Ætlar þetta aldrei að lagast?

Fyrir 36 árum fórum við Guðmundur Jónasson um nokkrar leiðir á sunnlenska hálendinu til að fjalla um umgengni fólks þar. Hún var í einu orði sagt svakaleg. Spólför um viðkvæman mosagróður þar sem getur tekið hátt í öld að sporin afmáist. 

Þau urðu til fyrir allt að 70 árum og sjást enn. 

Draslið, sem fólk henti frá sér, var yfirgengilegt. 

Sjónvarpið endursýndi þáttinn tvisvar, enda full ástæða til að fjalla um málið og nýta upplýsingarmiðil til að ástandið héldi ekki áframm að versna. 

Nú heyri ég fréttir af því að ólöglegur akstur utan vega sé að færast í vöxt og að ekki sé hægt að kenna útlendingum um það allt, þótt einhverjir þeirra séu sekir um þetta, heldur er það svo í mörgum tilfellum að þeir hafa séð landið auglýst sem himnaríki fyrir utanvegaakstur. 

Það er til lítils að afsaka þetta með því að um unglingaglöp sé að ræða. 

Svonefnd unglingavandamál eru nefnilega oftast í raun foreldravandamál, það að foreldrarnir hafa vanrækt uppeldið. 

Ætlar þetta aldrei að lagast heldur jafnvel versna? 

 


mbl.is „Sjaldan séð jafnmikinn viðbjóð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi sjónvarpsmynd, sem þú minnist á, er flestum minnisstæð er hana sáu á sínum tíma. Á þessum árum var undirritaður oft á ferðinni um hálendið og varð vitni að ýmsu, sem ég vil helst ekki nefna opinberlega, en þótti þú og þið fara vel með þetta viðkvæma efni. Er hættur fjallaferðum sökum elli, en rengi ekki að náttúruspjöllin fari síst minnkandi. Því miður eru of margir þeirra, sem nota t.d. torfærumótorhjól af ýmsu tagi ekki nægilega þroskaðir til að fara eftirlitslaust á þeim um fjöll og firnindi og þarf reyndar ekki óbyggðir til. Ekki þar fyrir, þarna líður allur fjöldinn fyrir tiltölulega fáa syndaseli. Því miður eiga ýmsir þeir sem selja ferðir til landsins þarna sína sök, því margur ferðalangurinn kemur hérna vegna þess að þeim er kynnt landið sem paradís þeirra sem iðka "off-road driving". En ekki má heldur horfa framhjá því, að heimamenn eru oft á tíðum ekki síður gerendur en þeir erlendu gestir, sem til landsins koma.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 30.6.2015 kl. 21:04

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gerði nýja mynd í fyrra með heitinu "Akstur í óbyggðum" og hún var sýnd í Sjónvarpinu í júní. Ég sleppti ruslinu í þessari nýju mynd, af því að ástandið hafði batnað.

Því er afar miður ef það er að versna á ný.  

Ómar Ragnarsson, 30.6.2015 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband