Grátlegt vanmat.

Sú saga er sífellt að endurtaka sig í veraldarsögunni að þjóðarleiðtogar hafa ekki skilið aðra þjóðarleiðtoga eða aðrar þjóðir og afleiðingarnar orðið dýrkeyptar fyrir alla. 

Verst hefur þó verið þegar þeir hafa alls ekki viljað leita eftir nauðsynlegum skilningi.

Sem dæmi má nefna að skilningsleysi Bandaríkjamanna á eðli þjóðfrelsisbaráttu Vietnama kostaði óþarft, langvinnt, skelfilegt og mannskætt stríð sem endaði með ósigri sterkasta herveldis heims.

Kanarnir gáfu sér að Vietnamar væru í einu og öllu leppar og útsendarar Rússa og Kinverja í heimsyfirráðaherferð kommúnista.

Auðvitað voru þeir, sem réðu í Norður-Vietnam, kommúnistar, en það var ekki aðalatriðið heldur hitt að barátta þeirra var ekki einasta þjóðfrelsisbarátta gegn nýlenduveldunum heldur barátta gegn ofurvaldi erlendra stórvelda almennt svo sem Kínverja og Japana.

Enda brutust út átök milli Víetnama og Kínverja þegar stríðið við Bandaríkjamenn var ekki lengur aðalatriðið. Og vinslit urðu á milli Rússa og Kínverja.  

Því meira sem gluggað er í aðdraganda stríðs Bandaríkjamanna og Japana á árunum 1940 til 1941, því betur kemur í ljós að gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, að ósveigjanleiki Japana í samningaviðræðum um deilumál þjóðanna hafi einn orðið til þess að stríðið braust á, blasir það við að úrslitakostir Bandaríkjamanna í nóvember 1941 voru gersamlega óaðgengilegir fyrir Japani.

Þess var meðal annars krafist að Japanir hættu hernaði sínum í Kína og drægju her sinn þaðan.

Að sjálfsögðu var hernaður Japana í Kína líklegast hroðalegasta og grimmansta herför síðustu aldar og árásar- og útþenslustefna þeirra sömuleiðis. En harðlínumönnum í Japan tókst að halda þessari stefnu fram í krafti þess að Japanir bæru óþarflega mikinn skarðan hlut frá borði í kapphlaupi nýlenduveldanna um lönd í Afríku og Asíu. 

Í nóvember 1941 blasti það við, að Japanski herinn yrði olíulaus innan tveggja mánaða ef ekki linnti viðskiptaþvingunum og öðrum aðgerðum Bandaríkjamanna til að "svelta" japanska herinn til hlýðni og upphgafar.

Að vera auðmýktur með því að beygja sig í duftið var miklu meira mál fyrir Samuraiana japönsku en fyrir vestræna ráðamenn. Auðmýking eftirgjafarinnar jafngilti algerum ærumissi, sem var miklu alvarlegra mál hjá japönskum herforingjum en samsvarandi eftirgjöf hjá vestrænum valdamönnum.

Í slíku tilfelli var aðeins um tvo kosti að ræða fyrir japönsku herforingjana , að ganga til orrustu eða að fremja kviðristu, harakiri.

Þýskaland var niðurlægt og sært stórveldi í upphafi kreppunnar 1930. Búið var að hluta ríkið í sundur í tvennt þannig að Þjóðverjar urðu að fara í gegnum "óvinaland" á milli Þýskalands og Austur-Prússlands.

Skaðabótakröfur Versalasamninganna voru ósanngjarnar og niðurlægjandi, að ekki sé talað um það að ALLRI skuldinni af Fyrri heimsstyrjöldinni var skellt á Þjóðverja.

Í fróðlegum breskum þáttum, sem nú eru sýndir í Sjónvarpinu um upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar, koma vel fram brestir í hinum gömlu kenningum um aðdraganda stríðsins, meðal annars um það hve herská þýska þjóðin sjálf hefði verið. Þvert á móti áttu friðarhreyfingar og friðarpólitík meira fylgi þar en í flestum öðrum löndum, þótt keisarinn og ýmsir ráðamenn í hernum aðhylltust vígbúnað. 

Það verður að "skilja óvininn" til að átta sig á gjörðum hans, jafnvel það að ein helsta menningarþjóð Evrópu, sem ól af sér Beethoven og Göthe, skyldi ganga mestu villimennsku síðustu aldar á hönd í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar.

Öfgasamtök á vorð við ISIS sem nú láta að sér kveða, blása í glæður andúðar meðal þjóða þriðja heimsins á langvarandi arðráni og ofurvaldi vestrænna stórvelda víða um heim, sem eigi þátt í hungri og dauða milljóna fátæklinga á svæðum örbirgðar og skorts.

Trúarbrögð eru misnotuð til þess að magna hefndarhug með tilheyrandi illvirkjum.

Pútín Rússlandsforseti, sem svo sannarlega stundar lítt geðslega stjórnarhætti, nýtir sér sært stolt fyrrverandi stórveldis og landlæga og aldagamla tortryggni Rússa í garð þeirra sem seilast til aukinna áhrifa í nágrannalöndum Rússlands og fyrrverandi Sovétlýðveldum og virka ógnandi í augum rússneskra valdhafa, sem minnugir eru þess þegar Þjóðverjar seildust til aukinna áhrifa í Austur-Evrópu í aðdraganda innrásar Hitlers í Sovétríkin 1941. 

Nauðsynlegt er fyrir Vesturveldin að skilja þetta og haga pólitík sinni í samræmi við það.  

 

 


mbl.is Nauðsynlegt að skilja óvininn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Engin sérstök ástæða til að ætla að Vesturveldin botni ekkert í þessu öllu saman.

Þorsteinn Briem, 1.10.2014 kl. 00:44

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sennilega nokkuð til í því, Steini. Annars hefðu þau farið í hart út af hljóðlátri innlimun Krímskagans í Rússlands, meðal annars vegna þess óvenjulega og skammsýna gernings Krústjoffs að "gefa" hann Úkraínu á sínum tíma.

Ómar Ragnarsson, 1.10.2014 kl. 02:45

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Krímskagi er núna hluti af Rússlandi og harla ólíklegt að því verði breytt.

Þorsteinn Briem, 1.10.2014 kl. 03:05

4 identicon

Ég á athyglisverða grein um "embargo" Bandaríkjamanna á Japan. Því er haldið fram að þeir hafi neyðst í stríð vegna þess, - en það var flóknara. Þeir byrjuðu áður, - í Kína ´37 ef ég man rétt, og svo voru þeir svarnir óvinir Rússa. - unnu flota-sigur við Port Arthur 1904, en fengu flengingu að hálfu Chukov's við Khalkin Gol 1938.
Þeir voru ekki neyddir til stríðs, en stoltið viktaði meira en almenn skynsemi. Alveg eins og Yamamoto taldi frá upphafi.

Jón Logi (IP-tala skráð) 2.10.2014 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband