Kosningabaráttan hefst snemma.

Ef allt væri í eðlilegu fari á stjórnmálasviðinu væri lítið um að vera hjá stjórnmálaflokkunum. Rúmt ár til kosninga og kosningabaráttan ekki á dagskrá fyrr en eftir næstu áramót.

En gríðarlegt og stöðugt fylgi Pírata hefur riðlað fylgi flokkanna, sem Píratar taka fylgi sitt frá, og þeir sjálfir skynja, að það er ekkert sjálfgefið að þeim haldist á þessu mikla fylgi áfram í meira en heilt ár í viðbót.

Þess vegna eru flokkarnir nú þegar byrjaðir á undirbúningi fyrir næsta vetur.

Píratar hafa haldið uppi heilmiklu fundastarfi að undanförnu til að vígbúast með stefnumörkun á sem flestum sviðum og hyggjast beita hugmyndum sínum um netlýðræði og beint lýðræði innan flokksins.

Verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst og hvort þátttakan verður næg til þess að marka einhver spor.

Á ráðstefnu í Brussel fyrir tveimur árum um beint lýðræði og netlýðræði vöktu menn frá þeim mikla athygli fyrir færni á þeim sviðum en þarna er að mestu leyti enn um óplægðan akur að ræða.

Aberandi er hvað Framsóknarmenn, þingmenn og aðrir, eru þegar byrjaðir á því að reyna að marka sér sérstöðu gagnvart Sjálfstæðismönnum að svo miklu leyti sem rými er fyrir það í stjórnarsamstarfinu og þeir ætla sér greinilega ekki að verða of seinir í undirbúningnum fyrir kosningarnar 2017.

Það hefur stundum gefist illa að koma seint til skjalanna í kosningabaráttu.

Gott dæmi um það var þegar Sjálfstæðismenn voru í vandræðum með að bregðast við brotthvarfi Davíðs Oddssonar úr borgarstjórn árið 1991.

Þrír borgarfulltrúar voru einkum nefndir til að taka við af Davíð, en á endanum var Markús Örn Antonsson fyrrum borgarfulltrúi og þáverandi útvarpsstjóri kallaður til.

Myndun R-listans gerbreytti vígstöðunni og þegar kosningarnar 1994 nálguðust kom í ljós, að betur hefði gengið fyrir Sjalla að höggva strax á hnútinn og velja einhvern hinna þriggja, Árna Sigfússon, Katrínu Fjeldsted eða Vilhjálm Vilhjálmsson strax til forystu.

Á síðustu stundu var Árni kallaður til, en það var allt of seint. Á endasprettinum fyrir kosningarnar jókst fylgi hans en tíminn var of skammur og Sjallar misstu borgina og hafa aðeins verið við stjórnvöl hennar í þrjú ár af þeim 22 árum, sem síðan eru liðin.

Aðalfundur Samfylkingar skömmu fyrir kosningar 2017 er greinilega allt of seint á ferðinni og viðbrögðin við þeirri stöðu lýsa sér í því að færa fundinn að öllu leyti, líka hvað snertir val forystu, til júní á þessu ári.

Sú ákvörðun er eðlileg ef menn á annað borð vilja halda raunverulegan aðalfund og koma vel undirbúnir til leiks 2017.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist sætta sig við það að vera áfram með fylgi um fjórðungs kjósenda bæði á landsvísu og í borginni, svo framarlega sem fylgið er stöðugt og flokksforystan traust í sessi.

Það er mikill munur frá því sem var frá 1929 til 2009-10 þegar flokkurinn var með meðalfylgi í kringum 40%.  

 

 


mbl.is Samfylkingin kýs nýja forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fylgi flokka í Reykjavík - Skoðanakönnun Gallup 8.10.2015 (fyrir fimm mánuðum):

Píratar 28% (nú 31%),

Samfylkingin 25% (nú 20%),

Björt framtíð 8% (nú 4%),

Vinstri grænir 11% (nú einnig 11%).

Samtals 72% (nú 66%) og þessir flokkar mynda nú meirihluta borgarstjórnar.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samtals 27% (nú 32%) og þar af Framsóknarflokkur 4% (nú 5%).

Samfylkingin hefur
því um tvöfalt meira fylgi í Reykjavík en á landsvísu.

Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar
um tvöfalt meira fylgi á landinu öllu en í Reykjavík.

Vinstri grænir og Björt framtíð eru með sama fylgi í Reykjavík og á landsvísu.

Sjálfstæðislokkurinn er hins vegar með svipað fylgi í Reykjavík og á landinu öllu.

Þorsteinn Briem, 11.3.2016 kl. 12:26

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert sérstakt bendir til þess að fylgi flokkanna á landsvísu breytist mikið til næstu alþingiskosninga.

Fylgi Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hefur nú talsvert lengi verið um 10% en fylgi Bjartrar framtíðar um 4%.

Sjálfstæðislokkurinn hefur hins vegar haft um 25% fylgi og Píratar um 35%.

Stefna Pírata og bæði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er
hins vegar gjörólík í öllum meginmálum.

En stefna Pírata, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna er mjög svipuð.

Því er nú langlíklegast að Píratar, Samfylkingin og Vinstri grænir myndi næstu ríkisstjórn, nú með samtals 57% fylgi.

Og það sama gildir um myndun næstu borgarstjórnar, þar sem þessi þrír flokkar hafa nú samtals 62% fylgi.

Þorsteinn Briem, 11.3.2016 kl. 13:23

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Það er rétt hjá þér Ómar að kjósendur misstu gersamlega trú á Sjálfstæðisflokknum þegar þeir koksuðu á að 2. maður á lista er varamaður 1. mann á list. Þeir byrjuð allir á skítugu valdatafli og sýndu að þeim var ekki treystandi sem flokki. Afleiðingunni lýsir þú vel."Sjálfstæðisflokkurinn virðist sætta sig við það að vera áfram með fylgi um fjórðungs kjósenda bæði á landsvísu og í borginni, svo framarlega sem fylgið er stöðugt og flokksforystan traust í sessi."

Fólk hefur þá mynd að það séu nær engir hugsjónamenn eftir í flokknum heldur bara menn sem vilja hafa lifibrauð af pólitíkk. Þeir inspírera engann, það er engin sannfæring sem fylgir orðunum. Það er eiginlega bara Gulli sem er hugsjónamaður og getur jrifið fólk með sér. Hitt eru flestir bara kontóristar. Sýnist þér nýji aðalritarinn eitthvað öðruvísi?

Halldór Jónsson, 12.3.2016 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband