Lifir enn góðu lífi.

Sá hugsunarháttur, sem lýst er í nýrri könnun um "forsendur" fyrir lántökum, sem "ekki var neitt vit í" í aðdraganda Hrunsins, lifir enn góðu lífi á ýmsum sviðum.

Í þessari nýju könnun kemur það í ljós sem raunar var alkunna, að í ótrúlega mörgum tilfellum töldu lántakendur það næga forsendu fyrir glórulausum lántökum sínum, að nær takmarkalaust lánsfé var í boði.

Var það eitt talin næg forsenda fyrir lántökunum, þótt auðvelt hefði átt að vera að sjá strax þá að þessi "forsenda" fyrir þeim var glórulaus, enda gengi krónunnar og hlutabréfa á þann veg að það gat ekki verið annað en tímabundin bóla.

Og fyrr en varði kom hið sanna í ljós.

En eftir á var málum snúið þannig að hinn skefjalausi aðgangur að lánsfé hefði verið gild forsenda fyrir "lántökum sem ekkert vit var í" og þess vegna yrði að bæta viðkomandi upp "forsendubrest", sama hvernig hann var til kominn.  

Með svipuðu hugarfari er því haldið fram nú sem góðum rökum fyrir því að fara á svig við eðlileg vinnubrögð verkefnastjórnar rammaáætlunar við flokkun virkjanakosta, að mikið framboð sé á viðskiptavinum á sviði orkufreks iðnaðar ( les: orkubruðlsiðnaðar ) og þjóðarnauðsyn sé að selja þeim eins mikla og ódýra orku og mögulegt sé og afgreiða "biðröðina" hratt. 

Þetta kom strax fram 2008 þegar þeir sem höfðu eitthvað við það að athuga að setja niður tvær risavaxnar olíuhreinistöðvar á Vestfjörðum voru stimplaðir sem "óvinir Vestfjarða." 

Samt blasti við að hvergi á Vesturlöndum vildi neinn fá slíkan óhroða til sín, enda hefur ný olíuhreinsistöð ekki risið þar í meira en aldarfjórðung.

 

Fortíð umsækjenda um orkuna virðist litlu máli skipta, hvort sem það eru skúffufyrirtæki í eigu óþekktra rússneskrar oligarka eða fyrirtæki kennitöluflakkara með ljótan feril að baki á Vesturlöndum.

Því síður er tekið mark á eindreginni andstöðu ferðaþjónustunnar, öflugasta atvinnuvegs þjóðarinnar gegn því að mesta verðmæti landsins, einstæð náttúra, verði útleikin eins og stóriðjufíklarnir sækjast skefjalaust eftir.

Nei, "orkufrekur iðnaður" er mærður sem undirstaða velmegunnar þjóðarinnar og "forsenda fyrir atvinnusköpun" þótt innan við 1% af vinnuafli landsmanna starfi við hann, en hins vegar 14% starfi beint við ferðaþjónustuna sem þar að auki gefur meira en tvöfalt meiri virðisauka inn í samfélagið en stóriðjan.  


mbl.is Sögðu ekki „neitt vit“ í lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"þótt innan við 1% af vinnuafli landsmanna starfi við hann, en hins vegar 14% starfi beint við ferðaþjónustuna sem þar að auki gefur meira en tvöfalt meiri virðisauka inn í samfélagið en stóriðjan."  Þegar 14% vinnuafls er ekki að gefa nema tvöfalt það sem 1% gefur þá er nokkuð augljóst að fjórtán prósentin eru varla matvinnungar í samanburði. Að það þurfi 7 starfsmenn í ferðaþjónustu til að skila því sem einn starfsmaður í orkufrekum iðnaði skilar getur ekki kallast góður business. Magn frekar en gæði og mikla vinnu frekar en miklar tekjur er ferðaþjónustan í hnotskurn.

Hábeinn (IP-tala skráð) 27.5.2015 kl. 10:18

2 identicon

Hann er merkilegur þessi tvískinnungur "umhverfisverndarsinna"
Ferðamannaiðnaðurinn mengar meira en allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi.
Bara flug ferðamanna til og frá landinu mengar meira en allur bílafloti landsmanna. Þá er ótalinn sá hluti ferðamanna sem ferðast um á bílaleigubílum og í rútum. 
Svo er það innflutningur á vörum til ferðaþjónustunnar, sem og dreifing á þeim innanlands.

Síðan má náttúrulega minnast á það, að fáar atvinnugreinar borga jafn léleg laun og ferðaþjónustan, sem er í heild sinni láglaunabissness, með tiltölulega fáa sem hagnast mikið. 

Jamm, þetta er dálítill skítabissness, og við erum ekki einu sinni farin að tala um álag á okkar fallegustu náttúruperlur, sem skilar okkur litlu nema skemmdum, auk þess sem vonlaust er að njóta fegurðar og kyrrðar, innan um 40 rútur fullar af háværum ferðamönnum, slatta af húsbílum sem valda gróðurskemmdum út og suður, og ótölulegum fjölda af smábílum eknum af fólki sem enga reynslu hefur af akstri á malarvegum, og eru sjálfum sér og öðrum stórhættulegir á vegunum.

Ferðaþjónusta vs stóriðja?
Engin spurning, það síðarnefnda skilar okkur mun meiri ábata en það fyrra.

Hilmar (IP-tala skráð) 27.5.2015 kl. 13:13

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ómar: "...þótt auðvelt hefði átt að vera að sjá strax þá að þessi "forsenda" fyrir þeim var glórulaus..."

Hvernig átti að vera auðvelt að sjá það, þegar öllum staðreyndum um þann veruleika var markvisst haldið leyndum fyrir almenningi?

Það er aftur á móti mjög auðvelt að koma núna löngu eftir á og segja "told you so" sem er nákvæmlega það sem síðuhöfundur er hér að gera.

Þegar fólk er að berjast við að reyna að koma þaki yfir höfuðið gerir það allt til þess að sjá það verða að veruleika. Eflaust á það einnig við um fólk á Suðurnesjum þar sem sjálfsbjargarviðleitni er ekki nýmæli.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.5.2015 kl. 13:45

4 identicon

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.5.2015 kl. 14:02

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skemmtilegt að sjá hvernig menn halda, að ferðamenn sem koma til Íslands, myndu annars sitja kyrrir heima hjá sér í sumarleyfum sínum. 

Ef þeir ætla að skoða hliðstæð svæði og jarðvarmasvæðin á Íslandi eru, þyrftu þeir flestir að fara þrefalt lengri leið til að skoða Yellowstone. 

Umræðan hjá virkjanasinnum hefur ætíð snúist um atvinnusköpun og fjölda starfa sem atvinnugreinar skapa en nú snúa þeir alveg við blaðinu og fullyrða hið gagnstæða, að það sé best að sem allra fæst störf skapist.

Það stefnir í að 400 milljarðar af gjaldeyri komi árlega inn í hagkerfið í gegnum ferðaþjónustuna og að mest af því renni til íslenskra fyrirtækja og einstaklinga.

Útflutningurinn á áli er hins vegar vafasamt bókhaldsatriði, því að það eru fyrirtæki í eigu útlendinga sem standa að þeim útflutningi og borga nær engan tekjuskatt af gróðanum, - Alcoa meira að segja engan tekjuskatt.

Meðallaun í ferðaþjónustuna eru hærri en í stóriðjuverksmiðjunum þannig að málflutningurinn hér að ofan um það hve ferðaþjónustan sé mikill aumingi fellur um sjálfan sig.  

Ómar Ragnarsson, 27.5.2015 kl. 20:39

6 identicon

Þetta var hlægilegt svar Ómar. Virkilega, ég er ekki að grínast með það.

Það er auðvitað fráleitt að halda því fram, að hótelstarfsmenn, afgreiðslufólk, bílstjórar og leiðsögumenn, svo einhverjir séu nefndir,  fái hærri laun en almennur starfsmaður í álveri. Svo frátleiit, að maður er eiginlega alveg bit.

Og skattamálin, það er engin atvinnugrein eins svakaleg þegar kemur að skattsvikum og ferðaþjónustan. Blygðunarlaus skattsvik út og suður.

Tekjur af ferðaþjónustunni eru ekki 400 miljaðar, og það mjög langt frá.
Vissulega getum við sagt að tekjur ferðaþjónustu nálgist 400 miljarða, og við getum líka sagt að launin mín nálgist 400 miljarða.

Stór hluti tekna ferðaþjónstu fer úr landi vegna kostnaðar. Bílar, fjárfestingavörur, bensín, matur etc.

Venjulega þegar vinstrimaður tjáir sig um stóriðju, þá fylgja einhverjar dylgjur, alltaf innistæðulausar, eins og dylgjur eru í eðli sínu. 
Það er eins og vinstrimenn getui hreinlega ekki tjáð sig án þess að ljúga um málefnið. Dapurlegt, en satt.

Og framtíð ferðaþjónustu?
Jú, hingað koma til með að sækja erlendar keðjur. Hótelkeðjurnar eru að byrja, og eftir fylgja stórar skyndibitakeðjur o.sv.frv.
Þess má geta, að Evrópuþjóðir eiga í stökustu erfiðleikum með að innheimta skatta af risafyrirtækjum, sem gjarnan staðsetja sig í Lúxembúrg, og hafa með stuðningi lúxembúrgískra yfirvalda komið sér hjá skattgreiðslum í rekstrarlandinu.

Og þá rúsínan. Ferðamenn koma til með fara alla leið til Yellowstone til að sjá Ísland, ef þeir geta ekki komist til Íslands. Og með þeirri mengun sem þau ferðalög valda. Nú, fyrir það fyrsta, ferðamenn fóru ekkert sérstaklega til Yellowstone því þeir komust ekki til Íslands. 

Og þetta með aukna mengun. Það er merkilegt að það skuli vera orðin rök hjá manni sem hafnar þeim rökum, að ef ál verður ekki framleitt á Íslandi með tiltölulega hreinlegum hætti, verði það framleitt í Kína, með olíu og kolakyndingu, og hörmulegum mengunarreglum, skuli halda því fram, að mengun aukist ef ferðamenn komast ekki til Íslands, því þeir fari bara eitthvað annað.

Þetta er svo mikil steypa hjá þér Ómar, að meðal steypustöð gæti öfundað þig.

Hilmar (IP-tala skráð) 28.5.2015 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband