Fordæminu um Austurbæjarbíó verði fylgt.

Nasa, áður Sigtún og Sjálfstæðishúsið, er ekki eina samkomuhúsið í Reykjavík, sem til hefur staðið að umturna eða rífa. Svipað átti sér stað varðandi Austurbæjarbíó fyrir tæpum áratug. 

Þegar það mál kom upp datt út úr mér í útvarpsviðtali, að undarleg væri sú sjálfseyðingarhvöt í menningar- og minjamálum, sem réði í þessum efnum og strax í kjölfarið fylgdi umræða, þar sem meðal annarra Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi, beitti sér afefli.

Svo fór að hætt var við áform verktaka um miklar framkvæmdir á lóðinni í stíl fyrirhrunsáranna, sem augsjáanlega kostuðu stórfellda ofnýtingu svæðisins, og húsið hefur fengið að vera í friði síðan og komið að notum sem leikhús og samkomuhús.

Vonandi tekst að finna svipað hlutverk fyrir gamla Sjálfstæðishúsið svo að notað sé hið upprunalega heiti hússins. 

Listinn yfir menningarhús í Reykjavík, sem hafa verið rifin, er þegar orðinn langur. Má þar nefna hús eins og Báruna, Fjalaköttinn, Gúttó, Tripolibíó, Hafnarbíó, Hálogaland, Skátaheimilið við Snorrabraut, og Stjörnubíó. Alls átta hús. 

Nú er ekki með þessu sagt að öll þessi hús hefðu átt að standa, en betra hefði verið að fyrirfram hefði verið ákveðið að varðveita til dæmis Fjalaköttinn, fyrsta bíóhús Norðurlanda, og eitt braggabíó.

Íþróttahús MR var í hættu á tímabili sem og Gamla bíó, sem er að ganga í endurnýjun lífdaga sem betur fer.  

  


mbl.is Margir hafa sýnt Nasa áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Ómar fyrir þessa atorku í skrifum.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég oftast samála þér en ekki alltaf.

Það er bara eins og gengur.

Ég lít á síðuna þína á hverjum degi og nýt vel.


Takk, takk, takk..................

kv. Bjössi 

Björn Jóhann Guðjohnsen (IP-tala skráð) 24.1.2015 kl. 14:00

2 identicon

Takk fyrir, ég þekki mig ekki lengur í Reykjavík þegar ég kem í heimsókn á klakann en ég kann sögu Reykjavikur og miðla henni til gesta sem koma með mér til Reykjavíkur.

Eythor Ingi (IP-tala skráð) 24.1.2015 kl. 14:58

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjöldinn allur af gömlum húsum hefur verið gerður upp í miðbæ Reykjavíkur á undanförnum árum, til að mynda við Aðalstræti, Hafnarstræti, Austurstræti, Kirkjustræti, Lækjargötu, Skólavörðustíg, Laugaveg og Hverfisgötu.

En menn njóta þess nú ekki mikið að skoða þessi uppgerðu hús akandi framhjá þeim til að kanna hvort þeir sjá þar einhverja sem þeir þekkja, þegar menn eiga að hafa augun á götunni.

Hins vegar er sjálfsagt að reisa gosbrunn í Tjörninni í líki Ólafs F. Magnússonar, þar sem hann pissar út í loftið í samkeppni við brunnmíginn í Brussel.

Og Ómar Ragnarsson er áreiðanlega tilbúinn að kosta smíði og rekstur þessarar afsteypu átrúnaðargoðsins.

Þorsteinn Briem, 24.1.2015 kl. 15:19

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú rifjast upp fyrir mér orð skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar í sjónvarpsviðtali fyrir um 40 árum þegar hann var spurður að því hvers vegna reist hefði verið alveg samfelld húsaröð meðfram Kleppsvegi sem byrgði alveg útsýni frá veginum yfir Sundin blá, Kollafjörð, Kjalarnes og Esjuna. Hvers vegna ekki hefði frekar verið reist þar hús, jafnvel hærri, sem gæfu auð svæði á milli til útsýnis. 

Hann svaraði: "Það var engin ástæða til að búa til ástæðu fyrir bílstjóra til að horfa á eitthvað annað en götuna framundan." 

Frábært svar. En gleymdi alveg að í 70 manna rútum er bara einn við stýrið. 

Og líka því að með sömu rökum þyrfti helst að byrgja fyrir útsýni frá íslenskum þjóðvegum til helstu náttúrufyrirbæra landsins eins og yfir Suðurland af Kambabrún og til Heklu, Tindfjalla, Eyjafjallajökuls og Skógafoss, svo að dæmi séu tekin. 

Ómar Ragnarsson, 24.1.2015 kl. 18:40

5 Smámynd: Sævar Helgason

Þarna er upptalning á menningarhúsum sem búið er að rífa.
Fjögur þessara húsa voru byggð af hernámsliðinu á tíma seinni heimstyrjaldarinnar og þá í sama stíl og allir braggarnir sem hernámsliðið reisti til bráðabrigða fyrir herinn. Eftir stríðið nýtti fátæk þjóð þessa bragga nokkuð fram yfir 1960 -einkum fyrir heimili. En þessir stóru braggar sem herinn nýtti fyrir samkomuhús hersins ,nýttum við,sum þeirra , jafnlengi og íbúðarbraggana
Þeirra þekktust eru: Hálogaland, fyrir íþróttahús, Trípolibíó og Hafnarbíó fyrir kvikmyndasýningar og Skátaheinimilð fyrir barna og unglingastarf. Þessar byggingar voru úr sama efni og allir þessir braggar - stálbogar sem mynduði hálfhring,klæddir með bárujárni . Einangrun léleg. Áttum við að varðveita þetta sem einhver menningarverðmæti ?

Sævar Helgason, 25.1.2015 kl. 13:16

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, Sævar, ekki endilega öll, heldur eitt þeirra. Sem minjar um aldarfjórðunginn 1940-1965, tíma með mörgum menninngarminjum sem komu og fóru.

Um þær minjar gildir svipað og um gömlu alþýðutorfbæina, sem voru "úr sama efni", - "einangrun léleg". "Áttum við að varðveita þetta sem einhver menningarverðmæti?"

Já, Sævar, ekki endilega alla heldur nokkra, nógu marga til þess að þjóðin gæti um alla framtíð séð, við hvaða kjör hún bjó í gegnum erfiða tíma.  

Ómar Ragnarsson, 25.1.2015 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband