Hvað næst? "Long friday"?

Einu sinni voru það fótanuddtæki fyrir jólin. Nú er það "Black Friday". Í fjölmiðlum er nær stanslaus síbylja um þetta bandaríska fyrirbrigði sem hefur skyndilega lagt okkur Íslendinga á hliðina.

Allir verða að vera með. Valentínusardagurinn komst inn í mynstrið hjá okkur en þurfti mun lengri tíma. Hann á þó ekkert síður rétt á sér en sumir "íslenskir" frídagar, sem eini dagur sem er eyrnarmerktur ásta og elskendum ár hvert.

Flestir íslenskir hátíðisdagar eiga sér erlendan uppruna eins og hvítasunnudagur, páskadagur og föstudagurinn langi.

Allir heita þeir íslenskum nöfnum og íslenskastur allra er hinn rammíslenski fyrsti sumardagur.

Þess vegna stingur það í augu og eyru að nú skuli vera kominn fyrsti dagurinn, sem ber algerlega erlent nafn.

Það þykir svo rosalega töff og kúl að hann heiti Black Friday upp á amerískan hátt.

Af hverju má hann ekki heita svartur föstudagur ef við verðum endilega að apa þetta fyrirbrigði eftir Könum og bera bara íslenskt vikudagsnafn eins og föstudagurinn langi?

Nei, það þykir líklega svo hallærislegt og ljótt.  Eða hvað?  Af hverju er íslenska orðið svartur svona slæmt en enska orðið black svona gott?

Er næsta skref að byrja að kalla föstudaginn langa "long Friday"?

   

 


mbl.is „Það hrúguðust allir á brettið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skárra var þó að skömminni til að sumir sögðu: Föstudagur til fjár.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 27.11.2015 kl. 17:09

2 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Svart í þessu tilefni er tilvísun í að kaupmenn snúa tapi (rauðar tölur) í gróða með mikilli sölu þennan daginn. (Svartar tölur) 

Birgir Þór Bragason, 27.11.2015 kl. 19:02

3 Smámynd: Már Elíson

Þetta er náttúrulega ekki rétt hjá þér, Birgir Þór, að þetta sé á þennan hátt, það veistu. - Þetta er bara enn ein lélega eftiröpunin frá USA, í fámenninu og ískaldri einangruninni og leiðindunum hérna á þessari Djöflaeyju. - En kaupmenn eru í raun að skjóta sig illilega í fótinn vegna þess að fólk var í raun að kaupa til jólanna, en vesalings kaupóðu vitleysingjarnir góðu ekki frekar en fyrri daginn að því, að gullfiskaminnið segir þeim að fara aftur eftir 4 vikur..því þá eru jólin. Þá er kannski enginn peningur, og verður "jólaverslunin aldrei lélegri en í ár..."

En eins og Ómar segir, að þá er ömurlegt að sjá kolsvartar síður dagblaðanna smekkfullar af þessum ógeðfelldu innantómu auglýsingum þar sem hamrað er í orðafátækt og andleysi á amerísku. Hins vegar snobba íslensku molbúarnir alltaf fyrir öllu aðkomu-erlendu með slefandi andlitinu. Það er landlægt og búið að vera lengi. Það er frekar í aukningu ef eitthvað er.

Már Elíson, 27.11.2015 kl. 19:33

4 identicon

Þeir í Ameríku kalla ekki Föstdaginn Langa, Long friday. Þeir kalla hann Good Friday. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2015 kl. 11:35

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Jú, jú, en Íslendingum væri trúandi til að þýða þetta beint til baka. Og svo opnaði maður blöðin í morgun og enskuvæðingin er alger, outlet-outlet-tax free-black Friday-outlet-black Friday-taxfree-taxfree.

Ómar Ragnarsson, 28.11.2015 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband