Framherjar íslenskrar menningar.

Magnús Ólafsson var einn af hinum ómetanlegu framherjum íslenskrar menningar og þjóðrækni í Vesturheimi. Hér uppi á Fróni, í 4000 kílómetra fjarlægð, eigum við þessum eldhugum mikið að þakka. 

Afl þessarar ræktarsemi við uppruna sinn og fjarlægt land má merkilegt heita 130 árum og fjórum kynslóðum eftir landnám Íslendinga vestra, þar sem ötulir framherjar á borð við Magnús héldu uppi merkinu af fádæma dugnaði og ræktarsemi og viðhéldu íslenskri tungu miklu lengur en búast mátti við svo löngu eftir brottför frumherjanna frá Íslandi og kynslóðaskiptin eftir það.

Á ferðum um Ameríku 1999 og síðar voru það einkum fjögur svæði, sem vöktu athygli fyrir þetta sterka menningarstarf, Manitoba, Norður-Dakota, Washington island í Michicanvatni og bærinn Spanish fork sunnan við Salt lake city í Utah.

Tveir síðastnefndu staðirnir hafa fallið svolítið í skuggann af Íslendingabyggðunum í hinum samliggjandi fylkjum Manitoba í Kanada og Norður-Dakota í Bandaríkjunum, en afl ræktarseminnar við Ísland og íslenska menningu er firnasterkt á Washington island og þó einkum í Spanish fork, þar sem sem Mormónatrúin beinlínis hvetur til þess að hyggja að forfeðrum og formæðrum og rækta uppruna sinn. 

Þar voru menn til dæmis fljótari að koma upp fullkominni skrá yfir Íslendinga eftir 1703 í tölvutæku og skipulegu formi samkvæmt nýjustu kröfum um slíkt heldur en hér á landi og minnismerkin þar um Íslendinga, sem gengu þúsundir kílómetra á leið til fyrirheitna landsins, eru kannski það ógleymanlegasta sem hægt er að upplifa á Íslendingaslóðum vestra.   


mbl.is Andlát: Magnus Olafson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband