Saga Dana var samofin okkar sögu.

Þættirnir 1864 snerta okkur Íslendinga á margan hátt, ekki síst vegna þess að á þeim tima vorum við hluti af Danaveldi. Stríðið 1864 kom Dönum harkalega niður á jörðina.

Gríðarleg þjóðernishyggja fór um Danmörku eins og glögglega kemur fram í þessum fanta vel gerðu þáttum og svo undarlegt sem það kann að virðast, átti Jóns Sigurðsson mikinn þátt í því með verkum sínum, sem snertu uppruna og menningu bæði Dana, Íslendinga og annarra norræna þjóða.

Leitun mun vera að nokkurs konar nýlenduveldi eins og Danir voru gagnvart Íslendingum, þar sem aðal sjálfstæðishetja hjálendunnar var á kaupi hjá herraþjóðinni og haldið uppi af henni.

Einnig er merkilegt að sjálfstæðisbarátta okkar skyldi ekki kosta neitt mannslíf, og aðstoð Dana við okkur í Móðuharðindunum og afhending handritanna síðar, var einsdæmi í samskiptum þjóða, hvort atriðið á sinni tíð.

Í þáttunum er samning stjórnarskrárinnar 1849 mikið montmál fyrir Dani að vonum, og það snertir okkur Íslendinga, því að okkur var meinað að semja okkar eigin stjórnarskrá á þjóðfundinum 1851 og sitjum enn uppi með stjórnarskrána frá 1849 í öllum megindráttum.

Aðalsmenn danskir voru skyldir til að senda syni sína í herinn fyrir konunginn en í staðinn fengu synirnir ókeypis langskólanám.

Styrjöldin 1864 var mikil blóðtaka fyrir danska aðalinn en íslenski aðallinn, embættismenn, stórbændur og klerkar, fengu ókeypis nám við fyrir syni sína í Kaupmannahöfn, en slapp við það að þurfa að senda syni sína í herinn og láta þá úthella blóði sínu eins og gerðist í hinu hræðilega stríði 1864.

Enn eimir eftir af þessu sérstæða sambandi. Sonur minn fékk sérstaklegan og ríflegan afslátt af skólagjöldum við danskan háskóla á grundvelli hinnar gömlu hefðar, af því að foreldrar hans höfðu verið þegnar Danakonungs sín fyrstu ævi ár.

Tap Dana í stríðinu 1864 kom Íslendingum til góða 1918, þegar Danir urðu að gefa Íslendingum kost á að kjósa um framtíðarskipan sambands landanna til þess að vera samkvæmir sjálfum sér í því að krefjast þess að íbúar í Slésvík fengju líka að kjósa um sína framtíð.  

 

 

 


mbl.is Og þess vegna er danska óskiljanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

"Enn eimir eftir af þessu sérstæða sambandi. Sonur minn fékk sérstaklegan og ríflegan afslátt af skólagjöldum við danskan háskóla á grundvelli hinnar gömlu hefðar, af því að foreldrar hans höfðu verið þegnar Danakonungs sín fyrstu ævi ár."

Ég þekki Grundlovsákvæðið um Íslendinga. Þau er að finna í 87 grein laganna frá 1953. Þar stendur ekkert í líkingu við það sem þú segir.

Ég er forvitinn að vita hvaða danskur háskóli hefur krafist skólagjalda af Íslendingum, fyrr en nú á allra síðustu árum? Forvarðanám kostaði, og gerir líkast til enn, en taka ber fram að Ólafur forvörður sem finnur öll fölsuðu málverkin var ekki kostaður til náms í Danmörku.

§ 87
Islandske statsborgere, der i medfør af loven om ophævelse af dansk-islandsk forbundslov m.m. nyder lige ret med danske statsborgere, bevarer de i grundloven hjemlede rettigheder, der er knyttede til dansk indfødsret.

Samkvæmt þessu ákvæði, getur Ómar Ragnarsson og aðrir Íslendingar sem fæddir eru fyrir sambandsslitin litið á sig sem Dani, ef þeim hugnast svo, en það gildir ekki fyrir börn Íslendinga sem fæddir eru fyrir 1944. Fyrir þau gilda samnorrænar reglugerðir og nú í meira mæli ESB reglur sem Danir taka fram yfir þær norrænu. Danir elska Þýskaland+ meira en Norðurlöndin, og á það líka við um Svíþjóð og Finna. 

Þess ber einnig að geta að sagnfræðilega eru þættirnir sem bera heitið 1864 i danska sjónvarpinu, mjög þunnir og hafa danskir sagnfræðingar keppst um að gagnrýna þá vegna ýmissa galla og meinloka.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 02:58

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslendingar urðu íslenskir ríkisborgarar 1. desember 1918, enda varð Ísland þá sjálfstætt ríki.

Og í athugasemdum dönsku og íslensku nefndarmannanna um Sambandslagasamninginn segir meðal annars:

"Um 6. gr. Sjálfstæði landanna hefur í för með sér sjálfstæðan ríkisborgararétt."

Móðurafi minn fæddist hér á Íslandi sem danskur ríkisborgari árið 1899, fimm árum áður en Ísland fékk heimastjórn og varð þá að sjálfsögðu ekki íslenskur ríkisborgari en það varð hann 1. desember 1918 þegar Ísland varð sjálfstætt ríki.

Og dætur hans fæddust sem íslenskir ríkisborgarar á fjórða áratugnum.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 03:39

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Steini Briem, 6. greinin skýrir sjálf meira en athugasemdin. 7. greinin sýnir okkur að þú veður í villu eins og oft áður, enda plokkar þú úr lögunum að hentugleika.

Sjálfstæður ríkisborgararéttur (með Dönum, skv. 6. grein) er ekki það sama og íslenskur ríkisborgararéttur.  Skýringarnar við 6. grein fjalla um jafnræði Íslendinga og Dana. Þú velur aðeins eina setningu úr til að koma með afdalaskýringu þína.

Sjá:  http://www.skjaladagur.is/2008/001-3-1.html#

Ríkisborgaréttur, sem kveðið er á um í Stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins, gefur fullan íslenskan ríkisborgararétt. Þess vegna var t.d. Grundloven í Danmörku breytt árið 1953. Hún gerði Íslendingum fæddum fyrir sambandsslit kleift að velja danskan ríkisborgararétt ef þeim þótti svo hentugast.

Hins vegar er vel vitað að Íslendingar voru aldrei sáttir við 6. og 7. grein samningsins frá 1918, þó svo að meirihluti kosningabærra landsmanna hafi samþykkt hann.

Móðir þín og systur hennar fengu því ekki íslenskan ríkisborgararétt fyrr en 1944, Steini Briem. Fyrir þann tíma voru þær með sjálfstæðan ríkisborgararétt jafnréttháan rétti Dana, sem vildu þar með fyrst og fremst tryggja viðskipti sín á Íslandi. Danir fóru áfram með utanríkismál Íslendinga. Ísland var fullvalda en ekki í utanríkismálum. Það er ekki sjálfstæði og borgari slíks lands er aðeins með sjálfstæðan ríkisborgararétt, en ekki borgari í Íslensku, fullvalda ríki.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 08:24

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er nú samt sem áður svo að þegar sonur minn fór að kanna möguleika sína á námi við háskólann í Horsens komst hann að því sem ég er að greina frá varðandi forréttindi þeirra sem ættu foreldra, sem hefðu verið þegnar Danakonungs.

Og Kristján tíundi var konugur og þjóðhöfðingi Íslands og Íslendinga 1940-44 rétt eins og hann var þjóðhöfðingi og konungur Dana.

Ómar Ragnarsson, 28.10.2014 kl. 08:59

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland hefur ekki verið hluti af danska ríkinu frá 1. desember 1918.

Í athugasemdum dönsku nefndarmannanna um Sambandslagasamninginn 1918 segir meðal annars:

"Ísland myndi samkvæmt þessu verða frjálst og sjálfstætt land [...] og þannig eins og Danmörk sérstakt ríki með fullræði yfir öllum málum sínum [...]".

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur væntanlega að Kanada sé hluti af Bretlandi, þar sem Elísabet Bretadrottning er þjóðhöfðingi beggja ríkjanna.

1. desember 1918 fékk Ísland forræði utanríkismála sinna.

Stefnan í utanríkismálum Íslands var ákveðin af ríkisstjórn Íslands en framkvæmd af dönsku utanríkisþjónustunni í umboði Íslendinga.

Og utanríkismálin heyrðu undir forsætisráðherra Íslands.

Í ágúst 1919 skipuðu Danir fyrsta erlenda sendiherrann á Íslandi, J.E. Bøggild, sem var af íslenskum ættum.

Í ágúst 1920 var fyrsta sendiráð Íslands opnað í Kaupmannahöfn og Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, var skipaður fyrsti sendiherra Íslands.

Sambandslagasamningurinn 1918:


"7. gr. Danmörk fer með utanríkismál Íslands í umboði þess. [...]"

Og Íslendingar hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá 1. desember 1918.

"
Um 6. gr. Sjálfstæði landanna hefur í för með sér sjálfstæðan ríkisborgararétt."

Færeyingar og Grænlendingar
eru hins vegar danskir ríkisborgarar, en ekki færeyskir og grænlenskir ríkisborgarar, enda eru Færeyjar og Grænland enn hluti af konungsríkinu Danmörku og eiga þingmenn á danska þinginu, Folketinget, en það hafa Íslendingar að sjálfsögðu ekki átt frá 1. desember 1918.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 09:24

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Ómar,

Það hefur aldrei verið háskóli í Horsens. Þar var Horsens Tekniske Skole (Horsens Tekninkum), sem í dag er víst orðinn hluti af VIA University College.  

Íslendingar gátu fengið sérstakan "eyjaskeggjaafslátt" ef þeir fengu vinnu með námi. Þetta nýttu sér mjög fáir, enda var ekki verið að segja fólki frá þessum möguleika sem stóð mjög neðarlega neðanmáls í skattalöggjöf Dana.  Ég veit ekki hvort þessi möguleiki er enn fyrir hendi. Ekki mun þessi afsláttur hafa verið mikið betri en afsláttur sá sem námsmenn fengu yfirleitt í Danaveldi, en eitthvað hærri þó. Ég missti alveg af þessu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 10:25

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Steini Briem,

ég fer nú ekki að endurtaka það sem ég skrifaði fyrr í dag.  Ísland og Íslendingar fengu Fullveldi árið 1918. Vegna þýðingarvanda á, og/eða óánægju með 6.  grein samningsins, standa sumir á því meiningu, að þeir hafi fengið sjálfstæði árið 1918. Það er rangt. Þjóð verður ekki sjálfstæð þegar önnur þjóð fer með utanríkismál þeirra. 

Við höldum upp á Fullveldisdag með fríi í skólum ár hvert, til að minnast þess að við fengum Fullveldi. En sjálfstæði fengum við ekki fyrr en árið 1944. 

Íslendingar voru "sjálfstæðir ríkisborgar" í fullveldinu en fengu ekki sjálfstæði og íslenskan ríkisborgararétt fyrr en árið 1944. Til hvers voru Íslendingar annars að slíta samningnum þegar það var mögulegt samkvæmt honum?

Ráðlegg þér að lesa textann betur, og lesa ekki bara fyrstu setninguna í hverri grein samningsins. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 10:33

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stefnan í utanríkismálum Íslands var ákveðin af ríkisstjórn Íslands en framkvæmd af dönsku utanríkisþjónustunni í umboði Íslendinga.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 10:37

9 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Grein 87 i Den Danske Grundlov (1953) skýrir meinloku þína Steini. En aldrei hefur verið neitt í dönskum lögum, fyrir utan skattareglugerðir, sem greitt hefur götu Íslendinga fjárhagslega í Danmörku fram yfir aðrar þjóðir. Sameiginlegur "Sjálfstæður ríkisborgaréttur" Íslendinga og Dana úr Fullveldinu, færði börnum Íslendinga, fæddum fyrir 1944 enga umbun eða sérréttindi í Danmörku.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 10:39

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Íslendingar fengu forræði utanríkismála sinna árið 1918.

Þau heyrðu í upphafi undir forsætisráðherra, sem þá var Jón Magnússon, og frá árinu 1929 var starfrækt sérstök utanríkismáladeild við forsætisráðuneytið."

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 10:43

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá 1. desember 1918 voru Danmörk og Ísland tvö aðskilin og jafnrétthá ríki, enda þótt þau hefðu sama þjóðhöfðingja.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 10:45

12 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Var það kannski þess vegna að Íslendingar "copy-pastuðu" öll dönsk lög varðandi lögreglumál og útlendingalöggjöf? Meira að segja eftir sjálfstæðið árið 1944 hjálpuðu Danir íslenskum utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssyni, að komast á fundi erlendis.

Lestu þér til um samninginn hér  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=276365&lang=gl og hér:http://www.skjaladagur.is/2008/001-3-1.html#

Þegar lögin tóku gildi árið 1918 höfðu menn ekki einu sinni sinn Hæstarétt. Hann kom ekki fyrr en ári síðar.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 10:52

13 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Men slitu samningnum formlega árið 1944, eins og samningurinn gerði ráð fyrir að væri möguleg - til þess að fá SJÁLFSTÆÐI.   Ísland varð sjálfstætt lýðræði og íbúarnir fengu íslenskan ríkisborgararétt. Þeir höfðu frá 17. júni 1944 fullt vald yfir öllum sínum málum. Það er sjálfstæði. Fullveldi er aðeins lagateknískt fyrirbæri, sem Íslendingum var veitt með sérsamningi, sem sniðinn var sérstaklega fyrir Ísland. Samlíkingar við Færeyjar og Grænland eru út í hött.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 10:56

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sambandslagasamningurinn 1918:

"8. gr. Danmörk hefur á hendi gæslu fiskveiða í íslenskri landhelgi undir dönskum fána þar til Ísland kynni að ákveða að taka hana í sínar hendur, að öllu eða nokkru leyti, á sinn kostnað."

Íslensk landhelgisgæsla hófst upp úr 1920
og þá með leiguskipum en 23. júní 1926 kom til landsins fyrsta varðskipið sem smíðað var fyrir Íslendinga, gufuskipið Óðinn."

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 10:59

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sambandslagasamningurinn 1918:

"9 gr.  Myntskipun sú sem hingað til hefur gilt í báðum ríkjum skal vera áfram í gildi meðan myntsamband Norðurlanda helst.

Ef Ísland kynni að óska að stofna eigin peningasláttu verður að semja við Svíþjóð og Noreg um það hvort mynt sú sem slegin er á Íslandi skuli vera viðurkenndur löglegur gjaldeyrir í þessum löndum."

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 11:02

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sambandslagasamningurinn 1918:

"10. gr. Hæstiréttur Danmerkur hefur á hendi æðsta dómsvald í íslenskum málum þar til Ísland kynni að ákveða að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu. [...]"

Einari Arnórssyni prófessor var falið að semja frumvarp til laga um Hæstarétt Íslands, sem lagt var fyrir Alþingi árið 1919 og samþykkt þar óbreytt að mestu leyti."

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 11:05

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eina raunverulega breytingin sem varð samkvæmt stjórnarskránni 1944 var að þá varð forseti þjóðhöfðingi Íslands í stað konungs.

"75. gr. ... Nú samþykkir Alþingi breytingu á sambandslögum Íslands og Danmerkur og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna á landinu til samþykktar eða synjunar og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg."

"Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær sem beinlínis leiðir af sambandsslitunum við Danmörku ..."

Stjórnarskrá Konungsríkisins Íslands með síðari breytingum

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 11:16

18 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.10.2014 kl. 11:23

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kristján 10. var annars vegar konungur Danmerkur og hins vegar konungur Íslands.

"9 gr. Myntskipun sú sem hingað til hefur gilt í báðum ríkjum skal vera áfram í gildi meðan myntsamband Norðurlanda helst."

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 11:31

20 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg er sammála Steina í meginatriðum - en í raun má segja að svokallað ,,fullveldi" hafi verið komið mun fyrr, 1904 eða jafnvel enn fyrr, svo sem um 1870. Eftir það var deilt um aukaatriði og neðanmálsgreinar uppá íslenska lagið.

Málið var hinsvegar það að íslendingar þáðu peningastyrk frá dönum - og þegar svo er þá vilja þeir sem fjármagna auðvitað hafa eitthvað um mál að segja.

Athyglisvert þetta með Landhelgisgæsluna, að danir borguðu hana - og samkv. síðustu fréttum borga Norðurlönd hana að meira eða minna leiti enn!

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.10.2014 kl. 12:39

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Danir aðstoðuðu Íslendinga með ofangreindum hætti að beiðni þeirra sjálfra.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 16:12

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fullveldi - Sjálfstæði gagnvart öðrum ríkjum."

"Fullveldisréttur - Réttur ríkis
til að beita löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldi sínu."

(Lögfræðiorðabók með skýringum, Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.)

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 16:21

23 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Nákvæmlega.

Þessi svokallaða ,,sjálfstæðisbarátta" íslendinga er að mörgu leiti umhugsunarverð.

Ef fólk fer að lesa, ískalt og af hlutlausri fjarlægð, endalaust þras íslendinga varðandi fullveldi eða sjálfstæði - þá er eins og menn hafi verið að leita að einskonar paradís. Þ.e.a.s. að algjört fullkomið sjálfstæði virðist hafa verið skilið sem að íslendingar ættu að lifa hér einir og afskiptir, allt í höndum íslenska stofnsins o.s.frv. - og þá mundi koma barasta paradís. Og þá vegna þess hve íslenski stofninn væri frábær og bæri af öðrum þjóðum.

Ísland var búið að fá fjárveitingarvald og löggjafarvald þarna uppúr 1870. Jú jú, konungur hafði neitunarvald - en hvenær beitti hann því? Jú, það var helst þegar að ofstopi innlendrar elítu gekk fram úr hófi!

Sem dæmi má nefna að talsverður styr stóð um það að íslendingar vildu fá að halda þeim vana að húsbændur mættu hýða vinnufólk. Danir neituðu. Man þetta nú ekki nógu vel í augnablikinu - en það var allt eftir þessu.

Þessvegna skilur maður ekki alveg hugarfar a.m.k. sumra vesturfara, að svo er að skilja að sumir þeirra hafi fundist seint ganga að fá algjört og fullkomið sjálfstæði frá Danmörku - að það sýndi sig vel að réttindi almennings voru síður en svo betur trygg í höndum íslendinga. Þvert á móti.

Enda segir alveg ákv. sögu að eftir að íslendingar fengu fjárveitingavaldið algjörlega þarna um 1870 - að þá mátti bókstaflega ekki neitt gera!

Þeir ráku dæmið eins og einhverjir búrar þar sem engu mátti eyða og ekkert gera og ekki leggja anngjarnar álögur á hina betur stæðu.

Það mátti ekkert gera fyrr en um 1905 þegar menn ruku til og byggðu heljarmikinn konungsveg austur í Hreppum og ætluðu Friðrik 8. að sportkeyra þar á hestakerru.

Það er dýrasta framkvæmd íslandssögunnar hlutfallslega. Þeir settu landið nærri á hausinn við það.

Enginn virðist hafa spurt kóng eða þar til bæra aðila útí Danmörku hvort konungur vildi keyra í hestakerru Austur í Hreppum.

Svo þegar á reyndi fóru kóngur allar sínar ferðir á hestbaki, minnir á gráum hesti en Hannes á skjóttum, - enda báðir miklir hestamenn.

Vegurinn var aldrei notaður hvorki af kóngi eða öðrum enda fundu þeir Hreppamenn ekki upp hjólið fyrr en löngu seinna. Voru á móti því rétt eins og símanum. Móti öllum framförum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.10.2014 kl. 21:26

24 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 og aðdragandi að setningu hennar:"

"Sérstök mótstaða var hér á landi við atvinnufrelsið enda var það talið höggva að undirstöðum hins fábreytta íslenska bændasamfélags þar sem gildandi voru strangar reglur um vistarbönd og vistarskyldu vinnufólks og lausamennska var litin hornauga.

Fyrir setningu stjórnarskrárinnar 1874 hafnaði Alþingi þannig öllum tillögum dönsku stjórnarinnar um afnám hafta á atvinnufrelsinu."

"Að ýmsu leyti gengu tillögur dönsku stjórnarinnar lengra en þær kröfur sem Íslendingar sjálfir gerðu."

"Hér á landi var við lýði fábreytt og íhaldssamt bændasamfélag sem tók hugmyndum um ýmis frelsisréttindi borgaranna fremur fálega.

"Þannig voru Danastjórn og fulltrúar hennar í raun þau öfl á Alþingi sem voru helstu boðberar aukins frjálslyndis og ýmissa frelsisréttinda á Íslandi á síðari hluta 19. aldar."

(Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Stjórnskipunarréttur og mannréttindi, útg. 2008, bls. 27-30.)

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 22:23

25 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Einmitt.

En íslendingum hefur verið innrættur boðskapur sem er alveg á haus við veruleikann. Er soldið merkilegt.

En eg vil aðeins bæta við eftirfarandi setningu hjá mér áðan: ,, að algjört fullkomið sjálfstæði virðist hafa verið skilið sem að íslendingar ættu að lifa hér einir og afskiptir, allt í höndum íslenska stofnsins o.s.frv. - og þá mundi koma barasta paradís. Og þá vegna þess hve íslenski stofninn væri frábær og bæri af öðrum þjóðum." Bæta við sko, að einangrun virðist hafa verið einn megin stoðin í þessari hugmyndafræði. Að Ísland þyrfti ekkert að hafa samskipti við önnur lönd. Gætu að vísu verslað eða áttviðskipti erlendis - en það einhvernvegin átti að gerast í tómarúmi og ótengt öllu öðru.

Algjörlega útópískt og óraunveruleikatengt. Nánast bara trúarbrögð.

Enda segir líka ákv. sögu að helsti baráttamaður íslendinga í svokallaðri ,,sjálfstæðisbaráttu" var Benedikt Sveinsson (faðir Einars Ben.)

Hann var í raun bara rugludallur og ofstopamaður og ekki bætti það að hann var sí-fullur. Það var afsakað með því að hann væri svo myrkfælinn að hann þyrfti að drekka í sig kjark til að ferðast þegar skuggsýnt var orðið. (En hann þurfti mikið að ferðast og ekki síst milli Bessastaða og Reykjavíkur.)

Benedikt var eitt sinn þannig lýst: ,,Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.10.2014 kl. 23:21

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hef ekki hlegið jafn mikið síðan í Móðuharðindunum.

Þorsteinn Briem, 28.10.2014 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband