Enginn minnist á aðalatriðið?

Það var ekki að heyra að nokkur þátttakendanna í Kryddsíldinni og yfirleitt nokkur nú síðustu daga hafi minnst á aðalatriðinu varðandi heilbrigðiskerfið. 

En það er einfaldlega það að síðustu árin hafa verkefni kerfisins stóraukist vegna mikillar fjölgunar í elstu árgöngum þjóðarinnar þegar fólksfjölgunarsprengja stríðsáranna og áranna eftir það með allt að tvöfalt stærri árgöngum en fyrr er að skila sér í miklu stærri árgöngum gamla fólksins en áður var. 

Hluti aukningar verkefna kerfisins stafar þar að auki af því að miklar tækniframfarir í heilbrigðisþjónustu og lækningum byggist á nýrri tækni og lyfjum, sem kosta mikið fé. 

Öllum mátti verða ljóst þegar fyrir hálfri öld að stóru árgangarnir, sem þá fæddust, myndu kosta vandamál í gegnum líftíma þessara kynslóða, fyrst í menntamálum á barnaskólastiginu um miðja öldina, framhaldsskólastiginu á sjötta áratugnum og háskólastiginu á sjöunda áratugnum. 

En á eftir því hlaut að koma að svipuðu í heilbrigðiskerfinu þegar þeim, sem komnir voru á efri ár kringum aldamótin síðustu fór að fjölga hratt. 

Af þeim sökum byrjaði svelti kerfisins ekki í Hruninu, þótt það yrði eðli málsins samkvæmt mikið þá, heldur strax í kringum síðustu aldamót, með þeim afleiðingum að vandinn hefur undið upp á sig. 

Öll þessi síðustu 15 ár virðast íslenskir ráðamenn hins vegar hafa verið alveg blindir á þessa undirliggjandi ástæðu þess, hvernig komið er. 

Um allan heim er rætt opinskátt um það að nú stefni senn í það hjá mörgum þjóðum, að aðeins um helmingur þjóðanna vinni að verðmætasköpun fyrir hinn helminginn, sem er annars vegar sá hluti þjóðanna sem er ekki kominn út á vinnumarkaðinn, og hinn hlutinn, sem er kominn á eftirlaun. 

Ef viðhalda á sömu lífsgæðum og jöfnuði áfram verður að leggja miklu meiri áherslu en áður á það að efla heilbrigðis- og lífeyriskerfið. 

Og þá þýðir ekki að segja eins og sagt er hér nú, að það nægi að upphæð framlaga í kerfið sé hærra en nokkru sinni fyrr, því að í raun vaxa verkefni kerfisins svo hratt, að stórauka þarf framlög til þess á næstu áratugum í velferðarkerfið allt. 


mbl.is Læknar horfi í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held það sé misritun þarna þar sem stendur "áramótin" þú hafir meint aldamótin. Aukaatriði. En hvað varðar lífeyriskerfið, þá er það fyrst og fremst lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, sem er ekki fjármagnað. Almennu sjóðirnir ættu að geta greitt það sem þeim er ætlað, þ.e. 56% af meðallaunum starfsævinnar. Ef ekki, verður bara skerðing. Svoleiðis ákvæði eru ekki til hjá opinberum starfsmönnum. Mismuninum verður velt yfir á skattgreiðendur.
Annað er það til viðbótar lengri lífaldri, sem veldur auknu álagi á heilbrigðiskerfið, en það er offita og óheilbrigðir lífshættir ásamt með aukinni mengun. Við göngum líka sífellt nær umhverfinu og vatnsskortur er þegar orðinn alvarlegt vandamál víða. Held reyndar að Ómar nokkur Ragnarsson hafi verið öðrum duglegri að benda á þetta.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 1.1.2015 kl. 09:29

2 identicon

"...að aðeins um helmingur þjóðanna vinni að verðmætasköpun fyrir hinn helminginn,.."  og svo "...meiri áherslu en áður á það að efla heilbrigðis- og lífeyriskerfið...."

Þetta er einmitt þversögn lífeyriskerfisins í hnotskurn. Menn vilja trúa því að hægt sé að búa til eitthvert sjálfstætt sjóðakerfi utan um lífeyrisgreiðslur sem standi eins og eitt og óháð öllu og búi til peninga og verðmæti. Á hinn bóginn verður það alltaf svo að þeir sem ekki vinna er haldið uppi af þeim sem vinna. Alveg sama í hvaða skrautumbúðir menn reyna að setja þetta. 

Vandinn við þessa hugsun er að hún leiðir til þess að lífeyriskerfið verður eins og krabbamein í kerfinu þar sem ávöxtunarkrafa (viðmið?) lífeyrissjóðanna veldur peningaprentun og þjófnaði verðmæta úr vasa almennings. Svo ekki sé nú minnst á sjóðasukkið og mismunun milli opinbera og almenna lífeyriskerfisins þar sem skattgreiðendur verða að þola skerðingar á sínum lífeyri en um leið að tryggja opinberum lífeyrisþegum fullar greiðslur. 

   Miklu betra og eðlilegra væri að láta fólki sjálfu eftir að ávaxta sitt pund með undirliggjandi öryggisneti ríkisins þannig að þeir sem fara á lífeyrisaldur peningalausir fái  framfærslustyrk frá ríkinu óskertann en hinir yrðu að þola eðlilega og sanngjarna skerðingu. (Ekki t.d. króna á móti krónu) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.1.2015 kl. 10:09

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar fer í góðan gám,
gerist ekki betra,
Framsókn mun þar rangla rám,
á rúmlega fermetra.

Þorsteinn Briem, 1.1.2015 kl. 13:05

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Gleðilegt ár, Ómar. Þetta eru þarfar ábendingar hjá þér. Fjölgunin og aukinn lífaldur hafa fært mun fleiri yfir í aldur öldrunarsjúkdóma, sem Íslensk erfðagreining sýndi hvernig tíðni þeirra eykst verulega fyrir vikið. Síðustu árin eru þannig verulega íþyngjandi fyrir kerfið, sem þarf að endurhugsa vegna þessa og veita meira fé til þess.

Ívar Pálsson, 1.1.2015 kl. 14:01

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé til einhver galdralausn til nægilegrar eflingar lífeyriskerfisins og heilbrigðiskerfisins. 

Þvert á móti hamlar það árangursríkri stefnumótun að greina ekki rétt rót vandans. 

Ómar Ragnarsson, 1.1.2015 kl. 14:47

6 Smámynd: Gunnlaugur Hólm Sigurðsson

Steini er alltaf sami vírusinn í þínu bloggi Ómar!

Held að heilbryggðiskerfið stefni í einkavæðingu og þá með sinni kröfu um arð af rekstrinum til þeirra sem þetta verður gefið til.

Svo þarf fólk þá að berjast við Tryggingarfélögin sem verða örugglega ekkert fús að Tryggja fólk sem er orðið 50+ ára gamalt, þannig að svört læknaþjónusta mun fara að blómstra í boði XD og XB.

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 1.1.2015 kl. 17:36

7 Smámynd: Gunnlaugur Hólm Sigurðsson

Þetta er draumur Sjallana!

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2893384/British-couple-stranded-New-York-130-000-medical-bill-baby-son-born-11-weeks-prematurely.html

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 1.1.2015 kl. 17:42

8 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Af hverju er Steini vírus hér Gunnlaugur? Ég les bloggin hans Ómars og hef gert í mörg ár og dáist af fróðleik hans og frásagnargleði ásamt réttsýni og manngæsku. Steini kemur hér inn með staðreyndir og visku ásamt skemmtilegum kommentum og vísum við og við.Það virðist fara fyrir brjóstið á mörgum hér hverskonar alfræðimenn þeir eru og hallast maður helst að því að þeir sem eru alltaf að hnýta í þá sé öfundsjúkir og afbrýðisamir. Haldið áfram Ómar og Steini..þið eruð yfirburðamenn af þeim sem kommenta hér og eru þó margir ansi góðir en aðrir vægast sagt daprir.cool Gleðilegt ár.

Ragna Birgisdóttir, 1.1.2015 kl. 18:17

9 Smámynd: Ívar Pálsson

Hér er tengill á áhugaverðan vídeóstubb í Economist um mannfjöldaþróun:

http://www.economist.com/blogs/graphicdetail/2014/11/daily-chart-10?fsrc=scn/fb/eoy14/dc/vi/endofpopulationpyramid

Ívar Pálsson, 1.1.2015 kl. 21:40

10 identicon

Einn fyrrverandi heilbrigðisráðherra (enn þingmaður) hefur þó einn fárra stjórnmálamanna bent á þetta undanfarið.

ls. (IP-tala skráð) 1.1.2015 kl. 22:40

11 identicon

Tek undir með Ómari. Auðvitað fylgir öldrun þjóðarinnar auknu álagi á heilbrigðiskerfið, skárra væri það nú. Einnig tek ég undir með Rögnu um þetta tuð útí Steina Briem sem kemur eiginlega alltaf með helling af tölulegum staðreyndum um það mál sem fjallað er um hverju sinni og skellir vísu hér og þar. Ómar er risamarkaður um menn og málefni og Steini er bónus þar ofaná.

Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.1.2015 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband