Flugvellir eru öryggisatriði.

Samgöngumannvirki eru ekki aðeins álíka nauðsynleg fyrir þjóðfélagið og æðakerfið er fyrir líkamann, heldur eru þau annað og meira; - öryggisatriði.

Þannig eru Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur ómissandi öryggisatriði fyrir millilandaflug okkar, og minnsta flugbraut Reykjavíkurflugvallar er öryggisatriði fyrir innanlandsflugið og sjúkraflugið.

Enginn veit fyrirfram hvenær það eigi eftir að koma sér illa að búið er að loka Patreksfjarðarflugvelli vegna fjárskorts Isavia, en landleiðin frá þeim flugvelli til þéttbýlsins á Patreksfirði liggur á láglendi meðfram strönd fjarðarins, en hins vegar er yfir tvo fjallvegi og talsvert lengri leið að fara til Bíldudalsflugvallar.

Fokker F50 flugvél missti afl á báðum hreyflum yfir Brúaröræfum í nóvember 2007 og farþegum var gert að setja sig í brotlendingarstellingu í sætum sínum í fyrstu, áður en það tókst að koma afli á annan hreyfilinn og lenda við afl hans eins á Egilsstaðaflugvelli.

Skipunin um brotlendingarstellingu var að vísu byggð á misskilningi flugfreyju, en hún var engu að síður einsdæmi í íslenskri flugsögu síðari ára og farþegarnir þurftu áfallahjálp á eftir.   

Þá var enginn nógu stór flugvöllur nothæfur fyrir Fokker F50 skráður og viðurkenndur á Brúaröræfum eða hálendinu eins og síðar varð og nú er.

Náttúruhamfarir á hálendinu vestan flugvallarins um þessar mundir minna á að enginn veiit hvenær hann og samgönguleiðir á landi á því svæði muni geta komið sér vel.  

Enginn vissi fyrirfram um það á sínum tíma hve vel tilvist flugbrautar á Grímsstöðum á Fjöllum ætti eftir að koma sér vel þegar alvarlegt hópslys varð við Hólsselskíl skammt norðan við Grímsstaði.  

Isavia telur sig ekki geta viðhaldið völlum eins og Sauðárflugvelli, Siglufjarðarflugvelli, Patreksfjarðarflugvelli og fleiri flugvöllum vegna fjárskorts og Orri Vigfússon og félagar hans munu væntanlega þurfa að borga Flugmálastjórn reglulega á hverju ári fyrir að fá að halda Siglufjarðarflugvelli opnum til öryggis og þæginda fyrir Siglfirðinga og aðra.

Viðhaldsleysi á Egilsstaðaflugvelli er þegar farið að hafa neikvæð áhrif á ástand hans.  

Ég býð Orra og félaga hans velkomna í hóp þeirra sem er ekki sama um ástandið í flugvallamálum á Íslandi.   

Ekki veitir af. Þeim sem hafa fjárveitingavaldið virðast ekki gera sér grein fyrir því öryggisatriði sem flugvellirnir eru. 


mbl.is Orri vill taka yfir flugvöllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Guðnason

Þegar ekki er skortur, gleymist mikilvægið. Hugsar t.d. nokkur: "Vatn er matvæli"? Svipað gildir um flugið. Horft er framhjá því að við búum á EYJU og að flug er grundvallarforsenda fyrir íslensku nútíma samfélagi. Enginn annar skjótvirkur flutnings- og ferðamáti stendur til boða, að og frá eyjunni okkar.

Samt er horft framhjá því að allir þættir flugsins eru samofnir. Án grunnþáttanna: flugáhugans, flugkennslunnar, flugvallanna o.s.frv. þrifist hvorki ISAVIA né atvinnuflugstarfsemin til lengdar.

Ég minni valdhafa á að byggja flugið upp - ekki brjóta niður: Íslensk flugstarfsemi varð til vegna brennandi áhuga eldhuga, sem sköpuðu smáþjóðinni okkar brautir á "himni" og jörðu. Flugið okkar varð alls ekki til af sjálfu sér

Þorkell Guðnason, 22.9.2014 kl. 09:36

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef einstaklingar og sveitarfélög geta séð um rekstur einhverra flugvalla er sjálfsagt að leyfa þeim það.

Og lengi verið ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður ekki á sama stað og hann hefur verið.

Þorsteinn Briem, 22.9.2014 kl. 12:03

4 identicon

Ekki er ég svo viss um að Reykjavíkurflugvöllur víki.
Legg svo til að setja flugbann á Steina.

Jón Logi (IP-tala skráð) 23.9.2014 kl. 07:59

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lestu nú samkomulagið áður en þú gapir um það, Jón Logi.

Þorsteinn Briem, 23.9.2014 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband