Yfir 3 stig 13,5 km frá Kárahnjúkastíflunum.

Fremri-Kárahnjúkur, sem Kárahnjúkastífla, hins stærsta af þremur stíflum Kárahnjúkavirkjunar, er byggð utan í, er eldfjall og stendur á sprungukerfi, sem teygir sig þangað frá Kverkfjöllum. 

Jarðhitasvæði, svonefndar Lindur, var rétt innan við Kárahnjúka, en er nú á botni Hálslóns.  

13,5 kílómetra í suðvestur frá stíflunum, eða rétt við Sauðárflugvöll, kom skjálfti yfir 3 stig í gær.

Við, sem höfum verið þar undanfarna daga, vorum þá farin þaðan til Akureyrar og fundum því ekki fyrir skjálftanum.

En flugumferðarstjóri á Akureyri sagði, að flugturninn hefði skekist til í stóra 5,7 stiga skjálftanum rétt fyrir hádegi i dag.  

Undir stærstu stíflunni við Kárahnjúka voru þrettán sprungur sem þurfti að líma eða þétta á ákveðinn hátt þegar stíflan var byggð ofan á þær.

Það hefur sést á jarðskjálftagögnum að síðasta sólarhringinn eru farnir að sjást skjálftar á línu milli Herðubreiðartagla og Upptyppinga, sem eru á kunnuglegum slóðum frá undanförnum árum, en sprungusveimur eða misgengi liggur frá Kverfkjöllum og norður í Kárahnjúka.en það er nýtt að skjálftar komi fram á sprungusveimnu, sem liggur milli Kverkfjalla og Kárahnjúka, hvað þá yfir 3 stig.

Svo stór skjálfti kom þar ekki í hrinunni, sem byrjaði við Upptyppinga sumarið 2007, stóð fram á næstu ár og hefur siðan komiö upp í litlum mæli við Herðubreið, Herðubreiðartögl, í Krepputungu og Álftadalsdyngju.  

Stærsta stíflan við Kárahnjúka er hönnuð til að standast skjálfta á bilinu 4 til 6 stig, eftir því hvort þeir eru alveg undir henni eða aðeins fjær.

En ekki hef ég séð nein gögn um það hvað gæti gerst, ef einhver af öllum sprungunum, sem liggja undir stífluna, giliðnar eða byrjar að leka.

Stíflurnar hafa lekið mjög lítið og öllu minna en víða gerist, til dæmis við Sigölduvirkjun. Þannig er áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal, sem er bergvatnsá, oft aurlituð af vatni sem ábúendur í dalnum segja að komi í hana úr göngunum.

Austar, við svonefndan Þrælaháls, er 5-7 kílómetra breitt misgengi af fjölmörgum gjám neðanjarðar, sem tók meira en hálft ár að bora göngin í gegnum, enda sú stærsta 9 metra breið.

Því er ósvarað hvað myndi gerast ef einhver gliðnun yrði þar.

Lögfræðingur Landsvirkjunar lýsti vel eðli þessara mannvirkja í bréfi sem hann sendi landeigendum á sínum tíma eftir að virkjunin var risin og málaferli hafin, til þess að sýna fram á það að þeir ættu ekki að láta sig dreyma um milljarða framlög vegna vatnsréttinda á svæðinu. Í því stendur orðrétt:

"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti..." 

 


mbl.is Jarðskjálfti fannst á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

5 identicon

"Après moi, le déluge" konungur, Louis XIV?

Brian Roger Haroldsson (IP-tala skráð) 27.8.2014 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband