Ekki nýtt í Eurovision.

Það er ekki nýtt að lög séu meira og minna "stolin" í Eurovision eða þá svo keimlík öðrum lögum að frumleikinn er nánast enginn. 

Áberandi var fyrir rúmum tveimur áratugum hvað ítalska lagið sem vann þá, var á stórum kafla líkt laginu "What am I living for?" sem var efst á bandaríska vinsældalistanum og víðar 1959. 

Það var beinlínis pínlegt að hlusta á lagið fyrir þá sem þekktu eldra lagið. 

Það er bagalegt þegar það er látið dragast að upplýsa um svona mál fyrr en allt er um garð gengið og of seint í rassinn gripið. 

Minnisstætt er þegar lagið "Söknuður" sem Villi Vill söng svo eftirminnilega heyrðist allt í einu í Noregi og hinn norski höfundur, sem hafði verið á Íslandi þegar "Söknuður" var vinsælt hér, taldi sig höfund þess og hefur stórgrætt á því síðan víða um lönd. 

Raunar eru lögin bæði keimlík laginu "Londonderrry Aír" sem var afar vinsælt fyrir hálfri öld. 

Þrjár fyrstu nótur og fyrstu taktar lagsins "Ó, þú" eru nákvæmlega eins og í lagi sem Nat King Cole söng. Síðan fara lögin hvor sína leið og lag Magga Eiríks er miklu betra en það bandaríska. 

Hann hefur sennilega verið á barnsaldri þegar hann heyrði bandaríska lagið, og ég kannast sjálfur við það að lög geta sokkið niður í undirmeðvitundina á barnsaldri og skotist upp á yfirborðið löngu síðar á þann hátt að hinn uppvaxni heldur að hann hafi samið lagið sjálfur.

Það eru aðeins 12 nótur í tónstiganum og möguleikarnir á frumlegu lagi eru því ekki miklir þegar lögin skipta alls milljónum.  


mbl.is Segja sænska lagið vera stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sveitin milli sanda og Anastasia eru náskyld hvað varðar hljóma og tónaröð, lagið er samt mjög fallegt.

Sigurgeir Kjartansson (IP-tala skráð) 26.5.2015 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband