Hefur viðskiptavinurinn ekki alltaf rétt fyrir sér?

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér" var kjörorð í viðskiptum sem móðir mín heitin sagði að vinnuveitandi hennar, eftir að hún lauk Verslunarskólaprófi, hefði innprentað henni. 

Með því var átt við að seljandi ætti ævinlega að leita eftir þörfum og löngunum kaupenda en ekki að reyna að þvinga inn á þá einhverju sem þeir væru ekki á höttunum eftir.

Nú hefur komið í ljós hjá nemendum MH og MR að þeir kjósa frekar fjögurra ára nám með möguleikum á því að vinna sér inn peninga og komast í tengsl við atvinnulífið og land sitt og þjóð með námi eða í leyfum.

Sem dæmi um nytsamleg viðfangsefni námsmanna má nefna störf í tengslum við stóraukna ferðaþjónustu þar sem mikil þörf er á vinnandi höndum og störfin gefa námsmönnum möguleika á að æfa sig í erlendum tungumálum og kynnast útlendingum.

Ef kalla má námsmenn viðskiptavini menntakerfisins ætti kerfið ekki að einblína á það hvort námið tekur einu ári skemur en áður heldur á námsánægju og námsþörf viðskiptavina sinna.

"Hin gömlu kynni gleymast ei.." er líka stórt atriði í því að hafa verið í skóla.

Þegar 7% nemenda ákveða að stytta námið þýðir það slit á ákveðnu sambandi við 93 prósentin sem ákveða að hafa samflot í gegnum fjóra bekki.

Þau tryggðabönd og vináttubönd sem tengjast á þessum árum ævinnar eru mörgum ómetanleg alla ævi.  


mbl.is Fáir völdu þriggja ára nám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarf maður fjögur ár til að kynnast öðrum nemendum?

Og þetta með erlendu tungumálin, langflest börn læra ensku áður en komið er í framhaldsskóla. Flest þeirra eru afar treg að læra önnur, og það er leitun að stúdentum sem eru mælandi á dönsku og þýsku, þrátt fyrir fjögurra ára nám. En þrátt fyrir þriggja ára nám, þá er jafn mörgum tungumálatímum komið fyrir og er í fjögurra ára námi.
Fólk lærir ekki tungumál af því að það er skyldað til að vera árinu lengur, fólk lærir tungumál annars vegar sjálfkrafa, eins og enskuna, og önnur af áhuga.

Þriggja ára framhaldsskóli er þjóðhagslega hagkvæmur. Þetta er stytting á námstíma um heilt ár, og munar um minna.

Val nemenda í tveim skólum segja nákvæmlega ekkert um vilja heildarinnar. Ekki er ólíklegt að þessir nemendur sem vilja fjögurra ára nám, telji, eða sé talin trú um, að þeir verði eftirsóttari nemendur í háskóla. Vel má vera að svo verði, en í ljósi þess að 90% nemenda er í þriggja ára námi, þá er rétt að fjórða árið verði greitt af nemendum sjálfum, enda er ekkert sem segir, að fjórða árið skili betri stúdentum, einungis að þeir eru árinu lengur að læra en aðrir.

Himar (IP-tala skráð) 24.8.2015 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband