Lífseigir fordómar.

Fyrstu árin, sem barist var fyrir því að lögleiða notkun bílbelta á Íslandi var barist við alveg dæmigerða íslenska fordóma varðandi það að notkun beltanna myndi fjölga látnum og slösuðuðum í umferðinni og lögleiðing þeirra væri skerðing á frelsi einstaklingsins.

Þegar ég deildi um þetta síðastnefnda atriði við einn helsta talsmann frjálshyggju á Íslandi benti ég honum á þá staðreynd að rannsóknir erlendis sýndu, að óbundnir farþegar í aftursæti slöðuðu oft ekki aðeins sjálfa sig með því að vera lausir og hendast áfram eða út úr bílnum, heldur slösuðu þeir oft þá sem þeir lentu á í framsætunum. 

Dró frelsisbaráttumaðurinn þá í land með aftursætisfarþega en hélt enn stífar fram frelsi þeirra sem væru í framsætunum. 

Ég benti honum á tvennt sem mælti gegn því. Annars vegar það, að bílstjóri, sem færi að kastast til og frá óbundinn í ökumannssæti ætti meiri hættu á að missa stjórn á bílnum  en þeim sem væri kyrfilega fastur. Þetta sýndi til dæmis reynsla í bílaíþróttum. 

Og maður sem missir stjórn á bíl getur valdið miklu tjóni á öðrum bílum og fólkinu í þeim. 

Síðan væri það ekki einkamál hvers og eins að lemstrast eða deyja að óþörfu vegna hreinnar frelsisástar, því að heilbrigðis- og velferðarkerfið fengi á sig gríðarlegan skell. 

Við þetta dró frelsisbaráttumaðurinn aðeins í land og sagði að ef sá sem slasaðist byðist til að borga allan brúsann ætti hann heimtingu á því að nota ekki bílbeltin. 

Í fyrstu lögunum um bílbelti vor vegna "séríslenskra aðstæðna" gefnar undanþágur frá því að nota belti í brattlendi svo að menn gætu henst sér út úr bilnum ef þeir teldu hættu á að hann færi fram af brattri brún.

Bakkabræður héldu að betra væri að höfuðið eins þeirra stæði út úr knippi, sem hann var inni í og valt niður fjallshlíð. Þetta var reynt einu sinni með alkunnum afleiðingum.

Ég gæti nefnt dæmi um bílslys í veltu í brattlendi hér á landi þar sem bílbelti hefðu bjargað mannslífum.  

Einnig lifir enn sú bábilja að í nánd við vatn sé betra að vera beltislaus til þess að festast ekki í beltunum inni í bílnum, ef hann lendir í vatni. 

Væri þetta svona mætti nærri geta að í Hollandi væri gefin undanþága frá því að nota bílbeltin við öll síkin, sem eru þar í landi. Ástæðan er sú að óbundinn maður, sem rotast við höggið þegar bíll skellur í vatn og hendist þar að auki til í bílnum er í engri stöðu til að bjarga sér. 

Auðvitað geta beltin ekki bjargað öllum sem lenda í vatni og auðvitað eru dæmi um drukknanir fólks í bílum sem fara í vatn. En enn fleiri myndu drukkna ef beltin væru ekki notuð. 

Engin undanþága er heldur veitt í brattlendinu i Ölpunum eða á vesturströnd Noregs.

Ég hitti einn Norðlending í karlakór hér um árið, sem hafði farið með kórnum í söngferð til Noregs en hafði fram að því haldið fast fram rétti sínum til þess að vera óbundinn í brattlendi. 

Hann sagðist hafa haldið að Ólafsfjarðarmúli og fleiri brattlendisstaðir á Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum væru dæmi um "séríslenskar aðstæður" en hefði komist að öðru í Noregsferðinni.

Þegar maður fór í lengstu röllin hér í gamla daga sem stóðu í þrjá daga fékk maður óþægilega tilfinningu öryggysleysis við að fara úr fjögurra punkta belti rallbílsins í 3ja punkta beltið í fjölskyldubílnum. 

Ég væri ekki að skrifa þennan pistil nú ef ég hefði verið óbundinn þegar bíll minn valt vestur á fjörðum um hánótt í febrúar 1993 til þegar ísskör brast undan honum er ég var að bakka bílnum upp á hana á innan við eins kílómetra hraða á klukkustund. 

Beltið hélt hnakkagróf minni og efri hluta líkamans nógu lengi frá ísköldu vatni, sem fossaði inn í bílinn til þess að ég hélst þurr að ofan og gæti bjargað mér út, þá orðinn svo kaldur að neðan að ég fann ekki lengur fyrir neðri hluta líkamans og fótunum. 

Án beltisins hefði ég króknað úr kulda áður en mér tækist að komast út úr bílnum. 


mbl.is Misstu bílinn í sjóinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill og svo sannur

Í dag þá er það notkunarleysi á handfrjálsum GSM búnaði

Ég veit ekki hversu oft ég hef séð fólk setjast upp í bíl setja hann í gang hringja setja síman undir vangann og byrja að bakka út úr stæðinu

Grímur (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 18:29

2 identicon

Það eru þessar séríslensku aðstæður, "singularities", sem eru ótrúlega lífsseigar með þjóðinni og kitla vesæla þjóðrembu og chauvinisma.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 19:46

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Það er bara einn staður þar sem ég myndi vilja vera beltislaus - þegar ekið er á ís.  Þá getur hvert sekúndubrot skipt máli, en venjulega er keyrt mjög hægt á ís, t.d. á vetrarísvegum í Kanada, því annars myndast alda undir ísnum sem getur brotið hann.  Margir sem keyra þessa ís vegi kjósa að vera beltislausir þegar þeir keyra á ísnum.  Ég held ég myndi kjósa það líka, en hvergi annarsstaðar!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 8.5.2015 kl. 20:07

4 identicon

Þú hefur lent á mjög samvinnuþýðum frelsisbaráttumanni, hafi vingullinn raunverulega verið til í raunheimum. Rök þín standast ekki. Lögleiðing bílbelta var skerðing á frelsi einstaklingsins og sú hætta sem fylgt getur því að nota ekki bílbelti breytir engu þar um. En frelsisskerðing er það þegar þú mátt ekki lengur eitthvað sem þú máttir áður.

Þörfin fyrir frelsisskerðingu verður ætíð matsatriði og einhverjum mun ætíð þykja of langt gengið í forræðishyggjunni rétt eins og öðrum þykir að lengra hefði mátt ganga.

Bílbelti, hjálmar, ölvun á almannafæri, handfrjáls búnaður, reykingabann, hraðatakmarkanir og áfengisbann eru dæmi um boð og bönn sem sett hafa verið með misjöfnum árangri. Og hvenær verður smjör bannað, sykur og saltkjöt? Hnefaleikar og fallhlífarstökk? Snerting án hanska og kossar? Og uppeldi afkvæmis án undangengis námskeiðs og prófs?

Hversu miklu frelsi viljum við fórna fyrir öryggi? Höfum það í huga að fólk hefur gegnum aldirnar gefið líf sitt til að öðlast og verja þetta frelsi einstaklingsins sem við erum hægt og sígandi að missa meðan við byggjum múra öryggis um allt okkar líf.

Espolin (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 22:04

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég forðast að vitna í einkasamtöl nema að viðkomandi samþykki það. En rökræðan átti sér stað við förðunarherbergið í gamla Sjónvarpshúsinu við Laugaveg þegar bílbeltin voru fyrst á dagskrá.

Ef sá, sem rökræddi þetta við mig þá, fréttir af þessum pistli og man eftir samtalinu væri gaman að fá leyfi hans.

Hann hefur stundum verið gagnrýndur fyrir einsýni og það kom mér þægilega á óvart miðað við þrástögun á slíku, sem enn eru í gangi, hve rökræðurnar sýndu þvert á móti að hann gat verið "samvinnuþýður frelsisbaráttumaður". 

Þá nýlega hafði ég kveðið niður bábiljuna um það hve gríðarlega tafsamt það væri að setja á sig bílbeltið, með því að láta setja nýjanörbíl minn af Fiat 126 gerð inn í fréttstúdíóið og sýna í fréttaútsendingu hve langan tíma tæki að festa beltið eða losa það. 

Mig minnir að tímarnir hafi verið: 2,5 sekúndur að festa beltið, og 2 sekúndur að losa það.  

Ómar Ragnarsson, 8.5.2015 kl. 22:28

6 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Beltislausar brúður. Það er í lagi að horfa á þetta, þetta eru bara brúður. 

10640145_362006973952994_344821864_n.mp4

Birgir Þór Bragason, 9.5.2015 kl. 09:11

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Beltin bjarga, fátt annað að segja um málið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.5.2015 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband