Bjúgverplum kastað á loft til að hefja "steingelt þras".

Sjónvarpsþátturinn Eyjan skiptist í tvö horn í gær. Í fyrri hlutanum komu fram tveir ungir og hæfileikaríkir frambjóðendur með jákvæðum, uppörvandi, framsýnum og víðsýnum málflutningi í formi innihaldsríkra umræðna frekar en "kappræðna" sem lúta lögmálum hanaslags og skítkasts.

Andri Snær Magnason hefur skýra framtíðarsýn, sem lífsnauðsyn er fyrir þjóðir heims að tileinka sér þegar við blasir og ég vil túlka svona:

"Aðeins ein jörð  /

á henni plágur mæða  / 

auðlindir þverra ef að þeim er sótt  /

aðeins til skamms tíma að græða...", -

og að við blasa tröllaukin verkefni á 21. öldinni  við að vinda ofan af slæmum umhverfisáhrifum af völdum núlifandi jarðarbúa og þess verks að efla lýðræði og jafnrétti.  

Í síðari hluta Eyjunnar var annar tveggja frambjóðenda hins vegar bergmál af hasar og átakastjórnmálum liðinnar aldar, sem Halldór Laxness lýsti svo vel í frægum þætti með orðunum "þetta steingelda þras".

Nóbelskáldið lýsti þessu steingelda þrasi sem böli á borð við hallæri, eldgos og hungur liðinna alda, og væri að því leyti sýnu verra, að þrasið væri af mannavöldum.

"Stjórnandi," bað Laxness, "er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessum umræðum á bara örlítið hærra plan, - bara örlítið hærra plan?"

Í viðtalsbók við Ásdísi Höllu Bragadóttur lýsti Davíð Oddsson því vel hvaða aðferðir hann notaði meðan hann var í stjórnarandstöðu í borgarstjórn, í aðdraganda kosninganna 1982.

Hann kvaðst hafa leitað uppi alls konar atriði, sem jafnvel kæmu valdsviði borgarstjórnar ekkert við, en væri þó með síbylju hægt að klína á hana. 

Á öðrum vettvangi lýsti Davíð þessari aðferð með smíði nýyrðis, "smjörklípuaðferðin."

Davíð hóf kosningabaráttu sína á dögunum á nokkuð þekkilegan hátt með yfirvegðum blæ góðsemi og kímni. Hefðí betur haldið áfram á þeirri braut.

En fljótlega fór hann í sitt gamla far, að "leita að einhverju á hann".

Í gær sakaði hann Guðna Th. til dæmis um það að hafa sagt, Þorskastríðin hefðu bara verið þjóðsaga og ekki hið minnsta afrek hjá þjóðinni "allt saman".

Gamalt trix sem lýst var forðum daga með vísunni:

 

"Lastaranum líkar ei neitt. /

Lætur hann ganga róginn. /

Finni hann laufblað fölnað eitt / 

fordæmir hann skóginn.

 

Laufblöðin voru þau að Guðni hefði dirfst að greina frá þeirri staðreynd , að enda þótt þjóðin stæði sem órofa fylking að baki hverri útfærslu landhelginnar, þann dag sem hún tók gildi, hefði stundum verið ágreiningur í aðdragandanum og einnig varðandi framkvæmd íslensku baráttunnar.

Það er staðreynd, að rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni forðum voru menn sammála um lokatakmarkið, voru samt svo hatrömm átök innanlands um útfærslu landhelginnar 1958, að litlu munaði að ríkisstjórnin spryngi út af þeim síðsumars eins og Lúðvík Jósepsson lýsti frá sínu sjónarhorni í bæklingi sem hann gaf út um málið.

1961 myndaðist djúp gjá milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan lýsti samningnum við Breta sem landráðum og lýsti yfir því, að hún teldi sig óbundna af loforði Íslendinga í samningnum um að bera álitamál um landhelgismálið framvegis undir Alþjóðadómstólinn í Haag.

Í heilan áratug var tekist á um þetta og heil kosningabarátta fyrir Alþingiskosningarnar 1971 og kosningarnar sjálfar snerust um landhelgismálið, sem felldi Viðreisnarstjórnina.

Í kjölfarið kom síðan útfærslan 1972 í 50 mílur.

Ásakanir Davíðs um óþjóðhollustu Guðna eru bjúgverplar (bjúgverpill=boomerang) sem hann kastar, því að flokkur hans sjálfs stóð á tíu ára tímabili frammi fyrir ásökunum þáverandi stjórnarandstöðu á hendur Viðreisnarstjórninni um "landráð" með samningunum 1961.

Enn fleiri bjúgverplum hafa Davíð og fylgismenn hans verið að kasta að þeim forsetaframbjóðendum, sem Davíð sækir nú að og vænir um óþjóðhollustu í ESB og Icesavemálum.

Sjálfur Davíð var sem formaður áramótanefndar Sjálfstæðisflokksins 1989 eindreginn fylgjandi aðildarumsóknar að ESB, varði Landsbankann og Icesave 2008 og lýsti yfir því opinberlega innanlands sem utan að bankakerfið íslenska væri traust og á bjargi byggt.

Hafnaði tilboði breska seðlabankans á útmánuðum um samvinnu við að hemja Icesave og útþensluævintýri íslensku bankanna.

Að vísu talaði Davíð á annan veg í nokkrum einkasamtölum inn á við, en út á við alls ekki, heldur þverneitaði því að nokkuð væri að og nokkuð þyrfti að gera.

Sem Seðlabankastjóri stóð hann með ríkisstjórn Geirs Haarde að því að leita samninga við Breta og Hollendinga um Icesave, sem á þeim tímapunkti var á verri nótum en Icesave I, og Ólafur Ragnar Grímsson undirritaði raunar þann samning.

Ásakanir Davíðs á hendur mótframbjóðendum sínum eru því bjúgverplar í anda smjörklípuaðferðarinnar.

Nú spyr ég eins og gert var forðum í sjónvarpssal: "Er til of mikils mælst að reynt sé að lyfta þessari umræðu á örlítið plan?"

Ég lýsi eftir þeim Davíð Oddssyni, sem mér hefur alltaf líkað best við og hefur margt ágætt gert um tíðina þrátt fyrir ýmis mistök, sanngjörnum, málefnalegum, jákvæðum og skemmtilegum Davíð.

Umræða þeirra Davíðs og Guðna hefði getað orðið jafn uppbyggjandi og umræða þeirra Höllu og Andra Snæs ef hið "steingelda þras" til að búa til leðjuslag hefði ekki verið keyrt af stað af öðrum þátttakandanum í síðari hluta forsetaþáttar Eyjunnar.   


mbl.is Hart tekist á í forsetakappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst ESB/Nató stunda hasar og átakastjórnmál.  Það er ekkert hægt að búa til stríð utan Evrópu og halda að það komi ekki í hausinn á manni.  Af hverju talar Andri Snær ekki fyrir því að við göngum úr Nató?  Er það vegna þess að hann vill vera eins og Vigdís Finnbogadóttir sem tróð okkur í EES ásamt Davíð án þess að spyrja þjóðina?  Þessi umfjöllun eyjunnar var ekki marktæk vegna þess að það var ekki pláss fyrir alla forsetaframbjóðendur.  Það var ESB bragur á þessari umfjöllun.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 09:11

2 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Skítlegt eðli streymdi frá ritsjóra moggans. Pínulítill kall.

Ragna Birgisdóttir, 30.5.2016 kl. 11:15

3 identicon

Allir sem komu að þessum þætti sýndu sitt skítlega eðli með því að gefa skít í hina frambjóðendurna.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 11:32

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað var það sem Andri Snær sagði, sem hægt er að túlka sem svo að hann "hafi gefið skít í hina frambjóðendurna"?

Ómar Ragnarsson, 30.5.2016 kl. 12:28

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

(Halldór Laxness, Innansveitarkronika.)

Þorsteinn Briem, 30.5.2016 kl. 13:12

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Smjörklípa er hugtak sem Davíð Oddsson kom í umferð og er notað yfir þá aðferð í opinberri umræðu að beina athyglinni frá eigin vandamálum eða athöfnum með því að benda á eitthvað annað bitastæðara.

Hugtakið er rakið til Kastljóssþáttar 3. september 2006 en þar var Davíð Oddsson þáverandi seðlabankastjóri spurður um aðferðir sem hefðu gagnast honum í pólitík.

Hann sagði þá sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilisköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum í smá tíma.

Smjörklípuaðferðin
er nátengd orðum Megasar: "Svo skal böl bæta að benda á annað verra.""

Þorsteinn Briem, 30.5.2016 kl. 13:13

7 identicon

Það fengu ekki allir forsetaframbjóðendurnir að vera með.  Þeir fengu ekki tækifæri til að segja mikið.  Þetta var óréttlátt og þarfnast ekki frekari útskýringa.  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 13:14

8 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Það er verið að ræða um Davíð og Guðna í viðtalinu á Eyjunni í gær en ekki hina frambjóðendurna. Ræðum um þá í öðrum pistli.cool

Ragna Birgisdóttir, 30.5.2016 kl. 13:24

9 identicon

Þáttastjórnendur eiga að stöðva svona ofbeldi af hálfu eins frambjóðanda. Það er hætt við að þeir sem vilja ekki taka þátt í svona slag verði eins og illa gerðir hlutir sitjandi undir þessu. Reyndar slapp Guðni furðu vel frá þessu.

Þegar Þorbjörn reyndi fyrr í vikunni að leiðrétta bullið i Davíð réðist Davíð á hann og spurði hvort hann væri kominn í forsetaslag við sig.

Davíð vildi meina að hann sjálfur væri ekki sá eini sem væri flokksbundinn því að Guðni væri fulltrúí Samfylkingarinnar. Það sæist best á því að skv skoðanakönnun kysu nánast allir Samfylkingarmenn Guðna.

Sannleikurinn er hins vegar sá að ef þessi skoðanakönnun gefur rétta mynd þá eru miklu fleiri Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Píratar, í hverjum flokki, en Samfylkingarmenn sem styðja Guðna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 16:25

10 identicon

Innbyggjum virðist ætla að verða enn erfiðara að losna við afglapann Dabba en Ólaf Ragnar. Og hver er svo næstur í röð ignoranta, Sigmundur Davíð? Hi folks, hristið þessa gaura af ykkur í eitt skiptið fyrir öll.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 17:09

11 identicon

Það er bara eðlileg krafa að verðandi forseti geti svarað fyrir sig þó Davíð sitji hinum megin við borðið

Það nægir ekki að geta bara haldið uppi kurteisisamræðum

Það að kunna tungamál er ekki það sama og geta tjáð sig skorinort

það reyndi ekkert á Andra Snæ í Eyjunni en hann kom vel fyrir

Grímur (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 17:58

12 identicon

Guðni Th. bað um skilning og sanngirni í viðtali á Eyjunni. Getur almenningur ekki beðið um þann skilning og sanngirni að sagnfræðingur sem kannast ekki við fortíð sína haldi sig heima?

https://www.youtube.com/watch?v=zf2MUHwx91M&feature=youtu.be

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 18:12

13 identicon

Guðni getur svarað fyrir sig og gerir það vel. Það er hins vegar fyrir neðan virðingu forsetaframbjóðanda að taka þátt í sandkassaleik. 

Stjórnandi á að leiða umræðuna. Í því felst að henni sé haldið á því plani að sómi sé af. Þegar aðeins einn frambjóðandi hefur tilhneigingu til að afvegaleiða umræðuna ætti að vera auðvelt að koma í veg fyrir það.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 19:09

14 identicon

Nóbelsskáldið sagðist líka allaf vera "í endurskoðun"...surprised

Latínugráni (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 21:36

15 identicon

Sæll Ómar.

Sagnfræðingurinn kannaðist ekki
við eigin sagnfræði og fall hans
eftir því.

Húsari. (IP-tala skráð) 31.5.2016 kl. 12:14

16 identicon

Guðni verður bara að hrista þetta af sér því eins og skáldið sagði:

 

'Cause the players gonna play, play, play, play, play

 And the haters gonna hate, hate, hate, hate, hate

 Baby, I'm just gonna shake, shake, shake, shake, shake

 I shake it off, I shake it off

 Heartbreakers gonna break, break, break, break, break

 And the fakers gonna fake, fake, fake, fake, fake

 Baby, I'm just gonna shake, shake, shake, shake, shake

 I shake it off, I shake it off

 I shake it off, I shake it off

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 31.5.2016 kl. 12:59

17 identicon

Þorsteinn! Ekki er ég viss um að þessi fræði
               dugi frekar hinum fyrri!

Húsari. (IP-tala skráð) 31.5.2016 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband