Versti virkjanakostur landsins enn á dagskrá !

Skömmu áður en Alþingi samþykkti að ráðast í Kárahnjúkavirkjun lá fyrir sú bráðabirgðaniðurstaða í Rammaáætlun að tveir virkjanakostir á Íslandi hefðu mestu mögulegu óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, annars vegar Kárahnjúkavirkjun og hins vegar virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Séð var til þess að þetta mat kæmist ekki í hámæli fyrr en síðar á árinu 2003 þegar Alþingi var búið að afgreiða málið.

Nú hefði maður haldið að þegar meira en hundrað virkjanakostir væru komnir á blað í allt, myndu menn láta það vera að ætla að fara út í þann ónotaða virkjanakost, sem nú er sá versti sem mögulegur er. 

Ónei. Nú er virkjun Jökulsár á Fjöllum og færsla hennar alla leið yfir í Fljótsdal sett á dagskrá eins og ekkert sé sjálfsagðara en að sökkva stórum hluta hinnar frábæru leiðar frá Möðrudal inn í Kverkfjöll og eyðileggja ásýnd og upplifun Vatnajökulsþjóðgarðs, þurrka Dettifoss upp lungann úr árinu og ljúga því að ferðamönnum á sumrin að leifarnar af honum sem fá að renna síðsumars, sé aflmesti foss Evrópu. 

Á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum einu og sér er magnaðasta og langfjölbreyttasta eldfjallasvæði heims, með tíu tegundum af helstu fyrirbærum eldfjallasvæða, en við samburð við tíu helstu önnur eldfjallasvæði heims kemst ekkert þeirra nema að vera rétt hálfdrættingar.

Ég vísa að öðru leyti í bloggpistil frá í fyrradag með nánari útlistun á sérstöðu Íslands, en á sama tíma og öðrum þjóðum dettur ekki í hug að svo mikið sem athuga virkjanir í þjóðgörðum sínum, eru hérlend valdaöfl á fullu við að bollaleggja hernað gegn einu af helstu náttúruundrum veraldar.  

Síðustu tveir dagar hafa verið sem martröð fyrir náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk. 

Hafið er leifturstríð í hernaðinum gegn landinu á breiðustu víglínu, sem hægt er að skapa, bæði með takamarkalausu virkjanakappi hjá Orkustofnun og daginn eftir að ráðast til atlögu á dæmalausan hátt í boði meirihluta atvinnumálanefndar á víðernin við jaðar bæði Langjökuls og Vatnajökuls og fara fram hjá rammaáætlun og umhverfisráðherra.

Skrokkölduvirkjun þýðir einfaldlega 70 kílómetra framrás háspennulínu og upphleyptrar hraðbrautar inn að miðju hálendisins auk annarra virkjanamannvirkja svo sem stöðvarhúss, stíflu, miðlunarlóns og veituskurðar.

Í fyrra lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur yrði lagður milli Íslands og Skotlands. 

Þegar strengurinn verður kominn mun hernaðurinn gegn landinu verða hertur enn frekar en nú og engu eirt í taumlausri skammtímagræðgi fyrr en gengið hefur verið milli bols og höfuðs á náttúru Íslands.

 

 

 


mbl.is Fordæmir tillögu Orkustofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það var engin rammaáætlun til fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar.

Jóhönnustjórnin eyðilagði þjóðarsátt um rammaáætlun með pólitiskum hrossakaupum og baktjaldamakki milli VG og Samfó. Mikil andstaða var innan Samfylkingarinnar við uppteiknað plagg umhverfis öfgasinna úr röðum VG með Svandísi Svavarsdóttir í broddi fylkingar. Jóhanna barði flokksfélaga sína til hlýðni og allir hlýddu vegna ótta um að stjórnin félli. Um þetta má lesa í sláandi frásögn Össurar Skarphéðinssonar í bók hans "Ár drekans".

Í stað þess að gera faglegt plagg um verndun og nýtingu, var gert pólitískt plagg. Jóhanna og Steingrímur hafa mikið á samviskunni. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.1.2015 kl. 01:58

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nú að að gera alvöru rammaáætlun en til þess verður að meta virkjanakosti. Það mátti ekki áður. Það er langur vegur frá að virkjað verði þó komið sé í nýtingarflokk. Þá er raunverulegt umhverfismat eftir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.1.2015 kl. 02:00

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fylgi flokka á landsvísu - Capacent Gallup 4.1.2015:

Samfylking 20%,

Björt framtíð 13%,

Vinstri grænir 13%,

Píratar 11%.

Samtals 57%
og þessir flokkar mynda nú meirihluta borgarstjórnar.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur 38% og þar af Framsóknarflokkur 11%.

Og næsta víst, eins og Bjarni Fel. myndi segja, að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins kolfellur í næstu alþingiskosningum.

Þorsteinn Briem, 23.1.2015 kl. 08:50

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flestir vilja að Jón Gnarr taki við af Ólafi Ragnari Grímssyni

Þorsteinn Briem, 23.1.2015 kl. 08:51

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Aðspurður hvort [raforkustrengur til Bretlands] muni hækka raforkuverð á Íslandi segir [Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar] að ekki sé þörf á því en ríkisstjórnin þurfi samt að finna leið til að halda verðinu niðri.

Ef norska leiðin yrði farin yrði orkuiðnaðurinn enn með góð kjör og langtímasamninga en verð til almenna markaðarins væri svo pólitísk ákvörðun.

Gert er ráð fyrir að um 20 ár tæki að greiða upp slíkan streng og endingartíminn yrði um 40 ár."

Lokaskýrsla ráðgjafahóps um lagningu sæstrengs til Bretlands, júní 2013 bls. 20

Þorsteinn Briem, 23.1.2015 kl. 09:22

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

26.2.2014:

"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna [andvirði Kárahnjúkavirkjunar].

Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."

Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin

Þorsteinn Briem, 23.1.2015 kl. 09:25

10 identicon

Enn bullar Gunnar Th. Hann endurtekur bullið um hin pólitísku hrossakaup. Ef hann væri fær um að kynna sér staðreyndir þá myndi hann sjá að það var samþykkt af öllum þingheimi hvernig ætti að fara fram varðandi niðurstöður Rammaáætlunar. Eitt af því sem þar var inni var að almenningur og félagasamtök ættu rétt á að koma með athugasemdir við það sem kallað hefur verið niðurstöður Rammaáætlunar en var í raun afrakstur sérstaks hóps sem flokkaði í lokin, þar sem m.a. voru lögfræðingar sem engan annan þátt áttu í vinnunni. Þetta var síðan blessað af verkefnisstjórn með umtalsverðum fyrirvörum. Og þessi "niðurstaða" var lögð fram til umsagnar eins og ákveðið hafði verið og fólk gerði fjölmargar athugasemdir. Verkefnisstjórn hafði lokið störfum og því var það skylda ráðherra málaflokksins að fara yfir þessar athugasemdir og taka tillit til þeirra. Það var gert, reyndar mun minna en margir töldu ástæðu til og af mikilli varfærni, svæði flutt í biðflokk til frekari skoðunar. Þetta heitir á máli Gunnars og fleiri slíkra "hrossakaup". Það er greinilegt að lýðræðisást þeirra nær ekki yfir rétt fólks til að gera athugasemdir sem á að taka mark á. Sorglegt í meira lagi.

Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 23.1.2015 kl. 10:20

11 identicon

afgreiðsla seinustu stjórnar síndu að verkefnastjórninvar óþarfur milliliður, menn meiga ekki gleima því að seinasta stjórn stækkaði verkefnastjórnina hvort það var til góðs efast ég um, ráðherra gétur sett fram tilögu  og sett hana í ferli. alþíngi gétur breit tilögu ráðherra. hvort tilaga jóns gunnarssonar sé rétt sett fram efast ég um,

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 23.1.2015 kl. 11:19

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn sorglegra er það þegar nú á að hefjast söngur og síbylja um það að fyrst nú sé hin raunverulega Rammaáætlun að verða til og, það hafi verið bannað fram að þessu að meta virkjanakosti og að Rammaáætlun "hafi ekki verið til fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar." 

Ég eyddi í það nokkrum tíma og fyrirhöfn fyrir þremur árum að skrifa grein á vef Framtíðarlandsins um Rammaáætlun og aðdraganda hennar og leitaði upplýsinga og staðfestingar á því ferli öllu hjá þeim, sem um þau mál fjölluðu mest á síðustu áratugum liðinnar aldar. 

Gunnar getur farið inn á vefinn og séð þetta og tekið til hendi til þess ákæra mig fyrir lygar og rangfærslur, líkt og gert var í síbylju varðandi það að aðeins melar og grjót hefðu farið undir vatn vegna Kárahnjúkavirkjunar og að þar færi ég með rangfærslur og "falsanir".

Rammaáætlun var, hversu oft sem Gunnar heldur ððru fram, sett á laggirnar í ráðherratíð Finns Ingólfssonar um aldamótin síðustu og var ákveðið að vinna þá vinnu í áföngum. Í lok árs 2002 lágu fyrir frumniðurstöðurnar sem ég vitna í í pistlinum. 

Ef Gunnar vill, skal ég fletta upp dagsetningum á þeim fréttum sem ég og aðrir fjölmiðlar gerðu um Rammaáætlun á árunum 1999-2003. 

Ég fjallaði reyndar fyrst um fyrirbærið í sjónvarpi 1998 eftir gerð þáttanna "Út vil ek" í Noregi og ræddi við norskan sérfræðing um þeirra rammaáætlun.

Eins og Gunnar ætti að vita, var Valgerður Sverrisdóttir orðin iðnaðarráðherra síðustu árin fyrir Kárahnjúkavirkjun, en þrátt fyrir það ætlar það að verða létt verk fyrir Gunnar að hafa það af Finni Ingólfssyni að hafa komið henni á laggirnar.  

Ómar Ragnarsson, 23.1.2015 kl. 11:32

13 identicon

Hér er Landsvirkjun augljóslega að leika sama leikinn og þegar Kárahnjúkavirkjun var reist - Eyjabakkar voru þá tálbeita fyrir andstæðinga virkjana. Núna er það Dettifoss en hið raunverulega markmið er Skjálfandafljót og þá getum við kysst Laufröndina bless og Goðafoss verður ekki nema svipur hjá sjón. En laxagengd mun aukast og bændur kætast auðvitað vegna þess.

Jón Garðar (IP-tala skráð) 23.1.2015 kl. 14:02

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vatnið verður að vísu ekki tekið úr farvegi neðri hluta Skjálfandafljóts með Hrafnabjargavirkjun, en vatn verður tekið bæði af Aldeyjarfossi, Hrafnabjargarfossi og öðrum fossum í efri hluta árinnar og sökkt 25 kílómetra löngum skjólsælum dal, að hálfu gróinni vin í hálendinu.

Ef slegið er upp leitarorðinu Hrafnabjargavirkjun á bloggsíðunni má sjá myndskreyttan pistil um þetta frá því fyrir nokkrum árum.  

Ómar Ragnarsson, 23.1.2015 kl. 15:30

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Friðrik Dagur, mínar heimildir um pólitísk hrossakaup vegna "rammans", eru skriflegar og koma frá utanríkisráðherra vinstristjórnarinnar, Össuri Skarphéðinssyni. Hefurðu lesið bók Össurar, "Ár drekans"? Lestu bókina, í henni eru sláandi lýsingar á vinnubrögðum Jóhönnu gagnvart samflokksmönnum sínum. Össur reyndi að standa í lappirnar en beygði sig fyrir hótunum um stjórnarslit.

Ómar, rammaáætlun var ekki til fyrir Kárahnjúka. Vinna við hana hófst að mig minnir 1999 og margar bráðabirgðaskýrslur komu fram. "Ramminn" var ekki samþykktur á Alþingi fyrr en 2013, og þá með pólitískum fingraförum VG.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.1.2015 kl. 15:44

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lögin um rammaáætlun og áætlunin sjálf voru sett í gang 1999. Gott að þú viðurkennir það. Frá upphafi lá fyrir að vinna við hana myndi taka mörg ár eða jafnvel áratugi enda hefur komið í ljós að virkjanirnar, sem hrúgast enn inn, eru, að meðtöldum þeim stærri virkjunum sem þegar eru komnar, orðnar á annað hundrað. 

Vinnan var því frá upphafi unnin í áföngum og stærstu atriði hans, eins og til dæmis að Kárahnjúkavirkjun og virkjun Jökulsár á Fjöllum væru með mestu neikvæðu óafturkræfu áhrifin, lágu fyrir áður en Alþingi samþykkti Kárahnjúkavirkjun.

Dregið var að birta þau þar til seinna það ár, og þá voru sex ár þar til Jóhönnustjórnin tók við völdum.

2003 ár var þessi áfangi kynntur fyrir fjölmiðlum og meira að segja gróf niðurröðun á fjölda kosta, svo sem á Markarfljótsvirkjun, sem talin var koma næst á eftir LSD-virkjununum hvað snerti óafturkræf umhverfisspjöll.

Ekker hefur síðar komið fram sem hefur haggað þessum atriðum.   

Ómar Ragnarsson, 23.1.2015 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband