Hvers vegna þetta pukur hér?

Herir og lögregla allra þjóða þurfa á tækjabúnaði að halda. Talið er eðlilegt að almenningur, sem þessar stofnanir þjóna, viti, hvaða búnaður er keyptur, af hverjum og fyrir hve mikla peninga. 

Það er ekki og hefur yfirleitt ekki verið leyndarmál í öðrum löndum, hve margar herþotur eða hve margar fallbyssur eða herskip hefur verið um að ræða, og það er einnig strax uppi á borðinu hvaða reglum um útboð á kaupunum er fylgt og af hverjum er keypt.

Nú sést sáran kvartað yfir því í netmiðlum að vondir íslenskir fjölmiðlar hafi af óþörfu þyrlað upp moldviðri í sambandi við endurnýjun lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar á byssukosti sínum.

Eins og áður er talið sjálfsagt að skjóta sendiboða tíðindanna.

Þessir gagnrýnendur sjá ekkert athugavert við það að það er búið að taka marga daga að toga upplýsingar um þessi vopnakaup með töngum upp úr yfirvöldum lögreglu og strandgæslu, því að slík hefur upplýsingatregðan verið, að mestallan þennan tíma hefur aðeins hluti upplýsinganna fengist og því aðeins hluti sannleikans í boði hverju sinni, aðeins það allra minnsta sem yfirvöldin hafa drattast til að staðfesta hverju sinni.

Það þýðir í raun, að þessa daga hefur aðeins verið röng mynd af málinu á kreiki, og fjölmiðlum kennt um það.

En fjölmiðlar hafa aðeins verið að vinna vinnuna sína, og hefðu yfirvöld frá upphafi þessa máls greint skýrt og skilmerkilega frá málavöxtum, hefði aldrei orðið til það sem er kallað "stóra byssumálið".

Spurningin er nefnilega þessi: Úr því að aðrar þjóðir telja eðlilegt að viðskipti opinberra aðila með vopn séu uppi á borðinu og þau gerð með fullri vitneskju almennings, hvers vegna er allt þetta pukur hér?

Það eru nefnilega yfirvöld lögreglumála og Landhelgisgæslunnar sem virðast hafa talið þetta svo ofboðslega stórt mál, að það þyrfti að fara með það eins og eitt af stærstu öryggis- og leyndarmálum ríkisins.    


mbl.is Greiddu ekki fyrir vopnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Pukur og pukur Ómar! það vita allir sem vilja að MP5 voru keyptar 6-6-2010 og það eru alt alt aðrar tölur þar en sem er verið pukrast með núna.

Eyjólfur Jónsson, 24.10.2014 kl. 12:32

2 identicon

Góð færsla.

Það er án efa á brattan að sækja fyrir fjölmiðlamenn sem ympra á "óþægilegu" umræðuefni. Skv. Íslenskri umræðuhefð  stökkva  þá allir málinu viðkomandi beint í skotgrafirnar og beita öllum brögðum til að  forðast málefnalega umræðu, m.a. árásum á "sendiboða tíðindanna".  Fjölmiðlarnir birta svo viðbrögðin og eftir situr áttavilltur lesandi sem veit ekki hverjum eða hverju sé trúandi og dregur þá ályktun að engu og engum sé treystandi.

Það hefur hvarflað að mér að kannski sé "rannsóknarblaðamennska" okkar einfaldlega á frumstigi og líka að fréttaflutningur fjölmiðlageirans þurfi að vera meira samhengistengdur og kannski myndi ekki saka að hafa öfluga fréttaskýringaþætti og "leiðara" okkur almúganum til gagns.

Agla (IP-tala skráð) 24.10.2014 kl. 16:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alltaf að ráðast á þá sem birta staðreyndir, til að mynda í dagblöðum og á bloggsíðum, sem einnig eru fjölmiðlar.

Þegar upp er staðið er máttur orðsins ætíð meira en skotvopnanna.

Þorsteinn Briem, 24.10.2014 kl. 18:00

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þegar upp er staðið er máttur orðsins ætíð meiri en skotvopnanna, átti þetta nú að vera.

"Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

(Halldór Laxness, Innansveitarkronika.)

Þorsteinn Briem, 24.10.2014 kl. 18:50

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Smjörklípa er hugtak sem Davíð Oddsson kom í umferð og er notað yfir þá aðferð í opinberri umræðu að beina athyglinni frá eigin vandamálum eða athöfnum með því að benda á eitthvað annað bitastæðara.

Hugtakið er rakið til Kastljóssþáttar 3. september 2006 en þar var Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri spurður um aðferðir sem hefðu gagnast honum í pólitík.

Hann sagði þá sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilisköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum í smá tíma.

Smjörklípuaðferðin
er nátengd orðum Megasar: "Svo skal böl bæta að benda á annað verra.""

Þorsteinn Briem, 24.10.2014 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband