Hættulegur vinnustaður?

Í tengdri frétt á mbl.is er sagt frá beinbroti á leiksýningu í Þjóðleikhúsinu.

Ekki veit ég hvort til eru rannsóknir á slysatíðni á leiksviðum. Líklegast ráða tilviljanir mestu um það hvort slys séu tíðari þar eða meiri en að jafnaði, eða hvort slys og óhöpp koma í bylgjum.

Flestir verða einhvern tíma fyrir hnjaski á lífsleiðinni svo notað sé orðfæri Bjarna Fel, og beinbrot eru þar á meðal.

Þegar ég lít yfir 63ja ára "brotaferil" minn er áberandi, að leiksviðið ber höfuð og herðar yfir aðra vinnustaði, með þrjú beinbrot af fimm, -  og fjögur tilfelli af slæmum meiðslum af sex.

Er þá átt við slys þar sem þurft hefur að vera á hækjum eða í gipsi.

Slys á leiksviði hafa þá sérstöðu að þar gildir oft orðtakið "sýningin verður að halda áfram", eða "the show must go on."

Í öllum fjórum tilfellunum, þar sem ég fór í gips eða á hækjur eftir slys á sviði, urðu slysin hluti af leiksatriðunum og í öll skiptin vöktu þau mikla hrifningu og hlátur, af því að áhorfendur héldu að þau væru einungis afar vel heppnuð "stunt" svo að aftur sé slett útlendu fagmáli.

Enda héldu sýningar áfram í öll skiptin.  

Hið síðasta, slæmt axlarbrot á jólaskemmtun í byrjun aðventu, þótti svo vel heppnað og fyndið, að annað eins hafði ekki sést á þeirri árlegu skemmtun í hálfa öld.

Ég var að bregða mér sem snöggvast í stellingar Gluggagægis þegar ég söng:

"Hafið þið Gluggagægi séð  / 

gráa og síða skeggið með? /

Glápir hann alla glugga á  /

gott ef hann ekki brýtur þá.

Til að leika með tilþrifum síðustu setninguna, steig ég tvö skref fram og stangaði með hausnum en tók ekki eftir því að hið svartmálaða og myrkvaða svið, sem virkaði eins og svarthol í mínum augum þegar ég horfði fram í sviðsljósin, var með tröppu sem náði inn í sviðsbrúnina, þannig að Gluggagægir steig niður í tómið og steyptist fram yfir sig niður í salinn.

Nú kom sér illa gamalgróin venja sjónvarpsmanna, að láta velferð hljóðnema eða tökuvéla hafa forgang, því að í fallinu snerist allt um að bjarga hljóðnemanum, sem ég hélt á í hægri hendi.

Það tókst, en fyrir bragðið tók öxlin því meir við högginu þegar lent var eftir flugið ofan af sviðinu, og fór í maski.

Það voru slæmu fréttirnar en góðu fréttirnar voru þær að hljóðneminn var í lagi, svo að það var hægt að klára lagið skemmtiatriðið með því að halda á hljóðnemanum stráheilum í vinstri hendi.

Kynnnirinn hvíslaði að mér spurningu um það hvort ég hefði meitt mig og ég hvíslaði á móti: "Ég er axlarbrotinn."

"Hvernig veistu það?" hvíslaði kynnirinn.

"Ég er síbrotamaður, hef brotnað áður, en the show must go on", hvíslaði ég og hélt áfram með að syngja um jólasveinana.  

Það sem var víst svo óborganlega fyndið við þetta atriði, ef marka mátti viðtökurnar, sem það fékk, var, að úr því að Gluggagægir gat ekki brotið neinn glugga með því að stanga sér fram af sviðinu, braut hann bara öxlina í staðinn með tilþrifum.

Vettvangur minn í 65 ár hefur meðal annars verið hröð borgarumferð, sprengingar í húsgrunnum og skurðum, þeysireiðar á hestum og reiðhjólum, flug í verstu veðrum og slark- og jöklaferðir um allt land, ferðir í Afríku, meðal annars á slóðum glæpagengja, hamfarir, eldgos og rallakstur í 39 röllum hérlendis og erlendis, en ekkert hefur reynst eins hættulegt og leiksviðið.

Banka nú undir borðið og segi: 7-9-13.     

 

  


mbl.is Slys í Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómars Ragnars þyngsta þraut,
þegar var á sviði,
allflest þar hann beinin braut,
í bakföllum og iði.

Þorsteinn Briem, 24.2.2016 kl. 09:32

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þorsteinn Briem, 24.2.2016 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband