Bergbrotið lyftir Obama.

"Þið hafið aldrei haft það svona gott" var slagorð sem breskir ráðamenn notuðu á fyrri hluta sjöunda áratugs síðustu aldar til að krækja sér í fylgi. 

Það er líka viðurkennd staðreynd, að ekkert eitt atriði ræður jafn miklu um atkvæði kjósenda og peningaveskið hverju sinni. 

Obama Bandaríkjaforseti á engan þátt í því sem gerandi að ný og mikilvirk aðferð, svonefnt "bergbrot" ("fracking") til að vinna gas eða olíu úr jarðlögum, hefur gerbreytt um sinn ástandi orkumála í Bandaríkjunum og þar með um allan heim.

Það eina sem Obama þurfti að gera var að vera aðgerðalaus áhorfandi í málinu og vera ekkert að skipta sér af því.

Bandaríkin framleiða nú allt í einu svo mikið jarðefnaeldsneyti sjálf, að heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið og stórlækkað.

Þetta skilar sér heldur betur inn í hagkerfi nútímaþjóðfélaga, þar sem enginn einn þáttur efnahagsmála er eins mikilvægur og orkuverð.

Kjarabótin kemur strax fram í því hjá hverjum einasta manni, sem þarf að nota orku og borga fyrir orkugjafa. Það verður meiri afgangur eftir í veskinu hans í hvert sinn, sem hann borgar fyrir orkugjafa, en var fyrir þessa geysi miklu verðlækkun.

Obama á aðeins eftir tvö ár af átta ára valdatíma sínum og á nú mikla möguleika á að kveðja með stæl, jafnvel án þess að verðskulda það.

Hér á landi birtist afleiðing verðlækkunar á eldsneyti í auknum kaupmætti án verðbólgu og án þess að íslenskir ráðamenn hafi í raun komið nokkuð nálægt því.

Þeir og ráðamenn annarra þjóða, sem kaupa mikið eldsneyti, geta farið að gera sér vonir um að sigla lygnan sjó um sinn. Það logn gæti þó reynst svikalogn, því að afurðir bergbrotsins eru takmarkaðar rétt eins og olíubirgðir jarðar, og umhverfisáhrifin slæm, ekki aðeins á land og lífríki á bergbrotssvæðunum, heldur felur þessi tímabundna búbót í sér aukningu á útblæstri á gróðurhúsalofttegundum sem mun aðeins auka á vandann varðandi úrlausn þess vanda. 

Þetta er eitthver stærsta myndbirting "skómigustefnu" ráðamanna heims. 

Á sama hátt og olíukaupendur kætast er verðhrun á eldsneyti mikið áhyggjuefni fyrir olíuframleiðsluþjóðir eins og Norðmenn og Rússa.   


mbl.is Vinsældir Obama aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband