Æfingasvæði fyrir marsfara fyrir 14 árum.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að myndavél sem nota á til að kanna landslag á Mars hafi verið reynslukeyrð hér á landi.

Það er nefnilega ekki nýtt að Ísland þyki heppilegt á ýmsan hátt sem æfingasvæði fyrir Marsferðir framtíðarinnar.

Bob Zubrin, helsti talsmaður þessara ferða, sem rætt var við í aðalefni tímaritsins Time um Marsferðir framtíðarinnar, kom hingað til lands fyrir 15 árum og ég var svo heppinn að geta flogið með hann austur að Kverkfjöllum og norður á Kröflusvæðið þegar hann var að sannreyna, að hér á landi gæti verið að finna gagnlegustu staðina fyrir æfingar í tengslum við ferðir til Mars.

Árið eftir kom sendinefnd frá Alþjóðlegum samtökum um ferðir til mars hingað til lands, valdi sér svæði í Gjástykki sem æfingasvæði fyrir Marsfara og þar og í þeirri ferð var gagnlegt að geta hitt fólk í innsta hring þessa máls, ræða við það og birta viðtöl og myndir. 

En það eru blikur á lofti varðandi þetta mál því að leynt og ljóst er stefnt að því að reisa gufuaflsvirkjun í Hellisheiðarvirkjunarstíl á sama svæði og sendinefndinni leist best á.

Nefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma að vettvangur Kröfluelda, Leirhnúkur-Gjástykki, skuli verða skilgreint sem "iðnaðarsvæði."

Nærri má geta hvort Tunglfararnir hefðu farið í Öskju 1967 til að æfa sig fyrir ferð til Tunglsins, ef þeir hefðu þar orðið að klöngrast um svæði með stöðvarhúsi, skiljuhúsi, gufuleiðslum, borholum og virkjanavegum.

Þar að auki er í Gjástykki svæði skammt frá Marsæfingasvæðinu, þar sem á eina staðnum í heiminum má sjá ummerkin um það þegar nýtt Ísland kom upp í gjá, sem varð til þegar meginlandsflekar Ameríku og Evrópu færðust í sundur.

Í gjánni á Reykjanesi, þar sem er svonefnd "Brú á milli heimsálfanna" er hvergi að sjá nýtt land í formi hrauns, sem kom upp þegar flekarnir færðust þar í sundur og heldur ekki neinar samtíma heimildir, frásagnir, skrif eða myndir.

En allt þetta er fyrir hendi í Gjástykki.

Í mínum huga er eins og menn séu varla með öllum mjalla sem vilja vaða inn í Gjástykki með ígildi Hellisheiðarvirkjunar og eyðileggja með því á óafturkræfan hátt stórkostleg og einstæð náttúruverðmæti.

En þeir telja sig vera skynsamt hófsemdarfólk en mig og mín skoðansystkin öfgafólk, sem "vilji fara aftur inn í torfkofana."    


mbl.is Æfði fyrir Mars á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Himnarnir forði okkur frá því að gera eitthvað atvinnu og gjaldeyrisskapandi við svæði sem eru merkileg fyrir þær sakir að útlenskir geimfarar geta notað þau á áratuga fresti til vikulangra æfinga. Og ef vel er gáð má finna þar bæði hraun og grjót sem gætu orðið hin mestu verðmæti þegar grjót og hraun þrýtur.

Nú þegar hefur allt of miklu grjóti verið fórnað fyrir búsetu í þessu landi. Þess er ekki þörf lengur þar sem Norðmenn eru tilbúnir til að taka við okkur aftur, náttúrulegu Íslensku grjóti og möl til verndar og varðveislu, og bjóða barnabörnum okkar að nota Norsku sem móðurmál.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.4.2015 kl. 21:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegt að sjá það mat hér að ofan sem margir leggja á náttúruverðmæti eins og Öskju og Gjástykki, sem ekki megi friða vegna þess að þörf sé á atvinnusköpun. 

Í Gjástykki hafa menn talið möguleika á 30-90 megavatta virkjun, - meðaltalið er 45 megavött.

Það átti að skapa um 20 störf í álveri á Bakka. Glæsilegur árangur! 

Ómar Ragnarsson, 30.4.2015 kl. 22:42

3 identicon

Það átti að skapa um 20 störf í álveri á Bakka...sem áttu að skila þjóðarbúinu tekjum eins og af 5.000 túristum þjónustuðum af 200 minjagripasölum og pólskum þernum.... Glæsilegur árangur?

Atvinnusköpun er góð en tekjur eru betri. Það er ekki þörf á atvinnusköpun sem skilar sömu tekjum af 200 störfum og 20. Þá gætum við einfaldlega bannað skurðgröfur og mjaltavélar....Sem reyndar rímar ótrúlega vel við torfkofadraumana og hræðsluna við risajarðýtur og verður þá sennilega næsta baráttumál! smile

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.5.2015 kl. 02:05

4 identicon

Kallaðu mig ekki Pólska þernu Hábeinn, - ég lifi af túrisma. Það kom alveg óvænt til. Áður var ég bundinn 3 mjaltavélum, en vaxtastefna vegna þensluáhrifa stórvirkjana keyrði mig á kaf. Núna er ég bara með eina mjaltavél og reyndar búinn að reisa nokkra torfkofa.
Að fenginni reynslu langar mig því frekar í ferðamenn en virkjanir.

Jón Logi (IP-tala skráð) 1.5.2015 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband