Verðskuldar vernd gegn ásókn mannvirkjafíkla.

Ljóð Jónasar Hallgrímssonar sem hefst á orðunum "Efst á Arnarvatnshæðum..." er aðeins þrjú erindi, en öll eru þau gull.

Í fyrsta erindinu segir hann frá litlu vatni, Réttarvatni, sem er í nágrenni Arnarvatns hins mikla.

Í miðerendinu er lýsing á hinu smáa, sem gleður skáldið, ofurlítil tó undir ásnum, þar sem lækur liðast niður um lágan hvannamó.

Niðurstaða listaskáldsins góða og hins mikla náttúrfræðings er einföld og skýr:

 

Á engum stað ég uni

eins og vel og þessum mér.

Ískaldur Eiríksjökull

veit allt sem talað er hér.

 

Skáldið þarf ekki að lýsa myndinni, sem blasir við, frekar. Lesandi ljóðsins sér fyrir sér hinn ægifagra Eiríksjökul spegla sig í sléttu vatninu og stimpla inn þá miklu kyrrð, frið og unað sem gerir Jónasi fært að lýsa því yfir að hvergi uni hann sér betur.

Á yfirborðinu virðist ekki mikil hætta á að þessum friði verði raskað, en reynslan sýnir að hugmyndir um mannvirkjagerð á hálendi Íslands í stórum stíl eiga sér fá eða engin takmörk.

Með óþarflega stóru miðlunarlóni Blönduvirkjunar var sökkt þeim stað, þar sem Jónas greiddi elskunni sinni lokka við Galtará og gerði að gimsteini í fegursta ástarljóði Íslendinga.

Og fyrir rúmum áratug var sótt hart á um að leggja uppbyggðan heilsárs trukkaveg um Arnarvatnsheiði og Stórasand þráðbeint í norðaustur um Skagafjörð inn í Norðurárdal og rjúfa þar með frið Jónasar á þeim slóðum.  

Reglustikumenn sáu á korti að beinust fluglína milli Reykjavíkur og Akureyrar lá um Flosaskarð milli Eiríksjökuls og Langjökuls og að þessi nýja leið yrði næst þessari flugleið.

Þeir litu fram hjá því að á Stórasandi liggur þessi leið upp í 800 metra hæð þar sem er eitthvert mesta veðravíti hálendisins, einkum í hinni algengu suðaustanátt þegar lægðir koma að landinu.

Skammt frá Stórasandi fórst Björn Pálsson við þriðja mann í slíku veðri 1973.

Á tímabili leit út fyrir það að Stórasandsleiðin fengi brautargengi með atbeina helstu ráðamanna, en með andstöðu við þessa fyrirætlan sló Sturla Böðvarsson aðeins á það, og hafi hann þökk fyrir.

Þjórárver,sem þegar eru Ramsar-svæði, og Eyjabakkar taka að vísu víðerni Arnarvatnsheiðar og Tvídægru fram í mikilsverðum atriðum, en á móti kemur að víðerni og draumaland Jónasar hefur mikið gildi fyrir það að vera um margt ólíkt þessum tveimur votlendissvæðum austar á hálendinu.

Þótt hugmyndin um þráðbeina hraðbraut um þetta víðerni hafi verið kveðin í kútinn í bili á sínum tíma, myndi friðun þess og það að fella það inn í stóran þjóðgarð á miðhálendinu hjálpa til við að andæfa mannvirkjafíklum sem sækja að þeim stórvaxandi verðmætum, sem felast í sem ósnortnustu hálendi Íslands.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hugað verður að friðun votlendis Arnarvatnsheiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært Ómar Ragnarsson. Takk fyrir.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 23.11.2015 kl. 13:40

2 identicon

Sixtínska kapellan, Scala-óperan, Taj Malam á Indlandi, Frelsisstyttan í New York, Kreml í Moskvu, Versalir og Péturskirkjan sem metin er sem eitt af 60 merkilegustu manngerðu undrum veraldar voru öll byggð af mannvirkjafíklum. Ekkert þeirra hefði risið ef þitt hugarfar hefði verið ráðandi. Og samt skelfur þú tárvotur með kökk í hálsi yfir tilhugsununni um að liðsmenn ríkis islam ætli að brjóta þessi afkvæmi mannvirkjafíknar niður.

Hábeinn (IP-tala skráð) 23.11.2015 kl. 18:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allt er best í hófi og það er munur á eðlilegri þörf á mannvirkjum og því þegar ásóknin í framkvæmdir er komin langt út fyrir eðlileg mörk.

Hvað skyldi ég hafa gert margar fréttir um dagana um þarfar vegabætur, byggingu brúa, flugvalla og hvers kyns bygginga?

Mannvirkjafíkn er það hins vegar, þegar á stærsta óbyggða víðerni í Evrópu, sem af þeim sökum er orðið að ígildi fiskistofna sem verðmæti, vilja menn ekki þyrma nokkru svæði, stóru eða smáu, heldur vaða þar inn með jarðýturnar og umturna öllu.  

Ómar Ragnarsson, 23.11.2015 kl. 20:22

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Öll þessi mannvirki í upptalningunni hér á undan voru reist í borgum eða í manngerðu umhverfi, - voru viðbót og hluti af umhverfinu í senn.

Og þar að auki reist fyrir löngu, þannig að engin leið er að fullyrða um það hvort ég eða aðrir hefðum verið því samþykkir að þau risu.

Ég var samþykkur 25 stórum virkjunm á Íslandi á sínum tíma, byggingu álversins í Straumsvík, virkjananna við Þjórsá og Tungnaá, byggingu tónlistarhúss, Árnasafns, Þjóðarbókhlöðu, brúa yfir Borgarfjörð, Gilsfjörð, Dýrafjörð, Ölfusá við Óseyrarnes, Skeiðará, ósa Eyjafjarðarár og nú síðast yfir Jökulsá á Fjöllum, gerð nýrra góðra heilsársvega milli helstu þéttbýlisstaða landsins, svo sem um Þverárfjall og yfir Öxi.

En allt hefur sín takmörk, þótt Hábeinn skilji það ekki.   

Ómar Ragnarsson, 23.11.2015 kl. 20:33

5 identicon

Hvort eðlileg þörf hafi verið fyrir jafn stórar byggingar og Sixtínsku kapelluna, Scala-óperuna, Taj Malam, Frelsisstyttuna, Kreml, Versali og Péturskirkjuna ætla ég að leifa mér að efast um. Áfram mun ég sjá þær sem sigur mannvirkjafíknarinnar yfir umhverfisverndarfíkninni. 

Enn vantar töluvert á að þetta stærsta óbyggða víðerni í Evrópu skili sömu tekjum og fiskimiðin. Ferðaþjónustan í heild skilar ríkinu minni tekjum en fiskveiðarnar og fæstir ferðamannanna sjá nokkurn tíman stærsta óbyggða víðerni í Evrópu. Eins er ég nokkuð viss um að þó fram kæmu hugmyndir um að reisa þar fjölda hótela og skemmtigarða sem mundu skila hundraðföldum tekjum stærsta óbyggða víðernis í Evrópu þá yrðir þú því mótfallinn. Því er það enn hulin ráðgáta hvar knýr þessa rakalausu umhverfisverndarfíkn þar sem ekkert má "af því bara".

Hábeinn (IP-tala skráð) 23.11.2015 kl. 21:16

6 identicon

Hvort þú værir samþykkur í dag 25 stórum virkjunum o.s.frv. dreg ég stórlega í efa og hvað þú sérð eftir mörgu sem þú studdir veit ég ekki. Umhverfisverndarfíknin er þannig eins og alkaholfíknin, þegar menn lenda í klóm hennar verða þeir helteknir. Og þó að renni af þeim dag og dag þá sannar ekki ein þurr vika að fíknin og ruglið sé ekki þar.

Hábeinn (IP-tala skráð) 23.11.2015 kl. 21:32

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þegar stefnt er að því að virkja tíu sinnum meiri orku en við sjálf höfum not fyrir handa íslenskum heimilum og fyrirtækjum, liggur nokkuð ljóst fyrir hvar fíknin liggur.

Ómar Ragnarsson, 24.11.2015 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband