Á að vekja upp 50 ára gamlan draug til að hann drepist aftur?

Fyrir rúmum 50 árum komu fram hugmyndir um flugvöll í Kapelluhrauni, sem er skammt norðan við Hvassahraun og því með sömu afstöðu til Reykjanesfjallgarðsins og Kapelluhraun. Þá var Reykjavíkurflugvöllur nokkur hundruð metra frá miðju byggðar í höfuðborginni, en nú hefur miðja höfuðborgarbyggðarinnar flust í fjóra kílómetra í austur og er austast í Fossvogsdal.

Samt gefa menn sér enn sömu forsendur í þessu og mörgum fleiri málum eins og ekkert hafi breyst.

Agnar Koefoed-Hansen þáverandi flugmálastjóri bauð hugmyndasmiðum flugvallar í hrauninu í flugferð þar sem flogið yrði í aðflug að suðaustur-norðvesturbraut hins nýja flugvallar í hvössum vindi, algengustu storm-vindáttinni og vindátt almennt, suðaustan-átt.

Af því að þetta er algengasta vindáttin yrði oftast að nota þessa braut og þverbraut hennar yrði ófær í miklum hliðarvind á hana.

Flogið yrði lágt eftir brautarstæðinu á litlum hraða til þess að líkja síðan eftir flugtaki frá því til suðausturs. 

Flugtakið af Reykjavíkurflugvelli gekk að óskum og lendingin þar sömuleiðis, að vísu með hugmyndasmiði, sem þá voru höfðu farið að æla.

Þessi ógleði var tilkomin vegna þess að þvílík ókyrrð var þegar flugvélin nálgaðist fyrirhugað brautarstæði, að hætta varð við aðflugið og hverfa frá öllum hugmundum um lágflug eftir brautarstæðinu og eftirlíkingu af flugtaki.

Ástæðan blasir við á landkorti: Það er helmingi styttra frá Kapellu hrauni eða Hvassahrauni að hinni 621 metra háu Lönguhlíð heldur en frá Vatnsmýri. 

Eftir flugtak á braut þarna til suðausturs er enn styttra í fjallhlíðina en í aðflugi og skammt að lægri hindrunum, Undirhlíðum, Gvendarselshæð og Sveifluhálsi.

Langahlíðin er eins og hár og langur veggur í flugtakslínunni og gerir það að verkum að hvass vindur yfir þennan fjallsvegg verður að gríðarlegri ókyrrð sem berst niður Hvassahraun.

Hugmyndin að flugvelli á þessum slóðum var steindrepin fyrir rúmri hálfri öld. En nú er búið að kveða upp þennan draug á ný í viðleitninni til þess að koma núverandi Reykjavíkurflugvelli fyrir kattarnef.

Það væri allt í lagi að menn færu í það að finna upp hjólið á nýjan leik ef það virkaði sem fyrr.

En að vekja aftur upp eitthvað sem drapst til þess eins að það drepist aftur er einum of mikið.

Ýmislegt hefur maður við sumt að athuga eins og gengur, sem forsætisráðherra vor segir, en það sem hann sagði á flokksþinginu um málefni Reykjavíkurflugvallar, er hægt að taka undir. Í því máli er hann minn maður.

  

 

 

    

 


mbl.is Segir að grípa þurfi til varna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samkomulagið sem hin svokallaða Rögnunefnd byggist á:

25.10.2013:

"Í framhaldi af undirritun meðfylgjandi samkomulags milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group munu ríki og Reykjavíkurborg vinna í samræmi við áður undirritaða samninga.

Undirbúningur eftirfarandi verkefna mun þegar hefjast:"

"... ii) Aðilar ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári [2013]. ..."

"iii) ... Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingar vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má."

Samkomulag ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um sameiginlega athugun á flugvallarkostum (svokölluð Rögnunefnd)

Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 03:47

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er Rögnunefndar að finna út úr því hvaða kostir uppfylla kröfur fyrir nýju flugvallarstæði en ekki einhverra annarra.

Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 03:51

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar Ragnarsson 2.4.2015:

"
Á sínum tíma hefði verið skárra að reisa sjúkrahúsið í Fossvogi meðan enn var þar nægt landrými og aðeins einn spítali kominn í stað allra húsanna, sem komin eru á Landsspítalalóðinni.

En nú er orðið of seint að reyna að gera þetta í Fossvoginum.

Við innanverðan Grafarvog er stórt autt svæði við Keldur. Sömuleiðis hjá Vífilsstaðaspítala."

Ómari Ragnarssyni finnst sem sagt allt í lagi að Landspítalinn sé langt frá miðju íbúafjöldans á höfuðborgarsvæðinu en flugvöllur fyrir höfuðborgarsvæðið megi engan veginn vera það.

Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 04:25

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Ómar, takk fyrir að vekja athygli á þessum mikilvæga sannleika.

Ívar Pálsson, 12.4.2015 kl. 08:22

6 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Man þú fórst yfir þetta mál með Hvassahraun fyrir ekki svo löngu síðan, hélt að þessi hugmynd væri endanlega jörðuð. Hins vegar finnst mér alger bilun að halda úti tveimur flugvöllum með ca 50 km. millibili, sérstaklega þar sem annar flugvöllurinn, Rvk.flugvöllur er staðsettur þar sem hann er. Aðalrök þeirra sem vilja halda flugvellinum í Vatnsmýrini er þau, að það sé svo stutt í bráða læknisþjónustu, en það væri lítið mál að byggja upp slíka þjónustu á Sjúkrahúsi Suðurnesja, ef innanlandsflug væri á Keflavíkurflugvelli, styttri vegalengd frá velli að sjúkrahúsi, sem myndi jafna sig út með svipaðan tíma vegna lengri flugtíma. Byggja bara þyrlupall við LHS.  

Jónas Ómar Snorrason, 12.4.2015 kl. 08:23

7 identicon

Og kominn tengill á Rögnunefndina! :-)

Hvenær æatlaði hún annars að skila af sér skýrslunni?

ls (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 09:44

8 identicon

Þessi lína um að það sé dýrt og óþarft að reka tvo flugvelli með 50 km millibili er einn af frösum flugvallaumræðunnar sem standast enga nánari skoðun. Helstu plöggin sem vísað er í til stuðnings þess að flugvöllurinn verði að víkja úr Vatnsmýri eru hagræn úttekt ParX frá 2007 og uppfærsla hennar á vegum Capacent 2013. Þetta eru skýrslunar sem eiga að sýna fram á tugmilljarða samfélagslegan ábata af því að völlurinn fari úr Vatnsmýri. Það er reyndar ýmislegt gagnrýnivert við forsendur þessara útreikninga sem veldur því að það er ekki hægt að taka þeim sem heilögum sannleika en það er önnur saga. Í þeim er það þó viðurkennt að Reykjavíkurflugvöllur verður ekki lagður niður án þess að það kalli á gerð nýs flugvallar á SV-landi. Annað hvort væri sá völlur nýr innanlandsvöllur á höfuðborgarsvæðinu eða nýr flugvöllur á Suðurlandi ef innanlandsflug yrði flutt til Keflavíkur. Það er einfaldlega vegna þess að Keflavíkurflugvöllur þarf litla bróðir á suður eða suðvesturlandi sem getur gegnt hlutverki varaflugvallar fyrir millilandaflugið. Ef slíkur völlur er ekki til staðar fellir það mikið óhagræði á millilandaflugið sem er undirstaða stærstu atvinnugreinar landsins í dag.

Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 09:54

9 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Að sameina innanlands- og utanlandsflug er góð hugmynd. Ég er svolítið skotinn í þessari hugmynd með Kapelluhraunið en að sjálfsögðu verður að taka mið af veðurfarslegum aðstæðum. Keflavíkurflugvöllur kemur til af þeirri staðreynd að þarna var herflugvöllur og staðsetningin þjónaði bandaríkjaher en ekki þjóðinni fyrir utanlandsflugið. Jónas Ómar bendir á þyrlupll við LHS. Að sjálfsögðu þarf að vera þyrlupallur við nýtt sjúkrahús. Hann er til staðar við öll sjúkrahús í nágrannalöndunum. En ég held að flugvöllur þurfi líka að vera nálægur því vegna smæðar er einfaldlega alltof dýrt að flytja sjúklinga utan af landi með þyrlum. En sennilega veit Ómar betur hvað þetta varðar. En það er erfitt að samræma öll atriði hvað varðar " innanlands-utanlandsflug, sjúkrahús sem þjónar landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu í senn og háskóli á sama stað". En það hlýtur að vera umhugsunarvert hvort ætti ekki að horfa til allra þessara atriða þegar ákvarðanir eru teknar um staðsetningu .

Jósef Smári Ásmundsson, 12.4.2015 kl. 10:03

10 identicon

Ef það er "ekkert mál" að koma upp þjónustustigi á sjúkrahúsi á Suðurnesjum sem getur tekið við bráðatilfellum af öllu tagi sem Landspítali sinnir nú þá hlýtur það að vera ennþá minna mál að koma því þjónustustigi upp á næsstærsta sjúkrahúsi landsins á Akureyri. Það væri mun rökréttara enda er Akureyri sá þéttbýlisstaður sem kemst næst því að vera miðsvæðis á Íslandi en Keflavík er á einu fjarhorni þess. En þetta er tómt mál að tala um. Sjúklingar eru sendir með flugi á Landspítalann vegna þess að þar er sérhæfingin og aðstaðan til þess að takast á við erfiðustu tilfellin. Erlendis standa yfirleitt milljón íbúar eða meira á bakvið aðalsjúkrahús með því þjónustustigi sem við erum að rembast við að halda úti á Landspítala fyrir 320 þúsund manns.

Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 10:09

11 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Punkturinn hjá þér Bjarki varðandi Akureyri t.d. á alveg rétt á sér varðandi bráða þjónustu. En að halda úti "óþörfum flugvelli á þeim stað eins og í Vatnsmýrini, eingöngu vegna bráða þjónustu er bara út í hött. Þess vegna minntist ég á SS, sem er nálægt Keflavíkurflugvelli, sem aftur getur sinnt upphafs og endapunkti innanlandsflugs, það hins vegar gerir Akureyri ekki. Öll bráðatilfelli sem verða á Suðurnesjum, hvaða tegundar sem er, eru flutt landleiðis til Rvk. Aðalmálið er einfaldlega þetta, á að halda úti heilum flugvelli í 50 km. fjarlægt frá Keflavíkurflugvelli eingöngu vegna bráðatilfella, hver er munur á kostnaði við að halda úti Rvk.flugvelli og bráðaþjónustu á Sjúkrahúsi Suðurnesja??? 

Jónas Ómar Snorrason, 12.4.2015 kl. 11:05

12 identicon

Hvassahraun liggur ekki eins illa við Lönguhlíð og Kapelluhraun. Sveifluháls myndar vegg gagnvart Suðaustanátt í Hvassahrauni. En ef við berum saman hæfileika fjallgarða til að mynda sviptivinda og segjum að Esjan spili í 1. deild, þá spilar Langahlíð í 2. deild og Sveifluháls í þeirri þriðju.

Aðeins um örnefnin á svæðinu: Örnefnið Hvassahraun virðist mér ekki vera nafn á hrauni, heldur er þetta bæjarnafn. Hvers vegna skyldi einhver skíra bæinn sinn "Hvassahraun"? Það er ólíklegt að það sé vegna þess að þar sé meira hvassviðri en annars staðar. Fyrir utan það að þetta er töff nafn, þá gæti nálægðin við Afstapahraun spilað inn í. Það setur svip sinn á nágrennið. 

Innar í landinu er Hvassahraunssel. Það er þá ekki sel í Hvassahrauni, heldur sel Hvassahraunsbónda, þ.e.a.s staður þar sem vinnufólk hefur verið haft á sumrin með búfé.

Jon Erlingur Jonsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 11:17

13 identicon

Jónas: Reykjavíkurflugvöllur er til staðar núna. Samkvæmt áætlunum Isavia kostar rekstur vallarins á tímabilinu 2011-2025 undir einum milljarði á ári úr ríkissjóði. Lokun vallarins kallar óhjákvæmilega í gerð annars flugvallar á suður- eða suðvesturlandi og felur því ekki í sér neinn sparnað í rekstri flugvalla.

Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 11:28

14 identicon

Um Hvassahraun.

Nafnið vísar til þess að hraunið er hvasst undir fæti og hefur án efa verið óárennilegt fyrir illa skædda smala og ferðamenn á fyrri tíð.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 11:56

15 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

það er nóg pláss á Keflavíkurflugvelli Bjarki, ekki vera svona þrjóskur.

Jónas Ómar Snorrason, 12.4.2015 kl. 12:26

16 identicon

Pláss hefur ekkert með þetta að gera.

Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 12:34

17 identicon

Skítbuxarnir í framvarðasveit borgarinnar komnir í gang.  Skipulagið er verktökum að kenna en ekki Degi og halelújakórnum.  Þetta er sannkallað skítapakk.

http://www.andrisnaer.is/frettir/2015/04/af-sjarma-og-odrum-grunnhugtokum-skipulagsfraedinnar/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 12:57

18 identicon

Á korti sem ég er með, eru merkt fjögur sel þarna á litlu svæði. Hvassahraunssel, Lónakotssel, Óttarsstaðasel og Straumsel. Á Google Earth er nú auðvelt að finna þessi sel. Þau eru í ljósgrænum lit sem sker sig frá umhverfinu og í öllum greinilegar tóftir eða hleðslur. Hér er t.d. Hvassahraunssel: https://www.google.se/maps/@64.0050729,-22.091084,399m/data=!3m1!1e3 .

Jon Erlingur Jonsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 13:59

19 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

Keflavíkur og Reykjavíkur flugvellirnir spila saman í millilandaflugi:

Gott dæmi er þegar skýjahæð er lág, þá er oft betra skyggni í Rvk. Til að flugvél fái flugtaksheimild verður hún að geta lent aftur ef eitthvað kemur uppá í flugtaki, td ef mótor bilar. Ef skyggni í Kef er ekki nógu gott fá vélarnar ekki að fara í loftið, þar til skyggni hefur batnað! Stundvísi fluga versnar og tengiflugsfarþegum ekki skemmt meðan þeir bíða og sjá biðtímann á næsta áfangastað skreppa saman og einhverjir missa þar af næstu vél.

Það er oft betra skyggni í Rvk og með Rvk sem planaðan varavöll má oftast fara í loftið á réttum tíma.

Kolbeinn Pálsson, 12.4.2015 kl. 14:16

20 identicon

Verði Reykjavíkurflugvelli lokað og miðstöð innanlandsflugs skikkuð til Keflavíkur, tel ég að innanlandsflug muni leggjast af í núverandi mynd.  Það verður einfaldlega ekki samkeppnishæft við samgöngur á landi, þá sérstaklega einkabílinn.

Fyrir það fyrsta mun kostnaður hækka, m.a. vegna lengri flugtíma og lengri aksturs á jörðu niðri - og þykir þó flestum nóg um fargjöldin eins og þau eru núna.  Þá bætist við kostnaður við að komast til eða frá höfuðborgarsvæðinu, fyrir þá sem þangað koma eða fara (sem og aukinn útblástur vegna þessara ferðalaga).

Þá er ótalið óhagræði vegna lakari nýtingar flugáhafna, enda gilda strangar reglur um vinnu- og hvíldartíma flugmanna.  Lengri flugtími í hverri ferð og lengri tími milli ferða þýðir einfaldlega færri ferðir og þ.a.l. þarf fleiri flugmenn til að veita sömu þjónustu.  Ekki myndi það lækka fargjöldin.

Ferðatíminn í heild mun lengjast til muna, að líkindum u.þ.b. tvöfaldast miðað við það sem nú er.  Í fyrsta lagi munu farþegar þurfa að mæta minnst klukkustund fyrir brottför, m.a. til að fara í gegnum öryggisskoðun (öðruvísi komast farþegar t.d. ekki beint í millilandaflug).

Þá lengist flugtíminn um líklega 10 - 15%, það mun taka að meðaltali tvöfalt lengri tíma (eða meira) að komast af/á stæði og inn/út úr flugstöð og það er ekki ólíklegt að lengur þurfi að bíða eftir farangri í KEF.  Svo er það ferðalagið til eða frá Reykjavík, fyrir þá sem þaðan koma eða þangað eru að fara.

Tökum flugferð frá Akureyri sem dæmi og sláum á meðaltalstíma:

Mæting hálftíma fyrir brottför, 45 mínútna flug, 5 mínútur á stæði, 10 mínútur í farangur, 5 mínútur í leigubíl á Lækjartorg (eða um 15 mínútur á flesta staði á höfuðborgarsvæðinu).  Samtals 1:30 til 1:40 frá mætingu til komu á endanlegan ákvörðunarstað.

Mæting klukkustund fyrir brottför, 50 mínútna flug, 10 mínútur á stæði, 15 mínútur í farangur, 45 mínútur á BSÍ með áætlunarbíl (biðtíma í KEF gæti verið 10 mínútur).  Samtals 3:00 til 3:10 - auk 5 til 15 mínútna á endanlegan ákvörðunarstað.

Fyrir þá sem ferðast báðar leiðir samdægurs yrði harla lítill tími aflögu til að vinna eða sinna erindum, ef heildarferðatíminn fer úr 3 klst. í um eða yfir 6 klst.

Akstur á milli Akureyrar og Reykjavíkur: u.þ.b. 5 klst. á löglegum hraða (sumir fara þessa leið á skemmri tíma), auk þess að hafa eigin bíl til umráða á höfuðborgarsvæðinu (í stað þess að borga fyrir leigu- eða bílaleigubíl).

Það gæti þess vegna verið harla gott tímakaup þessar fjórar klst. sem akstur báðar leiðir á einkabílnum tekur aukalega, í stað þess að nota þær almenningssamgöngur sem innanlandsflugið er.

Háhraðalest á milli Reykjavíkur og Keflavíkur gæti stytt ferðatímann þar á milli um kannski 20 til 30 mínútur, að því gefnu að 2 lestir væru stanslaust á ferðinni (og biðtíminn gæti þess vegna orðið allt að 20 mínútur).  Það er svo spurning hvort hægt yrði að halda 180 km/klst. meðalhraða eða ná 250 km/klst. hámarkshraða allan ársins hring, ég hef ákveðnar efasemdir um það.  Vissulega yrðu lauf á teinunum lítið vandamál, ísing gæti hins vegar orðið það.

Það hefur verið nefnt að það sé upplagt að færa innanlandsflugið nær millilandafluginu, það muni koma bæði heimamönnum og ferðamönnum til góða.  Því miður virðist vanta tölfræðilegar upplýsingar til að hægt sé að meta hversu raunhæfur kostur það er, veit einhver hversu hátt hlutfall núverandi innanlandsfarþega eru á leið í eða úr millilandaflugi?

Það má svo sem segja að búast mætti við einhverri fjölgun farþega í tengslum við millilandaflug, að sama skapi má einnig búast við fækkun þeirra farþega sem eingöngu eiga erindi innanlands.

Þar fyrir utan er tímasetning millilandaflugs þannig að það hentar ákaflega illa að tengja innanlandsflug beint við drýgstan hluta þess.  Það eru fyrst og fremst þeir sem koma frá Evrópu eða eru á leið til N-Ameríku (eða örfárra staða í Evrópu) síðdegis sem gætu nýtt sér beina tengingu við innanlandsflug.

Þeir sem koma frá N-Ameríku á morgnana gætu vissulega farið næstum beint í innanlandsflug, það er hins vegar þannig að stærsti hluti þeirra farþega er á leið beint áfram til annarra Evrópulanda.  Þeir sem sem notfæra sér möguleikann á að stoppa stutt á Íslandi gætu reyndar farið beint út á land, í stað þess að "festast" á SV-horninu - sjá þó næsta atriði.

Þeir sem ætluðu sér að taka innanlandsflug til að fara til Evrópu að morgni, þyrftu að vera mættir út á flugvöll líklega ekki síðar en um kl. 04:00 og lenda í KEF um kl. 06:00.

Það er vissulega svipaður tími og fólk almennt þekkir sem er á leið frá Reykjavík í millilandaflug í KEF hvort sem er.  Hins vegar er hætt við að fáir farþegar tækju sér far með innanlandsflugi sem færi frá KEF um kl. 02:30 og lenti um kl. 03:30 - og eitthvað myndi það líklega hækka fargjöldin ef þyrfti að halda úti flugvélum og áhöfnum úti á landi til að leggja af stað til KEF kl. 05:00.

Nú má ekki misskilja mig sem svo að ég vilji alls ekki innanlandstengiflug við Keflavík, ég tilheyri þeim líklega agnarsmáa hópi Íslendinga sem reglulega nýtir það.  Það er í boði til/frá Akureyri tvo daga í viku yfir sumarið, reyndar féll það víst niður að hluta sl. sumar - vegna lélegrar nýtingar (farþegar sem áttu bókað voru sendir um Reykjavík í staðinn).

Það er reyndar tiltölulega einfalt að ná síðustu innanlandsflugferðum frá Reykjavík þegar komið er heim frá Evrópu síðdegis.  Flesta daga vikunnar er líka hægt að ná síðdegisferðum frá KEF með því að taka morgunflug innanlands.  Fyrir þá sem ekki vita, þá er núna hægt að bóka flugrútuna til/frá innanlandsflugi (líkt og gildir um flesta gististaði í Reykjavík).

Ég gef mér að uppistaða farþega í innanlandsflugi tengist ekki millilandaflugi (þetta byggi ég fyrst og fremst á eigin tilfinningu og reynslu sem farþegi í innanlandsflugi), þess vegna sé ég engin rök fyrir því að færa innanlandsflugið úr höfuðborginni til að tengja það betur við millilandaflug.  Það væri þó gott ef einhver gæti bent á áreiðanlegar tölur um hlutfallslega skiptingu innanlandsfarþega eftir erindi/ákvörðunarstað (mig minnir reyndar að spjald með einhverjum slíkum tölum hangi uppi á vegg í flugstöðinni á Akureyri).

Mín niðurstaða er að það sé engan veginn raunhæfur kostur að ætla að innanlandsflug geti þrifist, verði því úthýst úr Reykjavík.  Ef einhver getur sýnt fram á hagkvæmni innanlandsflugs í Keflavík með rökum sem hrekja það sem að ofan er talið, þá er ég tilbúinn að hlusta.

Umræðan líður hins vegar fyrir skort á upplýsingum og offramboð lítt rökstuddra fullyrðinga.  Sýnið mér fram á hagkvæmni þess að KEF verði eini flugvöllurinn á SV-horninu fyrir farþegaflug, þ.á.m. innanlandsflug (og m.t.t. varaflugvallar vegna millilandaflugs) og þá skal ég endurskoða afstöðu mína.

TJ (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 14:44

23 identicon

Afar góð greining hjá TJ. Tek undir flest sem hann segir.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 15:10

24 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Bjarki, helsta ástæðan fyrir Rvk.flugvelli er sú, að hann sé í nálægð við bráða móttöku vegna sjúkraflugs, það er alveg hárrétt. Kef.flugvöllur er það líka, því ég var upplýstur um það að á HSS í Keflavík væri einnig með bráðamóttöku, sem væri auðveldlega hægt að styrkja enn frekar. Sem öryggisflugvöllur, þá getur Rvk.flugv. auðvitað þjónað því hlutverki líka, en einnig Akureyri, Egilsstaðir og væntanlega Höfn. Það er bilun að blokkera uppbyggingu í Vatnsmýrini fyrir eithvað sem er óþarfi.

Jónas Ómar Snorrason, 12.4.2015 kl. 15:54

25 identicon

Ég held nú að helsta ástæðan fyrir tilvist Reykjavíkurflugvallar sé að staðsetningin hentar ágætlega fyrir þetta mannvirki og tilgang þess sem miðstöð innanlandsflugs, sem áfangastaður sjúkraflugs og sem varaflugvöllur millilandaflugs. Ef það er ekki nógu sannfærandi um nauðsyn varaflugvallar á suðvesturlandi að sú þörf sé viðurkennd í þeim skýrslum sem annars eru jákvæðastar um það að leggja niður völlinn í Vatnsmýri þá veit ég ekki hvað þarf meira til.

Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 16:12

26 identicon

Þakka þér fyrir Steini, mér sýnist skýrslan frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja nokkurn veginn samhljóða því sem ég taldi upp.  Þeirra áhugi beinist að þeim 150 - 200 störfum sem fylgja myndu innanlandsflugi um Keflavík og eflingu þjónustu á svæðinu í kjölfarið.

Hins vegar eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga ef innanlandsflug yrði um Keflavík:

    • Flugfélögin gera ráð fyrir allt að 25 - 40% fækkun flugfarþega innanlands

    • Búast má við að innanlandsflug um Keflavík myndi síður þjóna landsmönnum vegna erinda innanlands

    • Það myndi fremur gagnast þeim sem væru á leiði í eða úr millilandaflugi (það hlutfall er núna um 5%)

    • Hlutfall erlendra farþega myndi líklega hækka (úr u.þ.b. 10% hjá FÍ)

    • Rúsínan í pylsuendanum: að opinbera styrki þyrfti til að mæta hærri rekstrarkostnaði flugfélaganna

    Þeim sem minnst nota innanlandsflug finnst sem sagt allt í lagi að óhagræði þeirra sem mest nota það verði svo mikið að þeir hætti að nota það.  Með öðrum orðum, leggjum innanlandsflug af sem almenningssamgöngur og fjölgum þeim sem aka um vegi landsins.

    Farþegar sem fóru um Reykjavíkurflugvöll með áætlunarflugi innanlands árið 2012 voru nálægt 360.000.

    TJ (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 16:20

    27 Smámynd: Þorsteinn Briem

    TJ:

    Mér líst vel á flugvöll fyrir innanlands- og millilandaflug í Hvassahrauni og Keflavíkurflugvöllur verður að sjálfsögðu ekki lagður niður.

    Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 16:37

    28 Smámynd: Þorsteinn Briem

    Auðvelt að fara með strætisvagni eða leigubíl frá flugvelli í Hvassahrauni til Reykjavíkur eða Keflavíkurflugvallar.

    Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 16:48

    29 identicon

    Síðustu ár hafa komið upp nokkrar hugmyndir um  nýja staðsetningu á flugvelli fyrir innanlandsflugið, s.s. Hólmsheiði, Kapelluhraun, Löngusker, Keflavík.

    Ég hef samt ekki rekist á það í umræðunni að setja nýjan völl á nesið fyrir norðan Bessastaði.  Af hverju ætli að það sé, hvílir einhver bannhelgi á Bessastaðanesinu? 

    Jóhannes (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 17:09

    30 identicon

    Bessastaðanes er einn af stöðunum sem Rögnunefnd er að skoða.

    Bjarki Sigursveinsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 17:11

    31 identicon

    Steini, ef það kemur í ljós að þessi staður henti fyrir flugvöll, þ.e.a.s. sé ekki lakari kostur en Vatnsmýri, þá er alveg sjálfsagt að skoða það mál.  Það virðast þó ekki allir vera sannfærðir um ágæti þessa staðar og ekki hef ég forsendur til að leggja mat á það.

    Það er þó ljóst að hann er afleitur hvað varðar sjúkraflug og vegalengd að sjúkrahúsi.  Það verður aldrei raunhæft að sinna öllu sjúkraflugi með þyrlum, fremur en með hefðbundnum flugvélum.  Hvor tegund loftfara gegnir veigamiklu hlutverki sem hin tegundin getur ekki sinnt með sama hætti.

    Hvað kostnaðinn varðar, þá er nokkuð ljóst að nýr flugvöllur verður aldrei lagður öðruvísi en sem millilandaflugvöllur.  Það þarf ekki annað en að skoða ástand flugvalla út um allt land til að sjá að það er ekkert afgangs - og það er víst bannað að láta millilandaflug "niðurgreiða" innanlandsflug.

    Það er þess vegna ögn undarlegt að horfa á fyrirhugaða uppbyggingu í KEF, á meðan aðrir millilandaflugvellir eru svo vanbúnir að þeir standa vart undir nafni - og geta þ.a.l. varla tekið við reglulegu millilandaflugi með góðu móti.  Þetta er hins vegar önnur umræða.

    Svo er annað sem er skemmtilega öfugsnúið...  Um leið og ein forsenda þess að það geti talist "réttlætanlegt" að innanlandsflug verði um Keflavík, þá hverfur um leið röksemdin fyrir því að það þurfi að færa innanlandsflugið nær millilandafluginu.

    Það verður nefninlega hægt að ferðast í báðar áttir, verði háhraðalest að veruleika og það mun að líkindum taka sama tíma að ferðast frá Reykjavík til Keflavíkur og frá Keflavík til Reykjavíkur!

    TJ (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 17:59

    32 Smámynd: Sigurður Antonsson

    Nefndir lifa sínu eigin lífi. Óþarfi að hlaupa út í Hvassahraun til að sjá hve arfavitlaus hugmyndin er. Víða við stórborgir eru smærri flugvellir skammt frá miðborg, við Los Angeles og Río de Janeiro. Þeir þrífast ágætlega.

    Aðaláherslan er lögð á að gera viðunandi umferðaræðar að aðalflugvöllum. Hér vantar mikið upp á aðgengið til Keflavíkurflugvallar. Umferðaæðar í gengnum Hafnarfjörð er þröskuldur og enn hefur ekki verið lokið við tvær aðreinar í hvora átt til Keflavíkur. 

    Varlega má áætla að tíminn sem tekur að aka til Keflavíkurflugvallar gæti styðst um 1/3 ef ekki meir en 15 mínútur.  Þjóðhagslega eru úrbætur í vegagerð hér þær arðbærustu sem völ er á.  

    Sigurður Antonsson, 12.4.2015 kl. 19:26

    33 Smámynd: Þorsteinn Briem

    TJ:

    Í langflestum tilfellum er fólk flutt á Landspítalann með sjúkrabílum en einnig þyrlum þegar á þarf að halda.

    Sjúklingar á Norðaustur- og Austurlandi eru hins vegar í flestum tilfellum fluttir á Landspítalann með flugvélum.

    Flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði væntanlega einnig á flugvelli í Hvassahrauni og fólk flutt þaðan á Landspítalann með þyrlu þegar á þyrfti að halda.

    Það tæki svipað langan tíma og nú tekur að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá flugvellinum í Vatnsmýrinni krókaleiðir að Landspítalanum við Hringbraut.

    Þyrlur Landhelgisgæslunnar fljúga á um fimm kílómetra hraða á mínútu, þannig að það tæki þær um 3 mínútur að fljúga með sjúkling af flugvelli í Hvassahrauni á þyrlupall við Landspítalann við Hringbraut, þar sem bein loftlína á milli staðanna eru um 12 km.

    Og engin ástæða til annars en flugvöllur í Hvassahrauni yrði bæði innanlands- og millilandaflugvöllur, þannig að kostnaður vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar yrði mun minni en ella og erlendir flugfarþegar tækju þátt í kostnaði vegna beggja flugvallanna.

    Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 19:43

    34 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

    Ég sé ekkert að því að aðstaða fyrir innanlandsflug verði á Keflavíkurflugvelli en flugvöllur verði samt sem áður í RVK. sem myndi þá þjóna sem varaflugvöllur fyrir utanlandsflugið. Skynsamlegast væri þá að sá flugvöllur verði áfram í vatnsmýrinni þar sem hann er í nálægð við Háskólana og nýtt Sjúkrahús. Varðandi hraðlest á milli keflavíkur og RVK þá held ég að það myndi aldrei ganga upp. Miðað er við eldri gerðir lesta og spá um nýtingu er á bjartsýnari nótunum. Ef ég ætti sjálfur að velja á milli myndi hraðlestin ekki vera ofaná vegna þess að sá tími sem færi í að koma sér til BSR í þessa lest og til keflavíkur yrði einfaldlega lengri en nota einkabílinn eða leigubíl. Ég held að menn eigi að leggja þessi áform á hilluna.

    Jósef Smári Ásmundsson, 12.4.2015 kl. 19:57

    35 Smámynd: Þorsteinn Briem

    Andstaða sumra við flutning innanlandsflugsins af Vatnsmýrarsvæðinu er þannig að þeir munu aldrei samþykkja flutninginn.

    Og eins víst að vinna við gerð nýs flugvallar hefjist ekki fyrr en ný ríkisstjórn tekur hér við völdum, í mesta lagi eftir tvö ár.

    Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 20:06

    36 Smámynd: Þorsteinn Briem

    Far með flugrútunni á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) í Reykjavík, um 50 kílómetra leið, kostar um tvö þúsund krónur aðra leiðina og rútan er 45 mínútur á leiðinni.

    Og 1,8 milljónir ferða árið 2012 fyrir tvö þúsund krónur hverja ferð eru samtals um 3,6 milljarðar króna, eða um 72 milljarðar króna á 20 árum.

    Hins vegar er reiknað með að hér á Íslandi dvelji um tvær milljónir erlendra ferðamanna árið 2023, eftir átta ár.

    29.11.2013:


    ""Ástæða þótti til að skoða málið og kanna hvort raunhæft sé og hagkvæmt að ná háhraðatengingu á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur," segir Runólfur Ágústsson.

    Framkvæmdin kostar 106 milljarða
    , að mati hópsins.

    "Þá er við það miðað að lestin fari frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði og þaðan neðanjarðar síðustu 11-12 km að miðborg Reykjavíkur."

    "Ef að allt gengur upp gæti þessari framkvæmd verið lokið upp úr 2020 og þá yrði farþegafjöldinn 3-4 milljónir á ári," segir Runólfur."

    Háhraðalest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur kostar 106 milljarða króna

    Þorsteinn Briem, 12.4.2015 kl. 20:25

    37 Smámynd: Ómar Ragnarsson

    Þrjú sveitarfélög flækjast inn í málið ef Bessastaðanes verður ofan á. Það er ólíklegt að fólk í Garðabæ sætti sig við algerlega nýtt fjöldaflug yfir bæinn eða að Kópavogsbúar sætti sig við sams konar flug yfir þann bæ.

    Í Bessastaðanesi er einstaklega fjölbreytt og magnað fuglalíf. Þar eru ekki sömu möguleikar fyrir löngum flugbrautum fyrir millilandaflug eins og er varðandi austur-vestur flugbrautina í Reykjavík og báðar flugbrautirnar við Hvassahraun.

    Það eru einungis hin litla Straumsvík sem skilur að Kapelluhraun og Hvassahraun þannig að sömu veðurskilyrði eiga við báða staðina.    

    Ómar Ragnarsson, 12.4.2015 kl. 20:41

    38 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

    Stór hluti af flakki fólks á höfuðborgarsvæðið frá Landsbyggðinni þjónar engum tilgangi.Flakk sveitarstjórnarmanna til höfuðstaðarins má þess vegna leggast af.Mest eru þetta skemmtiferðir sem almenningur borgar.Eftir stendur að koma fólki á sjúkrahús sem stendur undir nafni.Kaninn rak fullkomið sjúkrahús á suðurnesjum sem kjördæmapotarar á höfuðborgarsvæðinu lokuðu um leið og þeir tóku skiplagsvald Keflavíkurflugvallar af sveitarfélögum þar, þótt ekki megi taka það af R.Vík, vegna frekju Reykvíkinga, og færðu til ríkisins,ISAVIA.Ef reykjavíkurflugvöllur verður sleginn af,þarf að byggja upp bráðaþjónustu á suðurnesjum,sem raunar þarf að gera hvort sem er, því hvað á að gera ef flugvél með 2-3 hundruð manns ferst í flugtaki eða lendingu, og kanski ein þyrla ril staðar.

    Sigurgeir Jónsson, 12.4.2015 kl. 20:41

    39 identicon

    Það verða alltaf 50 kílómetrar frá miðborg Reykjavíkur til Keflavíkurflugvallar. Það er vissulega hægt að leggja hraðlest fyrir tugi milljarða en það skauta margir fram hjá því að það þarf að greiða fargjald í lestum og það verður hátt í þessari íslensku fluglest. Það er líka hægt að vinna í vegabótum þar til það háklassa Autobahn alla leið úr Reykjavík til Leifsstöðvar með 130 km hámarkshraða. Það skafar nokkrar mínútur af ferðatíma en ökutúrinn verður ekkert ódýrari fyrir vikið heldur þvert á móti, það kostar eldsneyti og slit að þenja kaggann á öðru hundraðinu miðað við rólegheitarúnt á 90.

    Það er góðra gjalda vert að skoða Hvassahraun betur. Mér sýnist vel hægt að stilla upp flugbraut þarna í ríkjandi vindátt (SSA) án þess að fjöll á Reykjanesi þvælist meira fyrir en þau gera gagnvart Reykjavíkurflugvelli.

    Ég tók saman vegalengdir frá miðborgum Norðurlanda að aðalflugvelli viðkomandi borga og birti hér: http://www.reddit.com/r/Iceland/comments/329zh4/hvassahraun_sko%C3%B0a%C3%B0_undir_al%C3%BEj%C3%B3%C3%B0aflugv%C3%B6ll/cq9za5r

    Hvusslax (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 20:49

    40 Smámynd: Ívar Pálsson

    Fyrir einungis vextina af lántökum vegna hraðlestar KEF-Reykjavík má borga fría rútuþjónustu fyrir alla ferðalanga á 10 mínútna fresti allan sólarhringinn. Upphæðir varðandi hraðlest eru svo hrikalegar (og reksturinn!) að þær eru eins og fjöldi Harpa á sterum. Gleymum hraðlestum í umræðunni.

    Ívar Pálsson, 12.4.2015 kl. 22:02

    41 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

    TJ. er algerlega með þetta.

    Þarf engu við að bæta og þyki ég þó frekar frjáls og allt það, þegar að skoðunum kemur.

    Sindri Karl Sigurðsson, 12.4.2015 kl. 22:59

    42 identicon

    það er Ómetanlegt að hafa Ómar Ragnarson til að benda a staðreyndir i þessum malum .sammala þér Sindri TJ. er algerlega með þetta

    Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 12.4.2015 kl. 23:20

    43 Smámynd: Ómar Ragnarsson

    Eru ferðir frá frá úthverfum Reykjavíkur, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ í leikhús eða á tónleika skemmtiferðir á kostnað almennings?

    Eiga sveitarstjórnarmenn í nágrannabæjum Reykjavíkur engin erindi til Reykjavíkur sem þjóna tilgangi og mega þess vegna leggjast af? 

    Á að flokka landsmenn í tvo flokka, - annars vegar landsbyggðarfólkið sem á ekki neinn rétt á koma til Reykjavíkur til að fara til læknis eða fá neina þjónustu eða kaupa neitt í hinni göfugu fæðingarborg minni, - og hins vegar hinir göfugu samborgarar mínir og ég sjálfur þar með, sem megi einir ferðast hér í borginni?

    Þetta er ótrúlegur hugsunarháttur. 

    Ég sat eitt sinn á landsfundi flokks, þar sem fulltrúar svonefndrar "Betri byggðar" ætluðu að leggja það til að blátt bann yrði lagt við lagningu fleiri gatna og að byggja hús við þær. 

    Ég spurði flutningsmann hvort hann héldi að hægt væri að banna fólki að eiga heima í byggð, sem það kysi sér. 

    Hann svaraði því til að það fólk, sem ekki fengi að byggja í nágrannabæjum Reykjavíkur gæti bara farið upp á Akranes til þess! Eins og það stytti nú eitthvað vegalengdirnar ef þetta fólk dirfðist vera "á einhverju flakki sem þjónar engum tilgangi." 

    Í einni blaðagrein þessara manna var því haldið fram að fyrir 70 árum hefði Reykjavíkurflugvöllur átt stærstan þátt í fólksflóttanum af landsbyggðinni til Reykjavíkur, vegna þess, að af því að ekki var hægt að koma þessu fólki í blokkir á Vatnsmýrarsvæðinu hefði það helst vilja eiga heima í dreifðari byggð í úthverfunum og þar með valdið því hvað borgin hefði þanist út! 

    Það væri Reykjavíkurflugvelli að kenna að byggt hefði verið austan Elliðaáa!

    Á þeim hluta höfuðborgarsvæðisins, sem er austan Elliðaáa búa nú reyndar um 130 þúsund manns, en þessir menn trúa því að þeir hefðu annars allir flust í Vatnsmýrina! 

    Ómar Ragnarsson, 13.4.2015 kl. 00:38

    44 Smámynd: Ómar Ragnarsson

    Það datt úr setningu snemma í athugasemdinni að tillagan á flokksþingin var þess efnis að bannað yrði að leggja nýjar götur og byggja hús við þær í nágrannabæjum Reykjavíkur. 

    Ómar Ragnarsson, 13.4.2015 kl. 00:40

    45 Smámynd: Benedikt V. Warén

    Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er, eða aflagður.  Enginn heilvita stjórnmálamaður mun byggja annan flugvöll á Reykjavíkursvæðinu.

    Ef Reykjavíkurflugvöllurinn verður aflagður, ánáttúrulega að byggja upp hátæknisjúkrahúsið á Egilsstöðum, þar sem ekkert sjúkrahúr er fyrir en fínn flugvöllur og nægt rými.  Hægt er að nota teikningarnar og heimfæra þær við Egilsstaði án mikillar aukavinnu.

    Þá loksins fá Reykvíkingar að upplifa þann unað, að hendast fársjúkir um Reykjanesbrautina í öllum veðrum, eða með lest sömu leið, til að fjúga í klukkustund á hátæknisjúkrahúsið á Egilsstöðum.

    Benedikt V. Warén, 13.4.2015 kl. 12:56

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband