Allir menn á landinu og á jörðinni eru landverðir.

Fyrir 20 árum gerði ég lag sem bar heitið "Við eigum land." En síðan hefur það lokist upp fyrir mér að þótt það sé í lagi að túlka tilfinningar okkar gagnvart landinu svona, er þetta ekki rétt. 

Við eigum ekki landið og mannkynið á ekki jörðina, heldur eru allir menn og allar þjóðir landverðir. Í Nepal hefur verið sagt að við eigum ekki landið, heldur höfum það að láni frá afkomendum okkar, sem eru margfalt, margfalt fleiri en við erum.  

Í einu af nýjustu lögum mínum, "Let it be done!", er reynt að orða þetta svona á ensku fyrir erlenda áheyrendur: 

"We are the rangers, pledged to save the nature of the earth.

We are the generations that shall give it´s life new birth!" 

(Sjá lagið á Youtube)

Við landnám Íslands var það skoðun flestra frumbyggja á norðurhveli jarðar, að landið ætti sig sjálft og að það eignarhald birtist í landvættum. 

Ingólfur Arnarson var trúaður og hafði meðferðis til Íslands öndvegissúlur sínar, en í þær voru skorin andlit eða tákn heimilisguðanna, Þórs og sennilega Freys að mati Þóris Stephensen, fyrrumm dómkirkjuprests, sem hefur rannsakað sérstaklega trúarlegt ástand á norðurslóðum við útbreiðslu kristinnar. 

Sonur Ingólfs hét Þórsteinn og af því að Ingólfur ætlaði að brjóta land til ræktunar og stunda landbúnað, var landbúnaðarguðinn Freyr líklegur ásamt Þór. 

Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var trúlaus og friðmæltist ekki við landvættina þegar hann nam land. Ingólfur taldi að Hjörleifur hefði goldið þessa þegar þrælarnir drápu hann. 

Þegar Ingólfur sigldi vestur með Suðurlandi og fyrir Reykjanes, var suðurströnd Kollafjarðar fyrsti staðurinn sem líktist Hrífudal við Dalsfjörð í Noregi, með eyjum sínum og þremur fjöllum handan fjarðarins, fjörðinn fullan að fiski og fugli, skógi vaxnar hæðir (holt er íslensk samsvörun við þýska heitið holz) og gott hafnarlægi, hugsanlega hægt að draga skip upp eftir Læknum inn í Tjörnina. 

Hann ákvað því að láta öndvegissúlurnar, heimilisguðina, taka land í Reykjavík með því að varpa þeim þar fyrir borð nálægt fjöruborði svo þær ræki á land. 

Útilokað var að varpa þeim fyrir borð út af suðurströndinni eða vestan Garðskaga svo þær ræki á land í Reykjavík, - hafstraumarnir liggja til Snæfellsness eins og kom í ljós þegar Goðafossi var sökkt. 

Úr fjörunni voru öndvegissúlurnar bornar að helguðum fórnarstað við komandi bæjarstæði þar sem heimilisguðirnir friðmæltustog söndu við landvættina gegn fórn. 

Síðan segir Landnáma að öndvegissúlurnar séu enn í eldhúsi í Reykjavík meira en 200 árum síðar, þótt búið sé að lögtaka kristni, enda máttu ásatrúarmenn blóta á laun, þ. e. stunda sínar trúarathafnir heima hjá sér. 

Þegar evrópskir landvinningamenn þeystu á hestum sínum yfir árnar í Ameríku undruðust indíánarnir þann glannaskap og óvirðingu hjá þeim að biðja ekki landvættina um leyfi til þess. 

Einna merkilegast finnst mér að Grænlendingar telja sig ekki eiga Grænland, heldur eigi landið sig sjálft. Þetta veldur ýmsum töfum og vandræðum við mannvirkjagerð þar í landi af því að það rímar illa við hinn grunnmúraða hugsunarhátt og reglur okkar um að eignarétturinn sé friðhelgur, eins og stendur í stjórnarskrá okkar.

Hjá stjórnlagaráði lagði ég fram tillögu um að náttúra Íslands væri friðhelg, að uppfylltum vissum skilyrðum eins og er varðandi eignarréttinn. Þessi tillaga var felld, mjög naumlega þó. 

Nú hefur stjórnarsrkárnefnd hins vegar kynnt tillögu um að íslensk stjórnarskrá hnykki sérstaklega á rétti landeigenda, og hefur ekki spurst til annarrar stjórnarskrár í veröldinni með slíkt ákvæði. 

Í Suður-Ameríku hefur verið gerð tilraun til að setja það í stjórnarskrá að náttúran, landið, eigi sig sjálft og sé svonefndur lögaðili. 

Takið eftir muninum á orðinu landnemi og landeigandi. Kannski svipaður munur og á því að nema fræði eða eiga þau. 

Búið er að stofna samtök, sem heita "Rödd náttúrunnar." Þau hafa það meðal annars á stefnuskrá að ryðja braut nýjum hugsunarhætti varðandi yfirráð mannkynsins yfir náttúrunni og meðferðinni á henni. Þótt maðurinn sé hluti af náttúrunni kemst hún vel af án hans, en maðurinn kemst ekki af án náttúrunnar. 


mbl.is Fagna alþjóðadegi landvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Það á enginn neitt
og morgundeginum er vart að trúa.
Allt annað er blekking, hugarburður og ímyndun.

Græðgin hrekur skynsemina á brott og eftir situr
skilningsleysi á öllu því sem er ofar efnislegum gæðum.

Ekki von til þess að menn skilji þá hugsun að
bera virðingu fyrir landinu og vættum þess.

Og ekki má gleyma garminum honum Katli sem mælti þessi orð:

"Við þurfum ekki að trúa á almættið til þess að átta okkur á því,
hvernig jörðin varð til og líf kviknaði hér."


Ekki amalegt að slíkur verði settur inní embætti á morgun
sem stendur almættinu ofar og guðum öllum.

Ferðamenn spyrja æ oftar er þeir líta kórónufjandann
á Alþingishúsinu hvar kóngurinn eigi heima.

Bragð er að þá barnið finnur því ekki finnst það meðal
stjórnarskrárnefndar eða þeirra sem strituðust áfram við
að sitja eftir að þeir höfðu verið reknir úr sætum sínum.

Glöggt er gests augað! Hvar er kóngurinn? Á Bessastöðum?

Og ekki aðeins nefndir og ráð gera ekkert með sjálfstæði
Íslands, það á við um alþingismenn alla því ungir eða
gamlir hafa þeir ekki haft rænu á að hefja það í þann
sess sem því ber þar sem er skjaldarmerki Íslands.

Það ætti að vera metnaðarmál allra hugsandi manna að
minnast aldarafmælis fullveldisins 2018 með því að
skjaldarmerki Íslands skipi þann sess sem því ber
og að merki kúgunar og þrælapískara verði hent útí hafsauga
og landsmenn jafnt sem hinn almenni ferðalangur sjái
að Ísland er sjálfstætt fullvalda ríki, lýðveldi
þar sem enginn er kóngurinn heldur frjálsborin þjóð,
lýðfrjálsir menn sem hlítur skynseminni og virðir
land og gengnar kynslóðir, lýðveldi frjálsrar þjóðar.

(þú aftengir svo bara færsluna með hraði að venju!)

Húsari. (IP-tala skráð) 31.7.2016 kl. 12:43

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margbúið að benda þér á þetta, "Húsari":

Alþingishúsið var friðað af menntamálaráðherra 14. desember 1973 samkvæmt 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969."

lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er gerður greinarmunur á friðlýstum húsum og mannvirkjum og þeim sem friðuð eru.

Við gildistöku laganna 1. janúar 2013 voru öll hús og mannvirki í landinu sem eru 100 ára eða eldri friðuð, því nú er miðað við aldur húss en ekki ákveðið ártal."

Alþingishúsið - Minjastofnun

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 13:56

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er að sjálfsögðu ekki staðreynd að Guð sé til og það flokkast undir trúarbrögð að trúa því.

Ef tilvist Guðs væri hins vegar staðreynd væri þar um vísindi að ræða en ekki trúarbrögð.

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 14:15

4 identicon

Sæll Ómar.

Hvar eru minjalögin sem tryggja
að Alþingishúsið standi til eilífðar?!

Hvað munaði litlu að það væri rifið niður stein fyrir
stein haustið 2008 og munaði þar mestu um einhver minjalög?

Menn eiga ekki að bjóða uppá rökleysu af þessu tagi.

Alþingi ákveður að sjálfsögðu að skjaldarmerki Íslands
prýði Alþingishúsið og vonandi bera þeir gæfu til þess
að koma málum þannig í tilefni aldarafmælis fullveldisins
2018.

Húsari. (IP-tala skráð) 31.7.2016 kl. 16:13

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Síðan hvenær hef ég aftengt þig, Húsari góður?

Ómar Ragnarsson, 31.7.2016 kl. 16:19

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú ræðst hér á annað fólk undir dulnefni og skammastu nú til að skrifa hér undir þínu eigin nafni, "Húsari".

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 16:21

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ásatrú eða heiðinn siður byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni.

Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum.

Í Hávamálum er einkum að finna siðareglur Ásatrúarmanna. Heimsmynd ásatrúarmanna er að finna í Völuspá. Þar er sköpunarsögunni lýst, þróun heimsins, endalokum hans og nýju upphafi.

Í trúarlegum efnum hafa ásatrúarmenn aðallega hliðsjón af hinum fornu Eddum.

Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð.

Að kalla siðinn ásatrú er reyndar villandi þar sem átrúnaður er ekki einungis bundinn við æsi, heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður.

Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög."

Ásatrúarfélagið

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 16:56

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

"125. gr. Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum."

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

Listi yfir skráð trú- og lífsskoðunarfélög hér á Íslandi

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 17:00

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

Þorsteinn Briem, 31.7.2016 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband