Akureyringar skjóta Reykvíkingum ref fyrir rass.

Í Vatnsmýri fór fram fyrsta flug á Íslandi 1919. Þar ákvað bæjarstjórn rétt fyrir stríðið að gera skyldi aðalflugvöll landsins, gerð var teikning og hafin gerð flugbrauta.

Þar gerðu Bretar stóran flugvöll sem þeir gáfu Íslendingum eftir stríðið með öllum mannvirkjum hans.

Eðlilegt hefði verið að þarna hefði risið Flugsafn Íslands, gert hefði verið veglegt minnismerki á þeim stað, þar sem fyrst var flogið, varðveitt mannvirki svo sem valdir braggar, gamli flugturninn og vígin í Öskjuhlíðinni og flugsafnið verið hluti af stóru stríðsminjasafni í stíl við söfn erlendis svo sem í Noregi og Englandi.

Myndarlegt safn og vel varðveittar minjar hefðu dregið að sér þúsundir erlendra ferðamanna eins og títt er um svipuð söfn og minjar erlendis. 

 

Af einhverjum ástæðum bar starf áhugamanna um þetta ekki ávöxt, því miður, hér í Reykjavík. Miklu réði vafalaust undarlegt tómlæti samborgara minna um flugið og jafnvel andúð margra á fluginu og flugvellinum, skilningsleysi á hinni merku flugsögu, stríðssögu, flugminjum og stríðsminjum.

Mikil verðmæti og minjar hafa farið forgörðum að óþörfu. 

Á Akureyri hefur hins vegar ávallt verið gott andrúmsloft, velvild og flugáhugi meðal bæjarbúa gagnvart fluginu og flugvellinum þar. Þar á ég marga af mínum bestu flugvinum, svo sem Arngrím Jóhannsson, sem þar hefur gert flugsafnið að lífshugsjón sinni og notið samtakamáttar flugáhugamanna á staðnum og verið fremstur meðal jafningja um hið merka björgunarstarf.

Akureyringar hafa gert okkur Reykvíkingum skömm til með því að bjarga því sem bjargað varð. 

Fyrir sína miklu elju og ræktarsemi eiga Arngrímur og allir hans samherjar á Akureyri miklar þakkir skildar og héðan að sunnan eru þeim sendar árnaðaróskir í tilefni 60 ára afmælis Akureyrarflugvallar, sem þeir halda auðvitað upp á á veglegan hátt. 

 


mbl.is Flugsagan kristallast á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndu nú sjálfur hér einn mann sem hefur andúð á flugi hér á Íslandi, Ómar Ragnarsson.

Og ekki veit ég hvers vegna einhverjir Akureyringar ættu að vilja færa Akureyrarflugvöll.

Þorsteinn Briem, 23.11.2014 kl. 00:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hefði kannski frekar átt að nota orðið fordóma en andúð. Nefna má mörg dæmi u það hve miklu meiri og almennari velvilja Akureyrarflugvöllur nýtur nyrðra en Reykjavíkurflugvöllur syðra.

Af mörgu er að taka samanber það nýjasta að hnika ekki aðeins til í skipulagi Hlíðarendareitsins til að ekki þurfi að ýta neyðarbrautinni burt.

Þegar brautirnar voru yfirfarnar og endurnýjaðar átti að eyða miklu fé í að búa til hljóðmön meðfram byggðinni í Skerjafirði.

Menn gáfu sér að íbúarnir þar væru svo þjakaðir af návist vallarins að það yrði að troða þessari hljóðmön upp á þá.

Það þurfti undirskriftalista og hávær og einróma mótmæli þessara íbúa til þess að fá ráðamenn til þess að hætta við að reisa þessa hljóðmön.

Íbúarnir kröfðust þess að fá að halda við sitt útsýni norður yfir flugvöllinn og þeim þótti, eins og til dæmis Ögmundi Jónassyn, vænt um kvak vélfuglanna en höfðu ekki andúð á því og flugvellinum.  

Ómar Ragnarsson, 23.11.2014 kl. 13:30

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta mál snýst engan veginn um einhverjar hljóðmanir eða hvað Ögmundi Jónassyni finnst um "kvak vélfugla".

Og menn eiga að standa við það sem þeir hafa skrifað undir.

Þar að auki er ekkert vit í því að 600 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu verði við enda flugbrautar, enda er hættan á flugslysum einna mest við enda flugbrauta.

Undirritaður bjó í mörg ár á Akureyri og enginn getur fullyrt að velvilji Reykvíkinga til flugvallar á höfuðborgarsvæðinu sé minni en velvilji Akureyringa til Akureyrarflugvallar, enda þótt Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur á annan stað á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars vegna nýrrar íbúðabyggðar og háskólastarfsemi á Vatnsmýrarsvæðinu.

Útivistarsvæði Reykvíkinga eru allt í kringum Reykjavíkurflugvöll, Ægisíða, Nauthólsvík, Öskjuhlíð og Hljómskálagarðurinn.

Undirritaður hefur flogið frá Reykjavíkurflugvelli til Vestmannaeyja, Hornafjarðar, Egilsstaða, Húsavíkur, Akureyrar, Ísafjarðar, Önundarfjarðar og í kringum allt landið og beinlínis fáránlegt að halda því fram að þeir sem vilja færa flugvöllinn frá Vatnsmýrarsvæðinu séu á móti flugi og flugvöllum.

Þorsteinn Briem, 24.11.2014 kl. 01:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband