Stal fangi á Hrauninu bílnum mínum?

Fyrir nokkrum árum var stolið frá mér gömlum breyttum jöklajeppa sem ég vildi selja á 800 þúsund krónur.

Honum var stolið af stæði við bílasölu og fannst tveimur dögum síðar lemstraður vestur í Örfirisey, búið að saga af honum bretti, kanta og annan breytingabúnað auk lítt slitinna 38 tommu hjólbarða á fallegum nýsprautuðum felgum.

Í samræmi við algengar venjur var allt nýtilegt hreinsað af bílnum, þurrkur, númer o. s. frv. og borað gat á bensíngeymi til að ná af honum sem mestu af bensíninu!

Árangur í könnun minni á stuldinum leiddi í ljós yfirgnæfandi líkur á því að ákveðinn maður hefði séð um stuldinn fyrir skipuleggjanda, sem þá sat inni á Hrauninu og gekk undir býsna skemmtilegu viðurnefni í samræmi við "atvinnurekstur" sinn.

Sá sem ók bílnum hafði ekki verið meira en 1,60-1,65 á hæð, því að honum láðist að færa bílstjórasætið fram þegar hann fór út úr bílnum.

Mér fannst með ólíkindum hve miklar upplýsingar um þetta svið þjófnaða virtust liggja á margra vitorði. Ákveðinn hópur var til dæmis á sveimi, sérhæfður í því að stela jeppum og vélhjólum.

Vitað var um skemmu þar sem þýfi hins umsvifamikla skipuleggjanda á Hrauninu var geymt, en það þurfti óyggjandi gögn til að fá heimild til að gera þar húsleit.

Af því að ég var eini maðurinn sem ók þessum bíl um þessar mundir og komið var svona langt með að finna þjófinn, ákvað lögreglan að leita fingrafara í bílnum.

Hefði það fundist voru möguleikar á að fá að skoða skemmuna góðu og upplýsa um fjölda annarra þjófnaða.

Mikið var í húfi að hamla gegn þjófnaðabylgju. Vestur á Granda höfðu þjófar, sem sérhæfðu sig í hjólbarðaþjófnuðum, komið að næturlagi með vaskan hóp manna að skemmu á stórum flutningabíl, brotist snarlega inn, fyllt bílinn af hjólbörðum og farið með fenginn í burtu.  

Það fannst fingrafar eftir annan en mig í jeppanum mínum stolna, en sérfræðingur taldi það ekki alveg nógu skýrt og þess vegna upplýstist þessi stuldur aldrei.

Ég notaði blogg og facebook til að reyna að upplýsa málið, og fannst dálítið skondið að nokkrum dögum seinna skolaði til mín brúklegum notuðum 38 tommu dekkjagangi fyrir spottprís.

Markaðurinn fjörugur, byggðist á því að eigendaskipti væru tíð og engin leið að rekja upprunann.

Lága verðið? Vegna offramboðs á þýfi af þessu tagi? Sárabætur úr undirheimum? Hver veit?


mbl.is Fjárfesta í fjölda hótela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband