Af hverju ekki frekar að færa vinnutímann yfir háveturinn?

Ef þjóðfélag okkar ætti að fara bókstaflega eftir kenningunni um lífklukkuna og sólarganginn, atriði sem hafa erfst í gegnum árþúsundir frá því að maðurinn bjó nálægt miðju jarðar, yrði sólarhringnum skipt í tvennt á þann hátt að svefntíminn með adraganda svefns og tíma fótaferðarinnar yrði um 10 tímar og vökutíminn til vinnu um 14 tímar, en miðja hvors tímabils um sig yrðu miðnætti annars vegar og hádegi hins vegar.  

Fólk gengi þá til náða um um klukkan sjö á kvöldin, sofnaði um klukkan átta, vaknaði klukkan sjö á morgnana og hæfi vinnu klukkan sex.

Raunar þekki ég allmarga í svonefndum a-flokki sem vakna um sexleytið á morgnana og eru orðnir syfjaðir um kvöldmatarleytið og passa inn í þessa kenningu.

En hinn gríðarlegi munur á sólargangi um hávetur og hásumar hér á landi ruglar þetta allt. Fótaferð klukkan fimm til sex á morgnana myndi þýða margra klukkustunda vinnu eða nám í skóla í myrkri á hverjum morgni.Enda er allt þjóðlífið kolskakkt ef kenningin er tekin bókstaflega. 

Búseta svona norðarlega hlýtur að hafa skekkt grundvöll lífsklukkunnar í gegnum aldirnar, spurningin er bara hversu mikið. 

Kosturinn við að hafa klukkuna eins og hún er núna, er sá, að öll samskipti við Evrópu, sem er okkar aðal viðskiptasvæði, verða þægilegri en ef klukkunni verður seinkað.

 

Ameríka er hvort eð er það margar klukkustundir frá okkur að ein klukkustund til eða frá breytir ekki miklu 

Hér áður fyrr var "hringlað með klukkuna" hér á landi á milli sumartíma og vetrartíma eins og dæmi eru um að gert er erlendis, en spurningin er hvort ekki sé alveg eins hægt að færa til vinnu- og námstímann aftur um eina klukkustund frá 10. nóvember til 10. febrúar.

Þessir dagar sem ég nefni miðast við það að klippa af myrkurstímanum á morgnana og taka það með í reikninginn að sólarupprás er seinna á degi hverjum eftir sólstöður en fyrir sólstöður.

Ótalinn er einn kostur þess að halda klukkunni kyrri. Hann er sá að í okkar norðlæga landi með tilheyrandi lágum sólargangi og mörgum dögum með skýjuðu veðri er gott að geta notið sólarinnar eftir vinnu klukkustund lengur en ella, einmitt þá stund sem sólin er ekki búin að lækka of mikið.    


mbl.is Mjög brýnt að seinka klukkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil ekki vandamálið. Ég hef búið í Danmörku og Noregi síðustu 40 ár. Sumartíminn er hreinlega "náttúrulögmál" 1 klst fram. Þannig fæst mest birta yfir sumartímann. Öllum til góðs. Hvað er vandamálið hér? Það er augljóst að Ísland er á vitlausu róli.

Snæbjörn Björnsson Birnir (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 01:52

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Er ég vakna sest er sól,
svei mér alla daga,
Ísland ekki skattaskjól,
skrítið margt má laga.

Þorsteinn Briem, 28.11.2014 kl. 05:23

3 identicon

Þó maður hringli í klukkunni fæst ekki meiri birta tongue-out

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 06:27

4 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Snæbjörn, en afhverju þarf að breyta klukkunni um klukkutíma þegar það er hægt að gera þessar breytingar án þess að færa til klukkuna, það er nú þegar á mörgum stöðum mismunandi tími sem fyrirtæki opna hjá sér á sumrin og veturna.

Þetta hringl með klukkuna að vera þurfa uppfæra hana er alger heimska og skilar engu nema ruglingi, ef fólki er þetta svo mikið kapps mál þá annað hvort að breyta oopnunartímum án þess að breyta klukkunni eða breyta klukkunni alfarið án þess að vera breyta henni tvisvar á ári.

Þetta á sérstaklega við sumrin hér á Íslandi þar sem það er gott sem bjart allan sólarhringinn og því enginn ástæða til að vera með sérstakan sumartíma. 

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.11.2014 kl. 09:35

5 identicon

Eins og Snæbjörn Björnsson skrifar eru 40 ár síðan EU tók upp sumartíma/vetrartíma, en einng Sviss. Þetta hefur kosti, sem ég nenni ekki að tíunda hér og gengur létt fyrir sér, nær því að vera "náttúrulögmál", eins og Sveinjörn orðar það.

En á klakanum finnst mönnum þetta vera skelfilegt  "hringl", sem mundi æra menn og skepnur.

Slakið nú á!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 11:03

6 identicon

Við erum á GMT. Bara fínt. Segi þetta oft við Evrópubúa, sem ég reyndar hef heilmikið við að gera. Þeim finnst þetta fram að þessu (hver einn og einasti) vera betra en hjá þeim. Heilmikið vesen að vera að færa klukkuna. Betra að vera frekar með on & off season opnanir/vinnutíma, - sem reyndar er í gangi!

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 11:12

7 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Öll Evrópa að undanskildu Rússlandi og Hvíta-Rússlandi, og að sjálfsögðu Íslandi, breytir klukkunni á sumrin. Sama má segja um Norður-Ameríku. Ég fæ ekki séð að fólk sem stundar viðskipti við Evrópu, eða aðrar heimsálfur, sé í stórkostlegum vandræðum með að ráða við það. Það er manni alltaf áminning þegar þetta gerist 2svar á ári.

Að færa til vinnutímann yfir háveturinn eins og síðuhaldari leggur til, en halda klukkunni óbreyttri, skilar nákvæmlega sömu niðurstöðu fyrir landann, og er nákvæmlega sama hringl og menn kvarta yfir ef notast væri við sumartíma. En vankantar á því fyrirkomulagi er að notast væri við tímabil sem enginn önnur þjóð notar, og yrði því enn verra fyrir atvinnulífið, en hreinlega notast við sumartíma og sama tímabil og aðrar þjóðir.

Að hafa klukkuna á Íslandi á sumartíma allt árið um kring eins og nú er er í raun úrelt fyrirkomulag. Tímamunur hefur einfaldlega mun minni áhrif nú en þegar ákveðið var að festa klukkuna á Íslandi ranga á sumartíma um eina klukkustund miðað við hnattstöðu. Mikill hluti samskipta nú til dags fer fram með tölvusamskiptum hvort eð er, og fólk einfaldlega les og bregst við tölvupóstinum þegar það kemur til vinnu, og litlu skiptir hvort mótaðilinn mætir klukkutímanum seinna eða fyrr. Ég er búinn að vinna við samskipti við útlönd í 12 ár og ef erindið er brýnt er tekinn upp síminn (sem er líka einfaldara nú en 1968), annars er sendur tölvupóstur. Á það jafnt við um mig, og þá sem í kringum mig hafa starfað, sem og erlenda samstarfsaðila sem þurfa að ná í mig.

Það er ekkert flókið að færa til klukkuna um eina klukkustund. Við gerum það í hvert sinn sem við ferðumst, og áhangendur enska boltans þurfa að breyta dagskipulaginu hjá sér 2svar á ári, þegar Bretland fer á sumartíma, sem samsvarar breytingu á klukku. Þetta er ekki vandamál! :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.11.2014 kl. 11:15

8 identicon

 ...vaknaði klukkan sjö á morgnana og hæfi vinnu klukkan sex.

Stundum verður snillingunum líka fótaskortur á tungunni.  En ég hef oft séð þetta á mínum vinnustað☺

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 11:24

9 identicon

Jú, við erum á UTC (GMT/Zulu), en ættum að vera á UTC-1 miðað við legu landsins.

"Heilmikið vesen að vera að færa klukkuna", segja gestir Jóns Loga.

Djísus kræst!

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 11:28

10 identicon

Við erum þegar búin að færa klukkuna til í reynd þ.e.a.s. almennt förum við seinna að sofa og vöknum seinna en gengur og gerist í Evrópu og Ameríku.

ls. (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 12:12

11 identicon

Bjartasti tíminn er þegar sól er í hádegisstað og eftir því sem það augnablik er sem næst miðju vökutímans fjölgar vökustundum í björtu. Ef við ætlum að ná sem flestum birtustundum og hafa klukkuna rétta eftir sólinni þá þarf dagurinn að byrja kl 4 miðað við 16 tíma vöku og 8 tíma svefn. Hádegi væri þá á miðjum degi og jafn margar birtustundir fyrir og eftir kl 12.

Í dag eru ætíð fleiri birtustundir eftir kl 12 en fyrir og hádegi langt frá því að vera miðja hvers dags. Að seinka klukkunni færir sól í hádegisstað lengra frá miðju dagsins og fækkar því heildar vökustundum í björtu. Réttast væri að flýta klukkunni svo miðja dags væri bjartasti tíminn og við fengjum sem flesta vökutíma í björtu.

Hannes (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 13:27

12 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Er semsagt eina ástæðan fyrir því að taka upp sumartímann af því að allir hinir gera það?

Það að vera dandalast við það að breyta klukkunni tvisvar á ári af algerum óþarfa er bara svo mikið rugl og svo mikil tímaeyðsla, ég veit það, þetta er ekki oft á ári, það er ekki flókin aðgerð að breyta klukkunni endilega, en þetta veldur ruglingi í kringum þessar breytingar (komandi frá fólki sem býr við sumartíma).

Heildarmálið við þetta allt saman er að það er alger óþarfi að taka upp þennan sumartíma og er engin ástæða til þess, ef fólk er að missa sig yfir þessu máli öllu saman af því að þetta hefur svo vond áhrif á okkur á veturna að vakna í myrkri og við séum ekki með rétta klukku og þess háttar þá er rosalega einföld leið sem virkar fyrir alla, og það er að stilla klukkuna þannig að hún sé rétt í eitt skipti fyrir öll, vegna þess hvernig sumrin eru hjá okkur þá skiptir það engu máli þó að sú breyting renni inn á sumar þar sem við erum með bjart næstum allan sólarhringinn.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.11.2014 kl. 13:55

13 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Við erum nú þegar á sumartíma Halldór. Við látum hann bara gilda allt árið og förum bara aldrei á vetrartíma. :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.11.2014 kl. 14:06

14 identicon

Haukur, - eiginlega "helvítis vesen" er það sem mínir segja. Þetta eru ekki gestir mínir, heldur ferðamenn. Í rútutali. Mjög margir, - einkanlega Bretar, - vilja halda föstum tíma. Maður áttar sig bara á árstíðunum. Enda ékki hægt á norðurslóð, að nota DST til að sólin komi upp eða setjist á sama tíma. Take a pick......
Svo eru systemin á heimsvísu ekki öll eins. Skoðið þið skóginn:

http://en.wikipedia.org/wiki/Daylight_saving_time_by_country

Er ekki fínt að vera bara á GMT?

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 15:18

15 Smámynd: Hörður Þórðarson

"spurningin er hvort ekki sé alveg eins hægt að færa til vinnu- og námstímann aftur um eina klukkustund frá 10. nóvember til 10. febrúar"

100% sammála.

Vandinn er ekki klukkan. Vandinn er skammdegið á veturna og langur dagur á sumrin. Sá vandi verður ekki leystur nema með því að draga landið suður á bóginn.

Hörður Þórðarson, 28.11.2014 kl. 18:02

16 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ég notaði nú þetta orð Sumartími í staðin fyrir að nota "dagljósabjörgunartíma" Erlingur 8)

En er þá ekki bara málið að skipta yfir í vetrartíma og halda okkur þar, þó ég viti það að það væri rosalega erfitt fyrir mig að vakna seinna en ég geri núna ef þessu yrði breytt.

Síðan eru svo margir sem eru að vakna það snemma að þessi breyting myndi engu skila fyrir þá.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 28.11.2014 kl. 18:58

17 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Tillagan snýst einmitt um að færa klukkuna á "vetrartíma" þ.e. setja Ísland í rétt tímabelti. En mér er svo sem nokk sama hvort heldur er. Dagarnir á sumrin eru svo langir að klukkutími að morgni til eða frá skiptir engu máli vegna birtustigs stóran hluta sumars. Áhrifin fyrir atvinnulífið vegna samskipta við útlönd eru ekki veigamikil rök að mínu mati.

Erlingur Alfreð Jónsson, 29.11.2014 kl. 03:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband