Mjór er mikils vísir. Áfangi er ekki nógu fínt orð. Leggur skal það vera.

Fyrsta bílferðin hjá Karli Benz var fólgin í því að komast rétt fyrir næsta húshorn. Það var hlegið að aumingjaskapnum í þessari fyrstu nútíma bílferð með bensínknúnum hreyfli. 

Fyrsta bílferðin "út úr bænum" og á milli tveggja staða í dreifbýli hjá konu hans var ekki nema nokkurra tuga kílómetra löng og síðustu kílómetrarnir farnir með því að kaupa spritt í apóteki. Aðhlátursefni og aumkunarvert.  

Fyrsta flugferðin hjá Wrigt-bræðrum var aðeins nokkurra tuga metra löng. Bandarísk hermálayfirvöld töldu árum saman vélknúið flug fjarstæðu og fráleitt til nokkurs gagns í hernaði.   

Fyrsta flugferðin umhverfis jörðina fyrir sólarorku einni saman er ekki beysin þegar miðað er við þann þunga sem skilað er í ferðinni og það hve lítið má útaf bregða.

Eigendur stærri bíla hlógu að litla NSU Prinzinum þegar ég fékk hann.

Það var bara ágætt fyrir mig að þeir hlógu, því að ég var starfandi skemmtikraftur og lifði á hlátri. En þeir hlógu ekki lengi þegar þeir kynntust snerpu og hraða þess litla í Reykjavík og hittu hann fyrir á Króknum eftir ferð yfir ófæra Holtavörðuheiði í apríl 1961 sem stöðvaði lest af stórum flutningabílum.  

Það verður hlegið að "rafbíl litla mannsins" þegar og ef mér tekst að komast á slíkan, enda er nú þegar horft með vorkunnsömum augum á reiðhjólið með hjálpar-rafdrifinu sem ég er byrjaður að grípa í sem örsmátt skref á öld orkuskiptanna.

En mjór er mikils vísir segir máltækið og sá hlær best sem síðast hlær. 

Að lokum: Leggur, orðið sem nefnt er í tengdri frétt, er enska orðið "leg" sem nú er hamast við að innleiða hér í stað hins ágæta íslenska orðs "áfangi." Kannski stutt í að breyta verði heiti ljóðs Jóns Helgasonar úr "Áfangar" í "Leggir" og syngja í laginu "Á Sprengisandi": "Drjúgur verður síðasti leggurinn."

Og í kvöld var fólk "að renna út á tíma" í umræðuþætti í sjónvarpinu, - "eheh, running out of time eh.." myndi Kristján heiti ég Ólafsson hafa orðað það. Já, lúmskur er hinn mikli áhrifamáttur enskunnar sem lætur ekki að sér hæða og leggur okkur öll kylliflöt hvern einasta dag.    


mbl.is „Það má ekkert út af bregða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband