigum við kannski að afgreiða þá sem "kuldatrúarmenn"?

Finnur Hrafn Jónsson, 28.7.2014 kl. 21:25

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

Haldið endilega áfram að menga eins mikið og þið mögulega getið.

Það er að sjálfsögðu aðalatriðið í málinu.

Þorsteinn Briem, 28.7.2014 kl. 21:55

31 identicon

Allt er þetta á sömu bókina lært hjá Ómari. Raðbloggarinn slær fram getgátum og gróusögum að hætti hússins og alter- ego Ómars "Steini Briem" barnar svo bullið.

Ekki má gleyma Brynjólfi Þorvarðarsyni, Wikipedia-snillingi, og hinum hálærða Hauki Kristinssyni, sem er hreinlega gjörsneyddur öllu áliti á andmælendum sínum enda náttúrutalent par-excellence eins og Ómar.

Að sjálfsögðu fara fræðilegar umræður út um víðan völl og niðurstaðan er hanaslagur og upphrópanir - á meðan úti er sumar og sól, eða hvað?

Talandi um sumar og sól þá má minna á lag og texta Ómars Ragnarssonar frá 1965 um þetta skemmtilega samspil árstíðar og veðráttu.

Þú hlýtur að muna eftir þessu skemmtilega lagi þínu Ómar - og kannski rámar þig líka í smellinn "(Down At) Papa Joe's" með The Dixiebelles frá því herrans ári 1963.

Vissir þú að The Dixiebelles stálu laginu þínu Ómar?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 28.7.2014 kl. 23:04

32 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf litið á staðreyndir sem bull.

Þorsteinn Briem, 29.7.2014 kl. 00:14

33 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þessi pistill Ómars er einn sá ömurlegasti sem ég hef séð um þessa umræðu lengi. Engin virðing boring fyrir skoðunum annarra eisn og sést í þessum ummælum: "......rekur hópur manna upp ramakvein og afneitar þessu öllu."

Vilt þú að það sé sagt um þig, Ómar Ragnarsson, að í hvert skipti sem einhver nefnir virkjun og stóriðju ólmast Ómar Ragnarsson sem stungið naut í flagi rekur upp rammakvein að nú eigi að ganga frá náttúru landsins? (Tek það sérstaklega fram að ég er ekki fylgjandi frekari virkjunum eða stóriðju, og enn síður sæstrengsdraumórum.)

Ekki batnar nú umræðan með ummælum Harðar Þórðarssonar: "Af hverju ætti það sem einhver hobbíisti skrifar að hafa einhverja vigt? Hann getur pikkað á sína tölvu daginn út og inn, en það þýðir ekki að hann hafi nokkuð markvert fram að færa."

Mannfyrirlitningin skín í gegn og engin virðing fyrir skoðunum á málefninu. Að lærður maður láti svona frá sér er með ólíkindum.

Það virðist aldrei mega gagnrýna umræðuna um ætluð áhrif CO2 af mannavöldum á hitastig á sama tíma og hitastig jarðar hefur staðið í stað í tæp 18 ár, sem er u.þ.b. helmingur þess tíma sem hitastig hefur verið mælt nokkuð nákvæmlega á heimsvísu með gervihnöttum, án þess að menn séu sakaðir um afneitun. Hvurs konar þvaður er þetta?

Kjarninn málsins er þessi: Fullyrt hefur verið í eyru almennings að útblástur CO2 af mannavöldum sé frumorsök þess að hitastig jarðar hækkar; m.ö.o. hnattræn hlýnun er drifin af útblæstri manna á CO2. Þessu eru því miður ekki allir sammála og láta þá skoðun í ljós. Gögn sýna að þetta sama hitastig og CO2 á að hafa áhrif á hefur ekki hækkað í 18 ár, hvorki í hafi né á landi, á sama tíma og mælt gildi CO2 í andrúmslofti hefur aukist um 10% frá 1998, úr 360ppm í liðlega 400ppm í dag.

Á þessum sama tíma hefur 25% af allri áætlaðri losun manna á CO2 frá upphafi, þessari frumorsök þess að hitastig hækkar að því haldið er fram, átt sér stað eftir 1998 til dagsins í dag. Samt hefur hitastig ekki hækkað á sama tímabili. M.ö.o. orsök og afleiðing haldast ekki í hendur, miðað við þessi gögn.

Það eina sem vísindaheimurinn hefur að segja er AFNEITUN!

Hvers vegna má aldrei benda á þessar staðreyndir án þess að orðið afneitun komi upp?

Má ég að lokum benda á orð Hal Lewis prófessors emeritus í eðlisfræði sem sagði eftirfarandi liðlega ári fyrir andlát sitt um loftslagsbreytingar af mannavöldum: "the greatest and most successful pseudoscientific fraud I have seen in my long life as a physicist."

Erlingur Alfreð Jónsson, 29.7.2014 kl. 00:36

34 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Reykjavík var meðalhitinn sumrin (júní, júlí og ágúst) 2007-2012 0,7 stigum hærri en sumrin 2001-2006, þegar meðalhitinn var 11 stig.

Og að sjálfsögðu heldur Framsóknarflokkurinn að hitastigið sé hærra á sumrin á Akureyri en í Reykjavík.

Hins vegar ætti engum að koma á óvart að meðalhitinn hafi ekkert hækkað á sumrin á Akureyri.

Þorsteinn Briem, 29.7.2014 kl. 00:45

35 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumrin (júní, júlí og ágúst) 2001-2012 var meðalhitinn hærri í Reykjavík en á Akureyri, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.

Í Reykjavík
var meðalhitinn í júní á þessum árum um 0,7 stigum hærri en á Akureyri, í júlí um 0,6 stigum hærri og í ágúst einnig um 0,6 stigum hærri.

Þorsteinn Briem, 29.7.2014 kl. 00:52

36 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sumrin (júní, júlí og ágúst) 2001-2012 var meðalhitinn hærri í Reykjavík en á Akureyri, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.

Í Reykjavík
var hitinn þá að meðaltali um 11,3 stig en 10,6 á Akureyri.

Hitinn var því að meðaltali um 0,7 stigum hærri í Reykjavík en á Akureyri þessi tólf sumur.

Á þessum árum var meðalhitinn í Reykjavík í júní 10,3 stig, í júlí 12,0 og í ágúst 11,5 stig.

En meðalhitinn á Akureyri í júní var 9,6 stig, í júlí 11,4 og í ágúst 10,9 stig.

Þorsteinn Briem, 29.7.2014 kl. 00:56

37 Smámynd: Þorsteinn Briem

línurit

Þorsteinn Briem, 29.7.2014 kl. 00:57

38 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir upplýsingarnar um Dixiebelles, Hilmar? Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri þetta nafn nefnt.

Ég hef aldrei gert kröfu um að vera höfundur lagsins "Sumar og sól" ekki frekar en tuga eða hundruða erlendra laga, sem ég hef gert texta við og plötuútgefendur sögðust ætla að sjá um að leita leyfis til að gera texta við.

Á sínum tíma hafði ég ekki hugmynd um hverjir hefðu gert lagið sem ég hafði heyrt fyrir tilviljun í Kananum.

Heldur ekki um höfund lagsins Beep, beep og ýmissa annarra laga sem ég heyrði og gerði texta við.

Þú skalt ekki hafa stórar áhyggjur af miklum tekjum mínum af þessari textagerð.

Vegna þess að útgefendurnir vanræktu að leita réttinda hafa hingað til aðeins verið greiddur þriðjungur af þeim höfundarréttargreiðslum sem annars hefðu verið greiddar.

Nú vofir yfir að allur höfundaréttur okkar verði afnuminn og myndi það áreiðanlega gleðja þig mjög.

Varðandi útgáfurétt á þessum hundruðum laga getur líka verið alveg rólegur.´

Hjá rithöfundum færist útgáfurétturinn til rithöfunda ef útgefand

inn er aðgerðarlaus varðandi bókina í fimm ár.

Af þeim sökum hefur rétturinn af 9 af 10 bókum mínum færst til mín.

En í rúm 50 ár hefur útgáfurétturinn af lögunum mínum ekki hreyfst spönn, heldur hefur hann færst í gegnum sex gjaldþrot yfir í hvert plötuútgáfufyrirtækið á fætur öðru hjá mér og mörgum öðrum höfundum og flytjendum án þess að við höfum eignast þar nokkurn útgáfurétt.

Vona að þér létti mikið við að vita þetta.

Ómar Ragnarsson, 29.7.2014 kl. 01:50

39 identicon

Ekkert að þakka Ómar, enda næsta víst að þú þekkir málið betur en þú vilt vera láta. Hér erum við ekki að ræða "lagið sem hvarf" heldur er það merkt þér rækilega í bak og fyrir: Sumar og sól - Lag - texti: Ómar Ragnarsson (http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%93mar_Ragnarsson_-_Syngur_fyrir_b%C3%B6rnin)

En einhvern veginn verða menn að rækta garðinn sinn og ég er viss um að góðvinur þinn, Steini Briem, lumar á vísu um svona framferði :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 02:02

40 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"...þekkir málið betur en þú vilt vera láta..." Ekki er að spyrja að velviljanum í minn garð, sem skín út úr þessari setningu.

Fyrir hálfri öld var lítið pælt í höfundarrétti útlendinga af hálfu plötuútgefenda. Í þessum bransa var greinilega skákað í því skjóli að við byggjum á smáskeri út í ballarhafi úr því að í ljós hefur komið að þeir höfðu ekki fyrir því að leita leyfa fyrir þvi þegar gerðir voru textar við erlend lög, allt frá textunum "Til eru fræ" og "Maístjarnan" til "Californian dreaming" og "Að kvöldi dags."

Textahöfundar voru ekki hátt skrifaðir, heldur litið á þá sem eins konar handverksmenn sem ættu ekki betra skilið en lægsta taxta Dagsbrúnar þegar best lét.

Orðið textahöfundur segir sitt. Þetta voru textar, sem voru fjarri því að falla undir skilgreininguna ljóð.

Við, sem dunduðum við þetta, unnum þetta í fjöldaframleiðslu og litum ekki stórum augum á afurðirnar sjálfir. Það tók því ekki að fylgjast með því hvernig útgefendur unnu úr þessu auma handverki okkar.

Þótt þú vænir mig um lygar ("þekkir málið betur en þú vilt vera láta") er það þannig, að ég vissi aldrei og hef aldrei vitað hver flutti umrætt lag upphaflega og þaðan af síður hver samdi það.

Svipað á við aragrúa af lögum sem maður greip á lofti og gerði kannski löngu síðar texta við eins og Kappakstur, Amma húlar, Ég er svoddan jólasveinn..o.s.frv. sem rötuðu á plötur.

Það var ekki hægt að Gúggla neitt á þessum árum eða fara inn á Youtube, en það hefur gerbreytt öllu umhverfinu í þessum málum.

Útgefandinnn vissi þetta ekki heldur og einhvern tíma á ferlinum, afgreiddi hann málið með því að setja mitt nafn undir það á einhverri af þeim plötum, sem hann gaf út, án þess að það kæmi mér nokkuð við eða ég hefði nokkuð um það að segja.

Stundum var bara skellt setningunni "höfundur ókunnur" undir lagið á plötuumslaginu. Fljótlega urðu þessir textar mínir svo margir

og ég hafði svo margt að sýsla, að ég fylgdist ekkert með því hvað varð um þá, enda ekki metnir mikils.

Ef þú efast um það sem ég er að segja um þessa tíma, getur þú spurt aðra um það, sem voru að stússa í þessu á þessum árum og eru enn á lífi.

En kannski afgreiðir þú þá bara þannig að "þeir viti meira en þeir vilji vera láta".

Ómar Ragnarsson, 29.7.2014 kl. 10:33

41 identicon

Í fyrsta lagi, Ómar, er það dagljóst að "lagið" þitt - sem þú hefur verið skrifaður fyrir allar götur frá 1965 án þess að andmæla (49 ár!) - er þrælstolið. Er bara einfaldlega ekki kominn tími til þess að þú viðurkennir það?

Í öðru lagi heldur sú skýring þín að þetta sé í fyrsta skipti sem þú heyrir nafn Dixiebelles nefnt ekki vatni. Lagið (Down At) Papa Joe's lenti í 9. sæti á Billboard Hot 100 í September 1963 og var heitasti smellur The Dixiebelles.

Sem textahöfundur hefur þú hlustað á upphaflega lagið mörgum sinnum og ekki bara gert íslenskan texta við sjálfa laglínuna heldur textað millikaflann í laginu líka, sem þó er bara spilaður í orginal útgáfunni - Því nú er sumar, sumar, sumar og sól!

Þér til upplýsingar er J. Smith skráður höfundur lagsins 1963. Var hann kannski enn eitt alter-ego þitt í westurvegi á þeim tíma?

Og svo á bara að kenna útgefandanum (SG) blessuðum um lagastuldinn :)

Ómar Ragnarsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 11:31

42 identicon

Jerry Dean Smith

American musician, session keyboardist, songwriter, publisher and producer, mainly working in Nashville. He often collaborated with Bill Justis, with whom he performed as Cornbread And Jerry.

His recordings and compositions include "Lil' Ole Me", "(Down at) Papa Joe's", "Drivin' Home", "Truck Stop" and "Steppin' Out".

http://www.discogs.com/artist/935892-Jerry-Smith-4

J. Smith (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 15:44

43 identicon

Mikið afskaplega er leitt að sjá þessar ásakanir á hendur þér, Ómar.

Sjálfur er ég fæddur árið 1958 og minnist þess að hafa séð þig fyrst á sveitaskemmtun í Aðaldal árið 1969. 

Ég kann ennþá utanað textann við "Því ég er soddan jólasvein". Hann lærði ég á næsta ári, þá í sumarvist á Neskaupstað. Þar fannst plötuspilari og þessi jólaplata var sú eina sem vakt áhuga minn.  Bráðsnjall kveðskapur, og takk fyrir.

Þú átt drjúgan og kærkominn hluta í sándtrakki minnar kynslóðar.

---

Eins er leiðinlegt að sjá hvernig óværan "Hilmar Hafsteinsson" er búin að stökkva á þig (og Harald Sigurðsson) eftir að Trausta Jónssyni tókst að svelta "barnakennarann" af sér með því að leggjast í dvala.

Þetta er augljóslega maður sem gengur ekki heill til skógar.

Ekki að það breyti nokkru, en kannski hefur lúsin gaman af því að skoða þetta myndband með lagi  frá árinu 1957:

http://www.youtube.com/watch?v=3NUbDLmzS-s

Að lokum vil ég margfaldlega þakka þitt framlag til menningar Íslendinga. 

Jóhann Bogason (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 20:10

44 identicon

Góður pistill Ómar. Hér er linkur á ræðu Sheldons Whitehouse, öldungardeildarþingmanns (Rhode Island), þar sem hann tekur kollega sinn, James Inhofe (Oklahoma), í kennslustund um loftslagsbreytingar. Vel þess virði að horfa / lesa en því miður er ekki íslenskur texti með.

http://thinkprogress.org/climate/2014/07/29/3465442/whitehouse-blasts-inhofe-on-climate/

Árni Finnsson (IP-tala skráð) 29.7.2014 kl. 23:27

45 identicon

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.7.2014 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband