Mikilvægasta orrusta síðustu aldar?

Þessa dagana eru rétt hundrað ár síðan Frökkum tókst að stöðva þýska herinn við ána Marne norðaustur af París og bjarga borginni frá því að falla í hendur Þjóðverja, en það hefði orðið til þess að stríðið á vestuvígstöðvunum hefði tapast og Þjóðverjar í framhaldinu unnið Rússa enn fyrr en ella og staðið uppi sem sigurvegarar í styrjöldinni, sem hefði tekið aðeins eitt til tvö ár.  

Í ýmsum sagnfræði- og herfræðiritum hefur tveimur mönnum, franska hershöfðingjanum Joseph Joffre og þýska hershöfðingjanum Von Moltke verið stillt upp sem þeim einstaklingum, sem réðu hvað mest úrslitum um það að í stað þýsks sigurs á undraskömmum tíma varð stríðið að meira en fjögurra ára löngu blóðbaði sem endaði með sigri Bandamanna en ósigri Miðveldanna.

Joffre tók réttar ákvarðanir á ögurstundum og hélt haus allan tímann, einkum vegna mikillar yfirvegunar og æðruleysis, sem meðal annars birtist í því að hann gætti þess að ofkeyra sig ekki, heldur halda fullri orku með því að hvílast og sofa nóg.

Von Moltke fór hins vegar á taugum og keyrði sig svefnlítinn út og var í kjölfarið settur af. 

Joffre hélt sig miklu nær víglínunni en Von Moltke og boðleiðir voru því greiðari og styttri hjá yfirstjórn franska hersins en hins þýska.  

Von Moltke hafði brotið gegn hinstu ósk Schlieffens, þess sem gerði innrásaráætlunina, þess efnis að halda hægri væng hersins nógu sterkum og veikja hann alls ekki.

Á þessum tíma voru varnir mun sterkari en sóknir í hernaði, og gat vel búinn og skipulagður her varist allt að tvöföldu ofurefli í mannafla í víggirtum skotgröfum og með beitingu vélbyssna.

Schlieffen áætlunin byggðist á því að verjast og halda í horfinu á syðri hluta víglínunnar með eins fámennu liði og unnt væri, -  en efla í þess stað hægri vænginn á nyrðri hlutanum svo mjög að liðsmunurinn gæti orðið þrefaldur eða jafnvel fjórfaldur þar og herinn brunað í gegnum Belgiu og í stórum sveig vestur fyrir París til þess að umkringja hana og knýja Frakka með því til uppgjafar.

Von Molkte og yfirherstjórnin óttuðust að taka áhættu varðandi vinstri vænginn, styrktu hann og veiktu í raun hægri vænginn með því. 

En þetta útskýrir ekki allt. Í nýrri ritum er áætlun Schlieffen gagnrýnd fyrir það að í henni var ofmetin geta hers með fótgönguliði og riddaraliði á þessum tíma til þess að sækja fram langar vegalengdir á stuttum tíma, berjast við óvinina og hafa með sér vistir og hergögn.

Bent er á að hestar Þjóðverja hefðu þegar verið farnir að örmagnast og hægja á sér áður en komið var inn í Frakkland og að fótgönguliðið hafði ekki úthald til þess að fara hina löngu bogadregnu leið um Belgíu og Norður-Frakkland til þess að komast vestur fyrir París.

Aðdrættir til hersins voru einfaldlega ekki nógu öflugir til að standa undir svona sókn. Fyrir bragðið sveigði herinn til vinstri til þess að fara styttri leið og komast hjá því að bil myndaðist á milli einstakra herdeilda. 

Í Seinni heimsstyrjöldinni breyttist þetta. Þá sáu brynvarðar vélaherdeildir Þjóðverja (Panzer) um að sækja hratt fram, vera frontur sóknarinnar og brjóta varnir andstæðinganna á bak aftur, og fótgönguliðið slapp við mikinn hluta bardagaálagsins fyrir bragðið og hreinsaði upp eftir vélaherdeildirnar.

Auk þess voru flutningar og aðdrættir framkvæmdir að stærstum hluta með vélknúnum flutningatækjum.

Sigur Miðveldanna á meginlandi Evrópu á öðrum áratug síðustu aldar hefði breytt sögunni út alla öldina og hugsanlega hefði ekki orðið nein Seinni heimsstyrjöld, að minnsta kosti ekki í Evrópu.

En að vísu er svo flókið að áætla alla þætti framvindu heimsstjórnmálanna með þessari breytingu í stríðinu 1914, að best er að láta það ógert.

Orrustur Seinni heimsstyrjaldarinnar, svo sem við Moskvu, Stalingrad, Kursk og El Alamein voru að vísu mikilvægar en voru að því leyti til ekki eins mikilvægar og orrustan við Marne, vegna þess að í seinna stríðinu var það ekki spurning um einstakar orrustur hvernig það fór, heldur um einföldustu atriði hernaðar á öllum tímum, magn vopna og fjölda hermanna.

Þar höfðu Bandamenn yfirburði í Seinni heimsstyrjöldinni.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Ja so...Ég las þetta tvisvar yfir - Þvílík samantekt. Ómar. - Maður sér fyrir sér bardagana í lestri þessa pistils, - Hafðu þökk fyrir hversu lifandi lýsing þín er sífellt. -

Þetta var ekki kennt í Laugarnesskólanum svona lifandi eins og þú lýsir þessu. - Frábæert hjá þér !

Maður fyllist andakt....Hvað eftir annað.

Takk.

Már Elíson, 14.9.2014 kl. 23:32

2 identicon

Þetta er frábær lýsing, en fari maður yfir fyrra stríð, þá er náttúrulega stoppið stóra við Verdun, og svo Somme....
Ég er nú reyndar svo púkalegur, að ég fell í þann kamp að telja að veltipunktur  hernaðarsögu 20. aldar hafivirkilega verið orrustan um Bretland 1940.
Um það gætum við skeggrætt fram á grafarbakkann Ómar ;)

Jóm Logi (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband