Klofningur trúflokka.

Klofningur trúflokka er ævafornt fyrirbrigði í sögu mannkyns og virðist litlu skipta hve fjölmennir margir aðhyllast viðkomandi trú.

Átök og styrjaldir í Miðausturlöndum á milli helstu trúarhópa múslima eru gott dæmi um þetta.

Samt er það oft svo að þegar nánar er skoðað er raunveruleg undirrót oft barátta um völd og áhrif varðandi auðlindir og þjóðir.

Kristnir menn klofnuðu fljótlega eftir upphaf þeirra trúarbragða og ótal styrjaldir voru háðar í Evrópu öldum saman í nafni trúarbragða.

Því linnti að mestu eftir átjándu öldina, en þó var enn trúarlegt yfirbragð í átökum á Norður-Írlandi á síðari hluta 20. aldar.

Ég man enn trúardeilur hér á landi um miðja síðustu öld milli svonefndra frjálslyndra presta og KFUM presta.

Fríkirkjusöfnuðurinn klofnaði út af slíkum deilum og einn af þekktustu próföstum landsins hafði þau orð um biskup Íslands, að hann gæti afkristnað heilt sólkerfi!

Donald Trump á sér skoðanabræður víða á Vesturlöndum varðandi það að vegna þess að skoðanakannanir sýni að um 90 prósent múslima í Norður-Afríku og Miðausturlöndum telji trúna skipta mestu fyrir sig, sé sjálfsagt að stöðva alveg innflutning allra múslima til Evrópu og Ameríku.

Múslimar eru 1500 milljónir í heiminum og þetta myndi þýða, að þær 150 milljónir múslima, sem ekki telja trúna skipta mestu í lífi sínu, yrðu samt að hlíta þessari algeru aðskilnaðarstefnu.

Viðhorf innan kristninnar speglast í mörgum svonefndum "sértrúarsöfnuðum", sem er dálítið leiðandi heiti, sem stærstu trúarhreyfingarnar, kaþólskir og evangeliska lúterska kirkjan hafa innleitt.

Prestar og guðfræðingar hér á landi voru lengi vel með afar mismunandi skoðanir á grundvallaratriðum.

Um nokkurra ára skeið var ég í stjórn fríkirkjusafnaðar, þar sem lög safnaðarins kváðu á um það að safnaðarstjórnin annaðist ráðningu prests og bæri ábyrgð á henni.

Þegar nokkrir umsækjendur um laust embætti sóttu um, var ótrúlegur skoðanamunur á milli tveggja af þeim.

Annar virtist kaþólskari en páfinn varðandi það að menn gætu iðrast og orðið hólpnir jafnvel eftir dauðann. Vitnaði meðal annars í Korintubréf máli sínu til stuðnings.

Hinn virtist jafnvel lúterskari en Lúter varðandi það að sumir væru nánast fæddir hólpnir en aðrir ekki.

Hér var um að ræða grundvallarágreining um atriði sem í upphafi var eitt af nefndum ástæðum fyrir því að Lúter hóf mótmæli sín gegn sölu aflátsbréfa.

Undirliggjandi var samt tilhneiging þjóðhöfðingja og veraldlegra valdastétta til að auka völd sín og áhrif.

Og mótsagnir, loðið orðalag eða breyttur heimur valda því hve auðvelt virðist að skilja textann á mismunandi vegu.

Nútíma ásatrúarmenn þurfa ekki að blóta á laun og bera ekki út börn.  

Stundum er um magnaðar málmiðlanir að ræða.

Þegar kristni var lögtekin á Íslandi var eftir sem áður leyfilegt að blóta goðin, ef það var gert á laun, og einnig að bera út börn.


mbl.is Múslimar mótmæltu í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband