Loftfar, svo háð viðkvæmum vængjabúnaði sínum.

Þyrlur eru stórkostleg loftför, því að það hlýtur að vera draumur hvers einasta flugmanns að ná þeirri fullkomnun fuglsins að geta lent og hafið sig til flugs án atrennu eða lendingarbruns á hvaða bletti sem er.

En þyrlur kosta peninga, eru flókin loftför og viðhald er tímafrekt og dýrt.

Á að giska fjórum sinnum dýrara en á sambærilegri stærð af flugvél.

Ástæðan er fyrst og fremst sú, að sá hluti venjulegrar flugvélar sem skapar lyftikraftinn, vængirnir, eru fastir við skrokkinn.

Það heyrir til fágætra undantekninga að vængir detti af flugvél. Nær alltaf er hægt að nota vængina til að svífa inn til nauðlendingar ef drifkraftur hreyfilsins dvínar eða hverfur, ef einhver bilun verður í stjórntækjum eða flugvél skemmist á flugi vegna áreksturs.

Hins vegar þarf mjög flókinn búnað af drif- og tengiöxlum og legum með flóknum slitflötum til þess að hinir hreyfanlegu vængir þyrlunnar þjóni því hlutverki að lyfta henni eða lækka flug hennar og færa hana í allar áttir í loftinu.

Átakanlegt er að sjá myndir af þyrlum, sem missa flugið vegna tæknilegrar bilunar í búnaði þyrluspaða, tengingum spaðanna við stjórntækin eða vegna bilunar í hliðarskrúfunni, sem er aftast á þyrlunni og varnar því að hún fari að snúast um sjálfa sig í gagnstæða átt við snúning lyftispaðanna.

Einnig eru þyrlur skelfilega varnarlausar gagnvart árekstrum á flugi.

Slysið í Noregi er afar óvenjulegt og því mjög mikilvægt að finna út, hvað gat valdið svona algeru stjórnleysi á augabragði.

Þyrluspaðar eiga ekki að geta dottið af þyrlu bara svona eins og ekkert sé.

Ekki frekar en að svinghjól ("sveifluhjól") losni í bíl, en það getur gerst í ákveðnum tilfellum.

Við bræðurnir, Jón og ég, duttum einu sinni út úr ralli vegna þess að svinghjólið í bíl okkar, sem er milli vélar og driflínu, losnaði.

Þegar nánar var að gætt, sást, að vegna mjög aukins krafts og snúnings breyttrar vélar, var talið nauðsynlegt í handbók með breytingunni, að líma til öryggis boltana, sem héldu hjólinu föstu, með sérstakri gerð af lími.

Þetta var óheyrt í bílum umboðsins, BMW og Renault, og þess vegna fórst það fyrir.

Svona "smáatriði" er eitt af mörgum sem kemur í hugann þegar rær eða boltar losna í drifbúnaði.  

 


mbl.is Tæknibilun talin hafa valdið slysinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband