Skref í rétta átt.

Dómur Hæstaréttar í Gálgahraunsmálinu í dag er mikilvægt skref í rétta átt varðandi stöðu náttúruverndar á Íslandi þótt æskilegt hefði verið að hann hefði verið alger sýknudómur vegna þeirra aðferða sem Vegagerðin og lögreglan beittu.

21. október 2013 voru tvö dómsmál í gangi varðandi vegalagninguna í Gálgahrauni.

Annað þeirra var lögbannsmál þar sem vegarstæðið og hraunið sjálft var svokallað andlag, þ. e. verðmæti sem vernda þyrfti þar til málinu lyki fyrir dómstólum.

Í stað þess að bíða eftir málalokum í þessum dómsmálum réðist hins vegar 60 manna lögreglulið búið handjárnum, gasbrúsum og kylfum að friðsömu náttúruverndarfólki, sem ekki hreyfði legg né lið, og beitti aðferðum, sem brutu gegn meðalhófi, til þess að færa fólkið í fangaklefa og handjárna sumt af því.

Það sem verra var: Beitt var stærsta skriðdreka landsins í formi risajarðýtu til þess að brjóta hraunið með látum í spað á alls 3ja kílómetra kafla og eyðileggja með því andlagið á sem stystum tíma, í þessu tilfelli á átta klukkustundum. 

Skriðdreki þessi sást ekki aftur á svæðinu og framkvæmdir lágu niðri mánuðum saman um veturinn.

Tilgangurinn var augljós: Að valda sem mestum náttúruspjöllum á sem skemmstum tíma og eyðileggja jafnframt bæði dómsmálin, sem átti eftir að útkljá.  

Í gögnum sem sækjandi lagði fram í málinu varðandi skýrslu lögreglunnar um aðgerðir var klykkt út með þessari setningu: "Klukkan 17:46. Aðgerðum lokið og við erum komnir í gegn."

En Gálgahraunsmálinu er hvergi nærri lokið. Framundan er hugsanlega nokkurra ára ferli þess, sem við, sem þarna vorum handtekin, erum viss um að mun enda með fullri uppreisn æru Hraunavina.

Í stuðningssamkomu í Háskólabíói var sunginn baráttusöngurinn "Sigur vinnst um síðir" (We shall overcome)

Hann verður sunginn áfram.   


mbl.is Tónn sleginn fyrir náttúruvernd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband