Flýtið ykkur að taka myndir áður en þessu verður fórnað!

Hryggjarstykkið í myndbandi, sem birt er af Íslandi á Youtube um helgina er Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. 

Hann er einn af tugum fossa og hundruðum náttúrufyrirbæra sem til stendur að fórna fyrir "orkufrekan iðnað". 

Búið er að stofna sérstakt félag með þáttöku Orkuveitu Reykjavíkur og fjárfesta að norðan til þess að byggja stíflu til þess að sökkva 25 kílómetra löngum dal fyrir innan Hrafnabjörg, grónum að stórum hluta enda er þessi skjólsæli dalur vin í norðurjaðri hálendisins.

 En við fólk er sagt að verið sé að sökkva urð og auðn uppi á hálendinu og fegra landið með "snyrtilegum miðlunarlónum."

Auk Aldeyjarfoss á að þurrka upp nokkra fallega fossa fyrir ofan hann, þeirra á meðal Hrafnabjargarfoss.

Þetta er bara eitt dæmið af mörgum þar sem hingað til hefur ekki komið til greina að friða þessi náttúrudjásn, heldur stefna ótrautt að því að virkja.

Nú þegar hafa nokkrir af stærstu fossum landsins verið þurrkaðir upp eða lemstraðir fyrir stóriðjuna, svo sem Töfrafoss, Kirkjufoss og Faxi fyrir austan, og fyrir skemmstu flaug ég niður eftir efri hluta Þjórsár og sá hvernig Hvanngiljafoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss voru ekki nema ræflar miðað við það sem þeir voru áður en svonefnd Kvíslaveita tók 40% af vatnsmagni þeirra fyrir stóriðjuna.

Dynkur og Gljúfurleitarfoss voru ósnortnir jafnokar Gullfoss að hæð og vatnsmagni og að mínum dómi er Dynkur í fullu rennsli flottasti stórfoss landsins.

Fyrir tveimur vikum var þessi foss, sem er samansafn um það bil fimmtán fossa í sama fossstæðinu aðeins þrír ræfilsfossar öðru megin í því, en að öðru leyti var stæðið þurrt.

Dynkur nær sér að vísu aðeins á strik í nokkrar vikur seinni parts sumar í góðum vatnsárum en hjá ráðamönnum þjóðarinnar er einbeittur vilji til þess að drepa hann og hina fossana alveg með Norðlingaölduveitu, þótt eitthverju smárennsli sé lofað í stuttan tíma síðsumars.

 Auk sóknarinnar í virkjanir fyrir stóriðjuna ("orkufrekur iðnaður er sama og stóriðja, - orkubruðl) er ásókn í gerð sæstrengs til Skotlands sem mun valda þvílíku virkjanaæði hér á landi að engu verður eirt.

Ég vek athygli á því að myndirnar af Aldeyjarfossi eru teknar þegar snjóföl er á jörðu og það er stór hluti af áhrifamætti þeirra.

Það er sameiginlegt öllum hugmyndum um virkjun fossa landsins að ekkert rennsli verður í þeim á veturna, sama hvað útfærsla er notuð og allar vetrarmyndir því út í hött. 

Þess vegna er full ástæða til þess að segja við útlendingana: Flýtið ykkur að koma til þess að taka af þessu myndir áður en því verður fórnað!      


mbl.is Ótrúlega fallegt myndband af Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Hvaðan færðu að allt þetta muni vera virkjað? Ekki hafa Strákarnir verið spurðir sem nú allir verða að gera ef eitthvað á að hrófla við einhverju sem allir eiga og ekki ríkið sem á ekki neitt en aftur ámóti við eigum og þá þarf að gjæta sín heldur betur Ómar. Svo hafa Strákarnir sagt.

50+

Eyjólfur Jónsson, 8.12.2014 kl. 22:01

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Heldur þú að Orkuveita Reykjavíkur og norðlenskir aðilar séu að eyða tugum milljóna króna í stofnun félags um Hrafnabjargavirkjun og undirbúning þeirrar virkjunar út í bláinn? 

Það hlýtur að vera einbeittur vilji sem liggur að baki slíks gernings hinum megin á landinu frá fyrirtæki í eigu Reykvíkinga, sem er á hvínandi kúpunni. 

Eða að það verði ekki hart sótt að virkja við Norðlingaöldu? Á nauðsyn þeirrar virkjunar er stanslaust hamrað og þess krafist að hún verði sett í nýtingarflokk og að Hrafnabjargarvirkjun fari ekki í verndarflokk? 

Ómar Ragnarsson, 9.12.2014 kl. 00:22

3 identicon

Sæll Ómar.

Þér til fróðleiks þá seldi Orkuveitan hlut sinn í Hrafnabjargavirkjun fyrir nokkrum árum.

Kveja,

Eiríkur.

Eirikur Hjálmarsson (IP-tala skráð) 9.12.2014 kl. 07:22

4 identicon

Það eru sömu aðilar sem standa að virkjun Hrafnabjargafoss og Aldeyjarfoss núna, og stóðu að Laxárdeilunni fyrir margt löngu. Veitufyrirtæki Akureyringa og Húsvíkinga eiga réttindin.

Mývargur (IP-tala skráð) 9.12.2014 kl. 15:22

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta hefur ekki enn verið sett í umhverfismat, er það? Held að menn ættu að anda rólega en ekki vera með yfirlýsingar. Dálítill "Úlfur, úlfur" í þessu hjá þér Ómar.

En það hefur svo sem virkað hjá ykkur áður í áróðursstarfseminni. En hversu oft í viðbót?

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.12.2014 kl. 21:54

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú verður alltaf vesalingur, Gunnar Th. Gunnarsson.

Þorsteinn Briem, 10.12.2014 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband